Mímir - 01.06.1989, Blaðsíða 53
því sem hann smíðar nýyrði. Enn er hann fynd-
inn, stundum. Enn heita allar kvenpersónur
hans Rósa.
En um hvað fjallar sagan? Þessari spurningu
svaraði Þórarinn í fyrrnefndu viðtali með
dæmigerðum útúrsnúningi rithöfundar um
verk sitt, þegar þannig er spurt: „Sagan fjallar
um mann og umhverfi eða umhverfi og mann“.
Við erum engu nær, enda til þess ætlast að við
lesum söguna til að komast að um hvað hún
fjallar. Reyndar finnst mér rangt að tala um
sögu í þessu tilviki, en inn á það atriði ætla ég að
koma betur hér á eftir.
Skuggabox hefst á frásögn af ætt einni sem
búið hefur mann fram af manni frá landnáms-
öld á bænum Hlíð í Ódal. Segir aðallega af
hjónunum Önundi og Rósu og vandamáli
þeirra, ófrjóseminni. Barnleysið er þeirra
mesta böl og hótar endalokum ættarinnar.
Brauðbakstur er það sem húsfreyju lætur best
úr hendi og eftir ýmsar ævintýralegar uppá-
komur (í tvöfaldri merkingu beggja orða) verð-
ur þó barn úr brauði og viðgangi ættarinnar
borgið. Hér er uppskriftin m.a. ævintýrið um
sætabrauðsdrenginn og Mjallhvítarævintýrið.
Formið líkist íslenskum sagnaþætti. Og velbök-
uð sagan meltist ekki illa. Þessi fyrsti kafli bók-
arinnar er bráðskemmtileg smásaga, en tengist
lítið framhaldinu.
Framhaldið er reyndar samsett af margvís-
legum þáttum sem tengjast misvel, en líklega er
best að reyna að draga út þann þráð sem helst
stendur undir nafni sem söguþráður bókarinn-
ar. Það er sagan af Kort nokkrum Kjögx, sem
reyndar hefur komið áður við sögu hjá Þórarni
eins og fleiri meðlimir Kjögx ættarinnar, þá má
sjá víða á síðum bókar Þórarins sem nefnist
Margsaga. Sagan af Kort er sögð í mörgum
bútum en í grundvallaratriðum er hún eitthvað
á þessa leið: Kort varð ungur foreldralaus og
ólst upp hjá afasystur sinni Rósu Napp. Sjálfur
átti hann reyndar nokkurn þátt í dauða móður
sinnar Rósu Napp Kjögx, og kom þar til hinn
óseðjandi uppfinningaáhugi hans. Faðir hans
yfirgaf hann samstundis og kenndi honum eig-
inkonumissinn. Kort elst upp á nokkuð eðlileg-
an máta ef frá er skilin fyrrnefnd náttúra hans
til uppfinninga. Að loknu stúdentsprófi heldur
hann til Kaupmannahafnar, og þaðan til Lund-
ar þar sem hann fer að vinna á sjúkrahúsi við
ræstingar. Þar kynnist hann tilvonandi eigin-
konu sinni sænskri. Málin æxlast á þann veg að
Kort dvelur í Svíaríki næstu tuttugu ár og helm-
ing þess tíma eyðir hann við nám í Málaferlis-
fræði við háskólann í Haparanda (sem mér
skilst að sé í raun háskólalaus smábær í Norður-
Svíþjóð). Tíu ár vinnur Kort að því að viða að
sér efni í doktorsritgerð um kenningar Jóns
Grunnvíkings sem ganga út á það að hin ýmsu
íslensku orð hafi dregist saman í tímans rás, svo
sem sól hafi áður verið suðurhjól, og orðið lak
sé orðið til úr orðasambandinu léreft sér við
bak o.s.frv. Lítið verður Kort þó úr verki, og
eftir 10 ár setur prófessorinn honum úrslita-
tímamörk og einnig er hann á síðasta séns hjá
eiginkonunni, sem virðist ekki síst eiga bágt
með að þola uppfinningastúss hans. Skemmst
er frá að segja að Kort springur á limminu,
útrækur úr skóla og konan fer frá honum. Af
Lslandi hafa þó borist þær fréttir að Kort hefur
engar vífilengjur á hlutunum, bregður sér niður
í flæðarmál í Haparanda, og á bak sels nokkurs
sem skilar honum til strandar fósturjarðarinnar
og hlýtur að launum högg eitt í höfuðið af hörð-
um diski tölvu Korts. Eða hvað? Drekkir Kort
sér kannski þarna í fjörunni í Haparanda, og
áframhald sögunnar því hugarórar hans í
dauðateygjunum? Hér vakna ýmsar spurningar
en áframhaldið segir af förum Korts á æsku-
slóðum, m.a. af ættarmóti Kjögxanna, arfi
Korts, tvítugri dóttur hans Rósu . . . o.s.frv.
o.s.frv.
í Skuggaboxi eru fleiri þræðir og reyndar
tengjast þeir flestir Kort á einn eða annan hátt,
en að mínu mati skortir nokkuð á heildina samt
sem áður. Til að mynda er löng frásögn sem á
víst að vera draumur Korts, sett upp sem rit-
gerð um atferli manna í sturtum í sundlaugum
Reykjavíkur. Ritgerð þessi er 15 blaðsíður og
hrein þrautalesning. Ég get fallist á að hægt sé
að hlæja að henni sem nemur einni eða tveimur
blaðsíðum, en ekki meir. Helst dettur mér í hug
að með frá sögn þessari sé höfundar að reyna að
hæðast að ákveðinni tegund menntamanna og
ritum þeirra, kannski félagsfræðingum eða
jafnvel táknfræðingum. En ef svo er þá skýtur
hann í fyrsta lagi langt yfir markið og í öðru lagi
á slíkt lítið erindi í skáldsögu. Annað dæmi um
efni sem hreinlega virðist til uppfyllingar, er
lýsing á lúdóspili sem Kort spilar við dóttur sína
Rósu. Á mörgum síðum er lýst nákvæmlega
hvernig Lúdó gengur fyrir sig, og húmorinn og
53