Goðasteinn - 01.09.1991, Síða 65
ferðina. Þetta var 10 daga ferð hjá þeim, sem lengst fóru og gefur því
að skilja, að búa þurfti gangnamanninn vel að nesti og nýjum skóm,
ásamt ýmsu fleira.
Ég ætla nú ofurlítið að lýsa þeim útbúnaði, sem hverjum fjallmanni
var nauðsynlegt og skylt að hafa, svo að hann gæti talist vel búinn. I
fyrsta lagi varð hann að hafa nóg af skjólgóðum fötum og regngalla. A
fótunum var verið í skinnsokkum utan yfir einum eða tvennum ullar-
sokkum og liðlegum skinnskóm. Seinna var farið að nota gúmmístígvél
í stað skinnsokkanna, en mikið voru þau kaldari fótabúnaður. Það þætti
víst ekki fínt núna að vera í skinnsokkum. Svo voru hafðir sterkir göngu-
skór, voru það heimagerðir leðurskór, sumir höfðu svo gúmmískó eftir
að þeir komu á markaðinn. Þá varð hver fjallmaður að eiga víst tjald-
rúm. Venjulega voru 3—5 menn saman í tjaldi, eftir því hver stór þau
voru og hve margir fóru saman í þessa eða hina leitina. Prímus og kaffi-
ketill fylgdi hverju tjaldi. Ullarteppi og gæruskinn höfðu menn til að
skýla sér með á næturna, seinna komu svo hvílupokar þess í stað. Hver
maður hafði tvo trausta og duglega, vel skaflajárnaða hesta, annan til
reiðar og hinn undir áburð. Þeim urðu og að fylgja tvær yfirbreiðslur,
til að breiða yfir þá á næturna. Þær voru búnar til úr strigapokum. Ekki
eru allsstaðar hagar fyrir hestana þar, sem gist er í ferðinni og verður
því að hafa með sér hey handa þeim. Látið var í einn eða tvo poka eftir
stærð, af besta heyinu, sem til var og stundum dálítið af rúgbrauði, til
að stinga upp í klárana. Allt var bundið í bagga öðrum megin á áburðar-
hestinn, hinum megin kom svo fjallskrínan með nesti gangnamannsins:
nýju kjöti - því alltaf var slátrað kind fyrir ferðina - rúgbrauði, hveiti-
brauði, flatkökum, harðfiski, kaffi, sykri og ýmsu fleiru, sem best
fannst í hverju búi. Þá var og sitthvað fleira sem hver hygginn fjallmaður
tók með sér, svo sem nál, tvinna, tölur, skeifu, hóffjaðrir, hamar og
naglbít. Að lokum kom svo fjallpelinn, sem sumum þótti alltaf sjálfsagð-
ur með. Og ekki er nú grunlaust að ýmsum hafi þótt við eiga, að hafa
hann ekki aftastan í þessu registri. En sleppum því. Ég lýk nú þessum
undirbúningshugleiðingum. Þetta er líka meir en nógu langur inngangur
að ekki lengri ferðasögu, er á eftir kemur. Ég vil taka það fram, að þetta
verður ekki neitt ævintýri, heldur frásögn af fjallferð eins og þær venju-
lega gerðust, enda minnist ég ekki þess, að neitt óvenjulegt gerðist í
ferðinni.
Goðasteinn
63