Golf á Íslandi - 01.06.2016, Síða 12
Karl Gunnlaugsson hefur frá árinu 1985 leikið alla
golfvelli landsins og alls hefur hinn 84 ára gamli
kylfingur leikið 74 golfvelli á Íslandi. Karl hóf að leika
golf árið 1984 þegar hann var 53 ára gamall og frá
fyrsta höggi fékk hann mikinn áhuga á golfinu. Á
dögunum brá Golf á Íslandi sér í heimsókn á Flúðir
í blíðskaparveðri. Karl og eiginkona hans, Guðrún
Sveinsdóttir, tóku gríðarlega vel á móti gestinum úr
Reykjavík. Þar rifjaði Karl upp ýmsar skemmtilegar
sögur frá golfferlinum sem virðist vera rétt að byrja.
Karl tekur á móti blaðamanni í bílskúrnum
sem er einnig merkilegt safn með munum
úr golfíþróttinni. Á veggjunum hefur
Karl komið fyrir golfboltasafni sínu sem
er einstakt en þar er að finna rúmlega
1.500 golfbolta sem eru allir merktir með
einhverjum hætti. „Ég byrjaði að safna
boltum sem eru með fyrirtækjamerkjum eða
einhverju slíku og smátt og smátt varð þetta
mikið safn. Ég er enn að leita að slíkum
boltum og þykir gaman að finna bolta sem
ég á ekki í safninu,“ segir Karl en honum
þykir vænt um bolta sem er með merki
frá fyrirtæki á Grænlandi. „Það er ekki
leikið golf á Grænlandi og mér þykir þetta
merkilegur bolti af þeim sökum.“
Brautarholtsvöllurinn
var lokaáfanginn á
golfhringnum
Frá árinu 1984 hefur Karl náð þeim einstaka
áfanga að leika alla golfvelli sem eru til á
Íslandi og einnig velli sem hafa verið lagðir
niður á þeim tíma. Hann segir að ferðalag
á Landsmót UMFÍ árið 1987 hafi markað
upphafið á þessari „söfnun“. Karl lokaði
golfhringnum um Ísland s.l. haust þegar
hann lék Brautarholtsvöll á Kjalarnesi og
var það 74. völlurinn sem Karl hefur leikið
á hér á Íslandi.
„Þegar ég áttaði mig á því að ég var búinn
að spila það marga velli að ég gæti náð að
leika þá alla fór ég að gera mér sérstakar
ferðir til þess að safna völlum. Ég tók sem
dæmi alla vellina á Vestfjörðunum í einni
heimsókn þar sem við fórum í ferðalag með
tjaldvagn. Það má segja að þetta hafi byrjað
árið 1987 þegar ég var á Landsmóti UMFÍ
á Húsavík. Þá fórum við hjónin eftir mótið
í ferðalag um Norðurlandið og Austfirðina
og ég lék á öllum völlum sem þar voru á
þeim tíma. Við höfum farið víða, gist í
tjaldvagninum, og ég hef safnað völlum á
meðan Guðrún hefur fundið sér eitthvað
annað að gera því hún hefur ekki haft áhuga
á að leika golf,“ segir Karl.
„Ég fór síðan á Landsmót +50 á Húsavík og
í þeirri ferð bætti ég við nokkrum völlum
sem ég hafði ekki leikið. Þar má nefna
Vopnafjörð og Lundsvöll í Vaglaskógi. Ég
lék einnig Silfurnesvöll á Hornafirði á ný en
sá völlur er virkilega skemmtilegur eftir þær
breytingar sem gerðar voru á honum fyrir
nokkrum árum.“
Að mati Karls er Brautarholtsvöllur
skemmtilegasti 9 holu völlur landsins
og þar á eftir kemur Grænanesvöllur á
Neskaupstað. „Völlur á Norðfirði er vel
hirtur, skemmtilegur og í frábæru umhverfi.
Ég hafði gríðarlega gaman af því að leika
Brautarholtsvöllinn og ekki síst þar sem ég
fékk oft að pútta af um 40 metra færi. Það
eru ekki margir vellir með slíkar flatir.“
Hvassviðrið á Ólafsfirði
eftirminnilegt
Eins og áður segir eru vellirnir 74 sem Karl
hefur leikið. Hann hefur ekki aðeins leikið
velli sem eru innan raða GSÍ. „Það eru ekki
allir á skrá sem ég hef leikið og má þar nefna
völl við Búrfellsvirkjun og Sogsvirkjun, í
Hraunborgum og Reykholtsdal. Ég náði að
leika völlinn á Indriðastöðum í Skorradal
áður en honum var lokað. Það leynast
víða vellir sem vert er að skoða og leika.
Það eina sem ég sé eftir núna er að ég náði
ekki í merkta bolta frá þessum völlum og
ég skrifaði ekki umsögn um vellina eftir að
ég var búinn að leika þá. Það hefði verið
gaman að skoða þær sögur núna.“
Veðrið stöðvar ekki Karl þegar kemur að
golfíþróttinni og hann leikur nánast í öllum
veðrum.
Karl Gunnlaugsson safnar golfboltum og
er með um 1500 merkta golfbolta í röð og
reglu í bílskúrnum.
Félagsmenn í GF tóku sig til og gáfu
klúbbnum glæsileg steina úr stuðlabergi á
hverja braut. Karl á 12. holuna og er afar
stoltur af þessu verkefni félagsmanna
12 GOLF.IS - Golf á Íslandi
„Keppnisskapið er enn til staðar“