Morgunblaðið - 20.01.1980, Blaðsíða 22
22
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 20. JANÚAR 1980
Myndllst
eftir VALTÝ
PÉTURSSON
Mikil tíðindi hafa borizt af
Grænlandi. Landi því, er þar-
lendir kalla ýmist Kalaallit Nun-
aat, sem er opinbert nafn lands-
ins, eða INUIT NUNAAT, land
manna. Heimastjórn er fengin
og ráðin komin í hendur heima-
manna. Allt gekk þetta rólega
fyrir sig, engin bylting, ekkert
mannfall, enda Grænlendingar
gæðafólk og fráhverfir slagsmál-
um og illindum nema áfengi sé
með i spilinu, eir það er önnur
saga og á ekki erindi í þessar
línur.
I tilefni af því, sem hér er á
minnzt, hefur verið efnt til
sýningar á menningu þeirrar
þjóðar, sem byggt hefur eitt
harðbýlasta land heims um þús-
undir ára. Sumir kalla þetta
listsýningu, en mér er nær að
kalla þá sýningu, sem nú stendur
í Norræna húsinu, menningar-
sýningu, þar eð sú var tíð, að
hugtakið list var ekki til í
grænlenzku máli. Svo samrunn-
in var listræn tjáning hvers-
dagslífi þessa fólks, að orð um
þau efni voru óþörf og ástæðu-
laus. Það var ekki fyrr en
Evrópumaðurinn kom til skjal-
anna, að farið var að tala um list
á Grænlandi. Við, sem erum
orðin margþreytt á alls konar
þvaðri og skrípalátum í nafni
listar, hljótum að öfunda það
fólk, sem svo vel er af náttúr-
unni gert að hafa ekki þurft að
eiga hugtakið list í máli sínu. Og
ef við svo berum nafnið Land
manna saman við nafnið Græn-
land? Hvílíkur munur á póesíu!
Þúsundir dæma á þessa leið
mætti nefr.a, en ætlunin er
einungis sú, að minnast ofurlítið
á grænlenzku sýninguna, sem
gistir höfuðstað okkar fyrstan
áfangastaða á langri ferð um
Norðurlönd. Þórshöfn í Færeyj-
um er næst á ferðaáætlun og
síðan hvert Norðurlandanna eft-
ir annað.
Fyrir um það bil þremur árum
var hér á ferð sýning á list
Grænlendinga. Var sú sýning
aðallega á þeirri list, sem nú er
stunduð meðal þeirra, en sýning-
in, sem nú stendur í Norræna
húsinu, er henni frábrugðin að
því leyti, að þar er sýnd gömul
hefð, jafnt þeirri endurnýjun,
sem nú á sér stað í listsköpun á
Grænlandi. Á sýningunni eru
um tvö hundruð munir, og eru
J>eir svo fjölbreyttir að náttúru
og allri gerð, að ekki verður farið
nánar út í þá sálma hér. Þarna
er skorið í bein, telgt í tré og
stein, saumað í þjóðbúninga og
skreytt með perlum, dansgrímur
anda frá sér galdri og seiðmagni;
þarna eru tréskurðarmyndir,
krítarmyndir og olíumálverk. Af
þessari upptalningu má sjá, að
sitthvað er að finna á þessari
sýningu. Þó mun ég engan veg-
inn hafa allt talið og gríp því til
þess ráðs að segja sjón sögu
ríkari.
Grænlenzk list er töfrandi á
margan hátt. Hún er upprunaleg
og eðlileg, gegnir ákveðnu hlut-
verki í mannlífinu, er göldrótt og
þjónar margvíslegum tilgangi
Hópmynd, skorin í hvalbein af Simon Kristoffersen 1972.
Inuit Nunaat
við hversdagsleg störf og á
áhrifaríkari augnablikum. Þegar
talað er um gildi listar fyrir
daglegt líf á Grænlandi má
nefna sem dæmi þá fjölmörgu
verndargripi (amulettur), sem
enn í dag eru snar þáttur í lífi
þjóðarinnar. Túpilakkar eiga
sér merka sögu og hafa löngum
verið mjög virkur þáttur í hug-
myndaheimi Grænlendinga.
Túpilakkar eru nú yfirleitt
skornir í hvaltennur, en voru
áður fyrr gerðir úr alls konar
forgengilegu efni. Á sýningunni
gefur að líta elzta túpilakk, sem
varðveittur er, og er hann tó
ekki ýkja gamall. Vonandi fylgir
mynd af honum með þessuin
línum. Túpilakkurinn er oft
gerður í líkingu manns og dýrs
og jafnvel sjálfrar náttúrunnar.
Hann er svo merkilegur galdra-
gripur, að hann getur tortímt
þeim, sem ekki eru þess verðugir
að varðveita hann. Ég hef til
dæmis orðið fyrir því, að Græn-
lendingur hefur ekki viljað láta
túpilakk af hendi við kaupanda,
á þeim forsendum að sá, er
eignast vildi, væri ekki þess
verður, að honum væri trúandi
fyrir þeim krafti, sem fylgdi
gripnum. Þetta er enn trúa
sumra manna á Grænlandi, enda
þótt kristin trú hafi verið þar
alls ráðandi í meira en tvö
hundruð ár.
Á sýningunni eru ágætir
maskar eða dansgrímur, sem
vöktu mikla aðdáun mína. Það er
sjaldgæft, að maður reki sig á
jafn góða gripi og þarna eru
saman komnir, enda munu þeir
fengnir víða að. — Þarna eru
einnig mjög fallegar vatnslita-
myndir í póstkortastærð eftir
Jakob Danielsen, sem ef til vill
mætti nefna Kjarval þeirra
Grænlendinga, en hann var
mjög sérkennilegur og skemmti-
legur maður, sem margar sögur
eru sagðar af, einkum þó um
viðhorf hans til listar. Þá má
nefna Aron frá Kangeq, sem
einnig er afburða listamaður,
ólíkur Danielsen, en af sama
uppruna. Þá eru þarna tréskurð-
armyndir eftir Egon Paulsen í
Kulusuk og ekki má gleyma
bjarndýri Vilhelms Kuitse, hins
kunna trommudansmeistara og
stórveiðimanns, en margir
íslendingar munu kannast við
ekkju hans í Kulusuk, Milke,
sem enn skemmtir ferðamönn-
um með hefðbundnum dansi,
klæðist þjóðbúningi og greiðir
hár sitt á gamla vísu. Benda
mætti á marga aðra listamenn,
t.d. Aron Kleist, Simon Kristoff-
ersen, Rosing, Aka Höegh, Jens
Kreutzmann og Karl Kristoffer-
sen, en hér verður að stikla á
stóru, og vísa ég því til ágætrar
sýningarskrár, sem gerð hefur
verið á grænlenzku, dönsku og
finnsku, en af þeim málum mun
aðeins eitt koma okkur að
nokkru gagni. í riti þessu eru
formálar og greinar, vel þess
virði, að lesið sé.
Óhugsandi er að minnast á
þessa sýningu án þess að geta
starfa Bodil Kaalund, sem átt
hefur hvað drýgstan þátt í að
hleypa sýningunni af stokkun-
um. Bodil Kaalund hefur að vísu
ekki skapað neinn af þeim grip-
um, sem á sýningunni eru, en
hún hefur sett svipmót sitt á
hana, enda er hún mjög vel að
sér um grænlenzka list og hefur
nýverið gefið út ágæta bók, þá
fyrstu, sem gefin hefur verið út
um gamla og þróaða list á
Grænlandi. Hún átti einnig mik-
inn þátt í þeirri sýningu, sem var
hér á ferð fyrir nokkrum árum,
og nú hélt hún fyrirlestur hér í
Norræna húsinu. Var hann mjög
vel sóttur og vitnaði um þann
áhuga, sem virðist ríkja hér á
landi, fyrir list granna okkar í
vestri.
Fyrir nokkrum árum var svo
komið fyrir þeim, er þessar línur
ritar, að menningarvíma sú, er
hann hafði í sig drukkið í
Evrópu og víðar, var farin að
valda þreytu, eins konar menn-
ingarlegum timburmönnum. Þá
var það, að leiðir mínar lágu til
grænlenzkrar listar. Ekki þarf
að orðlengja það, að sú snerting
varð fljót að lækna þá timbur-
menn. Líf mitt fékk bókstaflega
nýtt innihald, og trú mín á
listina og hlutverk hennar í
daglegu amstri endurnærðist
svo, að hún hefur ekki haggast
síðan. Ég veit ekki, í hve mikilli
þakkarskuld ég stend við græn-
lenzka list, en ég veit þó, að það
er ekkert lítilræði. Heppinn hef
ég verið og lánsamur að geta
veitt mér þá ánægju og lífsfyll-
ingu að hafa á heimili mínu
svolítið af þessum hlutum. Fyrir
það eitt væri mér skylt að þakka
því fólki, sem næstir eru grann-
ar okkar í vestri, því fólki, sem
lifað hefur af allar hörmungar
þess undurfagra lands, sem það
elskar svo, að búseta í öðrum og
blíðari löndum kemur vart til
mála. Á Grænlandi býr fólk, sem
umgengst list á svo sjálfsagðan
hátt, að það tekur ekki eftir því,
að um listaverk er að ræða, fólk,
sem trúir svo á mátt listarinnar,
að það fer varlega í að láta hana
af hendi.
Eins og öllum er kunnugt, er
okkur íslendingum gjarnt að
meta verðugleika okkar í saman-
burði við aðrar þjóðir eftir
höfðatölu. Hver kannast ekki við
gáfuðustu þjóð í heimi og annað
þess háttar? En hvað gerist nú,
er við kynnumst við menningu
þjóðar, sem ekki nær einum
fjórða höfðatölu okkar sjálfra.
Ætli Grænlendingar hafi ekki
víða vinninginn, er höfðatölu-
reglunni er beitt. Varasöm
vísindi, höfðatölureglan!
Víst mætti margt um þá
sýningu rita, sem nú er að hefja
för um Norðurlönd, en ég læt
þessar línur nægja. Þær gera
hvorki einu né neinu skil, en eru
aðeins ætlaðar sem kveðja með
góðum óskum um farsæla reisu,
og í lokin vonast ég til, að
enginn, sem áhuga hefur á
menningu og myndlist, láti þetta
tækifæri ónotað til að hafa
nokkur kynni af því fólki, er
kallar land sitt INUIT NUN-
AAT.