Goðasteinn - 01.09.1991, Síða 27
í Jókukeri, sem er mikið gil austan við Tindafjöll. Höfðabrekkujóka,
sem var alræmdur draugur, átti að síðustu að hafa verið sett þar niður.
Fremur var auðvelt að smala á Fljótshlíðarafrétti, en víða eru þar þó
djúp og mikil gil, þar sem sýna verður fulla aðgát.
Eftir að Páll tók við búskap á Kirkjulæk, fór að losna um mig heima.
Fór ég þá til starfa á bæjum í nágrennninu. Til dæmis var ég gegninga-
strákur einn vetur hjá Sigfúsi kennara, mági mínum, á Þórunúpi, og
vann um lengri eða skemmri tíma á ýmsum stöðum þessi ár. Svo gerðist
það haustið 1931, þegar ég var 19 ára, að ég dreif mig í íþróttaskólann
í Haukadal til Sigurðar Greipssonar. Skólatíminn var frá byrjun október
og þangað til snemma í mars. Var þessu hagað svo, til þess að menn
kæmust á vetrarvertíð til Vestmannaeyja, á Suðurnes og víðar, sem þá
var enn alsiða hjá ungum mönnum á Suðurlandi. Mér féll vel að dveljast
í Haukadal. Sigurður kenndi okkur margvíslegar íþróttir, en lagði þó
jafnan megináherslu á glímu og sund sem og ýmsar leikfimiæfingar.
Vorum við þarna um tuttugu nemendur saman og svo sem nærri má geta
var þar oft glatt á hjalla. Sigurður var aðalkennari okkar, en hafði þó
alltaf annan kennara með sér, og sinnti sá meira bóklegum greinum, þótt
Sigurður kenndi þær að vísu eitthvað líka.
Þegar ég sneri heim frá Haukadal á útmánuðum 1932, réði ég mig til
starfá hjá Klemenz Kristjánssyni á Tilraunastöðinni á Sámsstöðum. Ég
hafði verið áður dálítið hjá honum í daglaunavinnu og þekkti þarna vel
til, auk þess sem Klemenz hafði kvænst Ragnheiði, systurminni, nokkr-
um árum áður. Klemenz hafði komið austur árið 1927 og hafist þá þegar
handa við uppbyggingu tilraunastöðvar í jarðrækt, kornrækt og fleira.
Jörðin sem hann fékk til umráða, Mið-Sámsstaðir, var lítil og húsalaus
að kalla, en hann byrjaði þá þegar á margvíslegum uppbyggingar og
ræktunarstörfum af mikilli atorku. Reisti hann þarna á fáum árum stórt
íbúðarhús, mikla kornhlöðu og síðar fjós og hlöðu og fleira, því að jafn-
framt tilraunastörfunr og kornrækt rak hann með tímanum stórt og
myndarlegt kúabú.
Þegar ég byrjaði að starfa á Sámsstöðum seinni hluta vetrar 1932, var
það upphafið að um það bil 20 ára samfelldri veru minni þar að undan-
skildum þeim tveimur vetrum sem ég var í Hvanneyrarskóla 1932—34.
Skólastjóri þar var Halldór Vilhjálmsson, sem var víðfrægur áhuga-
maður um menntun og framfarir. Hann hafði líka með sér einvalalið
Goðasteinn
25