Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 11.12.2023, Qupperneq 28

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 11.12.2023, Qupperneq 28
Gaman að geta greitt götu fólks Hvað hefur þú unnið lengi hjá Vegagerðinni? Ég byrjaði hjá Vegagerðinni í ágúst 2019 eftir u.þ.b. 16 ára starf í lögreglunni. Það voru mjög ánægjuleg skipti og ég mæli frekar með Vegagerðinni heldur en lögreglunni ef einhver skildi vera að spá. Í hverju felst starfið? Þetta er svakalega fjölbreytt starf og yfirleitt frekar skemmtilegt. Það getur verið allt frá því að sitja inni á skrifstofu nánast heilu dagana yfir í að standa úti í kolvitlausu veðri að aðstoða vegfarendur í vandræðum og allt þar á milli. Ég er verkstjóri á þjónustustöðinni á Ísafirði. Helstu verkefnin eru dagleg verkstjórn, skipulagning og forgangsröðun verkefna. Áætlanagerð og verðkannanir fyrir hin ýmsu smáverkefni, allt í góðu samstarfi við yfirverkstjórann. Ég er í miklum samskiptum við flesta verktaka á svæðinu og svo auðvitað nærliggjandi þjónustustöðvar. Samstarfið milli þjónustustöðva finnst mér vera að aukast sem hlýtur almennt að vera jákvætt. Lán og tilfærsla á tækjum og búnaði og líka aðstoð með mannskap ef þannig ber undir. Hvernig er hefðbundinn vinnudagur? Hefðbundinn vinnudagur hjá okkur er varla til. Við reynum að vinna samkvæmt áætlunum hjá okkur en það koma oft breytur inn í dæmið sem setja áætlunina alveg á hvolf. Á vetrum geta vinnudagarnir byrjað upp úr klukkan fimm og staðið langt fram á kvöld þegar veðrið er með vesen. Símtölin verða stundum það mörg á slíkum dögum að ég hef ekki nennt að telja þau og síminn grátbeðið um hleðslu nokkrum sinnum yfir daginn. Sumrin geta líka verið strembin á köflum, pressa við að skipuleggja verkefnin þannig að þau passi saman. Eitt þarf að klárast svo hægt sé að byrja á því næsta o.s.frv. Hvað er mest krefjandi við starfið? Að standast og uppfylla þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til okkar. Bæði kröfur sem Vegagerðin gerir til starfsmanna sinna, til dæmis að fara ekki fram úr fjárveitingum, og líka þær sem almenningur gerir til okkar. Það vilja allir fá þjónustu sem fyrst og það á auðvitað að vera vel gert. Það vilja allir fá sína vegi mokaða að vetri eða heflaða að sumri sem fyrst og enginn sáttur við að þurfa að bíða, eðlilega. Hvað er skemmtilegast við vinnuna? Kynnast nýju fólki, bæði samstarfsfólki og öðrum. Ég hef samanburðinn úr lögreglunni, þar kynntist ég helling af fólki en færri kynnin komu til af góðu, merkilegt nokk. Hérna er þetta allt öðruvísi sem betur fer. Samskiptin almennt eru mun jákvæðari þó auðvitað komi eitt og eitt neikvæðara tilvik. Það er frábært að geta orðið við óskum almennings um aðstoð Vegagerðarinnar og þannig „greitt götu þeirra“ í alls konar skilningi þessa orðalags. Svo er líka mjög skemmtilegt hvað vinnan er fjölbreytt. Maður fær eiginlega ekki tíma eða tækifæri til að fá leið á tilteknu verkefni, það næst ekki að sinna því nógu lengi því það er annað verkefni tekið við. Hver eru þín áhugamál? Klassískt svar - fjölskyldan, elta krakkana á fótboltamót, útilegur og sumarbústaðaferðir. Svo væri hægt að nefna skotveiði þó henni hafi verið lítið sinnt undanfarið. Og líka flest sem tengist sveitinni og vinnunni þar. Vegagerðin í nærmynd Yfir 300 manns starfa hjá Vegagerðinni og störfin eru bæði fjölmörg og fjölbreytt á láði, legi og í lofti. Í þessum greinaflokki verður skyggnst inn í hin ólíku störf sem unnin eru hjá stofnuninni. Haukur Árni Hermannsson, verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Ísafirði, segir starf sitt svo fjölbreytt að ekki er möguleiki á að fá leið á verkefnunum. ↘ Haukur segir verkefni sín hjá Vegagerðinni það fjölbreytt að ekki sé hægt að fá leið á þeim.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.