Morgunblaðið - 30.08.1981, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 30.08.1981, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 30. ÁGÚST 1981 59 fæðuöflun og landvarnir um skeið. Yfirleitt hafa refir verið taldir einkvænisdýr, og það kom mér því nokkuö á óvart, þegar ég varð var við það, að reglan í Ófeigsfirði var sú, að það væru tvær læður á hverju umráðasvæði ásamt hverj- um stegg. Við nánari athugun kom samt í ljós, að hér var ekki um raunverulegt tvíkvæni að ræða, heldur var önnur læðan á hverju svæði ársgamalt afkvæmi hinna tveggja. Þessar læður voru geldar, en aðstoðuðu foreldrana við að færa yrðlingunum fæðu fyrstu vikurnar, en hurfu svo á braut, þegar þær voru ca. 14 mánaða gamlar og áttu sína eigin yrðlinga annars staðar, þegar þær voru tveggja ára gamlar. Þetta er sennilega sjaldgæft fyrirbæri fyrir stofninn í heild, og líklegasta skýringin er sú, að fæðumöguleik- ar á umráðasvæði foreldranna fyrsta veturinn ráði því hvort Samkvæmt lögum hér á landi er tófan meindýr og i hvers manns landi óheillög. Ekki ber þó mikið á nvillidýrseðlinu“ hjá þeim yrðl- ing sem stúlkan heldur á hér á myndinni. ungu læðurnar fari að heiman þá eða seinna." Fæði tófunnar „Það er mikill misskilningur, að tófan lifi mikið á sauðfé. Sannleik- urinn er sá, að heyrir til undan- tekninga, þegar tófa leggst á sauðfé. Það var hins vegar algeng- ara hér áður fyrr, þegar féð var ekki eins vel hirt og þurfti að ganga úti mikið til á vetrum og var oft illa á sig komið og veikburða og átti þar af leiðandi erfitt með að verja sig. Þá eru fráfærur hættar og lömb með mæðrum sínum og því ekki eins varnarlaus. Það er heldur ekki hægt að útiloka, að fækkun refa hafi einhver áhrif. Islenski refurinn er mikill tæki- færissinni. Það kom til dæmis í ljós, að í Ófeigsfirði var aðalfæðan að vetrinum sjórekinn svartfugl, en rjúpa skipti minna máli. Á vorin var talsvert étið af hrogn- kelsi og eggjum og ungum mó- fugla. Æðarfugl skipti litlu máli, enda var varpið í eyjum óaðgengi- legt fyrir tófuna. Þegar líður á sumarið eru ber mikið étin, auk lirfu og púpu þangflugunnar. Mar- flær og kræklingar eru étnir. Hagamýs eru étnar, en skipta ákaflega litlu máli fyrir tófuna þarna. Þá eru selshræ étin, bæði undanvillingskópar á vorin og hræ fullorðinna sela, sem reka annað slagið. Það er sannarlega ekki hægt að segja um tófuna, að hún sé matvönd. Yfirleitt má segja um tófuna, að hún éti það, sem fyrir hendi er á hverjum stað. Þannig lifir hún víða á bjargfugli, enda er hún ótrúlega fær í klettum, minn- ir helst á ketti, hvað klifurhæfi- leika áhrærir. Víða á Austurlandi eru hreindýrahræ mikilvæg fæða, og annars staðar gæsir yfir sumartimann. Rjúpan er langmikilvægasta fæðutegund tófunnar yfir vetr- armánuðina um mestallt land. Hins vegar snýr hún sér meira að mófuglum yfir sumarmánuðina. Það er eftirtektarvert, að það er lítil breyting frá ári til árs í fjölda yrðlinga, sem komast upp af hverju greni, að meðaltali u.þ.b. 4. Hins vegar sést á tölum um útflutning refabelgja, að þar er um að ræða mikla sveiflu, sem helst í hendur við sveifluna í útflutningi á rjúpu. Þessar tölur ná allt aftur til 1860 eða svo. Þetta virðist benda til þess, að yfirleitt sé sumarfæðan nokkuð stöðug frá ári til árs, og það sé fyrst og fremst ástand rjúpnastofnsins, sem áhrif hafi á dánartíðni refa, og ennfremur, að þessi náttúru- legu afföll eigi sér aðallega stað að vetrarlagi. Tófan grefur talsvert af fæðu í jörðu, aðallega egg, en þau geym- ast mjög vel urðuð. Þegar tófa rænir hreiður, urðar hún ekki öll eggin saman, heldur fer með þau í sitt hverja áttina frá hreiðrinu, allt frá örfáum metrum upp í marga tugi metra. Fæðuna grefur hún rétt undir yfirborðið, oft undir lyng eða mosa og notar nefið til að þjappa gróðurinn yfir og hylja verksummerkin. Þótt dýrin geymi þannig nokkrnu forða til vetrarins, er ólíklegt, að það nægi henni til uppihalds, ef önnur fæða bregst. Þess vegna verða refir sennilega að taka sig upp, þegar líður á vetur og fylgja rjúpunni eftir." Litarafbrigði tófunnar „Hér á landi er aðeins ein tegund refa, en hins vegar eru hér tvö litarafbrigði. Annars vegar eru þau dýr, sem eru brúnleit allt árið, þ.e. mórauða litarafbrigðið. Blárefir, sem hér eru aldir á refabúum til skinnaframleiðslu, eru í rauninni bara sérlega falleg dýr af mórauða litarafbrigðinu. Hvíta litarafbrigðið er hvítt yfir veturinn, en mógrátt að sumar- lagi. Þótt útlitsmunurinn sé mikill á dýrunum, fylgja erfðirnar ein- földum, mendelskum reglum og millistig á milli afbrigðanna eru ekki til, þótt afbrigðin tvö eigi mjög gjarna afkvæmi saman. Það er meira að segja svo, að dýrin sækjast eftir að para sig við dýr af hinu litarafbrigðinu. Astæðurnar fyrir þessu liggja ekki á lausu og því best að segja sem minnst um það að sinni. Á vorin virðast dýrin oft vera flekkótt, og því eðlilegt, að sumir haldi að þar séu á ferð einhver millistig á milli litarafbrigðanna tveggja. Það er samt ekki svo, heldur upplitast mórauðu dýrin mjög þegar líður að vori, og þegar vetrarhárin taka að falla eru þau oft orðin alveg ljós. Þegar dökk sumarhárin koma svo í ljós virð- ast dýrin vera skjótt að sjá úr fjarska. Dýrin eru oft lengi að fara úr hárum, sérstaklega stegg- irnir, enda strýkst vetrarhárið mun fyrr af læðunni við að snúast í greninu. Sérstaklega eru vetrar- hárin lengi að fara af skottinu, og er ekki óalgengt að sjá steggi í júlí, sem eru aldökkir á skrokkinn, en með hvítt og mikið skott." Vara hvort annað við hættu „Refir hafa fengið orð á sig fyrir að vera sérlega klók dýr og mannfælin. Jafnvel dýr, sem aldr- ei hafa komist í kast við manninn, að því er best er vitað, forðast hann eins og heitan eldinn. Eitt af því, sem ég hef tekið eftir er, að dýrin vara hvert annað við hættu. Einu sinni var ég að fylgjast með tveim dýrum, stegg og læðu í aprílmánuði. Steggurinn var með radíóhálsband, sem ég hafði sett á hann nokkrum mánuðum áður. Þau voru á ferð nærri selshræi, þar sem ég hafði komið fyrir fótsnörum, en þessar fótsnörur notaði ég til að veiða dýrin lifandi og ómeidd. Snörurnar voru festar með hælum, sem ég hafði rekið niður í gegnum snjóinn og að hluta ofan í freðna jörðina, en þarna hafði snjórinn fokið ofan af hælunum, svo að þeir voru vel sjáanlegir. Steggurinn hafði ein- hvern grun um, hvar ég væri og lagðist í um 100 metra fjarlægð, en læðan snuðraði grunlaus þar i kring. Smám saman nálgaðist læðan mig en þegar hún var í u.þ.b. 50 metra fjarlægð frá mér rís steggurinn upp af hálfu leyti og gaggaði til hennar á ákaflega sérkennilegan hátt. Hún stoppaði samstundis og fetaði sig siðan varlega til baka ein þrjú skref. Síðan tók hún 90° beygju og stefndi nú á selshræið og snörurn- ar. Þegar hún átti um 20 metra ófarna að snörunum þeyttist steggurinn af stað í áttina til hennar og gaggaði á sama hátt og áður en þó enn ákafar. Enn stoppaði læðan. Steggurinn fór síðan í stórum boga í kringum selshræið og læðan á eftir. Hann fór síðan á undan henni um 500 m að hrosshaus, sem ég hafði sett út rúmu ári áður og lítið kjöt var orðið á. Þar sat hann og gaggaði — á allt annan hátt en áður — þ.e.a.s. kallaði á hana, þangað til hún kom að hausnum og fór að narta í kjöttægjurnar á honum. Steggurinn fékk sér hins vegar ekki bita, heldur stökk upp á stein lagðist þar og horfði í áttina til mín á meðan læðan át. Þannig geta dýrin sem sé varað hvert annað við hættu, sem þau í rauninni skilja ekki. Þannig held ég að dýrin læri af öðrum að hræðast menn og mannaþef, án þess að hafa nokkurn tíma orðið fyrir áreitni af mönnum. Þannig getur þétta kannske gengið kyn- slóð fram af kynslóð. Hitt er svo annað mál, að dýrin eru fljót að spekjast, ef þau sjá menn svo til daglega, án þess að verða fyrir aðkasti af þeirra hálfu. Þannig var til dæmis ein læða í Ófeigs- firði, sem hafði það fyrir sið, þegar hún sá mig að elta mig, þegar ég gekk í gegnum umráða- svæði hennar. Hún hélt sig í 30—40 m fjarlægð, og í hvert sinn sem ég stoppaði, öskraði hún á mig. Hún hafði nefnilega reynt að stöðva ferð mína einu sinni með því að standa fyrir framan mig í svipaðri fjarlægð með öskrum og ólátum, en þegar hún sá, að hún Tófa af hvita litarafbrigðinu að fara úr hárum, en þær eru mógráar á sumrin en sýnast oft flekkóttar á meðan þær eru að fara úr hárum. gat ekki stöðvað ferð mína þannig, tók hún upp þann sið að reyna að reka mig áfram. Sem sé, úr því ég þurfti endilega að vera að þvælast í gegnum umráðasvæði hennar var eins gott að ég gerði það á sem stystum tíma!“ Sagan af Jcnsínu „Sumarið 1978 ól ég upp, ásamt heimilisfólkinu í Ófeigsfirði, læðu sem kölluð var Jensína. Hún var mjög mannelsk og hafði sérstak- lega gaman af að leika sér við börn og hunda. Um haustið vorum við samt tvö ein í Ófeigsfirði, og þá er það eitt sinn nokkru eftir haustsmalamennsku, að við erum á gangi saman og mætum lamb- hrút. Hann kemur jarmandi til hennar og þau þefa hvort af öðru góða stund, áður en hún hoppaði upp á bak hrútsins. Það tók hana nokkra stund að ná jafnvægi á baki hrútsins, áður en hún fikraði sig fram eftir hrygg hans. Hrútur- inn virtist ekki kippa sér hið minnsta upp við þessa loftfim- leika. Þá tók tófan að japla á eyrum lambsins, og varð ekki annað séð en að þvi líkaði allvel, því það lygndi aftur augunum og tók að jórtra. Síðan sneri tófan sér við á baki hrútsins með miklum erfiðismunum, því ullin og húðin létu alltaf undan til sitt hvorrar hliðarinnar. Þetta tókst nú samt, og næst tók Jensína dindilinn upp í sig og japlaði á honum. Enn lygndi hrúturinn augunum af vel- líðan. Þessu næst stökk Jensína niður og við héldum áfram göngu okkar. Nokkru sinnum eftir þetta kom lambið jarmandi til Jensínu, það ég sá til, en hún lét sér alltaf nægja að þefa af nefinu á hinum. Nokkru síðar fór hún á flakk, var eiginlega hrakin í burtu af villtum tófum, en hún fór að Seljanesi, þar sem henni líkaði vel, enda voru þar hvolpar, sem hún lék sér við. Þegar fólkið fór þaðan í nóvember, flutti hún sig að Munaðarnesi, þar sem hún var aufúsugestur. Þegar leið á vetur- inn fór hún að hverfa annað slagið og leggja lag sitt við villta refi. Einn var skotinn frá henni og skotið á annan seinna. Um vorið .fór hún að heimsækja Harald Guðjónsson frá Markholti, en hann nytjar jörðina Svansbúð í Kaldbaksvík. Tóku þau hjónin henni afskaplega vel, en í sumar- bústað, sem er þar skammt frá, var hún ekki velkomin. Það gekk svo langt, að konurnar þorðu ekki á kamar nema í karlmannsfylgd og heimtuðu af oddvitanum, að hún væri drepin. Enda hafði hún gerst svo djörf að stela frá þeim 5 silungum, ef ég man rétt. Lífdagar hennar enduðu þannig, að hún fékk kúlu i hausinn haustið 1979, eftir að hafa verið mörgum ferða- manninum óblandin ánægja, enda hafði hún þann sið að stöðva bíla og sníkja góðgæti. Með dauða hennar var endi bundinn á þær vonir mínar, að ég gæti fylgst með alspakri tófu og fjölskyldu hennar við greni. En tófur eru jú rétt- dræpar hér á landi, ekki satt? Skylda að útrýma tófu „Það er annars dálítið einkenni- legt, að með því að rannsaka lifandi refi hef ég verið að brjóta lög. Samkvæmt lögum á hver sá maður sem verður var við refi að láta viðkomandi yfirvöld vita, en þau eiga síðan að senda refaskyttu á staðinn, til að drepa dýrið, ef kostur er. Frá þessu er engin undantekning í lögum. Þannig er tófan ekki bara réttdræp á ís- landi, heldur er það skylda hvers borgara að stuðla að útrýmingu tegundarinnar. Kostnaður við refaeyðingu greiðist að tveim þriðju hlutum úr ríkissjóði, einum sjötta hluta úr sýslusjóði og ein- um sjötta úr hreppssjóði. Kostn- aðurinn í ár verður eitthvað á aðra milljón króna, en það er margföld sú upphæð, sem nemur skaða af völdum tófanna. Ástæð- an fyrir því, að refaeyðingu er haldið áfram þrátt fyrir þetta er sú, að menn óttast, að fjölgi refum aftur verði fjárhagslegur skaði af þeirra völdum enn meiri. Það er hins vegar órannsakað mál, hvort er mikilvægara, fjöldi refa eða aðbúnaður sauðfjár. Spurningunni um, hvort refaeyðing sé arðbær fjárfesting verður aðeins svarað með áframhaldandi rannsóknum á tófunni. Það er eftirtektarvert, að þeir sem mestan skilning hafa á nauð- syn rannsókna af þessu tagi eru einmitt refaskytturnar. Þær vita nótu mikið um skolla til að gera sér grein fyrir því hve lítið er raunverulega vitað. Refaskyttur hafa verið mjög duglegar að senda mér kjálka úr þeim dýrum, sem þær vinna, ásamt öðrum upplýs- ingum. En því miður hef ég ekki getað haft samband við allar skyttur á landinu, og bið alla þá, sem lesa þetta viðtal, en hafa ekki heyrt frá mér, að láta mig vita af sér og ég sendi þeim nauðsynleg eyðublöð, til að þeir geti tekið þátt í þessu. Mér er ofarlega í huga þakklæti til veiðistjóra, sem hefur verið mér á ýmsan hátt hjálplegur og lagt blessun sína yfir gerðir mín- ar, þótt þær séu lögbrot!"

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.