Goðasteinn - 01.09.1991, Page 195
ólst upp í Hvammi bernskuár sín til 8 ára aldurs, en þá flutti hún með
foreldrum sínum að Ysta-Skála, í vesturbæinn þar. Guðbjörg átti 8 systk-
ini, en tvö þeirra létust á barnsaldri. Árið 1910, tveimur árum eftir að
fjölskyldan fluttist að Ysta-Skála, missti Guðbjörg föður sinn. Sigríður
móðir hennar bjó áfram með börnum sínum í 7 ár, en lét þá af búskap
og skildu þá nokkuð leiðir með systkinunum, enda þau eldri þá nokkuð
til þroska komin.
Auðunn bróðir Guðbjargar tók þá við búinu af móður þeirra og var
Guðbjörg hjá honum í nokkur ár. Fór hún á þeim árum til vertíðarstarfa
í Vestmannaeyjum á vetrum en vann búi bróður síns aðra tíma ársins.
Árið 1923 giftist Guðbjörg Kjartani Ólafssyni frá Eyvindarholti.
Keyptu þau austurjörðina á Mið-Skála og hófu þar búskap um vorið og
bjuggu þar í 5 ár. Árið 1928 fluttust þau að Eyvindarholti og fengu þar
hálfa jörðina á móti Oddgeiri bróður Kjartans. Náin samvinna var með
þeim bræðrum og ijölskyldum þeirra. Þannig bjuggu báðar fjölskyld-
urnar í sama húsinu og sameiginlega var unnið að voryrkju og heyskap
og fleiri störfum, og börnin ólust upp saman að flestu leyti eins og um
eina fjölskyldu væri að ræða.
Þau Guðbjörg og Kjartan eignuðust tvo syni og eina dóttur. Árið 1954
fengu þau alla jörðina í Eyvindarholti til ábúðar og bjuggu þar meðan
þau lifðu, síðari árin félagsbúi með sonum sínum, eftir að heilsu
Kjartans tók að hnigna. Guðbjörg missti mann sinn árið 1982 og bjó eftir
það með sonum sínum til dauðadags. Guðbjörg átti í hógværð sinni hið
hlýja þel, sem kom öllum til að líða vel í návist hennar, og eðlislæga
gestrisni og umhyggju fyrir annarra hag og þörfum. Nutu þess margir
og raunar hver kynslóðin af annarri um hennar löngu búskapartíð í Ey-
vindarholti.
En fyrst og fremst helgaði hún krafta sína börnum sínum og heimili
og búskap, og lagði sig þar fram af heilum huga og nærfærinni umhyggju
um langa ævi. Hún hélt góðri heilsu, orku og starfsvilja allt til æviloka
að segja má. Hún veiktist að heimili sínu að kvöldi hins 10. júní og var
þá flutt á sjúkrahúsið á Selfossi þar sem hún lést degi síðar.
Útför hennar var gerð frá Stóra-Dalskirkju hinn 23. júní 1989.
Goðasteinn
13
193