Goðasteinn - 01.09.1991, Side 30
ræktaði hann gullauga, sem brátt reyndist ágæt og eftirsótt
matarkartafla. Hygg ég að hann hafí fengið eitt til tvö kíló af þessari
kartöflu frá Noregi kringum 1930 og framræktaði hana næstu ár á eftir.
Frá honum breiddist svo þessi tegund út um allt land fyrr en varði og
líkaði afar vel. Af öðrum nýjungum sem hann beitti sér fyrir var að gcra
áburðartilraunir, rækta grænfóður og reyna ýmsar nýjar tegundir. Þá
hóf hann að koma upp skjólbeltum úr víði, birki og fleiri trjátegundum.
Tókst það vel og skilaði góðum árangri, því sannað var með tilraunum
að stórauka mætti uppskeru með skjólbeltaræktun. Þá má geta þess að
á seinni árum sínum hóf Klemenz líka að framleiða grasmjöl til fóðurs.
Gekk það vel um skeið og mun hafa ýtt undir að grasmjöls- og síðar
graskögglaverksmiðja var sett á stofn við Hvolsvöll.
Mannlíf var mikið á Sámsstöðum og þar ríkti jafnan glaðværð og
skemmtilegt andrúmsloft, enda var þar alltaf mikið af ungu fólki, en þó
einkum á sumrin. Gestkvæmt var þar líka og komu margir til að ræða
við Klemenz og sjá hvað verið væri að gera á tilraunastöðinni. Á vorin
var mest unnið við jarðrækt, sáningu í akra, niðursetningu í garða og
þess háttar. Yfir hásumarið sat heyskapur í fyrirrúmi, en kornskurður,
þurrkun og þresking var helsta viðfangsefnið á haustin og fram á vetur.
I þá daga voru ekki komnar stórvirkar kornsláttuvélar eins og nú tíðkast
og slógum við akrana með hestasláttuvél. Á sláttuvélinni var þó
sjálfafleggjari er safnaði korninu í knippi. Þessi knippi voru bundin og
raðað upp til þurrkunar. En mjög fljótt kom þó sjálfbindari sem var
mjög góð vél. Smávegis var líka slegið með orfi og ljá, þar sem ekki
var hægt að koma vélum við. Þá höfðum við sóp á orfinu er dró múgana
vel saman. Þessa aðferð notuðum við mikið, þegar verið var að slá
tilraunareiti. Mikil vinna var við þreskinguna. I byrjun var aðeins lítil
og handsnúin kvörn til þeirra verka. Það breyttist þó fljótt til hins betra,
er við fengum stóra og vélknúða þreskivél árið 1929. Að síðustu þurfti
svo að láta kornið í poka og koma því á markað. Mikið af framleiðslunni
var selt sem sáðkorn eða til fóðurs. Eitthvað reyndu menn að mala
kornið og baka úr því brauð, en það mun hafa verið í litlum mæli. Öll
þreskistörf og þess háttar vinna fór fram í kornhlöðunni góðu, sem
Klemenz reisti sunnan við þjóðveginn í upphafi veru sinnar á
Sámsstöðum og jók síðar við. Þessi bygging stendur þar enn sem
minnisvarði um stórhug hans og framsýni.
28
Goðasteinn