Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2008, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2008, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 26. JANÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is Staða portúgalska nóbelsskáldsinsJosés Saramagos er tryggð í heimi bókmenntanna en hingað til hefur aðeins ein frekar léttvæg spænsk kvikmynd verið gerð eftir sögum hans. Þangað til nú að helsta kvikmyndaskáld Brasilíu, Fernando Meirelles (Borg Guðs og The Con- stant Gardener), leikstýrir Blindu, einni þekktustu sögu Saramagos. Af dularfullum ástæðum lýstur blinda skyndilega nánast alla íbúa borgar einnar en þeir örfáu sem enn eru sjáandi verða þeim mun merkilegri fyrir vikið. Ein þeirra er Julianne Moore, kona læknisins Marks Ruffalos, en með önnur aðalhlutverk fara Gael Garcia Bernal, Danny Glover, Alice Braga og Sandra Oh. Eitt skilyrðið sem Saramago setti þegar hann seldi kvikmyndaréttinn var að sagan gerð- ist sem fyrr í borg sem ekki væri hægt að eigna neinu ákveðnu landi, þótt líkast til eigi flestir eftir að tala ensku í þessari Hvergiborg.    Stríðsvélin John Rambo er í hugamargra táknmynd Bandaríkj- anna á níunda áratug síðustu aldar, en í ár snýr hann aftur af tvöföldum krafti. Annars vegar fáum við útgáfu Sylvesters Stallones á ófriðnum í Búrma/Myanmar, en þar gerist fjórða Rambó-myndin. Valið var ein- falt fyrir Stallone: „Ég hringdi í skrif- stofur Soldiers of Fortune (tímarits málaliða) og spurði þá hvar í heiminum mann- réttindi væru í mestum ólestri. Þeir sögðu Búrma.“ Og vita- skuld er Rambó að kljást við tilvist- arspurningarnar og þunglyndi, eða eins og Stallone orðar það: „Hann átt- ar sig á að gervöll tilvist hans var til einskis. Friður er aðeins slys, stríð er eðlilegt.“ En þeir sem ólust upp við þessa vafasömu speki Rambós fá nú að spegla sjálfa sig í Son of Rambow. Myndinni er leikstýrt af Garth Jenn- ings, sem áður kvikmyndaði Hitchhi- ker’s Guide to the Galaxy, og er myndin að nokkru leyti sjálfs- ævisöguleg. Hún fjallar um tvo ellefu ára pilta sem alast upp við ævintýri Rambós og reyna að búa til sína eigin útgáfu af ævintýrum hetjunnar með upptökuvél fjölskyldunnar.    Engin mynd Coen-bræðranna,nema ef vera skyldi Fargo, hef- ur verið orðuð jafnítrekað við Óskar frænda og No Country for Old Men. En á meðan gagnrýnendur eru upp- teknir sem aldrei fyrr við að lofa nýj- ustu myndina eru bræðurnir önnum kafnir við að leggja lokahönd á þá næstu sem verður frumsýnd ytra með haustinu. Sú heitir Burn After Reading og er titillinn útúrsnúningur á bókartitlinum Burn Before Reading: Presi- dents, CIA Di- rectors, and Sec- ret Intelligence eftir fyrrverandi yfirmann CIA. Myndin snýst um rán á disklingi þar sem lesa má ævisögu – og þar með ófá leyndarmál – fyrrverandi liðsmanns CIA (John Malkovich) í hefndarhug. Inn í málið flækjast starfsmenn lík- amsræktarstöðvar sem njósnarinn Harry (George Clooney) rekur. Í öðr- um helstu hlutverkum eru Brad Pitt sem einn starfsmanna líkamsrækt- arstöðvarinnar, Tilda Swinton og vitaskuld Frances McDormand, eig- inkona Joels Coens og stjarna Fargo. En á meðan No Country for Old Men þykir með dekkri myndum þeirra bræðra þá mun Burn After Reading vera öllu skyldari kolbrjáluðum gam- anmyndum þeirra bræðra, myndum á borð við The Big Lebowski og Rais- ing Arizona. KVIKMYNDIR José Saramago Clooney og Pitt Son of Rambow Eftir Björn Norðfjörð bn@hi.is Það er stundum talið að níu af hverjum tíuþöglum kvikmyndum séu glataðar –horfnar sjónum okkar fyrir fullt og allt.Fer því fjarri að hér sé aðeins um að ræða síður merkilegar myndir, því mikilvæg verk margra helstu leikstjóra kvikmyndasögunnar eru ekki síður tröllum gefin, og mætti nefna í því sam- hengi Erich von Stroheim, Josef von Sternberg, Alfred Hitchcock, Howard Hawks, John Ford, Sergei Eisenstein og Friedrich Wilhelm Murnau. Reyndar eru glötuðu myndirnar nefndar á ensku „lost films“ eða týndar, og þannig haldið í þá von- arglætu að þær finnist, komi(st) í ljós síðarmeir. Og stundum eiga sér stað slík lítil kraftaverk, að myndir taldar að eilífu horfnar koma í leitirnar – á undarlegustu stöðum. Hið mikla meistaraverk Danans Carls Theodors Dreyers La Passion de Jeanne d’Arc (1928) var löngum talið glatað, og leikstjórinn mun hafa dáið í þeirri trú, allt þar til að mjög heillegt eintak af myndinni fannst í skúr- ingaskáp á geðveikraheimili í Osló! Þó að saga kvikmyndar Þjóðverjans Murnau Tartüff (1925) sé fjarri því að vera jafnævintýraleg langar mig að velta hér aðeins frekari vöngum yfir henni þar sem hún leysir svo að segja upp andstæðuna tapað fundið. Murnau (1888-1931) var einhver vinsælasti og virtasti kvikmyndaleikstjóri Evrópu þegar hann flutti sig um set til Hollywood árið 1926. Látum það liggja á milli hluta að týnst hafi sumar mynd- anna er gerðar voru fyrir frægð hans, en það er með ólíkindum að myndin 4 Devils (1928) sem hann gerði fyrir Fox-stúdíóið í Hollywood næst á eftir tímamótamyndinni Sunrise (1927) hafi glat- ast, enda hefur margur kvikmyndaáhugamað- urinn grátið samtímarýni þar sem 4 Devils er hampað mjög og hún jafnvel talin taka sjálfri Sunrise fram. Næstsíðasta myndin sem Murnau gerði í Þýskalandi var Tartüff, aðlögun á leikriti Molières, þar sem Emil Jannings fór á kostum í hlutverki hræsnarans góðkunna. Ekki er að sjá að þessi mynd sé glötuð eða týnd, enda hafa fundist af henni fjórar sýningarræmur sem eiga uppruna sinn í þremur ólíkum negatívum (þ.e. frum- eintökum sem sýningarræmur eru gerðar eftir) – þó hefur hvorki fundist tangur né tetur af útgáfu myndarinnar sem sýnd var í sjálfu Þýskalandi. Þetta kann að virðast við fyrstu sýn hreint og klárt aukaatriði, en er það ekki þegar nánar er að gáð. Þannig er mál með vexti að undir lok þögla skeiðsins var ekki óalgengt að gerðar væru sér- útgáfur af sömu myndinni fyrir ólík markaðssvæði (og þekkist svosem ennþá). Til að mynda eru ein- tökin fjögur sem varðveist hafa af Tartüff eftirfar- andi: 1) bandarískt með enskum textaspjöldum, 2) svissneskt með tvískiptum textaspjöldum, bæði á frönsku og þýsku, 3) argentískt eintak á spænsku, og loks 4) filma ætluð til útflutnings án texta- spjalda sem Sovétmenn tóku tröllataki í Berlín ár- ið 1945 og bættu sjálfir við textaspjöldum á þýsku síðar meir (en þær tvær síðastnefndu eru gerðar eftir sömu negatívunni). Gömul sýningareintök jafnast auðvitað aldrei að gæðum á við upphaf- legar negatívur, en bandaríska eintakið var í besta ásigkomulaginu af eintökunum fjórum, og var það því endurgert (og það er sú útgáfa sem almenningi stendur til boða að kaupa á mynddiskum hvort heldur er í Bandaríkjunum eða Evrópu). Banda- ríska útgáfan hafði aftur á móti verið talsvert rit- skoðuð og klippt úr henni t.a.m. stutt myndskeið er sýndu Tartüff með tattúveraðan kross og biblíu í vasa, og, sýnu verra, talsvert langt atriði og nokkurs konar þungamiðja myndarinnar þar sem hann fær Orgon (Werner Krauss) til að ánafna sér aleiguna undir því yfirskini að um syndaaflausn sé að ræða. Ennfremur voru stærri myndir þessa tímabils oft teknar samtímis með ólíkum töku- vélum, og er þýska negatívan því veigamest en það er á henni sem listræn sýn Murnaus birtist en hann var þekktur fyrir að stilla upp bæði vél og viðfangsefni af mikilli nákvæmni. Áhugasamir geta gert sér leik að því að bera saman bandaríska og þýska útgáfu af mynd hand Faust (1926) þar sem sú síðarnefnda er miklum mun áhrifameiri hvað varðar myndræna framsetningu. Sá sam- anburður verður seint gerður á Tartüff nema þýska útgáfan komi í leitirnar einn góðan veð- urdag – hvort heldur er í skúringaskáp á geð- veikrahæli í Osló eða annars staðar. Tapað fundið SJÓNARHORN »Reyndar eru glötuðu myndirnar nefndar á ensku „lost films“ eða týndar, og þannig haldið í þá vonarglætu að þær finnist, komi(st) í ljós síðarmeir. Og stundum eiga sér stað slík lítil kraftaverk, að myndir taldar að eilífu horfnar koma í leitirnar – á undarlegustu stöðum. Eftir Gunnar Theodór Eggertsson gunnaregg@gmail.com É g hef verið aðdáandi Tims Burtons nánast síðan ég man eftir mér. Eða öllu heldur síðan ég man eft- ir kvikmyndum. Ef ég tel ekki með hefðbundið barnaefni þá ólst ég að mestu upp á kvikmyndum á borð við Ghostbusters (1984) og Gremlins (1984) (ég sef ennþá með Gizmo-dúkkuna sem ég fékk þegar ég var smákrakki). Á eftir gremmunum tek- ur Burton nokkurn veginn við, fyrst með lífs- æringamanninum Beetlejuice (1987) og fast á hæla hans þýtur Batman (1989) um stræti Got- ham-borgar. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þessar fyrstu kvikmyndaminningar hafi haft ómetanleg áhrif á síðari tíma kvikmyndasmekk minn, sem snýst á einn eða annan hátt um hinar endalausu og fjölbreyttu birtingarmyndir hryll- ings. Tim Burton var fyrsti uppáhaldsleikstjórinn minn. Ég horfði á myndirnar hans allar saman aft- ur og aftur og beið átekta eftir nýjustu fréttum af verkum hans. Á eftir Batman kom Eddi klippikr- umla (1990), Batman Returns (1992) og Nig- htmare Before Christmas (1993) – verk sem höfðu mikil og mótandi áhrif á barnæsku mína. Það væri líklega langt gengið að kalla Burton hryllings- myndaleikstjóra, en hann kemst þó næst því að vera í hópi annarra meistara þrátt fyrir að hann hafi aldrei stigið hryllingsskrefið til fullnustu. Það mætti kannski segja að Burton geri hryllings- myndir fyrir börn og unglinga. Allar myndirnar sem ég hef talið upp hér að framan eiga sína hryllingskróka og kima. Beetle- juice er draugasaga (eða öllu heldur andhverf draugasaga, þar sem draugarnir eru ofsóttir af lif- andi fólki) stútfull af drungalegu myndmáli, en gamanið er aldrei langt undan, svo engin raun- veruleg hræðsla gerir vart við sig. Batman er lif- andi og litrík myndasaga, en á sér óhugguleg augnablik, líkt og þegar Jókerinn steikir mann til dauða með hrekkjabrögðum. Það sama má segja um framhaldið Batman Returns, þar sem úir og grúir af vísunum í skuggaheima þýska express- jónismans – nokkuð sem hefur fylgt listsköpun Burtons frá upphafi og mun líklega fylgja honum til endaloka. Eddi klippikrumla er kannski minnsta hryllingsmyndin, en vísar engu að síður í skrímslamyndir fjórða áratugarins með brjálaða vísindamanninum og misskildu ófreskjunni. Það þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um Nig- htmare Before Christmas, sem er stútfull af mar- tröðum og óhuggulegheitum, né Mars Attacks! (1996), sem er óður til skrímsla og innrásar- mynda sjötta og sjöunda áratugarins, að ógleymdri ævisögumyndinni um b-mynda- kónginn Ed Wood (1994). Það hlaut því að koma til þess að Burton leik- stýrði raunverulegri hryllingsmynd – þ.e. mynd sem gerir hrylling að meginefnivið án þess að slá því öllu upp í grín, glens eða fantasíu. Sleepy Hol- low (1999) byggist á einni elstu hryllingssögu Bandaríkjamanna og segir frá hauslausa hesta- manninum sem tryllir lítið sveitasamfélag og hug- leysingjanum Ichabod Crane sem þarf að leysa málið með rökvísinni. Óvætturin reynist reyndar vera plat í upprunalegri sögu Washingtons Irv- ings, en í höndum Burtons er hann raunverulega morðóður draugur sem svífst einskis til að koma fram hefndum. Þrátt fyrir glæsilegt útlit, stór- kostlegar sviðsmyndir og aragrúa af stórleikurum er verk Burtons frekar blóðlaust miðað við vænt- ingar. Myndin hlaut mikla gagnrýni fyrir andleysi og yfirborðsmennsku, þar sem andstæðingar Bur- tons töldu hann endurvinna gotneskar hryllings- myndir fyrri áratuga án þess að bæta neinu sér- stöku við. Ég hélt engu að síður tryggð við Burton og gerði mitt besta til að standa með honum, en eftir það hafa myndir hans ekki gripið mig líkt og þær gerðu áður fyrr. Líklega tengist það því að ég er kominn yfir unglingsárin, en Burton hefur haldið áfram í sama farinu. Eflaust fylgja næstu kynslóðir af hryllingsunglingum marserandi á eft- ir myndum á borð við Corpse Bride (2005), en þrátt fyrir mikla tilhlökkun mína gat ég ekki ann- að en skynjað endurtekninguna sem rann eins og rauður þráður á bak við hreyfimyndirnar. Miðað við æði mitt fyrir Burton áður fyrr hlýtur að teljast merkilegt að ég skuli ekki einu sinni hafa heyrt um nýjustu myndina, Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street (2007) fyrr en nú rétt fyrir jólin, eða um það leyti sem hún kom út í Bandaríkjunum. Þar segir frá hárskeranum og raðmorðingjanum Todd sem myrðir með rak- vélarblaði og breytir fórnarlömbum sínum, í sam- starfi við frú Lovett, í kjötfyllingu fyrir ljúffengar bökur sem eru seldar á götum Lundúnaborgar. Sagan af Todd var kvikmynduð nokkrum sinnum á fyrstu áratugum hryllingsmynda, en hefur að- allega lifað á leiksviðinu síðan þá, ekki síst vegna vinsæls Broadway-söngleiks sem Burton byggir sína uppfærslu á. Þegar ég komst loks í kynni við sýnishorn úr myndinni fékk ég ógleðitilfinningu yfir mig – þessi mynd leit út fyrir að vera enn eitt stílfærða ævintýrið með Johnny Depp í aðal- hlutverki sem gæti vel reynst jafninnantómt og Apaplánetan frá 2001 – en eftir því sem ég hef les- ið meira um viðtökurnar vestra hefur áhuginn á Burton kviknað að nýju. Myndinni er hampað sem besta verki Burtons hingað til og hefur jafnvel verið lýst sem fyrstu alvöruhryllingsmynd meist- arans. Ég bíð spenntur. Hryllingsbarnið Burton Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street heitir nýjasta mynd Tims Burtons. Þar segir frá hárskeranum og raðmorðingjanum Todd sem myrðir með rakvélarblaði og breytir fórnarlömbum sínum, í samstarfi við frú Lovett, í kjötfyllingu fyrir ljúffengar bökur sem eru seldar á götum Lundúnaborgar. Greinarhöf- undur bíður spenntur en myndin verður frum- sýnd hérlendis á föstudaginn kemur. Rakarinn djöfullegi Þegar ég komst loks í kynni við sýnishorn úr myndinni fékk ég ógleðistilfinn- ingu yfir mig – þessi mynd leit út fyrir að vera enn eitt stílfærða ævintýrið með Johnny Depp í aðal- hlutverki en eftir því sem ég hef lesið meira um viðtökurnar hefur áhuginn á Burton kviknað að nýju.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.