Goðasteinn - 01.09.1991, Page 32
Ég vil láta þess hér getið að Klemenz stóð síður en svo einn við störfin
á Sámsstöðum, því að Ragnheiður, kona hans og systir mín, fylgdist
með því sem hann var að gera og studdi hann með ráðum og dáð. Hún
var sjálf mikil ræktunarmanneskja og sérlega dugleg og hugkvæm í
blómarækt. Sást það best á fögrum trjá og blómagarði sem hún kom á
legg heima við íbúðarhúsið. Hún var líka listfeng hannyrðakona og
prýddi heimilið á margan hátt, svo að það bar af fyrir fegurð og
smekkvísi. Sjálfur var Klemenz dugnaðarmaður og líkaði honum illa,
ef honum fannst að menn slægju slöku við í störfum. Hann hafði það
þá stundum fyrir sið að grípa í verk hjá þessum eða hinum, hamast þar
stutta stund og hverfa svo á braut. Var hann með þessu að sýna hvernig
menn ættu að vinna. Þetta var kækur hjá honum sem aðrir sáu fljótt í
gegnum og hentu gaman að. En hann var dagfarsprúður maður, frcmur
fámáll og fáskiptinn, en raungóður undir niðri. Ég kynntist vel flestum
eiginleikum hans af langri samveru. Eftir að ég hafði lokið námi á
Hvanneyri, gengdi ég verkstjórn hjá honum við dagleg störf á búinu um
langt árabil, svo að kynni okkar urðu mikil og margþætt.
Klemenz hafði margvíslega áhrif út frá sér. Kornræktin átti þó erfitt
uppdráttar hjá tlestum bændum, enda voru þeir þá enn margir á
hálfgerðu hjarðmennskustigi. En menn lærðu margt af honum íjarðrækt
og fleira og kartöflurækt breiddist mjög út fyrir hans atbeina. Þá urðu
líka ýmsir góðir og áhrifamiklir bændur til þess að taka upp kornrækt
eftir honum, þótt ekki væri það kannski í næsta nágrenni. Fyrir austan
voru þeir Andrés Kjerúlf og Sveinn á Egilsstöðum brautryðjendur á
þessu sviði og fyrir sunnan voru ýmsir gildir bændur eins og Magnús
á Blikastöðum, Eggert á Þorvaldseyri, Sigurður í Birtingaholti, Þórir í
Reykholti og fleiri sem stunduðu kornrækt í talsverðum mæli. Veitti
hann þessum mönnum margvíslega ráðgjöf við þessa ræktun og annað
sem þeir voru að gera og hvatti þá til góðra verka.
Það er annars merkilegt að Klemenz skyldi verða þessi mikli
ræktunarmaður, þar sem hann var borinn og barnfæddur á
Hornströndum, einni harðbýlustu sveit landsins, sem nú er eydd fyrir
löngu. En kannski felst líka í þeirri staðreynd hluti af skýringunni á því,
hvað úr honum varð. Svo fór hann ungur í nám hér heima og þó meira
í Danmörku og Noregi, þar sem hann nam búvísindi og vann
landbúnaðarstörf árum saman. Þar sá hann glöggt hversu langt á eftir
30
Goðasteinn