Súgandi - 01.06.2019, Blaðsíða 12
12
SÚGANDI 2019
Magnús Guðfinnsson
Á SKOTHÓLNUM
Hverra manna ertu?
Ég er sonur Guðfinns Ingvarssonar og Önnu
Magnúsdóttir.
Fjölskylduhagir?
Ég er giftur Hjördísi Ingvarsdóttur og á 4 börn.
Starf?
Ég starfa við sölumennsku hjá Fisherman á morgnana
og svo er ég að selja fisk og franskar um miðjan daginn.
Auk þess er ég liðsstjóri hjá meistaraflokki Fylkis.
Hvar býrðu?
Ég bý í Norðlingaholti í Reykjavík.
Áhugamál?
Skíði, golf, fótbolti og allt sem er skemmtilegt með
vinum og fjölskyldu.
Fallegustu staðirnir í Súgandafirði?
Mér finnst alltaf mjög fallegt að koma út úr göngunum
inni í botni og sjá út fjörðinn.
Hvenær fórstu síðast til Suðureyrar?
Ég fór síðast í maí 2019.
Uppáhaldsstaðurinn?
Höfnin.
Uppáhaldsmaturinn?
Þurrkaði steinbíturinn hans Valla.
Uppáhaldstónlist?
Ég er af gamla skólanum í tónlist, Queen, Rolling
Stones og allt það og svo auðvitað Bubbi og Palli Rós
og Bó Hall.
Uppáhalds leikari/leikkona?
Leikkona er klárlega Meryl Streep og leikari er
Leonardo DiCaprio.
Viltu deila með okkur góðum minningum frá
Suðureyri?
Það er svo ótal margt að minnast og ég held að
hver einasti dagur hafi verið góð minning í firðinum
góða. Það er ein saga sem ég segi stundum og það
var þegar ég og Reynir Sturlu sprengdum gas- og
súrsprengjur í bænum okkar og fengum að kenna
á því. Þannig var að við Reynir vorum að heimsækja
mikinn snilling uppi á verbúð en hann kom frá Keflavík
og hafði heldur betur komist í hann krappan þegar
hann var að leika sér að því að búa til þessar sprengjur
hjá hernum uppi á velli. Þegar nóttin var að líða undir
lok ákváðum við Reynir að prófa þetta og brutumst
inn á verkstæðið niðri á höfn. Við fundum þar gamlan
olíubrúsa sem var auðvelt að fylla af gasi og súr. Við
höfðum ekki mikla trú á að þetta gæti verið mikið
dæmi þannig að við byrjuðum á einum og fórum
með hann upp við félagsheimilið. Við settum hann
þar á jörðina, kveiktum í og hlupum svo fyrir hornið
þar sem við biðum spenntir. Það er nú skemmst frá því
að segja að það vöknuðu held ég allir í bænum nema
Siggi lögga sem var svo ræstur út þegar við höfðum
náðst eftir æsilegan eltingaleik við Ýtu Gauja sem
fór með okkur beint inn á Lögreglustöð sem þá var í
gamla húsinu hans Óla skólastjóra. Þegar Siggi mætti
og sá mig þarna var það fyrsta sem hann spurði mig:
„Ertu búinn að læra undir kristnifræðiprófið Magnús
Guðfinnsson?“