Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.02.2023, Qupperneq 8
8 Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
9
Þrátt fyrir þessa grein og fleiri áskoranir varð lítið um
merkingar næsta áratuginn. Það kom mér á óvart
þegar ég var að skoða heimildir á timarit.is að ekkert
er um umferðarmerki fjallað í blöðunum. Þó leitaði ég
að ýmsum orðmyndum sem gátu hafa verið notuð
því ekki var farið að nota orðið „umferðarmerki“
fyrr en síðar. Engar myndir er heldur að finna af
vegmerkingum í söfnum duglegustu ljósmyndara
Vegagerðarinnar á fyrri hluta síðustu aldar, Geirs G.
Zoëga vegamálastjóra, Árna Pálssonar verkfræðings
og Jóns J. Víðis mælingamanns. Þeir létu sig þó flest
varða þegar þeir voru á ferðinni með myndavélarnar.
Loks varð mér ljóst að ástæðan var sú að það voru
hreinlega engar merkingar. Í Vísi var þessi grein í júní
1930: „Vegvísarar. Ferðamenn kvarta mjög undan
því að á vegamótum víðsvegar um landið séu engir
vegvísarar. Erlendis er algengt að á vegamótum
séu spjöld sem segi til hvert vegirnir liggi, og er ekki
síður ástæða til að hafa slíkt hér. Þess eru dæmi,
að ókunnugir menn sem ætluðu á Þingvöll hafa
lent alla leið austur í Ölfus. Ferðamannafélagið og
vegamálastjórinn þyrftu að athuga þetta. Því má bæta
við, að hér í Reykjavík er mjög tilfinnanlegur skortur
á götuspjöldum og húsnúmerum. Er slíkur sparnaður
algjörlega óafsakanlegur“.
Háskamerki
Í mars 1931 lögðu þingmenn Alþýðuflokksins fram
þingsályktunartillögu um vegamál. Þar segir í 6.
lið: „Að viðvörunar- og hættumerki verði sett alls
staðar með fram akvegum, þar sem slysahætta er
fyrir bifreiðaakstur, svo sem í hæfilegri fjarlægð frá
kröppum beygjum, bröttum brekkum, brúm, hliðum,
vegamótum eða vegaköflum, sem eru í aðgerð.“ Og í 7.
lið: „Að leiðarvísir verði festur upp við vegamót, er sýni
vegalengd til helstu staða nærlendis.“
Fyrstu rituðu dæmin um notkun orðsins
„umferðarmerki“ eiga við um merkjagjöf ökumanna,
þ.e.a.s. merki sem gefin voru með höndum þegar
beygt var eða stansað eða stefnuljós ef bíllinn var
svo útbúinn. Ekki virðast hafa verið til umferðarlög
eða reglugerð um merkingar en þess í stað hafa
lögreglusamþykktir bæjarfélaga verið með ákvæði um
umferðarreglur.
Vegamálastjórnin gaf út bækling 1933 um helstu
vegalengdir á Íslandi. Þar er á bls. 15 birt teikning
af háskamerki og vegvísi og er það elsta myndin
af íslenskum umferðarmerkjum sem ég fann. Með
myndunum er þessi texti: „Vegvísar. Við vegamót
á helstu alfaraleiðum eru vegvísar með áletruðum
nöfnum nokkurra helstu staða, sem vegurinn liggur til,
ásamt vegalengdum í km. Bendir hver vegvísir á áttina
til þess staðar sem á hann er skráður. Háskamerki.
Meðfram helstu akbrautum eru víða sett háskamerki,
þar sem skarpar beygjur eru eða önnur hætta, og
sérstaklega er þörf að aka varlega. Háskamerkið er
með alþjóðagerð og er stór þríhyrningur og innan í
honum stafurinn Z, en rautt „kattarauga“ í hverju horni.
Merkið er fest á 2 metra háa stöng.“
Einhverjar merkingar munu hafa verið í
þéttbýlinu og þá helst spjöld með áletruðum texta. Í
lögreglusamþykkt Reykjavíkur sem birt var í Bæjarskrá
Reykjavíkur 1934-1935 segir í 28. grein: „Vegfarendum
er skylt að sýna fyllstu nærgætni gagnvart öðrum
vegfarendum, einkum þegar farið er yfir þvera götu, við
vegamót og þar sem viðvörunarmerki eru sett. Þeim
er skylt að haga sér tafarlaust eftir þeim fyrirmælum,
sem lögreglan setur um umferðina, hvort sem það er
gert með uppfestum auglýsingum, með boðum eða
bendingum.“ Ekkert er fjallað um gerð eða útlit merkja.
↑
Mynd 4. Teikningar af umferðarmerkjum í
bæklingi vegamálastjórnarinnar 1933.
→
Mynd 5. Háskamerki í eigu minjasafns Vegagerðarinnar.
Þetta var eina táknið og virðist það hafa verið notað
við hverskonar varasama staði, ekki aðeins krappar
beygjur. Í bréfi til norsks fyrirtækis Norsk Essenasfalt
Co. A/S, vorið 1956 pantar Vegagerðin 250 stk.
„varselsskilte“ skv. tilboði en ekkert kemur fram um
táknið svo líklega hefur það verið Z merkið.