Goðasteinn - 01.09.2016, Page 71
69
Goðasteinn 2016
svæði, þegar vatninu var veitt austur. Fyrsti hluti hans hafði verið byggður
1910. Hann mun hafa verið fyrsti grjótvarði og þar með varanlegi garðurinn
sem gerður var á vatnasvæði Markarfljóts. Seinna var hann lengdur nokkrum
sinnum og gerður miklu öflugri en hann var upphaflega. Hann varnaði því að
fljótið færi inn á flatlendið þar fyrir austan að öðru leyti en því að fyrir kom
að vatn færi fyrir framan hann sérstaklega áður en hann var kominn í þá lengd
sem hann er nú.
Þó kom það fyrir tvisvar að fljótið fór yfir þennan garð, í fyrra sinnið var
það í janúar 1981, þá hafði myndast mikill ís meðfram fljótinu og svo gerði
mikla leysingu. Þá rann yfir garðinn á 100 – 200 metra kafla en vegna þess að
hann var mikið frosinn kom ekki skarð í hann. Þetta hafði gerst vegna þess að
aurinn hafði hækkað mikið vestan við garðinn, sem virkaði þannig sem garð-
urinn hefði lækkað.
12. febrúar 1984 gerðist það aftur við líkar aðstæður að mikið vatn fór yfir
garðinn sem setti á hann stórt skarð. Um það rann mikið vatn með miklum aur-
burði inn á túnið sem þar var fyrir austan. Illa gekk að loka þessu skarði, þar
sem landið fyrir austan garðinn var miklu lægra en aurinn fyrir vestan, þaðan
sem rennslið kom og því mjög þungur straumur í skarðinu en vatnið sem þar
rann í gegn var mikið. Grjótið sem sturtað var niður í skarðið til þess að loka
því, flaut allt í burt jafnóðum og það kom í vatnið. Ekki hafðist að stöðva þetta
rennsli fyrr en fljótinu var veitt í annan farveg upp á móts við Hamragarða.
En við þetta, eða upp úr þessu lækkaði aurinn meðfram garðinum svo mikið,
að ekki var mikil hætta að þetta gerðist aftur að óbreyttu. Varnargarður hafði
verið byggður út frá Kattarnefinu árið 1934.
Það var gert vegna þess að bílvegurinn varð að vera niðri á fljótsaurnum við
nefið, þar sem bergið náði alveg niður á aurinn. Varnargarðar voru svo gerðir
smám saman á nokkuð löngum tíma frá Litludímon fram að Kattarnefi. Þeir
voru fyrst og fremst gerðir til að vernda veginn, en hann hafði í byrjun verið á
köflum lagður á bökkum fljótsins en seinna færður niður á fljótsaurinn, vegna
þess að þar var miklu betra vegarstæði. Þessir garðar friðuðu um leið nokkrar
spildur af landi sem fljótið hafði áður gert að aur, sumar þeirra hafa nú verið
gerðar að túnum.
Fyrsti garðurinn sem þar var gerður var Litludímonargarður. Hann liggur
til suðurs framan við Dímon. Hann var gerður vegna þess að fljótið var að
brjóta niður flatlendið innan við Dalsásinn og komið mjög nærri veginum.
Með þessum garði friðaðist nokkuð mikið land sem allt var þá komið í aur,
en nú er búið að gera að túni að meiri hluta. Þessi garður hefur líklega verið
byggður 1948.