Morgunblaðið - 11.04.1979, Qupperneq 12
12
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 11. APRÍL 1979
Svíþjóð:
Stokkhólmi, 4. apríl,
frá önnu Bjarnadóttur,
fréttaritara Mbl.
Óhappið í kjarnorkuverinu í
Harrisburg, Pennsylvaniu,
getur haft mikil áhrif á stefnu
Svía í kjarnorkumálum í
framtíðinni. Ringhals 2, sem
er sænskt kjarnorkuver sömu
tegundar og í Harrisburg, hef-
ur þegar verið stöðvað. Reglu-
leg yfirferð af öryggisástæð-
um var áætluð eftir nokkrar
vikur en stjórn orkuversins
hefur nú flýtt henni og talið
er, að það geti dregizt að
kjarnorkuframleiðslan hefjist
að nýju í Ringhals 2.
Fram til þessa hafa 6 kjarn-
orkuver verið starfrækt í Sví-
þjóð og 2 eru fullbúin til
notkunar. Kjarnorkueftirlitið
samþykkti fyrir nokkru eftir
12 tíma fundahöld með 8 at-
kvæðum gegn 2 að framleiðsl-
an gæti hafizt í hinum nýju,
þó að ekki sé vitað, hvað gera
skal við geislavirkan úrgang
framleiðslunnar. Öðru nýju
kjarnorkuveranna, Ringhals 3,
svipar mjög til þess í Harris-
burg og ríkisstjórnin hefur
ákveðið að taka það ekki í
notkun vegna háværra radda,
sem nú hafa magnazt mjög
gegn kjarnorku.
Stefnubreyting hjá
jafnaðarmönnum?
Sænsk stefna um kjarnorku
hefur að undanförnu fyrst og
fremst snúizt um fjölda kjarn:
orkuvera framtíðarinnar. í
kosningabaráttunni 1976 var
Miðflokkurinn eini flokkurinn
sem mælti gegn allri kjarn-
orkuframleiðslu og hann bætti
miklu við fylgi sitt í kosning-
unum. í stjórnartíð flokksins
var þó 8. kjarnorkuverið full-
gert, en deila innan stjórnar-
innar um það, hvort hefja ætti
framleiðslu í 7. og 8. verinu án
þess að úrgangsvandinn væri
leystur, sprengdi stjórn borg-
arflokkanna í október sl. Áður
en óhappið varð í Harrisburg
voru íhaldsmenn, frjálslyndir
og jafnaðarmenn ásáttir um
að 12 kjarnorkuver skyldi
Frá kjarnorkuverinu í Harrisburg, Pennsylvaniu. Nýju kjarnorkuveri Svía, Ringhals 3, svipar mjög til þessa
kjarnorkuvers.
starfrækt í framtíðinni en
ekki fleiri.
Meðal þeirra sem nú í vik-
unni hafa krafizt þess að öll
kjarnorkuframleiðsla í land-
inu verði stöðvuð hafa verið þó
nokkrir jafnaðarmenn. Þing-
flokkur jafnaðarmanna mun
ræða í vikunni stöðuna í
kjarnorkumálum og Olof
Palme, formaður flokksins,
sagði á þriðjudag að ef áhætt-
an við kjarnorkuframleiðslu
reynist vera meiri en þeir
héldu, yrði að stöðva hana.
Rétt að bíða
frekari frétta
frá Harrisburg
Thorbjörn Fálldin, formað-
ur Miðflokksins, sagði í ræðu
þegar um helgina, að stöðva
ætti strax alla framleiðslu í
Ringhals 2. Ola Ullsten, for-
sætisráðherra, kvað rétt að
bíða frekari frétta frá Harris-
burg og dóms sérfræðings í
kjarnorkumálum áður en
nokkrar ákvarðanir yrðu tekn-
ar. Hann gagnrýndi Fálldin
fyrir að gera svo alvarlegan
atburð sem þann í Harrisburg
að flokkspólitísku máli svo
umsvifalaust.
Miðflokkurinn hefur undan-
farið safnað undirskriftum
þeirra sem krefjast þjóðarat-
kvæðagreiðslu um kjarnorku-
málin. Olof Johansson, fv.
orkumálaráðherra flokksins,
sagði á þriðjudag, að flokkur-
inn væri tilbúinn að falla frá
kröfu um þjóðaratkvæða-
greiðslu, ef óhappið í Harris-
burg verður til þess, að hinir
stjórnmálaflokkarnir breyta
stefnu sinni í orkumálum og
fleiri kjarnorkuver verði aldr-
ei starfrækt í Svíþjóð.
Danir láta
í sér heyra
Eitt sænska kjarnorkuver-
anna, Barsebeck, er á vestur-
strönd Svíþjóðar í aðeins 20
km fjarlægð frá Kaupmanna-
höfn. Þetta hefur vakið óró-
leika meðal Dana eftir atburð-
ina í Harrisburg. Samtök
kjarnorkuandstæðinga, vinstri
sinnaðri flokkarnir í danska
þinginu og Ekstrabladet hafa
hafið harða baráttu gegn
kjarnorku, sem þó er ekki
framleidd í Danmörku.
Ekstrabladet hefur krafizt
þess, að Barsebeck verði lagt
niður og birti með mynd af
beinagrind litlu hafmeyjunnar
(höfuðkúpu og efri hluta
beinagrindar, en síðan fiski-
bein og sporður) undir fyrir-
sögninni: „Stoppið dauðann
frá Barsebeck".
Á þriðjudag ræddi danska
stjórnin kjarnorkuframleiðsl-
una í Svíþjóð, en hefur ekki
mótmælt henni formlega.
Anker Jörgensen, forsætisráð-
herra, sagði eftir fundinn að
skoðanir dönsku stjórnarinnar
skiptu minna máli en Svíanna
sjálfra og benti á, að Barse-
beck væri ekki ýkja fjarri
Malmö, þriðju stærstu borg
Svíþjóðar.
Kjamorkan á erfiðara uppdrátt-
ar eftir óhappið í Harrisburg
Þjóðaratkvæðagreiðsla í Sví-
þjóð um kjamorku næsta vor
Stokkhólmi, 5. aprfl 1979 frá önnu
Bjarnadóttur, fréttaritara Mbl.
Jafnaðarmannaflokkurinn
srieri í dag við blaðinu í orku-
málum. Olof Palme, formaður
flokksins, tilkynnti á
blaðamannafundi, að flokkur-
inn væri nú hlynntur þjóðar-
atkvæðagreiðslu næsta vor um
kjarnorku og hann teldi ekki
rétt að gangsetja tvö nýfull-
gerð kjarnorkuver, sem enn
hafa ekki verið tekin í notkun.
Hingað til hafa jafnaðarmenn
eins og íhaldsmenn og frjáls-
lyndir verið andvígir kröfu
Miðflokksins og kommúnista
um þjóðaratkvæðagreiðslu um
kjarnorkuna. Stefnubreyting
Jafnaðarmannaflokksins er í
beinu framhaldi af óhappinu í
kjarnorkuverinu í Harrisburg,
Pennsylvaníu, sem hefur vakið
mikirin ugg og umtal hér
manna á meðal sem í öðrum
löndum.
Fram til þessa hafa
jafnaðarmenn verið hlynntir
kjarnorku og rökstutt stefnu
sína með því, að orkukreppa
og atvinnuleysi væri yfirvof-
andi, ef framleiðslan legðist
af. Nú vilja þeir að nefnd verði
sett á laggirnar til að athuga
enn betur en áður hefur verið
gert, hvort öryggi við kjarn-
orkuframleiðslu er fullnægj-
andi og síðan eigi þjóðin að
dæma í atkvæðagreiðslu um,
hvort kjarnorka skuli fram-
leidd hér áfram. Palme sagði í
dag, að rétt væri að halda
áfram skipulagningu nýrra
vera, ef niðurstaðan yrði sú að
framleiðslan sé nógu örugg til
að henni verði haldið áfram.
Ola Ullsten forsætis-
ráðherra tilkynnti einnig í dag
að ríkisstjórnin væri nú
hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslu
á næsta ári. Ullsten var einnig
á því, að sérstök nefnd skyldi
kanna öryggi við kjarnorku-
framleiðsluna. Formaður
Miðflokksins, Thorbjörn
Fálldin, fagnaði í dag nýrri
stefnu jafnaðarmanna og
frjálslyndra, en hann sagðist
vera ósammála Palme um að
rétt væri að halda áfram
undirbúningi nýrra kjarn-
orkuvera.
Auk Miðflokksins lagði
Vinstri flokkurinn,
kommúnistar, fram tillögu um
þjóðaratkvæðagreiðslu í þing-
inu fyrir nokkru, svo að Lars
Werner form. flokksins hafði
ekkert á móti stefnubreytingu
jafnaðarmanna. Formaður
íhaldsflokksins, Gösta
Bohman, sem telur kjarnorku-
framleiðslu í Svíþjóð nauðsyn-
lega fyrir atvinnulíf landsins,
sagði að flokkur hans mundi
nú að sjálfsögðu samþykkja
þjóðaratkvæðagreiðslu á
næsta ári eins og hinir
flokkarnir. Hann gagnrýndi
snögga stefnubreytingu
Jafnaðarmannaflokksins og
sagði hana eiga rætur sínar
rekja til óróleika flokksins
vegna yfirvofandi kosninga í
haust.