Goðasteinn - 01.09.2016, Side 171
169
Goðasteinn 2016
túni á heimili þeirra Halldórs Páls Jónssonar og Katrínar Jónínu Guðjónsdóttur.
Síðar fluttist hún aftur nær fólkinu sínu og bjó hjá móður sinni á Hellu, vann í
bakaríi Kaupfélagsins Þórs á Hellu. Á Hellu kynntist hún verðandi eiginmanni
sínum, Jóni Óskarssyni, hann fæddist á Berjanesi undir Austur-Eyjafjöllum 11.
júní 1932. Foreldrar hans voru Sveinn Óskar Ásbjörnsson og Anna Jónsdóttir.
Þau Jón og Áslaug hófu búskap árið 1952 og gengu í hjónaband í Oddakirkju
31. desember árið 1963. Þau bjuggu frá upphafi á Hellu, lengst af á Laufskálum
6 sem þau byggðu sjálf. Jón og Áslaug eignuðust fjögur börn. Þau eru Óskar,
fæddur 1952, kvæntur Dóru Sjöfn Stefánsdóttur börn þeirra eru: Jón Jökull,
Birna og Unnstein. Ágústa Jóna fædd 1958, elsti sonur hennar er Hjörleifur
Jón. Ágústa er gift Hreiðari Hermannssyni, þeirra börn eru, Jónas Örn, Áslaug
Sara og Berglind. Hreiðar á tvö börn af fyrra hjónabandi, Ólöfu og Hermann.
Anna fædd 1963, gift Bjarna Diðrik Sigurðssyni, þeirra börn eru: Sigurður
Sturla og Hekla Hrund. Yngstur þeirra systkina var Gestur, fæddur 1974, hann
lést við þriggja ára aldur.
Eftir að Áslaug hætti vinnu í bakaríinu vann hún á saumstofunni hjá Stol-
zenwald og síðar Vinnufatagerðinni. Árið 1962 stofnuðu þeir Jón og Einar
Kristinsson fyrirtækið Mosfell á Hellu. Tók Áslaug fullan þátt í rekstrinum
frá upphafi einkum með saumaskapnum, einnig vinnunni við gistinguna eftir
að hótelið var stofnað og síðar Tjaldborg.
Garðurinn var henni alveg sérstakt áhugamál og hugðarefni. Hún vann
mikið í garðinum við heimili þeirra á Laufskálum, var þar allt snyrtilegt og
fallegt. Við þessi verk sín sem önnur tók hún til hendinni af þeim krafti sem
alltaf einkenndi hana. Hún vildi strax ganga í verkin og vinna þau fljótt og
vel, helst vildi hún líka fá að klára þau í einum rykk. Það var eiginlega aldrei
róleg stund hjá henni og þannig vildi hún líka hafa það. Hún hafði gaman af
því, var með mikið keppnisskap og vildi vinna. Hún spilaði oft og mikið við
barnabörnin og gaf ekki spönn eftir. Það var henni gleði og ánæjuefni að taka
á móti fólkinu sínu og var jólaboðið á jóladag mikil tilhlökkun og hátíð. Þann-
ig var það einnig alltaf þegar einhver kom í heimsókn, það var alltaf eitthvað
borið á borð og gestrisni viðhöfð.
Áslaug hafði sterkar skoðanir á hlutunum, var pólitísk og hafði sannarlega
vit og þekkingu á því sem hún var að gagnrýna. Hún var blátt áfram og ekk-
ert að fara í felur með það sem henni fannst en brosti einnig með orðræðu
sinni þannig að vel var hægt að sjá að allt var þetta vel meint og af góðum hug.
Hún var hláturmild og hafði lag á að sjá það sem jákvætt var fremur en dekkri
hliðar lífsins. Hún var einnig afar skemmtileg og lét oft hnyttnar athugasemdir
flakka sem gaman var að glotta eða hlæja að.