Heima er bezt - 01.09.2007, Qupperneq 13
Frá Djúpalónssandi, í landi Einarslóns, skammt frá
fœðingarstað móður Sigurðar.
Furstamir hafi byrjað starfsemi sína hjá mér. En reksturinn
gekk nú ekki alltof vel. Þama kom mikið af fólki sem vildi
bara dansa, og það keypti ekki alltaf mikið af veitingum.
Og það er ekki nógu gott fyrir svona veitingahúsarekstur.
Þá er það að ég ákveð að gera eitthvað róttækt í málinu, og
setja upp dansleik með Sniglabandinu og Andreu Gylfadóttur
sem gestasöngkonu og átti þetta að verða fyrsta kúrekaball
Reykjavíkur. Lét ég gera stór plaköt til auglýsinga og auglýsti
að það yrðu ókeypis sætaferðir niður að Kolaportinu, svo
fólk þyrfti ekki að kaupa sér leigubíl að Ártúnum, sem var
upp í Hálsahverfínu. En þá gerist það að auglýsingin misferst
eitthvað í uppsetningu hjá Morgunblaðinu, og þar er sett inn
að hljómsveit kvöldsins verði Furstarnir. Og það passaði ekki
saman við prógrammið og fór svo að nánast enginn mætti.
Þetta varð náttúrlega ansi mikið tapkvöld, öndvert við það sem
ætlunin var. Svo spilaði þama líka inn í að eigandi staðarins átti
í erfiðleikum með að standa í skilum með kaupgreiðslumar,
svo ég stoppaði ekki lengi þama.
Kolaportið
Ég fór því að starfa aftur í Kolaportinu, og er þar enn.
Þar vinnum við saman, núverandi kona mín, Janina og
ég, en hún er frá Litháen.
Svo nú er ég nánast alveg hættur öllu matreiðslustarfi,
enda er sjónin á því auga sem heilt er, farin að daprast.
Eins og áður er sagt missti ég sjón á öðru auganu þegar
ég lenti í slysi sem barn, og þurfti á síðasta ári að fara í
aðgerð á heila auganu. Síðan er ég einhverra hluta vegna
mjög háður dagsljósinu við störf, ljós frá ljósaperum trufla
sjónina eitthvað. Stafar það líklega af því að augnbotninn er
farinn að gefa sig, og við því er víst lítið að gera. Þannig að
ég var komin með bara 30% sjón, og þurfti í framhaldi af
því að láta skipta um augastein. Þá lagaðist sjónin vemlega,
þannig að ég er kominn með 60-70 sjón aftur.
Margvíslegt er það sem fram fer í Kolaportinu, en það er
geysilega vinsælt og fólk kemur þangað í stórum stíl til þess
að sýna sig og sjá aðra og versla vömr á góðu verði. Reyndar
eru nokkrir óvissutímar núna um framtíð Kolaportsins, þar sem
Tollstjóraembættið vill fá hluta plássins sem það hefúr, undir
bílastæði fyrir starfsemi sína. Það myndi náttúrlega bara þýða
það að það yrði að hætta starfsemi Kolaportsins, í öllu falli alveg
um nokkra mánuði, á meðan á breytingum Tollstjóra stendur,
og líklega alveg, ef aðstæður verða ekki viðunandi fyrir Portið
á eftir. Reyndar er mjög dýrt að leigja í Kolaportinu, aðilar
aðstöðunnar em svo margir. I fýrsta lagi á Ríkissjóður þetta,
hann leigir til Reykjavíkurborgar, sem leigir svo hluthöfúm
Kolaportsins, sem svo aftur leigja okkur, sem rekum básana. Og
eins og gefúr að skilja verða allir að fá eitthvað fyrir sinn snúð,
svo þetta er nú orðið býsna dýrt þegar á endann kemur.
Kolaportið er löngu orðið stór hluti af lífínu í miðbænum. Ef
það fer þá verður mikil breyting á bæjarbragnum þama. Og
líka ef til kæmi hækkun á leigugjaldinu þá er sjálfhætt. Annar
staður er ekki til sem passað getur undir svona starfsemi með
sama hætti.
En er á meðan er, og reikna ég með að vera þarna á
meðan stætt er.
Breyttir tímar
En svona ef litið er tilbaka, yfir starfsama og viðburðaríka
ævi, þá fínnst mér tvímælalaust árin í Glaumbæ, standa upp
úr. Það var geysilega skemmtilegur tími og mikið fjör. Enda
var það mikið áfall þegar Glaumbar brann. Ég átti heima
vestur í Sörlaskjóli þegar það gerðist, og ég man að Oli
Laufdal, veitingamaður, sem þá vann með mér í Glaumbæ,
kom í leigubíl vestur eftir til að sækja mig, og við vorum
eiginlega bara grátandi yfir þessu öllu saman, þegar við
fórum á staðinn og sáum allt í logandi báli.
En mér finnst líka allt orðið svo óskaplega breytt í dag
frá því sem var á þessum árum, fólk og umhverfi er orðið
svo allt öðruvísi, og þessi mannvonska sem tíðkast orðið
í skemmtanalífinu, er hreint ótrúleg og gerir umhverfið
dapurlegra. Það má segja að ég hafi orðið fyrir hálfgerðu
menningarsjokki, þegar ég koma aftur til íslands eftir dvölina
erlendis. Þetta var allt svo gífurlega breytt og að sumu leyti til
hins verra, fannst mér. Nú getur enginn fýrirgefið neitt orðið,
það er bara hefndin sem gildir. Líklega eru það eiturlyfin
sem þarna eru farin að hafa áhrif á hegðan fólksins, það
veit stundum varla nokkuð hvað það er að gera af sér. Svo
er verið að koma með ýmis boð og bönn varðandi rekstur
veitingahúsanna, og það getur stundum skapað meiri vandræði
en gagn, t.d. nýlegt reykingabann á stöðunum sem sett var
í gildi.
En svona er nú lífið. Hver kynslóð á sína siði og háttu,
og það er kannski ekki von að fráfarandi kynslóð felli sig
alltaf við það sem hin nýja tekur sér fyrir hendur.
Heima er bezt 445