Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.02.2023, Qupperneq 9
8 Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
Framkvæmdafréttir nr. 723
1. tbl. 31. árg.
9
Fyrstu umferðarlögin
Í lögreglusamþykkt 1939 segir: „Umferðarmerki
(28. gr.): Gert er ráð fyrir að komið verði upp
umferðarmerkjum (eins og þegar hefur verið gert að
nokkru). Ber lögreglustjóra að ákveða gerð þeirra og
þýðingu og auglýsa fyrir almenningi. Frá þessu hefur
ekki verið gengið enn þá og mun verða beðið með
það, uns sett hefur verið almenn umferðarlöggjöf, sem
væntanlega verður lögð fyrir yfirstandandi þing.“
Það hafa þá verið uppi einhver spjöld með
áletruðum texta en óljóst hvernig útlitið hefur verið.
Gerð spjaldanna hefur væntanlega verið í höndum
skiltagerðarmanna sem þá voru helst málarameistarar
en skiltagerð var hluti af námi þeirra. Þeir gerðu
auglýsingaspjöld fyrir verslanir og nafnaspjöld
fyrirtækja og hafa umferðarmerkin sjálfsagt verið þeim
lík í stafagerð og efnisvali.
Í ágúst 1939 birtist auglýsing um takmörkun
umferðar og umferðarmerki í Reykjavík. Þar segir
meðal annars: „Á Suðurlandsbraut innan við Tungu,
og Hafnarfjarðarveg sunnan Laufásvegar eru sett
merki með áletruninni 25 km öðrum megin gegnt
umferð í bæinn, og 45 km hinum megin (gegnt umferð
úr bænum), og er þýðing þessara merkja sú, að á
nefndum vegum gilda reglur lögreglusamþykktarinnar
um hámarkshraða innan merkjanna, en utan þeirra
(fjær bænum) gilda reglur bifreiðalaganna um
hámarkshraða.“
Það eru þá ekki komin út umferðarlög fyrir allt
landið en vorið 1940 eru þau loksins orðin til og áttu
að gilda frá 1. janúar 1941. Mesta athyglina vekur
breyting í hægri umferð sem náðist í gegn þrátt fyrir
mikla andstöðu.
Í viðtali við Morgunblaðið 27. mars 1940 segir
Geir G. Zoëga vegamálastjóri þegar hann mælir með
því að hægri umferð verði tekin upp hér á landi: „Eins
og kunnugt er, var umferðareglan að víkja til vinstri
lögleidd hér á Alþingi 1907. Voru nokkrar deilur um
þetta í þinginu þá. Samgöngumálanefnd neðri deildar
vildi, að hér yrði lögleitt að víkja til hægri. En það var
fellt. Hermann Jónasson frá Þingeyrum mælti með
„hægri umferð‘‘. Sagði hann m.a., að enda þótt engin
ákvæði væru um þetta, þá hefðu margir gert sér það
að reglu að víkja til hægri á vegum úti. En það væru,
eins og menn vita, fótafjalir kvensöðlanna, sem réðu
úrslitum um það, að vinstri umferð var lögleidd. Sú
ástæða er nú löngu úr sögunni.“
En næst gerist það að landið var hernumið af
Bretum 10. maí 1940 og eftir áramótin 1941 birtist
þessi frétt:
„Umferðarlögin og hin nýju bifreiðalög áttu
að koma til framkvæmda 1. janúar 1941, en af
sérstökum ástæðum voru þau felld úr gildi með
bráðabirgðalögum, sem ríkisstjórnin gaf út nokkru fyrir
áramótin.“
Ástæðan hefur líklega verið sú að bresku
hermennirnir voru vanir að víkja til vinstri og hefur þótt
illframkvæmanlegt að breyta yfir í hægri umferð á
meðan á hernáminu stóð. Það beið því til ársins 1968.
Síðar árið 1941 voru umferðarlögin og hin
nýju bifreiðalög aftur samþykkt á Alþingi með þeirri
breytingu einni að vinstri umferð átti að gilda áfram.
↓
Mynd 6. Að sögn Geirs G. Zoëga var ástæðan fyrir því
að vinstri umferð var lögleidd á Alþingi 1907 sú að þá
var auðveldara fyrir konur í söðli að mætast í götu.
Mynd: Sarpur, Byggðasafnið á Skógum.