Helgarpósturinn - 12.09.1985, Blaðsíða 19

Helgarpósturinn - 12.09.1985, Blaðsíða 19
POPP Dire Straits karina heimshornin Núna í haustbyrjun er kannski fullsnemmt að velta því fyrir sér, hvað hafi borið hæst í poppmálum á því herrans ári 1985. Enn getur ýmislegt gerst. Þó á tæpast nokkuð eftir að varpa skugga á samfellda sigurgöngu hljómsveitarinnar Dire Straits um heims- byggðina. Gangan sú hófst þann 1. maí síð- astliðinn í Póllandi og lýkur formlega 30. mars á næsta ári í Darwin í Ástralíu. Vonandi eiga þó einhverjir tónleikar eftir að bætast aftan við. Annars getum við afskrifað Dire Straits sem gesti á Listahátíð í Reykjavík í júní á næsta ári. Ferð hljómsveitarinnar er vitaskuld farin til að fylgja eftir fimmtu stúdíóplötunni, Brothers In Arms. Hún hefur þegar selst í milljónaupplögum og er þessa dagana í efsta sæti Billboard vinsældalistans yfir stórar plötur. Hins vegar ná ekki nema um tvær milljónir aðdáenda að sjá hljómsveitina á sviði á þeim tvö hundruð og tuttugu tónleik- um, sem hún heldur í tuttugu og fimm lönd- um. Þessa dagana skipa Dire Straits fjórir hljóð- færaleikarar, eins og í upphafi. Tveir stofn- endurnir eru enn eftir: Mark Knopfler og John lllsley bassaleikari. Alan Clark leikur á hljómborð og Terry Williams á trommur. — Hal Lindes gítarleikari er hættur. — Aðeins þrír aukaspilarar eru með á hljómleikaferð- inni: gítarleikarinn Jack Sonni, Guy Fletcher, sem leikur á hljómborð, og saxófónleikarinn Chris White. „Besta liðsskipan Dire Straits hingað til,“ segir Mark Knopfler. Auk þeirra átta, sem voru nefndir hér á undan, er um fimmtíu manna starfslið með hópnum í heimsferðinni. Þar á meðal eru fjórir matsveinar og átta bílstjórar. Átta manns vinna eingöngu við hljómkerfið og sjö sjá um sviðslýsinguna. Sextán rótarar koma öllum tækjum og sviðsbúnaði fyrir og tveir til viðbótar hafa það starf eitt með höndum að sjá um að allt sé sett upp sam- kvæmt kúnstarinnar reglum. Stjórnandi ferðarinnar hefur síðan þrjá skrifstofumenn sér til aðstóðar og fararstjóra að auki. Á hverjum stað, þar sem leikið er, eru síðan ráðnir rótarar til viðbótar, svo og heill hópur af öryggisvörðum. Starfsliðið við hvern konsert er því farið að nálgast hundraðið, þegar allir eru með taldir. Vinnudagur hópsins er býsna langur. Klukkan sjö á morgnana er hafist handa, því allt þarf að vera tilbúið klukkan fjögur á dag- inn. Þá er ljósa- og hljóðbúnaðurinn prófaður. Eftir tónleikana fara svo fjórar klukkustundir í að rífa allt niður og aka með mannskapinn og tækin til næsta áfangastaðar. Hörkupúl sem sagt, eða hvað? Eintómt gaman „Þetta er ótrúlega skemmtilegt," segir Mark Knopfler. „Það er orðið fulllangt síð- an við fórum síðast í hljómleikaferð og við eigum örugglega eftir að fara í aðra sams konar síðar. — Dire Straits lítur ekki á hljóm- leikaferðir sem eitthvert skylduverk, sem hljómsveitum beri að inna af hendi. Við hins "egar njótum ferðarinnar, slöppum af, þegar við höfum aðstöðu til, og tökum til hendinni, þegar þörf er á. Við völdum viljandi að spila í konsertsöl- um af venjulegri stærð frekar en að leika á íþróttaleikvöngum. Auðvitað verðum við að koma oftar fram fyrir vikið, en þá erum við jafnframt í betri tengslum við fólkið, sem ómakar sig að koma og hlusta á okkur. Tón- listin skilar sér líka betur í tónleikasölum en á íþróttavöllum." Dire Straits á fjölda aðdáenda hér á landi. Plötur hljómsveitarinnar seljast stöðugt og sú nýjasta er nú í eigu milli fjögur og fimm þúsund íslendinga. Hún er enn í góðri sölu. Þá seljast CD plötur Dire Straits einnig vel. Þrír titlarnir eru meira að segja uppseldir hjá Fálkanum um þessar mundir. CD hvaö...? Sjálfsagt ættu flestir að vera farnir að kannast við CD plötuna, spegilplötu eða bara laserplötu, eins og margir kalla hana. Þetta er smáskífa, spegiigljáandi og aðeins tólf sentimetrar í þvermál. Hún rúmar um það bil klukkustund af hljóðrituðu efni, sem allt er pressað öðrum megin á plötuna. í stað venjulegra ráka, eins og hingað til hafa verið á hljómplötum, hefur CD platan stafræn merki, sem lasergeisli plötuspilarans les og „Þar á meðal eru fjórir matsveinar og átta bfl- stjórar. Átta manns vinna eingöngu við hljómkerfið og sjö sjá um sviðslýsinguna. Starfsliðið.. .nálgast hundraðið, þegar allir eru með taldir/' segir Ásgeir Tómasson um starfsmannaskarann I kringum Dire Straits. breytir í tal eða tóna. Því þarf vitaskuld nýja gerð plötuspilara til að leika þessar nýju plöt- ur. En hví er verið að fjalla um CD plötur í grein um Dire Straits? Jú, hljómsveitin ákvað að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til kynn- ingar þessari nýju tækni með því að leyfa laserdeild hollenska rafeindarisans Philips að greiða niður hluta tapsins á hljómleika- ferðinni! Það er að segja: Philips er svo- nefndur „sponsor" ferðarinnar, styrktarað- ili, og er í staðinn getið á plötum hljómsveit- arinnar, á aðgöngumiðum og þess háttar. „Við veltum því lengi fyrir okkur að fá eitt- hvert fyrirtæki til þess að styrkja ferðina gegn augfýsingum," segir Mark Knopfler. „Okkur var ekki alveg sama, hvert fyrir- tækið yrði, því að okkur langar ekkert til að leggja nafn hljómsveitarinnar Dire Straits við snyrtivörur, gosdrykki eða neitt í þeim dúr. Við gátum hins vegar vel sætt okkur við Philips. Við höfum trú á CD plötunni. — Ég er reyndar með öllu hættur að kaupa kassettur og venjulegar vinylplötur. Tóngæðin standa öllu öðru svo langt um framar. Það má eigin- lega líkja gömlu plötunum og kassettunum við það að fá sér svarthvíta eftirprentun af frægu málverki og telja sjálfum sér svo trú um, að eftirlíkingin sé ekta. Auk tóngæðanna eru yfirburðir CD plöt- unnar þeir, að hún rúmar miklu meira en venjuleg LP plata,“ heldur Mark Knopfler áfram. „LP platan rúmar ekki með góðu móti nema um tuttugu mínútur á hvorri hlið eða samtals fjörutíu mínútur. Við plötuupp- tökur verður maður því alla jafna að stytta lögin og sleppa jafnvel sumum. Slíks er ekki þörf, þegar CD plata er tekin upp. Auk þess þarf maður ekki að snúa plötunni við! Það er mikill munur á að hlusta á LP plötu og kassettu. En munurinn á gæðum LP plötu og CD plötu er enn meiri... Það er svipað að bera þetta tvennt saman og barnavagn og skriðdreka." MYNDLIST Lófóten í Norræna húsinu Sœnska stofnunin lét Olle Granath gera bók, Une autre Lumiere (í nýju ljósi), um sænska list frá 1945, þegar nýrri birtu brá yfir, og hún er sambland af sýningarskrá og sögu. Þetta er afar þörf bók sem fylgir sænskum listsýn- ingum um heiminn. Áðrar norrænar þjóðir mættu fylgja fordæminu og hafa á þrem tungumálum. Ég þekki ekki norska hlið- stæðu og veit því fátt um þá Norðmenn sem sýna í Norræna húsinu: Knut Skinnarland og Kaare Espolin Johnson sem málaði mynd af „Bænum hans langa-langafa á íslandi". „Minning“ hans um bæinn hefur orðið fyrir ríkum áhrifum frá ákveðnu málverki eftir Kjarval, svo og reynsla hans sjálfs af eigin umhverfi, sem er norskt. Að öðru leyti fjalla grafísk verk hans að mestu um Lófóten. Þann stað þekkja ýmsir af verkum Hjörleifs Sigurðssonar, hin ævintýralíku fjöll sem ég hef alltaf haft á tilfinningunni að hafi verið flutt inn frá Kína. En ég veit að þau mótuðust af náttúrunnar hendi í Lófóten og hvergi annars staðar, þótt listin og ímyndunaraflið geti fært þau úr stað. Ég veit þetta vegna „minningar" sem er þessi: Þegar nýrri birtu brá yfir heiminn, árið 1945, sendu íslensk skólabörn börnum í Noregi föt og gráfíkjukex í pappakassa sem stóð á eldhúskolli og vaki mikla umhugsun um þarfir mannsins. Ég sendi dreng sem hét Konrad Myrnes og átti heima í Rekvík og bréfið fór um Tromsö. Við skrifuðumst á lengi. Hugur okkar var líkur. Við áttum báðir kassamyndavéi. Hann sendi mér mynd af sér í páskapeysunni sinni, en ég sendi honum mynd af mér með kaskeiti, með sólgleraugu og í fötum sem voru áður af einhverju gáfað- asta barni í Reykjavik og höfðu verið keypt af farandsölukonu. Af myndasendingum dró ég þessa ályktun: Það er miklu oftar slydda í Rekvík en í Grindavík og þar vorar seinna. Og mikill er munur á menningarbyltingu bandaríska hersins og þess þýska. Ég var strax farinn að hugsa, en það var Konrad ekki. Og þess vegna fór hann á sjó í Lófóten en ég neitaði að hlíta örlögum ætt- leysisins og fara á bát eins og hann. Konrad gat að sjálfsögðu ekki haldið áfram að skrifa þannig manni. Og þá tók minning mín við honum og lét hann vera drukknaðan í Ló- fóten. ímyndun mín styrktist þegar ég kynnt- ist ljóði Milosz, lítið þekkts fransks ljóð- skálds. Lofoten hét það. Hvað eftir annað reyndi ég að þýða það í minningu um Kon- rad, þótt skáldið fæddist víst á 19. öld. Ég ímyndaði mér að ef mér tækist að þýða kvæðið væri Konrad dáinn. Þetta stafaði af því að ljóðið hefst þannig: Tous les morts sont ivres de pluie vieille et sale / au cimitiere etrange de Lofoten.. . Ég reyndi og reyndi og komst næst þessu: Öll lík eru drukkin af gömlu drullugu regni / í dular- fulla kirkjugarðinum í Lófóten. Ekki varð ég ánægður og hafði lúmskan grun um að Konrad væri á lífi vegna þeirrar dularfullu ástæðu „að ég var lélegur þýðandi“. Eins og líf og dauði taki eitthvert mark á ljóðaþýð- ingu. Um þetta gæti ég skrifað heila bók, eins og skáldin segja. Hins vegar segi ég, vegna plássleysis en ekki andleysis: f París þekkti ég norska flugfreyju sem vildi endilega kynna mig fyrir miklum Norð- mönnum. Við hittum þá á Dome í hörku- samræðum um franska snillinga sem Norð- menn þekktu ekki. Ég hlustaði um stund en spurði svo: Þekkið þið Konrad Myrnes? Þeir steinþögnuðu og fóru eflaust með hugann inn í Minningabók Ehrenburgs sem þá hafði .. en ég sendi honum mynd af mér meö kaskeiti, með sólgleraugu og f fötum sem voru áður af ein- hverju gáfaðasta barni f Reykjavfk og höfðu verið keypt af farand- sölukonu," segir Guð- bergur (hugleiðingu sinni um sýningu Kaare Espolin John- son og Knut Skinnar- land, norskra myndlist- armanna, f Norræna húsinu. eftir Guðberg Bergsson komið út og minnst á einn Norðmann. Nei. Þeir könnuðust ekki við Konrad en samt... Er hann ekki hinn ungi glæsilegi... sem býr...? í Rekvík om Tromsö, svaraði ég. Þeir urðu svo hneykslaðir að þeir ráku mig ekki einu sinni frá borðinu heldur létu eins og ég væri ekki til, að heimsborgarasið, og héldu áfram að ræða um þarfir Norðmanna fyrir franska snilld (hún var þá enn við íýði). En hví segi ég frá þessu? Þegar ég sá verk Kaare og hina luralegu sjómenn, þá þekkti ég svipinn. Konrad hlaut að verða luri, eftir „páskamyndinni" að dæma. Og þess vegna var hann á lífi; vegna þess að Kaare hafði gefið honum líf á litlu skipi, í fölum bláma innan um hin einkenni- Iegu fjöll sem höfðu svo oft vaxið í huga mér eins og tré. Ég gleypti þau græðgislega með augunum í verkum Hjörleifs. Eg fæ mig aldrei fullsaddan á fjöllunum í Lófóten, sem mig langar ekkert til að sjá með berum aug- um, því ímyndunaraflið er allt, umhverfið er svo snautt. Um Knut Skinnarland get ég ekki rætt: um hans göfugu höfuð af málurum með inn- hverfan svip. Ég verð að grípa til orða Einars Kárasonar, þar sem hann segir, í bók sinni Þetta eru asnar, Guöjón: „Konan hafði ofsa- lega stíft og hornótt andlit, eins og illa gerð myndastytta." Verk Knut Skinnarland eru með engin horn, nema eitt þeirra sem er óhlutbundið. Það hlýtur þá að vera slæmt en hin góð: af hinum fríðu málurum. Það er að segja, ef hægt er að líta á orð Einars Kára- sonar eins og þau væru komin úr munni Michelangelo. Hvað sem þessu líður sá ég sýninguna frá sjónarhorni sem maður má víst ekki skoða sýningar frá, af því að kannski er ekki í því neitt myndrænt vit... og þó... að mínu viti skín minning um Myrnes út úr sýningunni. HELGARPÓSTURINN 19

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.