Morgunblaðið - 30.08.1981, Blaðsíða 1

Morgunblaðið - 30.08.1981, Blaðsíða 1
Sunnudagur 30. ágúst Bls. 49—80 Jóhannes Sveinsson Kjarval var glæsilegur á velli, hár vexti, vel eygður og andlitsfall svipmikið og frítt. Hárið lifandi og hönd hans sérstaklega faileg. Limaburður allur samsvaraði sér mjög vel, og það sópaði að þessum einstæða persónuleika, hvar sem hann fór. í hreyfingum gat Kjarval verið eldsnöggur, göngulagið ákveðið og virðulegt, sérstaklega ef hann var á ferli í miðborginni. Það var sérlegur stíll yfir allri framkomu hans, og hvar sem hann kom varð hann ætíð sá brennipunktur, sem allt snerist um. Þannig varð hann afar eftirminnilegur þeim, er höfðu einhver kynni af honum, og hann komst ekki hjá því að eignast aðdáendur og vini, hvar sem hann fór. Hann töfraði þá, er voru í návist hans, og það sópaði jafnan að þessum rismikla einstaklingi. Rödd hans var djúp og þróttmikil, og hann hafði einkennilega lifandi frásagnargleði, sem margir kunnu því miður ekki að meta að verðleikum og álitu á stundum, að hann færi aðeins með spé og kátínutal. Flestir af elztu vinum hans voru sammála um, að á yngri árum hefði Kjarval verið afar alvörugefinn ungur maður, en það tók breytingum með aldrinum. Á efri árum átti hann það til að gera sér og öðrum ýmislegt óvenjulegt til skemmtunar og dægradvalar. Hann iðkaði þá happenings, uppákomur og performansa, sem voru langt á undan sinni tíð. Hann orti, skrifaði og jafnvel söng. Ég man eftir honum eitt sinn, er hann var að enda við stórt og merkilegt málverk í vinnustofu sinni við Njálsgötu. Mig bar þar að í rökkri, og átti ég brýnt erindi við Kjarval. Það var opið út á hlað, hvergi læstar dyr, og áður en ég sá Kjarval, heyrði ég, að hann söng við raust gamla íslenzka stemmu — eða var það heimatilbúið, sem hann brá fyrir sig, er skapið var í háum hæðum? Hvað um það, þarna í rökkrinu sat meistarinn fyrir framan léreft, er varla var sýnilegt í því ljósi og kyrjaði sína músík af mikilli tilfinn- ingu og ánægju. „Komdu inn,“ sagði hann. „Sérðu, er þetta ekki bara Gilligogg hjá mér?“ „Málverkið eða söngurinn?" spurði ég. „Málverkið og auðvitað söngurinn með. Eggert Stefánsson kenndi mér að syngja hér á árunum, er við fórum í 5-bíó á hverjum degi, og hann hélt því fram, að hann væri mesti söngvari fyrir norðan Alpa. Svo var það hann Ingimundur bróðir." Já, hann Eggert. Hann var aldeil- is stórkostlegur, hann Eggert vinur minn, enda var hann insperreraður af sjálfum Renesansanum, León- ardó og þeim köllum, hann var stórkostlegur Gilligogg, þegar svo bar undir. Ég skal segja þér nokkuð: Hann Eggert var fæddur með skútukúltúr, og það var ekki neitt smásmíði. Hann sá stjörnur og tungl, hann gat grátið yfir moldu fífils, hann var afskaplega súperin- tellígens og Gilligogg um leið. Hann Eggert var eins og lóan hjá Tómasi, hann var alltaf að undirbúa kon- sertinn á morgun. Það er mikil speki í því og lærist ekki nema í sterku radíóaktívíteti við Renesans og skútukúltúr. Þarna sérðu! Þetta er galdur, sem enginn kann nema vinur minn og bíófélagi, Eggert. Svo syngjum við seinna, því eins og stendur verður að undirbúa kon- sertinn á morgun. Svona geta menn lært af fuglunum. Rjúpan er gáfuð og lóan er afskaplega, afskaplega, afskaplega vitur. Ef allir söngvarar lærðu af lóunni, sko, væri veröldin miklu skemmtilegri, sko, og blíðari í viðmóti, sko. Þetta skildi vinur minn, Eggert. Já, það er fullkomið lífsstarf að vera maður.“ Ég verð að játa, að í þetta sinn tókst mér ekki að sjá, hvað Kjarval var að mála, en sönginn heyrði ég og var sammála Eggert, að hann væri bara nokkuð góður. Ekki veit ég hvort einhver á segulband með söng meistarans, en gaman væri, ef svo skemmtilega vildi til. Hann söng oftar í mínu minni, en einungis ef hann var i góðu skapi. Ekki man ég, hvernig okkar fyrstu fundum bar saman, Kjarvals og mín. En ég mun hafa verið á tólfta eða þrettánda ári. Það var á þeim árum, er ég var sjálfstæður atvinnurekandi og seldi Vísi í miðbænum. Það voru dýrðlegir dagar: bíó á hverjum sunnudegi og auraráð nokkuð betri en stundum síðar á lífsleiðinni, en það mun hafa átt við um okkur báða, Kjarval og mig. Snemma á blaðsöluferli mínum varð Kjarval fastur kúnni minn og fékk hjá mér Vísi á hverjum degi. Þannig hófust okkar kynni, og á þessum árum kom ég hér um bil daglega í vinnustofu hans efst uppi í Austurstræti 12, en þá vinnustofu hélt hann til síðasta dags, og þar voru allir veggir skreyttir í loft og gólf. Teiknað á hvern blett, og oft hefur mig furðað á því seinna meir á ævinni, hvernig hann gat málað málverk í öllu því margslungna ævintýri, er þessi vinnustofa var. Á miðju gólfi stóð stórt og mikið járnrúm og í því heljar mikið brekán. Fyrir ofan rúmið var þvottasnúra strengd milli horna í vinnustofunni og ekki ótítt, að á henni hengju ullarnærföt til þerris. Það voru vinnuföt Kjarvals, en á þessum árum átti hann það til að liggja úti við fyrirmyndir sínar. Mér er hann sérstaklega minnisstæður, er hann kom úr einni slíkri tveggja vikna útilegu uppi undir Vífilfelli og hafði þá nærzt á harðfiski og flatbrauði þar í tjaldi í sjálfu skammdeginu. Hann var mikilúðlegur á að sjá í feiknlegri úlpu, er var reyrð með sveru snæri um hann miðjan og tilheyrandi málningarklessur um buxur og yfirhöfn. Ég man, er hann sté út úr bifreið fyrir framan Austurstræti 12, og hann og bílstjórinn handlönguðu málverkum og segii fullu af litum og tjaldi inn um dyrnar á þessari virðulegu verzlunarbyggingu. Hafi maður nokkru sinni séð útilegumann í Austurstræti, þá var hann þarna. Skeggbroddarnir jafn úfnir og hár meistarans og allt fas enn stórkostlegra en þegar Erlendur Pétursson lék Skugga-Svein í KR-húsinu við ógnarlega skelfingu og mikla að- dáun hér á árunum. Það var norð- angarri í Gilligogg. En það var einmitt þessi pressen- ing eða segl, sem var vafið um pensla og liti, sem ég man eftir í þessari vinnustofu Kjarvals. Einn tágastóll var þarna einnig, en ekki man ég eftir öðrum húsgögnum, nema hvað eitthvað var af pappa- kössum, og í þeim vissi ég aldrei, hvað var. Úrklippur úr dagblöðum voru um alla veggi, bólað yfir teikningarnar, og man ég eftir prentmynd af Einari Ben er pinnuð var yfir heljar mikla skútu, er Kjarval hafði teiknað með svörtu koli. Oft kom ég í þessa vinnustofu, og oft voru dyr opnar, jafnt hvort meistarinn var upptekinn við vinnu eða hellandi í tebolla. Eins og áður er getið, var Kjarval fastur viðskiptavinur, og stundum átti hann ekki fyrir blaðinu, en þá var honum lánað, og engum eyri tapaði ég á þeim viðskiptum. Ég var forvitinn að eðlisfari og gjarn á að hnýsast í það, sem Kjarval var að vinna. Hann tók því veí og vissi, að ég hafði afar gaman af að teikna og fara með liti. Því var það, að hann skenkti mér teikningu eða vatns- litamynd og sagði mér að gæta vel. En það var ekki þetta, sem gerði Kjarval að vini og félaga, heldur hvað honum gat stundum dottið í hug. Öll þau uppátæki, sem hann var með á prjónur.um og hvað hann var frábrugðinn öllu því, er maður var vanur frá öðrum. Ég hafði ekki gert mér neina grein fyrir því á þessum árum, að ég hafði eins gaman að myndum og síðar kom í ljós. En ég man það vel, hve undarlega Kjarval var natinn við að sýna mér það, sem ég var hnýsnast- ur í. Verkin, sem hann var að vinna, og það, sem ég man eftir í þessari vinnustofu hans, hefur algerlega horfið, og ég hef ekki rekizt á neitt, er ég man eftir frá þessum árum, er hann var að vinna. Ég minntist eitt SJÁ SÍÐUR fi4—65

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.