Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 11.12.2023, Side 14
14 Framkvæmdafréttir nr. 728
6. tbl. 31. árg.
Rannsóknaráðstefna
Vegagerðarinnar
– Umhverfismálin
tóku hástökk
Árleg rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar var
haldin í 22. sinn þann 27. október síðastliðinn. Að
venju var dagskráin fjölbreytt og fróðleg. Fluttir voru
16 fyrirlestrar og 13 veggspjöld voru til kynningar.
Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar er einn af
föstum liðum haustsins og aðsóknin hefur vaxið frá
ári til árs. Þetta árið var slegið met í fjölda gesta en
yfir 260 manns skráðu sig til leiks. Mikill metnaður er
lagður í ráðstefnuna, sem endurspeglar það fjölbreytta
starf sem rannsóknasjóður Vegagerðarinnar vinnur
en sjóðurinn gegnir mikilvægum þætti í starfsemi
stofnunarinnar. Þegar er búið að festa dagsetningu
fyrir næstu ráðstefnu, sem verður haldin þann 1.
nóvember 2024.
Markmið sjóðsins er að hafa frumkvæði að rannsókna-
og þróunarstarfi, sem stuðlar að því að Vegagerðin geti
uppfyllt sett markmið á hverjum tíma. Að afla nýrrar
þekkingar á sviði vega- og samgöngumála og að stuðla
að því að niðurstöður varðandi aðferðir, efnisnotkun
og hagkvæmara vinnulag skili sér í stöðlum og breyttu
verklagi.
Mikil ásókn er í sjóðinn en í ár bárust 124 umsóknir
upp á samtals 365 milljónir króna. Af þessum 124
umsóknum fengu 78 verkefni styrk fyrir samtals 150
milljónir króna en það er fjárveitingin sem sjóðurinn
hefur til umráða samkvæmt samgönguáætlun.
Fjárframlag til sjóðsins hefur ekki hækkað frá árinu
2019 en í setningarræðu Bergþóru Þorkelsdóttur,
forstjóra Vegagerðarinnar, kom fram að í ósamþykktri
samgönguáætlun fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að
framlagið hækki um 20 milljónir og verði 170 milljónir,
sem er fagnaðarefni.
Verkefnin sem fengu úthlutað úr sjóðnum í ár voru
af ýmsum toga. Flest féllu undir flokkinn mannvirki
eða 42%, undir flokkinn umhverfi féllu 31%, umferð
og umferðaröryggi 22% og verkefni tengd samfélagi
voru 5%. Umhverfisflokkurinn er hástökkvarinn í ár
en aldrei áður hafa borist fleiri umsóknir sem tengjast
umhverfismálum. Hlutur flokksins fór úr 17% árið 2022
í 31% í ár. Segja má að það sé í takt við tíðarandann
þar sem umhverfismálin eru ofarlega á baugi.
Umsóknir í sjóðinn berast víða að, aðallega frá
atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Stærstur
hluti styrkjanna er veittur verkefnum sem koma
frá verkfræðistofum, eða 32%. Í fyrra hafði hlutur
háskólanna aldrei áður verið hærri en í ár var
slegið nýtt met og 27% styrkjanna kom í hlut
háskólasamfélagsins. Vegagerðin stendur einnig fyrir
fjölda rannsóknaverkefna og í ár voru þau 26% en
aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki eru með 4%. Þá
eru í flokknum aðrir 11%.
→
Yfir 260 manns sóttu
rannsóknaráðstefnuna sem
haldin var á Hilton hóteli.
↓
Þrettán veggspjöld voru til kynningar í
anddyri ráðstefnusalarins á Hilton.