Skinfaxi - 01.05.2024, Blaðsíða 18
18 S K I N FA X I
félagslega hugsunin hjá UMFÍ sé svo sterk, það sé þess háttar hugsun
sem þurfi sem mótefni við þróunina í samfélagi nútímans.
„Einsemd er að aukast mikið og hefur sennilega sjaldan verið meiri
í samfélaginu. Þessi félagslegi þáttur, samskiptin og hugsunin öll sem
felst í ungmennafélagsandanum, getur því verið lykilþáttur í bættri vel-
líðan og farsæld fólks. Þessi þættir held ég að verði á næstu áratugum
afgerandi í lífi ungs fólks. Við mannfólkið þurfum félagslegar tengingar
til að virka. Það skiptir máli á öllum aldri, hvort heldur fólk er ungt eða
yfir miðjum aldri.“
Hvatasjóður styrkir góð verk
Ásmundur og forystufólk íþróttahreyfingarinnar skrifuðu undir vilja-
yfirlýsingu um stofnun svæðastöðvanna í nóvember 2023. Þá var hálft
ár frá því að stofnun svæðastöðva og breyting á lottógreiðslum var
samþykkt á þingi ÍSÍ og innan við mánuður síðan sambærileg tillaga
var samþykkt á þingi UMFÍ. Á sama tíma greindi Ásmundur frá því að
samhliða stofnun svæðastöðvanna yrði komið á fót hvatasjóði sem
ætlað yrði að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum.
Áherslan þar er börn með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála-
og menningarbakgrunn.
Ásmundur segir sjóðnum ætlað að styðja við heildarverkefnið, að
ná betur til barna sem standi utan starfsins og þróa leiðir til að skila
betri árangri.
„Það eru margar hindranir sem hamla því að ýmsir hópar barna og
ungmenna geti tekið þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Sjóð-
urinn byggir á verkefninu Allir með, sem sprettur upp úr samvinnuverk-
efni heilbrigðis-, félags- og menntamálaráðuneytis um tómstundir og
íþróttaþátttöku barna með fötlun. Það verkefni er hugsað með þeim
hætti að ráðuneytin leggja fjármagn til þess. Fyrir tilstuðlan þess er
hægt að fara inn í íþróttafélögin, inn í sveitarfélögin og víðar til að átta
sig á því hvar þessar hindranir eru. Við þurfum að átta okkur á þeim til
að opna betur dyrnar svo að fleiri börn og ungmenni geti tekið þátt í
íþróttastarfinu,“ segir Ásmundur og leggur áherslu á að ráðuneyti hans
hafi miklar væntingar til sjóðsins.
Sjóðnum og allri þeirri vinnu sem Allir með skilar er ætlað að byggja
upp þekkingu sem hægt verði að nýta frá einum stað til annars.
„Við þurfum ekki að finna hjólið upp. Þvert á móti getum við nýtt
tímann betur og varið orkunni í að læra hvert af öðru. Við þurfum þess
vegna að vera opin fyrir því að miðla þekkingu á milli staða. Haukar í
Hafnarfirði hafa sem dæmi náð góðum árangri í íþróttum barna með
fötlun. Við þurfum að finna hvað leynist þar sem hægt er að heimfæra
á annan stað, hjá öðrum íþróttafélögum og sveitarfélögum,“ segir
Ásmundur, en frá því að verkefnið Allir með fór af stað í fyrra hefur
Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri þess, unnið ötullega með íþrótta-
félögum víða um land að útbreiðslu þess.
Þegar Ásmundur var félags- og barnamálaráðherra var í miðjum
heimsfaraldri settur á laggirnar sértækur sjóður sem hafði sambæri-
legt markmið og Hvatasjóðurinn, það er að ná betur til barna og ung-
menna sem standa utan við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf, en
styðja á sama tíma við iðkendur frá tekjulægri fjölskyldum.
Ásmundur segir útfærslu sjóðsins hafa verið flókna og hann því ekki
skilað því sem til hafi verið ætlast.
„Áskoranir hans sneru að öðrum og fleiri þáttum. Við sjáum það nú
að þótt það sé fjárhagslega þungt víða eru aðrir ytri félagslegir þættir
sem ráða frekar för. Í hópi þeirra sem eru með fjölbreyttan menningar-
og tungumálabakgrunn þarf sem dæmi aðrar leiðir. Þar felst leiðin í
samtali íþróttafélaga við skóla og foreldra barna og þar er líklegra að
komi í ljós hvað veldur því að börnin velja yfir höfuð að fara ekki í
íþróttir.“
Betri heimur
Allir þessir þræðir sem áður hafa verið nefndir, svæðastöðvarnar,
Hvatasjóðurinn, hagrænu mælistikurnar og allt það sem er gert til
að ná betur til barna og ungmenna – og reyndar allra – hafa það að
markmiði að auka farsæld á Íslandi.
Til að ná árangri í þeim efnum er unnið að samþættingu þjónustu
í þágu farsældar barna. Markmið þeirra er að börn og foreldrar sem
á þurfa að halda geti haft aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án
hindrana.
Í farsældarlögunum svokölluðu er kveðið á um að sveitarfélög skipi
svæðisbundin farsældarráð sem verði vettvangur fyrir svæðisbundið
samráð um farsæld barna. Ásmundur segir hugsunina þá að á hverju
farsældarsvæði verði unnið að því að bæta tölfræðilegan árangur
barna á öllum sviðum. Innan mengis hvers barns sé því sveitarfélagið,
heilbrigðiskerfið, skólar og íþróttafélög, og leitað verði leiða til að
þau geti unnið saman með farsæld barnsins að leiðarljósi.
Ásmundur segir áskoranirnar margar og misjafnar og því hafi það
glatt hann þegar íþróttahreyfingin hafi komið fram með hugmyndir
um svæðastöðvarnar.
„Þær rímuðu svo vel við það sem við vorum að hugsa. Það er svo
mikilvægt að allir geti talað saman og unnið saman þvert á landsvæði.
Það er átak að vinna saman. En svæðastöðvarnar búa til möguleika á
því og geta tryggt enn öflugra samstarf en áður heima í héraði,“ segir
Ásmundur Einar að lokum.
Ásmundur Einar í hlutverki liðsstjóra í körfuboltakeppni á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði.