Franskir dagar - 01.07.2016, Blaðsíða 15

Franskir dagar - 01.07.2016, Blaðsíða 15
Franskir dagar Les jours français 15 uðu hvalskutulnum og sinntu skipstjórn. Skytta Germania var P.C. Brodersen og H. Backmann var skytta á Island. Verkstjórinn á hvalstöðinni var hinn norski Edward Abrahamsen. Hann bjó yfir mikilli reynslu á sviði vinnslu hvalaafurða enda hafði hann starfað fyrir Svend Foyn í 12 ár. Þó stöðin væri eina þýska hvalstöðin á Íslandi og undir stjórn hins þýskættaða dr. Paul störf- uðu þar fáir Þjóðverjar. Dr. Paul hafði dvalið um hríð í Noregi og var norskur ríkisborgari, talaði og skrifaði á norsku og átti þar að auki norska konu. Íslendingar komu lítið við sögu hvalstöðvarinnar. Einhverjir munu þó hafa komið við sögu byggingar hennar og við losun og affermingu skipa. Fyrstu vertíð stöðvarinnar lauk 31. ágúst 1903. Aflinn var 47 hvalir og úr þeim voru framleidd 1428 lýsisföt. Forsvarsmenn GWFI voru ekki ánægðir með þennan árangur þrátt fyrir að vertíðin hefði hafist seint. Veiði bátanna var töluvert undir meðaltalsveiði á vertíðinni hjá norsku veiðifélögunum enda voru hinar norsku skyttur óvanar íslenskum aðstæðum. Þar að auki komu upp hin ýmsu vandamál við vinnslu á hvalnum sjálfum og flest þeirra mátti rekja til þess búnaðar sem dr. Paul hafði þróað og látið smíða fyrir stöðina. Búnaðurinn þótti flókinn og bilanagjarn. Þýska ríkið hafði styrkt félagið um 25 þúsund mörk en þrátt fyrir það var taprekstur þetta fyrsta starfsár hvalstöðv- arinnar á Fögrueyri. Vertíðin 1904 gekk mun betur í hvalstöðinni og komu hvalveiðibátarnir tveir með samtals 85 hvali til vinnslu á Fögrueyri og voru framleidd úr þeim 2550 lýsisföt. Þetta þótti góð veiði samanborið við veiði hjá öðrum félögum. Þrátt fyrir þetta voru forsvarsmenn GWFI ósáttir við afkomuna því þrátt fyrir góða veiði olli tækjabúnaður dr. Paul vandræðum í vinnslu og afurðaverð á hvalalýsi lækkaði þetta ár. Aftur styrkti þýska ríkið félagið um 25 þúsund mörk en þrátt fyrir það var þetta annað rekstrarár gert upp með tapi. Til að bregðast við þessu tók GWFI þá ákvörðun að senda einn aðalhluthaf- anna, Heinrich Grohmann, til Íslands á vertíðinni í þeirri von að hann gæti snúið rekstri félagsins við. Hann ræddi við starfsmenn hvalstöðvarinnar og athuganir hans voru á einn veg, hann var sá að tækjabúnaður dr. Paul stæði starfseminni fyrir þrífum því hann væri í senn flókinn, óhagkvæmur í rekstri og bilanatíðni há. Þetta leiddi til þess að dr. Paul var rekinn úr stöðu veiðistjóra í lok ver- tíðarinnar og Grohmann tók við starfi veiðistjóra tímabundið í hans stað. 13. maí 1905 kom Grohmann til Fögrueyrar. Hann var ennþá veiðistjóri og hafði tekið með sér tvær stúlkur í þetta sinn. Dóttur hans, Anne og vinkonu hennar, Berthe Stapel en hún var systir tengdasonar Grohmanns. Eftir Berthe liggur dagbók sem hún skráði í færslur um veru sína á Fögrueyri og ljósmyndir með myndum frá stöðinni og nánasta umhverfi hennar. Grohmann gegndi starfi veiðistjóra til 22. júlí en þá kom nýráðinn veiðistjóri, Julius Tadsen, til Fáskrúðs- fjarðar. Veiðin fór vel af stað en þrátt fyrir allt olli vertíðin vonbrigðum þegar upp var staðið. Heildarveiðin var einungis 60 hvalir og úr þeim voru unnin 1800 lýsisföt. Þrátt fyrir þá miklu gagnrýni sem búnaður dr. Paul hafði fengið bendir allt til þess að hann hafi áfram verið notaður þó svo að dr. Paul hafi verið rekinn úr starfi. Hinn nýráðni veiðistjóri, Julius Tadsen lagði það til við lok vertíðarinnar að hvalveiðum frá Fögrueyri yrði hætt enda höfðu veiðar heilt yfir dregist saman og ólíklegt að rætast myndi úr þeim. Hann lagði til að starfsemin yrði flutt í Suðurhöfin. Tillagan var rædd innan GWFI en það þótti of mikil áhætta að flytja starfsemina í Suðurhöfin, en margir voru sammála þeirri tillögu Tadsen að hætta starf- seminni á Íslandi. Því varð úr að þegar ver- tíðin hófst árið 1906 var allt hljótt á Fögru- eyri. Verksmiðjuhúsin stóðu auð og yfirgefin og verksmiðjuskröltið sem borist hafði frá eyrinni síðustu þrjú sumur var þagnað. 30. apríl 1908 var þýska hvalveiðifélaginu GWFI slitið og allri starfsemi þess var þar með lokið. Hvalstöðin á Fögrueyri ásamt öllum búnaði var seld til Chr. Salvesen & Co sem var skoskt hvalveiðifélag. Aldrei kom til álita af hálfu þess að hefja starf- semi á ný á Fögrueyri og sumarið 1908 var stöðin rifin niður og húsum og tækjabúnaði skipað um borð í flutningaskipið Coronda. Sumir telja þó að timbur úr Villunni hafi verið nýtt í íbúðarhús á Fáskrúðsfirði en þær sögu- sagnir eru á reiki. Coronda var svo siglt til Falklandseyja með viðkomu í Skotlandi. Stöðin var svo endurreist á New Island og kom fyrsti hvalurinn til vinnslu þar hinn 16. janúar 1909. Olaus Johansen var einn þeirra manna sem hafði tekið þátt í því að rífa stöð- ina á Fögrueyri og endurreisa hana á Falklandseyjum. Hann hafði orð á því hvað tækjabúnaðurinn á Fögrueyri hefði verið góður og nýstárlegur, og þá minntist hann sérstaklega á vél sem muldi bein, olíukynta beinasuðu, spikpressu og tólf pressukatla. Dr. Paul hafði ekki alveg sagt skilið við Ísland því hann sneri aftur og reisti síldarverksmiðju á Siglufirði 1926 og fóðurmjölsverksmiðju á Norð- firði árið 1927. Dr. Paul er talinn sá Þjóðverji sem mest hefur komið við íslenska atvinnusögu. Þeir sem vilja kynna sér félagið betur er bent á að hafa samband við greinarhöfund. Þeir sem vilja lesa sér betur til um Hvalstöðina á Fögrueyri er bent á bók Smára Geirssonar, Stórhvalveiðar við Ísland til 1915, sem kom út árið 2015. Sérstakar þakkir: Smári Geirsson. Villan, veiðistjórabústaðurinn. Vinkonurnar Anne Grohmann og Bertha Stapel á flensiplani stöðvarinnar sumarið 1905. Á flensiplaninu sumarið 1905. Steinsteyptar undirstöður véla og tækja hvalstöðvarinnar á Fögrueyri.

x

Franskir dagar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Franskir dagar
https://timarit.is/publication/1108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.