Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2008, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2008, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. JANÚAR 2008 15 Eftir Slavoj Žižek Í síðustu viku [þ.e. vikunni fyrir jól] bundu leiðtogar Evrópusambands- ins enda á deilur sem staðið höfðu í heilan áratug og skrifuðu undir Lissabon-sáttmálann sem leggur drög að gagngerum endurbótum á samtökunum; þar á meðal er stofnun embættis forseta Evrópusambandsins sem á að vera fulltrúi þess á alþjóðlegum vettvangi til fram- búðar. Á meðan athöfnin fór fram í hinu mik- ilfenglega Jerónimos-klaustri í Lissabon mátti í bakgrunninum heyra kór syngja „Óðinn til gleðinnar“ eftir Beethoven. Þó að það kunni að virðast meinlaust að velja fjórða kafla Níundu sinfóníu Beethovens, sem var frumflutt 1824, sem opinberan sameiningarsöng Evrópusam- bandsins (en sú ákvörðun var tekin 1972) segir það í rauninni meira en ætla mætti um erfiða stöðu Evrópu um þessar mundir. „Óðurinn til gleðinnar“ er annað og meira en heimsfrægt klassískt tónverk sem orðið hefur að einhvers konar klisju yfir jólahátíðina (það sætir sérstakri furðu að í Japan hefur verkið öðlast stöðu einhvers konar költ-fyrirbæris). Í meira en heila öld hefur það líka gegnt hlut- verki þess sem bókmenntafræðingar kalla „tóma táknmynd“ – tákn sem getur staðið fyr- ir hvað sem er. Í Frakklandi snemma á tuttugustu öld lýsti nóbelsverðlaunahafinn Romain Rolland því yf- ir að verkið væri stórkostlegur húmanískur óð- ur til bræðralags allra manna, og byrjað var að kalla það „Marseillaise mannkynsins“. Árið 1938 var verkið hápunktur Reichsmusiktage, tónlistarhátíðar nasista, og síðar var það notað við afmælishald Hitlers. Þegar menning- arbyltingin í Kína stóð sem hæst og andrúms- loftið einkenndist af takmarkalausri tor- tryggni gagnvart evrópskri klassík tóku ýmsir tónverkið upp á sína arma og héldu því á loft sem tákni um framsækna stéttabaráttu. Á 6. og 7. áratugnum, þegar íþróttamenn frá Vestur- og Austur-Þýskalandi voru neyddir til að senda sameiginlegt lið til keppni á Ólympíu- leikunum, voru hendingar úr „Óðnum til gleð- innar“ leiknar í stað þjóðsöngs þegar þýskir íþróttamenn veittu gullverðlaunum viðtöku. Óðurinn gegndi líka hlutverki þjóðsöngs í Ródesíu á valdatíma einræðisstjórnar Ians Smiths, sem hélt fram yfirburðum hins hvíta kynstofns. Sjá má fyrir sér flutning verksins þar sem allir svarnir óvinir fyrr og síðar – Hit- ler og Stalín, Saddam Hussein og George Bush – grafa stríðsöxina og taka höndum saman á töfrum slungnu augnabliki upphafins tónlist- arlegs bræðralags. Á hinn bóginn býr undarlegt ójafnvægi í tónverkinu. Í miðju kaflans, eftir að við heyr- um meginlaglínuna (stefið um „gleðina“) í þremur hljómsveitar- og söngtilbrigðum, ger- ist eitthvað óvænt sem hefur valdið gagnrýn- endum hugarangri í 180 ár: í 331. takti kveður við algerlega nýjan tón, og í stað hátíðlegs sálmayfirbragðs lofsöngsins er sama stefið um „gleðina“ endurtekið í stíl marcia turca (tyrk- nesks mars), sem er yfirlætislegur stíll, feng- inn að láni úr hertónlist fyrir blásturshljóðfæri og slagverk sem evrópskir herir tóku upp á 18. öld eftir hermönnum Tyrkjasoldáns. Stemningin verður að karnivalískri skrúð- göngu, viðburði fullum af háði – gagnrýnendur hafa jafnvel líkt hljóðunum í fagottunum og bassatrommunni sem fylgja upphafi marcia turca við uppskafningshátt. Að mati gagnrýn- endanna fer allt úrskeiðis eftir þennan vendi- punkt, hin einfalda og hátíðlega reisn fyrsta hlutans í kaflanum náist aldrei aftur. En ef þessir gagnrýnendur hafa aðeins rétt fyrir sér að hluta til – hvað ef málum er ekki þannig háttað að hlutirnir byrji að fara úr- skeiðis þegar marcia turca hefst? Hvað ef þeir fara úrskeiðis strax í upphafi? Kannski ætti maður að viðurkenna að einhver bragðdauf uppgerð er fólgin í sjálfum „Óðnum til gleðinn- ar“, þannig að óreiðan sem kemur til sögunnar eftir 331. takt er einhvers konar „endurkoma hins bælda“, sjúkdómseinkenni sem var á villi- götum allt frá byrjun. Ef það er tilfellið, þá ættum við að breyta sjónarhorninu og líta á marsinn sem aft- urhvarfið til hins venjulega sem gerir lítið úr hinni fáránlegu sjálfumgleði þess sem á undan fer – þetta er augnablikið þar sem tónlistin kippir okkur aftur niður á jörðina, rétt eins og hún vilji segja: „Viljið þið fagna bræðralagi manna? Hérna hafið þið það, mannkynið eins og það er í reynd …“ Gildir ekki hið sama um Evrópu í dag? Ann- að erindið í kvæði Friedrichs Schillers sem Beethoven samdi tónverk sitt við, og kemur í kjölfarið á viðlagi sem býður „milljónum“ heimsins að umfaðmast í trú og kærleika, end- ar á ógnvænlegum hendingum: „hinn, sem enga á, skal kveðja/ angurs tárum þetta borð!“ Með þetta í huga er erfitt að láta sér sjást yfir nýlega þverstæðu marcia turca: á meðan Evr- ópa hnýtir síðustu lausu endana hvað varðar samstöðu innan álfunnar í Lissabon standa Tyrkir, þvert á vonir sínar og væntingar, utan hins kærleiksríka bræðralags. Um leið og við heyrum „Óðinn til gleðinnar“ leikinn síendurtekið á næstu dögum væri við hæfi að minnast þess sem kemur á eftir þess- ari sigri hrósandi melódíu. Áður en við göng- um þeirri notalegu tilfinningu á vald að við séum öll ein stór fjölskylda held ég að sam- borgarar mínir í Evrópu ættu að leiða hugann að öllum þeim sem geta ekki glaðst með okkur, öllum þeim sem neyðast til að „kveðja angurs tárum þetta borð“. Það er ef til vill eina leiðin til þess að binda enda á óeirðirnar og bílabrun- ana og aðrar birtingarmyndir tyrkneska mars- ins sem blasa við í okkar eigin borgum. Steinar Örn Atlason þýddi.  Við beinar tilvitnanir í kvæði Friedrichs Schillers um „Óðinn til gleðinnar“ er stuðst við þýðingu Matthíasar Jochumssonar. „Óðurinn til gleðinnar“ – og eftir kemur óreiða og örvænting Reuters Ein stór fjölskylda? Eina leiðin til þess að binda enda á óeirðirnar og bílabrunana og aðrar birtingarmyndir tyrkneska marsins sem blasa við í okkar eigin borgum er að leiða hugann að þeim sem ekki sitja við sama borð og við, segir Žižek. Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek heldur opinn fyrirlestur kl. 13:30 í dag á Há- skólatorgi Háskóla Íslands. Þessa grein birti hann í The New York Times 24. desember síðastliðinn og er hér birt með góðfúslegu leyfi höfundar. Sigþrúður Tjáningin Rödd Mugison er engu lík – klárlega besta mótvægið við dimmum vetr- armorgnum, segir Sigþrúður sem hlustar á Mugiboogie í strætó á leið til vinnu á morgnana. Hlustarinn Ég varð svo forfrömuð um jólin að eignastmp3-spilara og fyrsta platan sem ég hlóð inn á hann var nýjasta afurð Vestfirðingsins Mugisons: Mugiboogie. Og jafnvel þótt morgnarnir hafi verið votir og vindasamir þessar fyrstu vikur ársins er ekki hægt annað en brosa út í annað á leiðinni í strætó þegar fyrsta lagið fer af stað – fyrst með taktföstum trommum og brassi og síðan kröftugu öskri söngvarans. Hann syngur um ástina – eða kannski girndina – honum líður eins og ávexti á tré þeirrar sem hann syngur til svo það er kannski engin furða að hann öskri. Hann er með fjölda manns með sér og krafturinn eftir því – næsta lag flytur hann einn með gítar. Þar með held ég að ég sé búin að nefna flest sem skapar galdurinn við þessa plötu – lögin eru ótrúlega fjölbreytt, það er kraftur í þeim, þau hafa sögu að segja í myndrænum og oft frum- legum textum og tjáningin í rödd Mugisons er engu lík – klárlega besta mótvægið við dimm- um vetrarmorgnum. En hvenær skyldi Mug- ison taka upp á því að syngja á íslensku? Sigþrúður Gunnarsdóttir, bókmenntafræðingur. Lesarinn Ég las bókina Til fundar við skáldið efti rÓlaf Ragnarsson um jólin og hafði mjög gaman af. Ég hef ekki lesið mikinn Laxnes í gegnum tíðina, nokkrar bækur, en þarna kynntist ég í einni bók ýmsu hnýsilegu frá öll- um ferli skáldsins. Mér finnst höfundur flétta vel saman upprifjunum skáldsins, tilvitnunum í hin ýmsu rit, bækur og viðburði auk þess sem bókin er saga af vináttu og samstarfi útgefenda og listamanns. Maður fær líka innsýn í síðustu æviár Laxness og allar kringumstæður. Auk þess er nálgunin persónuleg og hlýleg. Mér fannst gaman að lesa hvað Laxness segir sjálfur um eigin vinnubrögð; erfiðar glímur, ei- lífar endurritanir og síðan lagfæringar og breytingar á ljóðum og textum, jafnvel eftir að þau voru birt, sem sýnir að listaverkin spretta ekki fullsköpuð úr huga listamannanna; ekki einu sinni Nóbelskálda. Ég er hrifinn af ævisögum, og núna er ég með í lestri ævisögu sómölsku stjórnmálakonunnar Aayan Hirsi Ali, sem mér finnst mjög áhuga- verð. Ali er jafnaldri minn og þessvegna kemst maður ekki hjá því að bera saman aðstæður hennar í hinum ýmsu löndum, Sómalíu, Sádi Arabíu, Kenýa, ofl. við manns eigin aðstæður hér í örygginu uppi á Íslandi. Hún hafði það oft skítt og þurfti að takast á við nýjar og oft harkalegar aðstæður í hverju landi á eftir öðru. Ég fylgdist grannt með öllu sem var fjallað um hana í haust þegar hún kom til Íslands og bíð spenntur eftir því að klára bókina og lesa um fullorðinsárin. Þóroddur Bjarnason, myndlistamaður. Árvakur/Árni Sæberg Þóroddur „Listaverkin spretta ekki fullsköpuð úr huga listamannanna; ekki einu sinni Nób- elskálda,“ segir Þóroddur eftir að hafa lesið viðtalsbók Ólafs Ragnarssonar við Laxness.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.