Helgarpósturinn - 12.09.1985, Blaðsíða 7

Helgarpósturinn - 12.09.1985, Blaðsíða 7
Helgarpósturinn á skyggnilýsingarfundi: LÁTINN ÆTTINGI BIRTIST Eru íslendingar trúaðir á hið yfirnáttúrulega, dulræna eða yfirskil- vitlega? í könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum kom (Ijós mikil og almenn trú landans á álfa og drauga og önnur dulræn fyrirbrigði. Áhugi á miðlum og dulrænum fyrirbrigðum virðist síst fara minnk- andi hérlendis. í Sálarrannsóknarfélagi íslandseru um 1200 meðlimir. Hér á landi eru skyggnilýsingarfundir og miðilsfundir mikið sóttir. Helgarpósturinn fór á skyggnilýsingarfund á dögunum. Þar var miðill, frú Eileen Roberts. Hér á eftir fer lýsing á þeim fundi og jafn- framtviðtal viðfrú Roberts um dulræn fyrirbrigði. Þessi mál hafa jafn- an verið umdeild hér á landi og margir kirkjunnar menn fordæmt iðju af þessu tagi. Hér verður ekki farið í þá sálma, heldur aðeins gefin ör- lítil innsýn í það sem gerist á þessum vettvangi. Það var dálítil spenna í loftinu. Fólk hvíslaði hvert að öðru og and- rúmsloftið rafmagnað. í salnum voru rúmlega 100 manns á öllum aldri. Ungt fólk áberandi margt. Staður og stund: Hótel Hof við Rauðarárstíg, kjallari, þriðjudags- kvöldið 9. september. Tilefni: Breski miðillinn Eileen Roberts hélt skyggnilýsingarfund á vegum Sálar- rannsóknarfélags fslands. Fundur- inn öllum opinn. Aðgangseyrir 250 krónur. Á slaginu hálf níu gekk breski miðillinn í salinn og með honum nokkrir forsvarsmenn Sálarrann- sóknarfélagsins. í upphafi sagði varaformaður félagsins nokkur orð og spurði fundargesti hvort þeir hefðu áður verið á skyggnilýsingar- fundi. Meira en helmingur fundar- manna rétti upp hönd og gaf þannig til kynna að þetta væri í fyrsta sinn, sem þeir mættu til samkundu af þessu tagi. Eileen Roberts er fullorðin kona, 69 ára gömul, lágvaxin, með gler- augu, hárið bundið í fléttum um höf- uðið. Dæmigerð ömmutýpa. Hlátur- mild og létt í lund. Hún steig í ræðu- stól og flutti nokkur ávarpsorð. Sagðist vera ósköp venjuleg kona, þótt hún sæi og heyrði ýmislegt það sem aðrir gætu ekki séð og heyrt. Eileen Roberts kveðst vera eins og símalína milli látins fólks og þeirra sem væru á okkar tilverustigi. Fram- liðnir settu sig í samband við hana og óskuðu eftir að koma skilaboð- um á framfæri til ættingja og/eða vina. Eileen sagði þá sem væru fyrir „handan", eins og það var jafnan orðað á þessum fundi, vera að sönnu misjafna í skapi; sumir feimn- ir og jafnvel lokaðir og því gengi henni erfiðar að miðla upplýsingum frá þeim en aftur hinum sem væru opnir og málglaðir. Hún nefndi síðan um það dæmi, hvernig þetta allt gæti gengið fyrir sig, til upplýsingar fyrir þá, sem væru á skyggnilýsingarfundi í fyrsta skipti. Sagði hún, að eftir fund sl. fimmtudag, hefði hún verið að klæða sig í kápu frammi á gangi og þá séð þar konu. Hún hefði séð að konan var ekki einsömul, því að baki hennar stóð kona að handan og hefði sú haft kött á annarri öxl- inni. Vék hún sér að konunni og sagði henni af þessu. Konan brást mjög glöð við, og sagði ljóst vera, að þarna væri systir sín komin, sem lát- ist hefði fyrir 19 árum. Kötturinn á öxl hennar væri sannindamerki um það, því Systir hennar hefði á unga aldri haldið mikilli tryggð við kisu eina og hefði hún setið á öxl hennar löngum stundum. Skilaboð móttekin meö bros á vör Eileen Roberts sagðist hafa verið lasin þennan dag og í hitamóki um morguninn, milli svefns og vöku, hefði kona að handan vitjað sín. Sú hefði sagt sér frá því, að fyrir mörg- um árum hefði hún misst kornabarn sitt; það hefði dáið í svefni. Eftir mörg sorgarár hefði síðan konan látist, einnig í svefni. Hefði konan þá hitt stúlkubarn sitt fyrir handan, en nú væru þær mæðgurnar komn- ar og þær vildu tala til þessarar konu — og Eileen benti á konu eina miðaldra í miðjum salnum. Yfir and- lit konu þessarar færðist bros og hún kinkaði í sífellu kolli. Og síðan var látin móðir þessarar sömu konu líka mætt til leiks og sömuleiðis móðursystir hennar. Og miðaldra konan í salnum á Hótel Hofi játaði þessum upplýsingum með brosi. Og Eileen bar þau skila- boð frá móður konunnar, að barna- barn hennar sem hefði átt hund einn fyrir mörgum árum og haft miklar mætur á, mætti vel vita það, að hundurinn væri nú hjá henni. Og konan í salnum virtist vel með á nótunum. Þessi viðskipti Eileen Roberts við fyrsta fundargestinn hafa sennilega tekið svona fimm til tíu mínútur og það var hinn venjubundni tími á hvern fundargest, sem til var leitað með þessum hætti. „Ég heiti Margrét“ En næstur í röðinni var ungur maður aftarlega í salnum. Eileen Roberts sagðist raunar ekki alveg viss um að sá látni leitaði til hans eða konu hans, sem sæti handan borðsins, því hinn framliðni, maður með dökkt skegg, væri á milli þeirra hjóna. Örstuttu síðar bætti Eileen við: „Nú sé ég það, hann færir sig nær konunni." — Unga konan í saln- um var dálítið óræð á svip. Greini- lega ekki alveg klár á skeggjaða manninum eða hver hann væri. En allt í einu bættist kona við hlið mannsins með skeggið. „Þetta er mögur kona," sagði Eileen, „og henni þykir afskaplega vænt um þig.‘‘ Síðan sagði Eileen að konan segði sér að hún hefði fylgst með þeim hjónum og fjölskyldunni allri matast ekki alls fyrir löngu og þá hefði það gerst, að einhver fjöl- skyldumeðlima hefði ekki hitt á kjötbita á diski sínum þannig að hann hefði hrokkið undan og niður á gólf. Hefði þetta vakið hlátur við matarborðið. Að þessum orðum sögðum varð unga stúlkan dálítið klumsa, en sagði hálfhátt, „þetta gerðist núna í kvöld!" En Eileen bætti um betur og sagðist eiga að bera einhverri Margréti skilaboð. — „Ég heiti Margrét," sagði unga stúlk- an á fundinum þá. Bækur og gleraugu Þvínæst beindi Eileen Roberts máli sínu að miðaldra konu í miðj- um salnum. Hún sagði að móðir konunnar og móðursystir, báðar látnar, væru komar þarna á fundinn og skiluðu kveðju. Konan kinkaði kolli og staðfesti þannig að þessi ættmenni hennar væru látin. Eileen sagði jafnframt að þær systur hefðu ekki Verið mjög samrýndar í lif- anda lífi og gaf sterklega til kynna að ekki hefði farið sérstaklega vel á með þeim. Hún sagði hins vegar að nú væri málum öðruvísi háttað, því þær systur væru mjög innilegar fyr- ir handan. Konan miðaldra í salnum kinkaði þá ákaft kolli og virtist kannast við stirt samband þeirra systra, móður sinnar og móðursyst- ur, á meðan þær voru á lífi. Eileen Roberts sagði síðan að afi hennar væri þarna líka og sá kvæð- ist heita Ólafur. Konan vildi ekki kannast við að afi hennar hefði heit- ið Ólafur, en hins vegar hefði faðir hennar heitið það. Miðillinn sagði svo, að faðir henn- ar hefði verið mikill bókaunnandi og hefði skilið eftir sig mikið bóka- safn. Konan hristi þá höfuðið og kannaðist ekki við bókasafnið. Eileen Roberts gaf sig þó ekki og sagði að faðirinn segði þessar bæk- ur vera til staðar en ekki mikið lesn- ar núna, nánast ekki neitt. Enn hristi konan höfuðið í skilningsleysi. Miðillinn sagði loks að móðir henn- ar vildi koma þeim skilaboðum á framfæri, að hún væri ánægð með valið á nýjum gleraugum dóttur sinnar, viðkomandi konu. Staðfesti þá konan í salnum, að hún væri ný- búin að skipta um gleraugu. Til viðbótar þessu er rétt að upp- lýsa, að HP fékk þær upplýsingar frá starfsmanni Sálarrannsóknarfélags- ins, að eftir fundinn hefði umrædd kona komið að máli við Eileen Roberts og þá sagt henni, að það hefði rifjast upp fyrir sér, að faðir hennar hefði gefið bókasafninu á Egilsstöðum bækur sínar þegar hann lést. Hins vegar vissi hún til þess að notkun á þeim væri nánast engin; þær væru geymdar í kössum. Til viðbótar mun þessi kona hafa sagt, að það væri ekki að undra þótt framliðin móðir sín væri ánægð með valið á nýju gleraugunum. Sannleikurinn væri nefnilega sá, að gleraugun væru ekki ný, heldur gömul gleraugu móður hennar, sem hún hefði hlotið að arfi eftir hana! Og þannig hélt breski miðillinn áfram í eina og hálfa klukkustund. Yfirleitt hóf Eileen Roberts frásögn- ina með því að lýsa viðkomandi manneskju, sem væri komin í heim- sókn að handan. Yfirleitt voru „gestirnir" eldra fólk. Hún hefur sennilega talað til um 10 manns á fundinum, og samtals hefur fjöldi framliðinna sem gerði vart við sig í gegnum miðilinn, verið á bilinu 30—50 talsins. Það virtist dálítið misjafnt hvernig fólk, sem hún vék sér að á fundinum virtist taka við sér þegar skilaboðin að handan komu. Sumir virtust ekki skilja neitt í neinu lengi vel, enda upplýsingarnar á stundum dálítið almenns eðlis. En eftir nokkra stund fór fólk yfirleitt að kinka kolli í gríð og erg og virtist átta sig á viðkom- andi vinum eða ættingjum að hand- an. Það kom einnig fyrir að fólk hristi höfuðið og Eileen virtist þá spyrja þann framliðna enn frekar út í fyrri staðhæfingar. En jafnan ítrek- aði breski miðillinn það sem hún hafði sagt fyrst og sagði að þetta væru þau skilaboð sem sér væru fengin. Og stundum virtist það rifjast upp fyrir fólki, að vel gæti þetta ver- ið rétt. „Var hún ljósmóðir" Erfitt er að draga einhverjar heildarályktanir af þessum skyggni- lýsingarfundi í Hótel Hofi. Hitt er óneitanlegt, að ýmislegt það sem þarna kom fram, verður tæpast skýrt með jarðbundnum hætti, a.m.k. ekki að lítt athuguðu máli. Á hinn bóginn má ætla að margir fundarmanna hafi verið einkar mót- tækilegir fyrir skilaboðum að hand- an og bókstaflega mætt til fundarins í því augnamiði. Segja má, að í sum- um tilfellum hafi fólk þannig verið „of“ móttækilegt. Vildi augljóslega reyna eftir megni að fylla í göt í frá- sögn Eileen og leiða á ákveðnar brautir, eins og t.d. „var hún ljós- móðir?“ eða „er það ekki móðir mín?“ í þeim tilvikum vildi miðillinn greinilega þagga niður í spyrjendum og túlkurinn bað fólk að setja henni ekki orð í munn; það gæti haft trufl- andi og leiðandi áhrif, jafnvel í ranga átt. Það einasta sem Eileen Roberts virtist biðja um, var að fólk segði já eða nei, þegar hún ávarpaði það með skilaboð að handan frá ein- hverjum framliðnum. Hinum eiginlega skyggnilýsingar- fundi lauk jafn snögglega og hann byrjaði. Eileen Roberts, hinn breski miðill, sagði einfaldlega stutt og lag- gott: „Allt búið, allir farnir." Og tók sér sæti. Það varð snöggt spennu- fall í salnum, en fólk gekk rólega á dyr, dálítið hugsi eins og á leið frá kirkju. eftir Guðmund Árna Stefánsson myndir Jim Smartj Sjá nœstu síöu

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.