Morgunblaðið - 13.05.1984, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 13.05.1984, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 13. MAÍ1984 73 Skinner hefur jafnan lagt áhersiu á að stjórnun sé gagnkvæm. l>aö sé ekki aðeins hann sem stjórni tilraunadýrum sínum, heldur stjórni þau honum einnig. Þetta var tilefni þessarar skopteikningar, en textinn við hana er þannig: „Vá, mér hefur aldeilis tekist að skilyrða þennan náunga!" allt, hafa einfeldnina að leiðar- ljósi. Áreiti og svörun „Upphaf atferlisvísindanna má að hluta til rekja aftur til tilrauna rússneska lífeðlisfræðingsins Pav- lov um síðustu aldamót, sem leiddi til kenningarinnar um skilyrt við- bragð. Fræg er tilraun Pavlovs á slefi hunda. Það er náttúrulegt viðbragð hjá hundum eins og fleiri skepnum, að framleiða munnvatn þegar kjötbita er stungið upp í þá. Við getum sagt að maturinn sé áreiti, náttúrulegt eða óskilyrt, en munnvatnsframleiðslan svörunin. Pavlov veitti því fyrir tilviljun at- hygli að hundar slefuðu við það eitt að sjá kjötbita, og það gat hann ekki sætt sig við að væri ásköpuð svörun. Hann taldi að þetta hlyti að vera lært viðbragð og gerði eftirfarandi tilraun til að reyna að sanna mál sitt: Hann vildi kanna hvort hægt væri að kalla fram slefviðbragð með öðrum hætti en færa dýrinu mat, og lét í þeim tilgangi ljós loga á peru rétt áður en hundinum var færður matur. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum og innan tíðar, eða eftir 5—7 skipti, var hundurinn farinn að slefa við ljós- inu einu saman. Ályktunin blasti við: smám saman hafði hundinum lærst að í hvert skipti sem ljós kviknaði kom matur í kjölfarið. Þar með var komið nýtt viðbragð, það er að segja, ljósið eitt kallaði fram slefsvörunina. Þetta við- bragð er greinilega skilyrt eða lært, því það er hundum ekki áskapað að slefa við það að sjá Ijós kvikna á peru. Okkur þykir þetta ekkert sér- staklega merkilegt í dag, en á þeim tíma olli þessi tilraun straumhvörfum í námssálarfræði. Pavlov hélt því fram að öll hegðun væri viðbragð við einhverju áreiti, skilyrtu eða óskilyrtu. Hann vildi sem sagt skýra alla hegðun út frá líkaninu áreiti-svörun." Virk skilyrðing „Þetta likan var ríkjandi í at- ferlisvísindum fram að árinu 1938, þegar Skinner setur fram kenn- ingu sína um virka skilyrðingu, en skilyrðing Pavlovs er venjulega kölluð klassísk skilyrðing. í virkri skilyrðingu er áreitis-svörunar sambandinu í raun snúið við, svör- unin kemur á undan áreitinu, ef svo má segja. Það mætti svo sem einnig líta svo á að hegðunin hafi ekkert áreiti. En þetta skýrist best með dæmi: Hugsaðu þér dúfu í búri, þar sem ekkert er nema hólf fyrir mat og skífa sem dúfan getur hreyft með goggnum. Þetta er einföld gerð af hinu fræga Skinner-búri, sem Skinner þróaði og notaði mik- ið við rannsóknir sínar á atferli dýra. Markmið Skinners var með- al annars að ná stjórn á þeirri hegðun dúfunnar að gogga á skíf- una. Þetta er gert þannig: í byrjun er reynt að tengja saman matargjöf- ina og goggið á skífuna, fá dúfuna til að skynja sambandið þar á milli. Fyrst í stað er matur látinn detta í hólfið þegar dúfan stendur nærri skifunni. Smám saman er hegðun dúfunnar mótuð þannig með matargjöfinni að hún fær ekki matinn nema hún standi mjög nálægt skífunni og loks ekki fyrr en hún goggar á hana. Þessi „kennsla" getur tekið nokkurn tíma, en um síðir hefur dúfan lært að maturinn kemur því aðeins að hún goggi á skífuna. Við getum þá sagt, að skýringin á því hvers vegna dúfan hamast í skífunni sé sú, að hún vilji fá sér í gogginn! Hún goggar til þess að ná í mat. Hér er hegðunin sem skilyrt er, tengd einhverjum atburði i fram- tíðinni, það er að segja matar- gjöfinni, sem við getum kallað áreiti ef við viljum, en þá í allt öðrum skilningi en áreiti í venju- legu viðbragði. Skinner kýs að orða þetta svo, að hegðun dýrsins stjórnist af þeim afleiðingum sem hún hefur." Jákvæö og neikvæð styrking „Það er rétt á þessu stigi að skýra ýmis tæknileg hugtök sem notuð eru í atferlisvísindum. Mat- urinn í áðurnefndu dæmi er kall- aður styrkir, því hann eykur lík- urnar á, eða styrkir, umrædda at- höfn, að gogga á skífuna. f atferl- isfræðum er talað um tvenns kon- ar styrkingu, jákvæða og nei- kvæða. í ofannefndu dæmi er um jákvæða styrkingu að ræða, en dæmi um neikvæða styrkingu væri ef dúfu væri gefið rafstuð, sem hún gæti losað sig undan með því að gogga á skífu. Hvort sem styrkingin er jákvæð eða neikvæð, eykur hún líkurnar á tiltekinni hegðun. Neikvæðri styrkingu er oft rugl- að saman við refsingu, en það er allt annar hlutur. Tilgangur refs- ingar er að uppræta hegðun, eða minnka líkurnar á því að hún eigi sér stað. Dæmi væri ef móðir rassskellti son sinn fyrir að tuska litlu systur til. Markmiðið er að uppræta þessa hegðun drengsins, að hrekkja systur sína, eða að minnsta kosti draga úr líkunum að hún eigi sér stað. En segjum nú að móðirin hefði það fyrir vana að Ieggja niður hendur ef drengurinn biðst fyrirgefningar á hegðun sinni eða fer að gráta. Þá styrkir rassskellingin þá hegðun drengs- ins að biðjast fyrirgefningar eða fara að vola, vegna þess að með því móti getur hann losað sig und- an þessu „neikvæða áreiti". Það væri neikvæð styrking. Refsing er að mörgu leyti ófull- komið „stjórntæki". í fyrsta lagi vegna þess að hún lætur ekki í té nýtt atferli í stað þess sem á að uppræta, í öðru lagi vegna þess að hún hefur ekki gildi nema refsi- vöndurinn sé til staðar, og í þriðja lagi hefur hún oft þveröfug áhrif, í stað þess að uppræta hegðun, þá styrkir hún hana. Dæmi um hið síðastnefnda væri ef móðir refsaði syni sínum fyrir dónalegt orð- bragð með því að skamma hann í bak og fyrir og segja honum að halda sér saman. Nú er alveg eins líklegt að munnsöfnuður piltsins batni síst við skammirnar, kannski vegna þess að drengurinn lærir að með því að rífa kjaft fær hann athygli móðurinnar! Refsing getur líka verið mjög tvíbent á annan hátt, því oft er hún í formi sams konar hegðunar og ætlað er að uppræta: móðir lemur son sinn fyrir að lemja litlu systur, og kall- ar hann öllum illum nöfnum fyrir að nota dónalegt orðbragð!" Styrkingarhættir „Hugtakið „likur á svörun" er mjög mikilvægt í atferlisvísind- um. Við verðum að hafa það í huga að í virkri skilyrðingu kemur svör- unin á eftir áreitinu, sem þýðir að ekki er hægt að mæla svörunina beint sem fall af áreitinu. Það er aðeins hægt að mæla breytingar á tiðni tiltekinnar hegðunar og auð- vitað varanleika þessara tíðni- breytinga. Nú er hægt að styrkja atferli á margvíslegan hátt, og það er kannski helst á því sviði sem niðurstöður Skinners eru athyglis- verðar, því tíðni og varanleiki hegðunarinnar er afar mismun- andi eftir því á hvern hátt atferlið er styrkt. Það er talað um fjóra grundvallarstyrkingarhætti, sem síðan er hægt að blanda saman á allan mögulegan hátt. Það er hægt að miða styrkinguna við tíma eða fjölda svarana, og þetta er hægt að gera reglulega og óreglulega. Ef hegðun er styrkt eftir ákveð- inn tíma, þá hefur það í för með sér nokkuð reglulega svörun hjá tilraunadýrum. Svörunin verður í svipuðu hlutfalii og tíðni styrk- ingarinnar. Ef dúfa fær matarbita á mínútu fresti fyrir hegðunina að að gogga á skífu, þá svarar hún örar en ef styrkingin kemur á fimm mínútna fresti. Miklu örari svörun fæst hins vegar ef hegðun er styrkt með óreglulegu tíma- millibili. Það eru dæmni um það að dúfa sem styrkt er að meðal- tali, en óreglulega, einu sinni á fimm mínútna fresti, hafi haldið áfram svörun í 15 klukkutíma samfleytt, með svörunarhraðan- um tvisvar til þrisvar á sekúndu! Að vísu með því að hvíla sig annað slagið í 20—30 sekúndur. Styrking eftir fastan fjölda svarana, til dæmis eftir tíundu hverja svörun, hefur einnig í för með sér mikla svörunartíðni, en þó er það svo, að eftir hverja umb- un eða styrkingu, minnkar svör- unarhraðinn, en eykst síðan stig af stigi eftir því sem nær dregur umbuninni. Þessi styrkingarhátt- ur er viðhafður í ákvæðisvinnu: því meira sem þú afkastar, þeim mun meira berðu úr býtum. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að með því að styrkja hegðun á þenn- an hátt virðist vera hægt að við- halda sömu svörunartíðni þótt lengra líði á milli styrkinga. Það eru dæmi um það að dúfa sem er styrkt eftir tíundu hverja svörun til að byrja með, haldi svörun- arhraða sínum óbreyttum þótt styrkingunni sé smám saman breytt á þann veg að dúfunni sé aðeins umbunað eftir hundruð- ustu hverja svörun! Það þýddi lítið að bjóða dúfunni svo strjála umb- un strax í upphafi, en það má venja hana á þetta hægt og rólega. Eins þýddi tæplega að bjóða ís- lenskum launþegum upp á þriðj- ungs kaupskerðingu á einni nóttu, en með því að dreifa kaupskerð- ingunni á nokkuð langt tímabil hefur þó tekist að skerða kaupið um þriðjung án teljandi mótbára! Fjórði styrkingarhátturinn er einna áhrifaríkastur, sem er óregluleg styrking, en að meðal- tali ákveðið hlutfall af fjölda svar- ana, þannig að umbunin á það til að koma stundum trekk í trekk og stundum líður alllangt á milli. Svörunarhraðinn getur verið gíf- urlegur undir þessum styrk- ingarhætti, og er vitað til þess að SJÁ NÆSTU SÍÐU Við rúllettuborðið. mat, hvað hún gerði ef hún var svöng. Með orðalagi Skinners þýðir þetta að maturinn styrki þá athöfn dúfunnar að gogga á skífuna. Mat- urinn er kallaður styrkir, því hann styrkir umrædda athöfn, eða með öðrum orðum, eykur líkurnar á henni í framtíðinni. Næsta skrefið var að rannsaka gogg dúfunnar á slána við ólíkar að- stæður. Skinner vildi fá fram tíðni þessarar hegðunar dúfunnar: (1) ef hún fengi alltaf mat þegar hún ýtti á skífuna, (2) ef hún fengi mat eftir að hafa þrýst á slána í ákveðinn fjölda skipta, til dæmis í tíunda hvert skipti, (3) ef viss timi þyrfti að líða frá síðustu matargjöf til þeirrar næstu, þannig að dúfan fengi til dæmis aldrei mat oftar en einu sinni á fimmtu hverja mfnútu, sama hvað hún hamaðist á stönginni, (4) ef maturinn kæmi að meðaltali einu sinni eftir tiltekinn fjölda skipta sem dúfan þrýsti á skífuna, til dæm- is einu sinni á hverjar 20 snertingar, en óreglulega. Þetta eru sem sagt ýmsir hættir á að styrkja hegðun og það sem Skinner vildi meðal annars fá upp- lýsingar um var hvaða styrkingar- háttur væri öflugastur, þ.e.a.s. yki tíðni þessa tiltekna atferlis mest. Athyglisverð er sú niðurstaða að tíðni og varanleiki atferlisins er langmestur ef fjórði styrkingarhátt- urinn er viðhafður: þegar umbunin kemur óreglulega, en að meðaltali eftir ákveðinn fjölda skipta sem at- höfnin er framkvæmd. Ef við snúum okkur aftur að rúll- ettunni sjáum við í hendi okkar að það er einmitt fjórði styrkingar- hátturinn sem er viðhafður í henni. Athöfnin sem um ræðir er auðvitað Spilað á Rauða kross-kassa. spilamennskan, peningarnir eru styrkirinn (í flestum tilfellum vænt- anlega), en þeir koma óreglulega, stundum í röð og stundum ekki langtímum saman, en að meðaltali í ákveðnu hlutfalli við hversu oft er lagt á. Kauða kross kassarnir Rúllettu geta menn ekki spilað á íslandi, enda er bannað með lögum að hafa tekjur af fjárhættuspili annarra. Menn geta spilað innbyrðis upp á peninga hér á landi án þess að yfirvöld amist við því, en þriðji aðil- inn má ekki leggja til spilaaðstöðu og taka hlutfall af gróðaveltunni í þóknun. Þetta segja lögin, en frá þeim eru veittar ýmsar undanþágur, eins og happdrættin og getraunirn- ar eru skýrustu dæmin um, en þá er skákað í skjóli þess að ágóðinn sé nýttur til líknar- og þjóðþrifamála. Hvorki happdrætti eða getraunir geta þó talist sambærileg við rúll- ettu. Það líður of langur tími á milli þess sem fólk á kost á því að spila til að hægt sé að ánetjast virkilega, auk þess sem umbunin er of sjald- gæf til að festa athöfnina eins vel og ella. En eitt spil er við lýði hérlendis sem sver sig mjög í ætt við rúllett- una og það eru Rauða kross-kass- arnir. Þeir grundvallast á styrk- ingarhætti fjögur hér að ofan, umb- unin er óregluleg en þó ákveðið hlutfall af þeim skiptum sem spiluð eru.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.