Fylkir - 01.12.2022, Page 5
FYLKIR - jólin 2022
°
°
5
Þegar aðventan gengur í garð
þá er okkur hjónum gjarnan
hugsað til Vestmanneyja og að-
ventunnar og jólanna okkar þar
árið 1973. Okkur finnst sem þá
hafi okkur fyrst orðið ljós merking
aðventunnar. Við vorum aðkomu-
fólk í Eyjum, höfðum flutt þangað
snemma hausts inn í framandi
aðstæður og umhverfi. Dagarnir
voru drungalegir þar sem allt var á
kafi í kolsvartri ösku. Hvar sem litið
var mátti sjá hvernig heljarhramm-
ur tortímingar hafði slegið byggð-
ina, mannlaus hús með neglt fyrir
gluggana, einn og einn ljósastaur
á stangli, eyðilegging alls staðar
og megn brennisteinsfnykur lagð-
ist yfir þegar vindátt stóð af hraun-
inu. Á kvöldin stóðum við oft á
tröppunum á prestshúsinu að Sól-
eyjargötu 2 og horfðum yfir bæinn
og glöddumst yfir hverju nýju ljósi
í glugga. Sérhvert ljós var tákn og
vísbending: Þarna er fólk að koma
heim! Lífið snýr aftur, eyðing og
dauði hopa. Það var líka áhrifaríkt
að sjá að skærustu ljósin voru í
Friðarhöfn. Friðarhöfn. Hvert nýtt
ljós í bænum var eins og áskorun
á hendur myrkrinu, þessu allt um-
lykjandi myrkri eyðingar. Þetta er
aðventan í okkar huga.
Ég hafði í byrjun þorra verið send-
ur til prestsþjónustu meðal safn-
aðar sem var landflótta undan
ægilegum hamförum, flóttafólk í
sínu eigin landi. Ég var kallaður til
að boða því trú og von, blessun
Guðs í öllum sporum þess, þegar
heimabyggð þess logaði og fjöllin
skulfu og húsin hurfu undir hraun
og ösku. Starfsstöð okkar prest-
anna var í Hafnarbúðum í Reykja-
vík, guðsþjónustur voru í Kirkju
Óháða safnaðarins, húsvitjanir í
allskyns bráðabirgðahúsnæði um
alla borg og í nágrannasveitar-
félögum, samverustundir með
fermingarbörnum, umsjón með
leikskóla fyrir Eyjabörn sem Hjálp-
arstarf kirkjunnar hélt úti í kjallara
Neskirkju. Og fara daglega með
bænarorð í Eyjapistli sem var
mikilvægur samfélagsvettvang-
ur Eyjamanna í Ríkisútvarpinu.
Ekki leyndu sér áhyggjurnar og
kvíðinn hjá ungum sem öldnum.
Í Hafnarbúðum var kaffistofa þar
sem hægt var að horfa á beint
sjónarvarp frá Eyjum sem sýndi
eldstöðvarnar. Fólk sat og horfði
harmi lostið á byggðina fara í
kaf, jafnvel á hús sín og heimili
brenna og hverfa undir hraun.
Þetta var óraunverulegt og ægi-
legt. Óvissan var yfirþyrmandi en
samt von, þrákelknisleg, þrjósku-
full vonin um að unnt yrði að snúa
aftur heim.
Allan tímann meðan eldurinn var
uppi stóð Landakirkja uppljómuð
á baksviði eldhafsins. Þeir feðgar,
Friðfinnur Finnsson og Jóhann
Friðfinnsson, trúfastir hollvin-
ir kirkjunnar, létu það verða sitt
síðasta verk áður en þeir yfirgáfu
heimabyggð sína örlaganóttina
miklu að kveikja ljósin í kirkjunni.
Þau skyldu lýsa við þeim sem
neyddust til að flýja og lýsa þeim
sem þar yrðu eftir við hættuleg
björgunarstörf. Þau skyldu varpa
birtu vonar inn í huga og hjörtu,
tjá með sínum hætti það sem letr-
að var á sáluhliðið að kórbaki, orð
frelsarans: „Ég lifi og þér munuð
lifa.“ Ljós Landakirkju slokknuðu
ekki. Miskunn Guðs og náð hélt
hlífisskildi yfir þeim sem stefndu
út í nóttina burt frá Eyjum þessa
dimmustu nótt lífs síns. Þvílík
mannbjörg og mildi hefur ekki
áður sést í sögu þjóðarinnar. Það
var mikið beðið þá nótt og daga
og nætur sem í hönd fóru. Bæn og
trú, von og kærleikur varð leiðar-
ljós ótal mörgum.
Goslokum í Heimaey var formlega
lýst 3. júlí og var þá efnt til guðs-
þjónustu í Landakirkju. Það er
ógleymanleg stund. Barn var bor-
ið til skírnar, Hrönn Róbertsdóttir,
og svo var gengið til altaris. Hvort
tveggja vonarmerki andspæn-
is óvissunni. Veðrið var hið feg-
ursta, sól og blíða, fjöll og eyjar
í tiginni ró. En allt var að mestu
hulið kolsvartri ösku. Þá þegar
var hreinsunarstarf hafið og við
hjónin fórum að undirbúa flutning
til Eyja. Ákveðið var að hafa reglu-
legt kirkjustarf í Landakirkju allt frá
goslokum, messur og barnasam-
verur hvern helgan dag. Kirkju-
starfið var fyrsta félags- og sam-
félagsstarf sem
komst á laggirnar
í Eyjum eftir gos.
Um haustið flutt-
um við svo með
Ingu Rut, dóttur
okkar á þriðja ári,
í prestsbústaðinn
undir rjúkandi
eldfellinu. Ég á
alveg einstaka
konu sem hefur
fylgt mér út í hvað
sem er. Stundum
þegar veðurhamurinn var sem
mestur og húsið hristist í hryðjun-
um þá varð manni ekki svefnsamt.
Löngu síðar sagði Kristín mér að
hún hefði alltaf verið með föt og
það nauðsynlegasta í seilingarfjar-
lægð við rúmið ef gos hæfist að
nýju.
Það var grunnt á öryggisleysinu
hjá ungum sem öldnum. Sorgin
var líka sár og margs að sakna.
Allt var breytt. Stór hluti byggðar-
innar var horfinn undir hraun og
ösku og yrði ekki endurheimtur.
Hreinsunarstarfið í Vestmanna-
eyjum er sannarlega kraftaverki
líkast, þar komu margir að verki og
unnu þrekvirki. Mér er hugstætt
fólkið sem vann við að hreinsa
kirkjugarðinn af svo mikilli vand-
virkni og virðingu, eitt af öðru
komu minningarmörkin upp úr
öskunni. Okkur hjónum er líka
minnistætt þegar ókunnugt fólk
kallaði í okkur inn af götunni til að
sjá heimili sitt sem það var að ljúka
við að gera í stand eftir margra
mánaða fjarveru í útlegðinni. Það
var oft ekki orðað en við fundum
að það vænti þess að við sam-
gleddumst og blessuðum heim-
komu þess. En svo margt varð ekki
endurheimt. Margur hafði orð á
því að fegursti hluti eyjarinnar
hafi horfið, „gamla gatan mín“ var
farin og samfélagsvefurinn rof-
inn. Góðkunningjar, ættingjar og
vinir sneru ekki aftur, kunnugleg
og kær kennileiti voru endanlega
horfin. En Heimaklettur var á sín-
um stað og Helgafell, þó það væri
hulið svörtum öskukufli og hefði
fengið kolsvart, rjúkandi Eldfellið
sér við hlið. Landakirkja var líka
á sínum stað og sáluhliðið með
huggunar- og fyrirheitisorðin.
Hugtakið áfallahjálp var ekki til,
sorgarvinna og sorgarferli var ekki
heldur til í orðabókinni. En það var
augljóst þá, eins og nú, hvert fólk
sækir styrk og huggun: Í nærveru,
samfélag og orð og tákn og hefð-
ir trúarinnar, umfram allt bænina.
Klukknahljómurinn og guðsþjón-
usturnar og aðrar helgar athafnir
voru samfélagsuppbygging og
sorgarvinna, mikilvægari en við
getum ímyndað
okkur.
Landakirkja er
sannarlega ein-
hver fegursta kirkja
landsins. Hinn
forni helgidómur
umfaðmar þann
sem inn kemur
traustum, þykkum,
öldnum veggjum.
Altaristaflan gamla
er jólamynd sem
sýnir vitringana lúta
Jesúbarninu í lotn-
ingu. Okkur hjónum finnst hún
fallegasta altaristafla landsins, svo
hrífandi, mild og dulúðug.
Konurnar á Vallargötunni tóku
höndum saman um að skúra og
þrífa kirkjuna fyrir jól. Heil hersing
kvenna mætti kvöld eitt með skúr-
ingarfötur, skrúbba og tuskur og
þrifu allt hátt og lágt. Ég reyndi að
gera mitt besta að vera ekki fyrir.
Ég sé þær fyrir mér og hugsa, þær
voru að gera fallegt fyrir Guð, já,
og náungann, samfélagið, greiða
fegurðinni veg. Guð blessi þessar
konur og allt það fólk sem, eins
þær heldur vörð um helgi kirkj-
unnar, sóma hennar og prýði.
Kirkjusilfrið og koparinn var kol-
svart allt eftir eitrað gasið frá
gosinu. Það var sár áminning um
eyðingaröflin og mikil áhersla var
lögð á að allt yrði fært til fyrra horfs
fyrir jólin. Við Eiríkur Guðnason, yf-
irkennari og sóknarnefndarmað-
ur, fengum ráð hjá sérfróðu fólki
hvernig ná skyldi spanskgrænunni
af koparnum. Skyldi baða hann
upp úr saltsýru. Apótekarinn út-
vegaði okkur mikið magn af sýru
og gaf ströng fyrirmæli um það
hvernig skyldi blanda og um-
gangast þetta. Stóðum við í því
langt fram undir morgun í forkirkj-
unni við stórar plasttunnur og
böðuðum níðþunga, aldagamla
koparstakana og skírnarfontinn
upp úr saltsýrunni, burstuðum,
skoluðum, aftur og aftur, þurrk-
uðum og fægðum síðan. Þetta
var óþrifalegt verk og mikið erf-
iði. En það var gott að vinna með
Eiríki, þeim öðlingi, og þessi nótt
líður ekki úr minni. Þegar verkinu
var lokið settumst við inn í kirkju,
örþreyttir eftir átökin, og horfð-
um á koparinn glitra. Altaristaflan
var óhreinsuð enn og dökk af
sóti, en af ásjónu Guðsmóður og
Jesúbarnsins stafaði yfirjarðneskri
birtu.
Svo gengu blessuð jólin í garð,
yndisleg og ógleymanleg en auð-
vitað gerólík öðrum jólum sem
maður hefur lifað. Mín fyrstu jól
sem prestur. Ég hef átt þau mörg
síðan, en engin eins og þessi.
Landakirkja troðfull við aftan-
söng og miðnæturmessu. Ferm-
ingarbörnin tóku virkan þátt, þau
gegndu hlutverki meðhjálpara
og hringjara og stóðu með kerta-
ljós í hendi og lýstu upp kirkjuna.
Á jóladag voru sjö börn skírð
í messunni og annan dag jóla
voru þau þrjú. Tíu börn helguð
Kristi og voninni eilífu. Þetta var
fögur og ógleymanleg jólahátíð,
þrungin þakklæti, von og gleði við
þungan undirtón trega og sorgar:
„Í myrkrum ljómar lífsins sól. Þér,
Guð, sé lof fyrir gleðileg jól.“ Aldrei
hafa þau orð jólasálmsins verið
sterkari og sannari en þá.
Vestmannaeyjar risu úr öskunni.
Sárin greru þótt örin sætu eftir.
Hvað þarf til að endurreisa sam-
félag úr rústum? Þekkingu, vit
og fjármagn sannarlega. En ekki
síst trú og von og kærleika hinna
mörgu. Og því er miðlað og það
er ræktað með hefðum, orðum og
athöfn sem ber fegurðinni vitni og
vitnar um friðinn og dýrðina ei-
lífu sem blasir við augum trúar og
vonar, fegurð himinsins þar sem
sálin á heima.
Trúin og vonin er eitt mesta undur
mannlegrar tilveru. Trúin, traustið
á hið góða upphaf og takmark
lífs og heims og vonin sem stefnir
eftir því. Þar er uppspretta kær-
leikans og afl friðarins í heimin-
um. Allt virðist það á undanhaldi
í okkar ráðvilltu, friðvana samtíð.
Vörðurnar og leiðarmerkin, hefð-
ir og siðir, söngur og bænamál er
svo oft og víða lítilsvirt. En þegar
við stöndum frammi fyrir því stóra,
djúpa tilverunnar, áföllum, sorg og
synd og dauða, þá varðar mestu
að hafa fast undir fótum og traust
viðmið að fylgja og orð til að orða
hið ósegjanlega. Það er mynd og
saga Jesú, bænin og trúin. Ef það
er að hverfa úr vitund samfélags
og menningar og hylst undir ösku
og grómi gleymskunnar þá verður
að sporna við því og endurheimta
það! Að spenna greipar og lúta
höfði og fara með Faðir vor hefur
reynst ótal mörgum fyrr og síðar
hjálp og huggun, já líflína til lands.
Við þurfum á því að halda, og ber
skylda til að leggja þeim ungu það
á varir og mynd Jesú á hjörtu.
Við hjónin stóðum þarna á tröpp-
unum fyrir 49 árum og horfðum
yfir bæinn og glöddumst yfir sér-
hverju ljósi sem vitnaði um von
og framtíð. Þau voru okkur að-
ventuljós og bænaljós. Það kemur
í lífi allra að slík ljós verða meira
virði en nokkuð annað. Leiðarljós
og merki sem vísa leiðina heim,
til þeirrar fegurðar og gleði sem
engan skugga ber á. Guð gefi
þér það að sjá og reyna. Guð gefi
bjarta og blessaða aðventu og
gleðileg jól!
Aðventuljós í sorta
SR. KARL
SIGURBJÖRNSSON
Trúin og vonin er eitt mesta
undur mannlegrar tilveru. Trúin,
traustið á hið góða upphaf
og takmark lífs og heims og
vonin sem stefnir eftir því. Þar
er uppspretta kærleikans og afl
friðarins í heiminum.
Fjölskyldan að Sóleyjargötu. Hjónin Karl og Kristín Þórdís ásamt
dótturinni Ingu Rut.
Sr. Karl við messu í Landakirkju að loknu gosi 1973.