Morgunblaðið - 01.11.1980, Page 19
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 1. NÓVEMBER 1980
19
á háalofti heima hjá móður minni
og datt mér ekki í hug að þetta
væri neitt annað en skítug kross-
viðsplata, tók hana samt niður og
þvoði og hreinsaði og í ljós kom
brún kyrralífsmynd er ég gerði
1950 — sú mynd seldist við opnun
sýningarinnar á hálfa milljón
króna. Þetta sýnir í hnotskurn
ræktarsemi mína og virðingu fyrir
gömlum myndum fram til þessa ...
Myndverkasmiðurinn ræskir sig,
hvessir á mig augum og segir
dimmum rómi: Mér þykja spurn-
ingar þínar nokkuð nærgöngular
og að þú viljir þrengja mér út í
horn, þetta er ykkur gagnrýnend-
um líkt, sem eruð líkt og geld-
ingarnir „vitið hvernig á að gera
það, en getið það bara ekki“.
Gagnrýnandinn: Þetta er nú ekki
allskostar rétt, sumir okkar hafa
a.m.k. stungið þumalfingrinum í
gegnum gatið á pallettinu líkt og
Denis Diderot orðaði það svo
snilldarlega forðum daga. Þið mál-
ararnir skammið okkur óvægilega
og ykkur væri hollast að rækta
þennan vettvang um tíma, þið
kæmust vísast á aðra skoðun á
listrýni almennt. Stóryrtasti mál-
ari í okkar garð sem ég man eftir,
er raunar taldi okkur aldrei
skamma félaga sína nóg tók eitt
sinn upp á því að skrifa sjálfur, þá
gerist það, að hann var í skrifum
sínum líkt og músin sem læðist og
gafst raunar fljótlega upp. Hefur
ekki verið jafn kokhraustur síðan.
Það þarf nefnilega hugrekki í þetta
starf og vænlegast, að vera í góðri
líkamlegri þjálfun, stunda böð,
aflraunir og karate, og hvar væruð
þið staddir ef við héldum ekki uppi
rökræðum um þessi mál? Annars
tel ég mesta hrósið sem ég hefi
fengið fyrir skrif mín vera er
málari nokkur sagði við vin minn
einn í veizlu úti í Kóngsins Kaupin-
havn: „Hann Bragi er ekki eins
vitlaus og ég hélt,“ en sá hinn sami
hafði einmitt fyrir skömmu fengið
vinsamlegan listdóm frá minni
hendi í fyrsta skipti!
Myndverkasmiðurinn: Sagðir þú
vinsamlega krítík? Ég hélt nú að
aimennt væri álitið að þú skrifaðir
vel um alla.
Gagnrýnandinn: Það er tóm
tjara og stafar vísast af því að
menn kunna ekki að lesa í gagnrýni
mína — um átakamikla sýningu
skrifa ég átakamikla gagnrýni og
svo öfugt, gagnrýni speglar sýn-
ingarnar og maður verður stöðugt
að vera minnugur þess, að verið er
að skrifa á Islandi, ekki í Kaup-
mannahöfn, London, París eða New
York. Aðalatriðið er að koma
skoðunum sínum á einhvern hátt
til skila, standa fast við þær og láta
í engu troða sér um tær. En heyrðu
mig, þetta er orðið nokkuð langt
spjall en áður en við setjum punkt
fyrir þetta langar mig til að spyrja
þig, hvort þú sért ánægður með
sýninguna í heild?
Nei, ég er aldrei ánægður og
megingalli hennar, sem ég tel
mistök og skort á hugrekki, er að
ég skyldi ekki festa mér húsið í
heilan mánuð. Þá hefði ég getað
gefið mér lengri tíma til að hengja
upp, safna saman myndum og
ganga frá öllum smáatriðum, út í
slíka eldraun fer ég ekki næstu 33
árin a.m.k. ekki í þessu formi.
Gagnrýnandinn stendur upp,
finnur stingandi augnaráð mynd-
verkasmiðsins hvíla á sér, spýr sér
því við og segir: Þú sagðir 33 ár, má
ég þá gera ráð fyrir því að þú
haldir yfirlitssýningu 66 ára ferils
þíns í myndlistinni.
Myndverkasmiðurinn: Vissulega,
ef ég verð ofan jarðar og mig
langar til að trúa því, vegna þess að
það er langlífi í minni ætt þótt
ýmsir hafi látist fyrir aldur fram
úr smitpestum og einhverri óáran
— einn féll í fyrri heimsstyrjöld-
inni, nánar tiltekið við Verdun og
það lækkaði meðalaldurinn all-
nokkuð enda maðurinn kornungur.
Gagnrýnandinn: Má ég bóka, að
ég fái þá viðtal við þig í Morgun-
blaðið? Já, vissulega svarar mynd-
verkasmiðurinn — við sjáumst
aftur.
Au revoir monsicur artiste
peintre.
— A rividcrtla il signore criticis-
simo.
Rætt við Ólaf Jóhannesson, utanríkisráðherra
Hönnun nýrrar flug-
stöðvar lýkur um
miðjan nóvember
Varnarliðsframkvæmdir líklega fyrir
15—20 milljónir dollara á næsta ári
— ÉG Á VON á því, að varið verði 15—20 milljónum
dollara á næsta ári til framkvæmda í þágu varnarliðsins
á Keflavíkurflugvelli, sagði Ólafur Jóhannesson, utanrík-
isráðherra, þegar rætt var við hann í gær meðal annars í
tilefni þess, að í næstu viku munu fulltrúar í varnarmála-
nefnd fara til fundar í Norfolk í Bandaríkjunum um
framkvæmdir varnarliðsins á næsta ári. Sagði utanríkis-
ráðherra, að þessi fjárhæð, sem hanfi nefndi, væri á sama
bili og framkvæmdaféð undanfarin ár. Ráðherrann vildi
ekki nefna neina ákveðna tölu, þar sem fundirnir í næstu
viku væru einmitt til að ákvarða hana.
— Staðan í flugstöðvarmálinu
er nú sú, sagði utanríkisráðherra,
að hönnuðir telja sig þurfa tímann
fram í miðjan nóvember til að
ganga endanlega frá tillögum sín-
um. Fjármögnun byggingarinnar
verður ekki sérstaídega til um-
ræðu á fundinum í næstu viku, þar
sem um það var samið í tíð
ríkisstjórnar Geirs Hallgrímsson-
ar, hvernig kostnaði yrði skipt
milli Bandaríkjamanna og íslend-
inga. Munu Bandaríkjamenn
greiða allan kostnað utandyra, þ.e.
lagningu brauta að stöðinni,
eldsneytisleiðsluna og annað slíkt.
Kostnaðinum við bygginguna
sjálfa verður skipt milli þjóðanna.
— Verður ætlað fjár til bygg-
ingarinnar á lánsfjáráætlun ríkis-
stjórnarinnar fyrir árið 1981?
— Ég mun leggja það til innan
ríkisstjórnarinnar, sagði Ólafur
Jóhannesson, að á lánsfjáráætlun
verði gert ráð fyrir fjármagni til
nýrrar flugstöðvar. Samkvæmt
stjórnarsáttmálanum verða allir
aðilar stjórnarsamstarfsins hins
vegar að samþykkja þá tillögu svo
að hún nái fram sem stefna
ríkisstjórnarinnar. Bandaríkja-
þing hefur ekki enn samþykkt
fjárveitingu til framkvæmdanna
og verður það ekki gert fyrr en
nýkjörið þing þeirra kemur sam-
an. Sagt hefur verið, að ekki sé
neinnar fyrirstöðu að vænta á
Bandaríkjaþingi.
— Þegar ég tók við embætti
utanríkisráðherra, lagði ég til við
byggingarnefnd flugstöðvarinnar,
að hún endurskoðaði áform sín um
stærð hússins. Það hefur verið
gert, en ýmsum kann þó að sýnast
byggingin of stór. Ég tel nauðsyn-
legt, að reist sé ný flugstöðvar:
bygging á Keflavíkurflugvelli. I
fyrsta lagi tryggir það þann að-
skilnað milli almennrar starfsemi
og hernaðarstarfsemi á vellinum,
sem menn stefna að. Og í öðru lagi
tel ég núverandi flugstöð algjör-
lega ófullnægjandi. Verði hafist
handa á næsta ári, gæti nýja
stöðin orðið tilbúin 1983.
— Hvað miðar áformum um að
nýta eldsneytisgeyma fyrir varn-
arliðið í Helguvík?
— Á næsta ári mun verða fyrir
hendi fjármagn til að hefja
hönnum hinna nýju mannvirkja.
Því verki verður varla lokið fyrr
en svo seint á árinu 1982, að ekki
verði af tæknilegum ástæðum
unnt að hefja framkvæmdir fyrr
en á árinu 1983. Málið kemur til
ákvörðunar íslenskra yfirvalda,
þegar hönnun er komin á góðan
rekspöl og ákveða verður hve
marga nýja geyma skuli smíða, en
nefndin, sem um málið fjallaði,
gerði tillögu um 12.
Jan Mayen
og Sovétmenn
— Hafa íslensk stjórnvöld grip-
ið til einhverra aðgerða vegna
kröfu Sovétmanna á hendur Norð-
mönnum um veiðiheimildir við
Jan Mayen?
— Já, sendiherra okkar í Osló
fylgist með þessu máli og hefur
sent okkur skýrslu um það. Hon-
um hefur verið falið að mælast til
þess við Norðmenn, að málið verði
tekið fyrir í sameiginlegri fisk-
veiðinefnd þjóðanna.
— Það eru ekki uppi kröfur um,
að Islendingar taki beinlínis þátt í
viðræðunum?
— Nei, enda höfum við viður-
kennt lögsögu Norðmanna á svæð-
inu.
— Hafa Sovétmenn farið fram
á að veiða kolmunna innan ís-
lensku lögsögunnar eins og þeir
krefjast við Jan Mayen?
— Ég vil orða þetta svar þann-
ig, sagði utanríkisráðherra, að
Sovétmenn hafi tæpt á málinu.
— Hvernig miðar störfum hafs-
botnsnefndarinnar, sem þeir eiga
sæti í Elliot Richardson, Jens
Evensen og Hans G. Andersen og
á að gera tillögur um skiptingu
landgrunnsins milli Islands og Jan
Mayen?
— Nefndin hefur starfað eins
og um var samið í vor. Á þessu
stigi er ekki unnt að segja fyrir
um það, hvenær hún lýkur störf-
um og svo kynni að fara, að hún
þyrfti lengri tíma en þá fimm
mánuði, sem miðað er við í
samkomulaginu.
Viðræður við EBE
— Hvað um viðræður íslands
og Efnahagsbandalags Evrópu um
fiskveiðimál?
— Nú um helgina fara embætt-
ismenn frá okkur til viðræðna við
fulltrúa Efnahagsbandalagsins í
Brússel. Hannes Hafstein, skrif-
stofustjóri, er formaður nefndar-
innar, en auk hans fara Jón
Arnalds, ráðuneytisstjóri, Már
Elísson, fiskimálastjóri og Jakob
Magnússon, fiskifræðingur. Þetta
eru könnunarviðræður og af okkar
hálfu er megináherslan lögð á
fiskvernd, en auðvitað koma fisk-
veiðar einnig til umræðu, því að
þar höfum við nú meiri hagsmuna
að gæta en áður vegna útfærslu
lögsögunnar við norðurströnd
Austur-Grænlands og áhuga á
rækjuveiðum innan grænlensku
lögsögunnar. Eftir þessar viðræð-
ur munu málin liggja skýrar fyrir
til ákvörðunar hjá viðkomandi
aðilum hér á landi.
Madrid-fundur
— Nú hafa um nokkurra vikna
skeið farið fram viðræður í Mad-
ólafur Jóhannesson
utanríkisráðherra
rid milli aðildarríkja Helsinki-
samþykktarinnar um öryggi í Evr-
ópu til undirbúnings framhalds-
ráðstefnu um frið og öryggi í
Evrópu. Hvað vilt þú segja um það
mál?
— Um þetta mál er það að
segja, að náið hefur verið fylgst
með undirbúningsráðstefnunni af
hálfu utanríkisráðuneytisins. Ni-
els P. Sigurðsson sendiherra situr
fundina, sem nú fara fram í
Madrid. Ráðgert er, að sjálf ráð-
stefnan hefjist þar 11. nóvember,
en þunglega þykir horfa um sam-
komulag um dagskrá þeirrar
ráðstefnu. Um það hefur verið
rætt, að utanríkisráðherrar þeirra
35 landa, sem hér um ræðir, sæktu
ráðstefnuna, en allt er óljóst um,
hvort af því verður eða hvenær.
— Hver er tilgangurinn með
ráðstefnunni?
— Jú, hún er haldin í samræmi
við ákvæði Helsinki-samþykktar-
innar frá 1975. Þar er gert ráð
fyrir því, að reglulega verið komið
saman til að fylgjast með fram-
kvæmd samþykktarinnar. Var á
árinu 1977 haldinn fundur í
Belgrad í því skyni. Deilurnar um
dagskrána núna snúast einkum
um það, að Austur-Evrópuríkin
vilja takmarka umræðutíma um
einstaka þætti Helsinki-sam-
þykktarinnar, en Vesturlönd
leggja á það áherslu, að umræður
verði ekki skornar niður vegna
slíkra tímamarka.
— Þú ert nú um helgina á
förum til Búlgaríu. Hvers eðlis er
sú ferð?
— Hér er um kurteisisheim-
sókn að ræða í framhaldi af
slíkum heimsóknum fyrr á árum,
en Todor Zhivkov, forseti Búlg-
aríu, hefur komið hingað til lands
og einnig utanríkisráðherra lands-
ins. Á sínum tíma fór Emil
Jónsson utanríkisráðherra í opin-
bera heimsókn þangað.
— Hvað vilt þú segja um stöð-
una í alþjóðamálum nú um stund-
ir?
— Ég segi það eitt, að and-
rúmsloftið er lævi blandið.
— Að lokum utanríkisráðherra,
í Morgunblaðinu í morgun, föstu-
dag, er því haldið fram, að þú
hafir í sumar boðið Benedikt
Gröndal sendiherraembætti. Er
þetta rétt?
— Fyrir þessu er enginn fótur.
Síst af öllu, að ég hafi með þessum
hætti verið að blanda mér í
innanríkismál Alþýðuflokksins.
Þjóðleikhúsið:
„í öruggri borg44
HUSFYLLIR hefur verið á allar
aukasýningarnar á leikriti Jök-
uls Jakobssonar, í ÖRUGGRI
BORG, á Litla sviði Þjóðleik-
hússins. Verður nú hægt að
koma einungis tveimur aukasýn-
ingum í viðbót fyrir, og er það
hægt með því að fresta um
nokkra daga frumsýningu á
næsta verkefni Litla sviðsins
sem er leikrit Valgarðs Egilsson-
ar, Dags hríðar spor. Þessar
síðustu aukasýningar á í ÖR-
UGGRI BORG verða á morgun,
sunnudaginn 2. nóvember kl.
15.00 síðdegis (ath. óvanalegan
tíma), og þriðjudaginn 4. nóv-
ember kl. 20.30.
Leikendur í í ÖRUGGRI
BORG eru Helga Bachmann,
Þorsteinn Gunnarsson, Bessi
Bjarnason, Bríet Héðinsdóttir og
Erlingur Gíslason.
„í öruggri borg“: Bríet Héðinsdóttir, Bessi Bjarnason, Þorsteinn
Gunnarsson og Helga Bachmann i hlutverkum sinum.