Helgarpósturinn - 17.09.1987, Side 17
EFTIR ÖNNU KRISTINE MAGNÚSDÓTTUR MYND JIM SMART
Björgvin Halldórsson söngvari
og framkvœmdastjóri á Stjörnunni í HP-viðtali.
BJAGAÐ MALFAR
ekki bara á nýju miölunum!
Hann er búinn aö uera á toppnum í nœstum tuttugu ár. Pangaö skaut
honum allskyndilega eftir popphátíö í Laugardalshöll áriö 1969. Par sat
hann fyrst meö ýmsum hljómsueitum — en þó aö mestu leyti aleinn. Eins
og þeir sem ná toppnum þekkja er þaö ekki tekiö út meö sœldinni aö uera
þar. Raddir rógburöar og öfundar eru alltaf á nœstu grösum og þaö þarf
sterk bein til aö komast óskaddaöur út úr hringiöunni — huaö þá aö lifa
í henni áfram.
„Þetta byrjaði allt fyrir tilviljun," segir Björg-
vin Halldórsson söngvari og framkvæmdastjóri
og virðist ekki alltof hress að líta yfir liðnu árin
„enn einu sinni" eins og hann segir og andvarp-
ar um leið. „Þegar ég var í Flensborg í Hafnar-
firði lék þar skólahljómsveit og ég þóttist vera
nokkuð góður í ensku og fór að finna að textun-
um hjá þeim. Þeir bentu mér á að ef ég væri
svona góður enskumaður þá skyldi ég bara
skrifa niður textana fyrir þá eftir plötum. Ég
gerði það og nokkru síðar færði ég mig upp á
skaftið og gagnrýndi sönginn hjá þeim, án þess
þó að hafa lært nokkuð í þeim efnum. Það end-
aði með að þeir buðu mér hlutverk söngvarans
í hljómsveitinni!"
Það var upphafið að söngferlinum og Björgvin
kom fyrst fram með hljómsveitinni Bendix „á
dansæfingu í Flensborgarskóla. Mér er einkum
minnisstætt að ég þurfti að læra textann að
„Penny Lane" utan að og enskukennarinn minn,
Inga Blandon, var á ballinu svo það var mikið i
húfi, enda enginn smátexti við þetta lag!“
En varstu svona góður í ensku?
„Ja — svona ágætur, enda byrjaði ég mjög
snemma að læra ensku, bæði með því að hlusta
á Keflavíkurútvarpið og horfa á sjónvarp og
kvikmyndir með ensku tali."
Eftir að hafa sungið með Bendix í nokkurn
tíma lá leiðin í Flowers og síðan í hljómsveitina
Ævintýri. Sú hljómsveit tók þátt í popphátíð
sem haldin var í Laugardalshöll fyrir 18 árum og
þar féllu tveir titlar í skaut Ævintýris og söngv-
ara hennar, titlarnir „Söngvari ársins" og
„Hljómsveit ársins". Björgvin skaust upp á topp-
inn með þvílíkum ógnarhraða að margir furða
sig á að hann skuli ekki hafa farið illa út úr
frægðinni:
„Þetta getur verið óhollt fyrir ungan mann,"
segir hann hiklaust, spurður um hvernig áhrif
svona mikil og skyndileg frægð hafi á óharðnað-
an ungling. „Það beinist skyndilega svo mikil at-
hygli að manni að það verður óhjákvæmilega
röskun á lífinu. Ég held að það geti ekki allir axl-
að svona skyndilega breytingu. Sjálfur lenti ég
milli tannanna á fólki og fjölmiðlum. Oft voru
meira að segja búnar til fréttir um mig, eða ég
látinn segja eitthvað sem ég hafði aldrei sagt.
Það sem bjargaði mér var að ég var ungur og
léttur á þessum tíma og „gaf bara skít í þessar
sögur" eins og sagt er. Þetta vandist fljótt..."
Hann segist telja að tímar eins og á dögum
hippahreyfingarinnar komi aldrei aftur: „Ég hef
enga trú á því. Þetta var einskonar vakning hjá
ungu fólki. Það var mikill boðskapur í tónlistinni
og textunum og mikill uppgangur í tónlist. Stóru
stjörnurnar eins og Jimi Hendrix, Brian Jones,
Janis Joplin og fieiri kórónuðu þetta auðvitað,
kvikmyndin Woodstock var gerð og tónlistin
var gríðarlega stór þáttur hjá ungu fólki eins og
hún er enn, en það var kannski á annan hátt."
Síðustu ár hefur Björgvin starfað hjá veitinga-
húsum Ólafs Laufdal, aðallega Broadway, þar
sem hann hefur séð um framkvæmdir, auglýs-
ingar og fleira fyrir stærri sýningar en einkum
hefur hann séð um að fá stórstjörnur hingað til
lands. Þá hóf Björgvin nýlega störf sem fram-
kvæmdastjóri dagskrár- og kynningardeildar
Stjörnunnar og við spyrjum hvort þessi störf séu
eðlilegt framhald af fyrri störfum eða hvort
hann sé viljandj að framlengja poppárin:
„Ég byrjaði að spila í Broadway fyrir rúmum
fimm árum með hljómsveit minni og í framhaldi
af því var ég beðinn að setja upp fyrstu sýning-
una þar, sem var rokkhátíðin fræga. Síðan hef
ég unnið fyrir Olaf Laufdal og hans fyrirtæki.
Öðruvísi er þetta ekki," segir hann og virðist
þykja óþarft að leita eftir skýringum á starfsvali
sínu.
Broadway hefur haft á sínum vegum marga
kunna kappa úr skemmtanabransanum erlendis
og Björgvin er spurður hvernig gangi almennt
að fá stórstjörnur til að koma og skemmta á ís-
landi:
„Það gengur upp og niður," segir Fíann bros-
andi. „Sumir hafa engan áhuga á að koma hing-
að nema vel sé borgað fyrir það, hugsa semsagt
aðeins um peninga. Annars hefur gengið betur
núna en áður að fá stóru nöfnin hingað og það
á eftir að ganga ennþá betur. Það kemur til af
fundinum fræga... Sumir sem standa að ferða-
málum hér á landi halda að allir séu svo hrifnir
að komast hingað, sjá Gullfoss og Geysi og
kaupa sér lopapeysu, en málið er ekki svona ein-
falt. Þarna vantar margra ára markaðssetningu
inn í. Margir hafa ekki hugmynd um hvar þetta
iand er og hafa ekki nokkurn áhuga á að koma
hingað — nema þá bara til þess að vinna og fá
vel borgað fyrir. Hins vegar eru flestir sem hafa
komið hingað á annað borð reiðubúnir til að
koma aftur. Þeir trúa ekki hvað „standardinn" er
hár á íslandi fyrr en þeir sjá það sjálfir."
í starfi Björgvins felst að sjálfsögðu að kunna
að skipuleggja, kunna að beita áhrifum og vera
snöggur að hugsa og snöggur að taka ákvarðan-
ir. Þegar Björgvin heyrði í útvarpsfréttum í bíln-
um sínum að John Travolta væri að lenda á ls-
landi brá hann skjótt við, skrifaði honum bréf og
sendi út í flugvélina: „Mér fannst upplagt að
bjóða honum og fjölskyldu hans á „Allt vitlaust"
í Broadway, skemmtidagskrá sem minnir á kvik-
myndirnar sem hann sló í gegn í, Saturday Night
Fever og Grease. Ég hringdi síðan á hótelið en
náði ekki í hann og í staðinn ræddi ég við
mömmu hans og síðan systur sem tóku skilaboð
til hans. Skömmu síðar hringdi John Travolta til
mín og sagði: „I accept your kind offer," og þau
mættu öll í Broadway og skemmtu sér vel.“
Björgvin er í fullu starfi á Stjörnunni og leysir
þess vegna skyldur sínar við Broadway af hendi
þess á milli og um helgar: „Það kemur mikið til
vegna mismunarins á tíma,“ segir hann og við-
urkennir að þeir séu stöðugt að leita að þekkt-
um stjörnum til að koma. „Nú eru umræður í
gangi við ýmsa listamenn," segir hann með
þannig svip að ljóst er að það er vonlaust að fá
uppgefin nöfn þeirra...! „Það þarf að finna tíma-
setningar sem henta þeim bandarísku, annað-
hvort þannig að þeir séu að fara frá Bandaríkj-
unum til Evrópu eða öfugt, þannig að það henti
þeim að koma við hér og að sá tími henti líka
okkar gestum." Af þeim gestum sem Björgvin
hefur fengið til að koma og skemmta á Broad-
way segist hann vera einna ánægðastur með að
hafa náð Fats Domino og Jerry Lee Lewis: „Þó
svo að þeir hafi verið upp á sitt besta fyrir minn
tíma þá eru þetta stærstu núlifandi goðsagnirnar
í rokkinu. Jú, og Shadows, ég var ánægður með
að þeir skyldu koma..."
Fáum viö Cliff nœst?
„Við sjáum til...“ segir Björgvin en það er eitt-
hvað dularfullt við hann þegar hann svarar.
Hann segir að störf sín séu lifandi og skemmti-
leg og hann vildi ekki skipta og fara yfir í eitt-
hvað annað. Að vísu er vinnutíminn gífurlega
langur, „en ég þekki ekki annað," segir hann.
„Ég hef alltaf unnið svona mikið. Þá sjaldan
maður fer í frí er ég í vandræðum með hvernig
ég á að slappa af. Ég kann það bara ekki. Finn
mér alltaf eitthvað til að gera."
Nú hefur þú sloppið furðuvel frá frœgðinni
miðað við marga aðra. Þú hefur til dœmis alveg
sloppið við sukk og eiturlyf og...
„Ér það??!“ segir hann og glottir. „Hver segir
það?‘
Er þetta ekki rétt?
„Jú, jú, sem betur fer er þetta rétt. Ég hef reynt
að láta gleðskapinn ekki ná yfirhendinni. Frá því
ég byrjaði í þessum bransa hef ég verið mikið
innan um vín en ég er alls ekki fanatískur, síður
en svo. Hins vegar fer ég ekki á ball ef ég á frí
um helgi. Ég fer heldur út að borða með kon-
unni minni."
Björgvin er giftur Ragnheiði Reynisdóttur og
eiga þau börnin Svölu 10 ára og Odd Hrafn 8 ára,
en áður átti Björgvin soninn Sigurð Þór sem nú
er 16 ára. Við spyrjum hvaða þýðingu það hafi
fyrir mann sem lifir svona umrótssömu lífi að
eiga fjölskyldu:
„Það hefur geysimikla þýðingu. Ef menn eiga
ekki góða fjölskyldu og hlakka til að koma heim
að afloknum vinnudegi er auðvelt að leiðast út
í einhverja vitleysu. Það segja það allir, stórir
sem smáir í þessum bransa, að fjölskyldan sé
það sem heldur mönnum gangandi. Það að eiga
fjölskyldu er númer eitt, tvö og þrjú."
Verður konan þín aldrei leið á þessum störfum
þínum?
„Alveg örugglega. Ég yrði að minnsta kosti
leiður á þeim ef hún gegndi þeim!"
Nú hefur alls konar árásum verið beint að þér
gegnum tíðina, bœði beinum og óbeinum. Þar á
meðal er texti sem Bubbi söng umpað leyti sem
hann kom fram á sjónarsviðið: „Eg er löggiltur
öryrki, hlusta á HLH og Brimkló." Með öðrum
orðum; hann nefnir tvœr hljómsveitir þar sem
þú varst í fararbroddi. Tekurðu svona nœrri
þér?'
„Auðvitað hafði þetta einhver áhrif á okkur
alla í hljómsveitinni á þeim tíma. Annars ættirðu
að spyrja Bubba sjálfan hvað honum hafi gengið
til með þessum texta, því ekki veit ég það. Ég
held hann hafi ekki verið að fella dóm yfir okkur
með þessari setningu, heldur fólkið sem hlustaði
á tónlistina okkar — og þar af leiðandi á fólk sem
hlustaði á hans tónlist líka."
Hver er munurinn á framkvœmdastjóranum
og poppstjörnunni Björgvini?
„Enginn munur," svarar hann að bragði. „Ég
er um þessar mundir að ljúka við undirbúning á
jólaplötu þar sem margir söngvarar koma við
sögu og ennfremur hef ég verið með plötu í
smíðum upp á síðkastið sem ég ætlaði reyndar
að vera búinn að taka upp en tími hefur ekki gef-
ist til. Ég tek hana upp á næsta ári. Þetta er plata
sem verður svolítið öðruvísi en við eigum að
venjast þar sem stórhljómsveit leikur undir og
þar verða flutt öll helstu „standard-Iögin. Síðan
hefur mér nýlega verið falið mjög áhugavert
verkefni, sem tengist byggingu tónlistarhallar-
innar nýju og það verkefni lítur dagsins ljós fyrir
jólin."
Þú ert sem sé alltaf tengdur tónlistinni á ein-
hvern hátt?
„Já, ég verð alltaf tengdur tónlistinni hvað
sem á dynur. Ég „pródúseraði" báðar plöturnar
hans Kristjáns Jóhannssonar, þar af aðra í fyrra,
og einnig plötuna með Sinfóníuhljómsveitinni
ásamt því að gera sjálfur sólóplötu fyrir síðustu
jól."
Hvernig finnst þér að starfa með klassískum
tónlistarmönnum?
„Mér líkar það mjög vel. Sjálfur byrjaði ég
ekki að hlusta á klassík að ráði fyrr en fyrir fimm
árum og hef staðið mig að því upp á siðkastið
þegar ég er að kaupa plötur að ég tek klassík oft
fram yfir annað og vanda valið á söngvurum. Ég
er samt ekki kominn í „þungu deildina" ennþá!
Mér þykir gott að setja klassík á þegar ég vil
slappa vel af. Mér fannst heiður að því að vera
viðriðinn báðar plötur Kristjáns sem seldust vel
og mikið var vandað til. A fyrri plötunni lék
„London Symphony Orchestra" og á hinni síðari
„Royal Philharmonic". Manni datt ekki í hug í
Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði að maður ætti ein-
hvern tíma eftir að „pródúsera" með svona stór-
um hljómsveitum..."
Hvað er nákvœmlega það að ,,pródúsera“?
„Það er að stjórna upptökunum, sjá um undir-
búning og koma öllum saman sem eiga að vinna
að plötunni, stundum falla útsendingar til, sjá til
þess að dæmið gangi frá A til Ö, hafa
hönd í bagga við að velja réttu aðilana og jafnvel
lög og efni í samráði við útgefanda. Það þarf að
gera samninga við hljómsveitir, hvenær þær
geti spilað, fá réttu samsetninguna af hljóðfæra-
leikurum, í hvaða stúdíói og hvað það kostar
ásamt öðrum mikilvægum þáttum. Orðið
„pródúsent” útleggst í raun og veru sem verk-
stjóri og framleiðandi."
Við snúum okkur að Stjörnunni og störfum
Björjgvins þar:
„Eg sé um framkvæmd á dagskránni, er í dag-
skrárgerðinni með þáttagerðarfólkinu, hjálpa til
að móta þessa dagskrá í samvinnu við marga
aðra. Ég er þannig gerður að ég vil vinna með
fólki, hafa „stuðpúða" í kringum mig. Síðan er
það mitt starf að koma dagskránni frá stöðinni
út til hlustenda, sjá um auglýsingagerð, svokall-
aða „trailera" þegar verið er að kynna einstaka
dagskrárliði og persónulega er ég mjög hreyk-
inn af að hafa átt þátt í að koma af stað þáttum
með klassískri tónlist því við höfðum heyrt radd-
ir stórs hóps hlustenda Stjörnunnar sem vildi
eiga þess kost að hlusta á klassíska tónlist."
Margirafhinum svokölluðu „hugsandimönn-
um“ óttast mjög um menningararfleifð og ís-
lenska tungu með tilkomu nýju Ijósvakamiðl-
anna. Hvert er þitt mat?
„Ég held það sé alvara á ferðum, þótt þetta
verði stundum hálföfgafull fullyrðing hjá sum-
um. Við gerum okkur grein fyrir því hér á
Stjörnunni að það verður að vanda málfar og
vanda dagskrárgerð og reynum að velja þátta-
gerðarfólkið eftir því. Þótt við viljum ekki fara
með dagskrárgerðina á sama stig og þekktist
fyrir mörgum árum gerum við okkur grein fyrir
að auðvitað verður að viðhalda málinu. Allir
þeir sem ráða á þessari útvarpsstöð eru sam-
mála um það. Með tímanum hefur íslenskan
bjagast almennt, á því er enginn vafi. Ég held
það sé ekki bara á ljósvakamiðlunum, ég held
það séu brotalamir í íslenskukennslu í skólunum
án þess ég fullyrði það. Það eru margir þættir
sem valda þessu. Sjáðu bara tíu ára krakkana
sem tala ensku án þess að hafa lært málið í skól-
um, þeir hafa oft meiri orðaforða á ensku en á
íslensku. Það á ekki að banna allt enskt efni,
heldur gera íslenskunámið áhugaverðara."
Finnst þér vera of mikið afþreyingarefni á
frjálsu útvarpsstöðvunum?
„Nei, mér finnst ekki of mikið af því. Við vilj-
um reyna að stíla efni okkar eftir mismunandi
tímum. Það má ekki hafa mjög þungt efni að
kvöldlagi sem dæmi. Annars eru svo margar
skoðanir ríkjandi í þessum efnum, hvernig á að
„prógrammerá' svona stöðvar. Frjálsu stöðvarn-
ar byggja afkomu sína á auglýsingum og þær
verða alltaf að vera til staðar svo stöðin haldist
gangandi. Það er vandrataður vegur að gera öll-
um til hæfis en þessi stöð reynir að vanda valið
og hafa inntak þáttanna þannig að þeir snerti
menningu, það sé ekki bara síbylja allan dag-
inn."
Stillirðu aldrei sjálfur á Bylgjuna eða ríkisút-
varpið?
„Jú, jú oft. Ég hlusta mikið á útvarp og hef ein-
staklega gaman af fréttum bæði í sjónvarpi og
útvarpi. Eg hef meira að segja staðið mig að því
að hlusta á útvarp um leið og ég horfi á sjón-
varpsfréttir — en tek þá annan hvorn fréttatím-
ann upp og hlusta síðar um kvöldið, heima eða
í bílnum. Eg verð að fylgjast með hinum stöðv-
unum vegna starfs míns hér. Ég veit hvað er að
gerast á Stjörnunni þannig að í raun hlusta ég
mun meira á hinar stöðvarnar."
Setjum svo aö peningar vœru ekkert vanda-
mál. Hvernig útvarpsstöð myndirðu hafa?
„Ég myndi hafa útvarpsstöð með fjórum rás-
um. Þar yrði þjónusturás, þar sem veitt yrði al-
menn þjónusta fyrir hlustendur og fræðsluefni
ýmislegt. Síðan myndi ég hafa hreina tónlistar-
rás þar sem væri gæðatónlist, eins konar popp-
tónlist fyrir fullorðið fólk í rólegri kantinum,
ókynnt tónlist allan tímann. Ég myndi hafa rás
þar sem eingöngu væri leikin klassísk tónlist,
tónleikar o.fl., og mjög væri vandað til hennar,
síðan hefði ég stöð sem væri eingöngu á nótum
unga fólksins. Þetta eru nú bara draumahugleið-
ingar, enda spurningin þess eðlis að maður velt-
ir svona draumaútvarpsstöð ekki fyrir sér dag-
lega! En að sjálfsögðu hefði ég sendi sem væri
það sterkur að stöðin næði til meginlands Evr-
ópu. Ef íslensk tónlist heyrðist þangað hjálpaði
það íslenskri tónlistarmenningu mikið."
Sú myndsem poppheimurinn og fjölmiðlarnir
hafa gefið af þér gegnum árin virðist röng. Rétt?
„Ja — seg þú mér það! Ég lít á sjálfan mig sem
rólegan mann... En það verður að viðurkennast
að það var mikið skrifað um mig og ekki alltaf
rétt og satt sagt frá. Ég hef sjálfur lesið ýmislegt
um vini mína sem á ekki við nein rök að styðjast
og tek því alltaf fjölmiðla með fyrirvara. Ég er
það jarðbundinn að ég trúi aldrei neinu fyrr en
ég snerti sjálfur á því eða sé það. Það hefur viljað
brenna við hér á landi að kjaftasögur og hug-
leiðingar um fólk hafi vegið þyngra en sannleik-
urinn."
Hvað finnst þér helst einkenna íslenskt samfé-
lag í dag?
„Ef ég lít til þess sem vinir mínir frá útlöndum
sem oft koma hingað segja um landið þá líkja
þeir Islandi við „melting pot“. Hér ríkir einhvers
konar samsuða alls þess sem er að gerast í heim-
inum. Við fáum fréttir alls staðar að, hér ríkir há-
tíska, á fáum stöðum sjást jafnmargar bílateg-
undir — hér er allt það nýjasta á mörgum svið-
um. Þá komum við aftur að líku máli og við
ræddum áðan: Við verðum að varðveita það
sem allir útlendingar öfunda okkur af, sögu okk-
ar, tungumálið og bókmenntirnar. Við verðum
að varðveita það sem gefur íslandi sérstöðu í
heiminum."
Framtíðin?
„Björt. Ég hugsa aldrei til þess að ég hefði átt
að gera annað en ég geri núna. Þá væri ég hvort
sem er að hugsa hvort ég vildi breyta einhverju,
ekki rétt!? Lífið væri kannski eitthvað öðruvísi
en það er í dag en til hvers væri það. Ég er þó
að minnsta kosti að starfa við það sem ég hef
áhuga á...“