Goðasteinn - 01.09.1991, Side 33
við vorum í flestum greinum sem snertu búskap og ræktun. Upp frá því
varð líka ræktun landsins æðsta köllun hans og ævistarf til hinstu
stundar.
Skógrækt var alltaf mikið áhugamál hjá Klemenz og gróðursetti hann,
auk skjólbelta sem ég áður nefndi, talsverða skógarlundi í gildragi að
húsabaki á Sámsstöðum og víðar á jörðinni. Þá mun hann hafa verið
upphafsmaður að svonefndum Tunguskógi í Fljótshlíð. Það var Guðjón
Jónsson, bóndi í Tungu, sem gaf land undir skóginn, en Klemenz gaf
allt girðingarefni úr eigin vasa og hafði hönd í bagga um gróðursetningu,
að minnsta kosti fyrstu árin. Þarna er nú risinn hinn vöxtulegasti skógur
á hæðunum austur af túninu í Tungu, sígrænn og myndarlegur. Fer hann
afar vel þarna í næsta nágrenni við skógræktarstöðina á Tumastöðum,
sem komið var á fót árið 1946. Þessar skógræktarframkvæmdir hafa haft
áhrif út í frá og orðið mönnum hvatning til dáða á þessu sviði. Trjárækt
við bæi stendur annars á gömlum merg í Fljótshlíð, því að þar byrjaði
Guðbjörg Þorleifsdóttir svo snemma sem 1897 að koma á fót trjágarði
við bæinn í Múlakoti og margir urðu til þess að feta í fótspor hennar.
Eg á margar góðar minningar frá langri veru minni á Sámsstöðum og
einkum var það ævintýri líkast að fylgjast með því, hvað margt og gott
gat sprottið úr íslenskri mold, þegar vel var að henni búið. En það sem
ég mun þó lengst geyma í minni var sú dýrlega sýn og nánast
guðdómlega opinberun sem bar fyrir augu, þegar líða tók á sumar og
kornið bylgjaðist í blænum á ökrunum líkt og þýðar öldur á úthafi hvert
sem litð var.
Ævi mín skiptist í fjóra nokkuð jafna meginkafla og eru um það bil
tveir tugir ára í hverjum. Fyrst var það æska, uppvöxtur og skólaganga.
Þá koma árin að Sámsstöðum, sem ég hef fjallað talsvert um hér að
framan. I þriðja kapitula var það draumurinn um að byggja eitthvað
sjálfur og þá kom til nýbýlið og búskapurinn á Hlíðarbóli. Síðasti
kaflinn nær svo yfir vinnu á hálendinu og smíðar á Selfossi og víðar. En
nú er ég hættur störfum og kominn að fimmta kapitula ævisögunnar. A
næðisstundum efri ára, þegar lítið er að starfa, hvarflar hugurinn gjarna
aftur í tímann. Þá bregst það varla að fyrir innri sýn beri myndir frá
bleikum og bylgjandi ökrum. þar sem kornöxin sveiflast fagurlega í
blænum. Sú sýn gleður sál mín og vona ég að hún fylgi mér um alla
ókomna daga.
Goðasteinn
31