Morgunblaðið - 30.12.1984, Síða 13

Morgunblaðið - 30.12.1984, Síða 13
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 30. DESEMBER 1984 13 i þátt í því að nú er aftur komið úr öldudalnum og að aldrei hefur betur horft ef þjóðin kann með að fara og heldur réttri stefnu." Stjórnmálabaráttan milli stjórnlyndra og frjáls- lyndra manna heldur að sjálfsögðu áfram. Um það talar reynslan skýrustu máli að þá hafa framfarirnar orðið mestar og lífskjörin best þegar frjálslyndissjónarmiðin hafa ráðið rikjum hvort heldur í atvinnumálum eða menningarlegum efnum. Við höfum frá öndverðu viljað byggja þetta þjóðfélag upp á grundvelli þjóðlegrar menningar og í ljósi sérstakrar aðstöðu lítillar eyþjóðar með þau sannindi í huga að framfarirnar ráðast hér eins og annars staðar af sömu lögmálum. Einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi eru auðvitað hug- tök sem segja lítið nema að merkingin sé skýr. í hugum sjálfstæðismanna hafa þau aldrei falið í sér það frið- lausa frelsi sem Einar Benediktsson kvað um og varð þjóðveldinu að grandi. Það felur ekki í sér að algjör jöfnuður skuli ríkja, heldur hitt að allir hafi jafna möguleika. En hugsunin leyfir heldur ekki óhóflegan efnalegan mismun því þá er úti um sættir í þjóðfélag- inu. Þó að pólitískir vindar séu stríðir mega menn ekki tapa áttum. Þegar erfiðleikar steðja að er meiri ástæða en fyrr að hvika í engu frá þeim grundvelli sem í upp- hafi var lagður fyrir starfi þessarar borgaralegu fyik- ingar. Sókninni ber að halda áfram. Síst af öllu er ástæða til að láta undan sundruðum hópi vinstri afl- anna í landinu. Á viðsjárverðum tímum er ætlast til forystu af Sjálfstæðisflokknum og hann mun ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð. En árangurinn er kominn und- ir samstilltum kröftum. Arangur og vonbrigði Fyrir einu og hálfu ári var ráðist hér til atlögu við verðbólguna með róttækari aðgerðum en áður hafa þekkst enda hafði þessi alvarlega meinsemd magnast svo að í algjört óefni stefndi. Einsýnt var að efnahags- kerfið þoldi ekki það verðbólgustig sem hér var á vor- mánuðum 1983. Víðtækt og almennt atvinnuleysi biasti því við, ef ekkert yrði að gert. Fyrir þá sök var engrar undankomu auðið. Um það var ekki ágreiningur, að við svo búið mátti ekki standa og grípa yrði til nýrra og markvissra vinnubragða. Um þau náðist samkomulag milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. f aðdraganda stjórnarmyndunarinnar var strax ljóst, að hvorki Alþýðubandalagið né smáflokkarnir voru reiðubúnir til þess að axla þá ábyrgð sem hið alvarlega ástand hlaut að leggja stjórnaraðilum á herðar. Því var ekki annarra kosta völ við pólitíska meirihlutamyndun. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa verið á stöðugum flótta frá umræðum um þau alvarlegu viðfangsefni sem nú blasa við. Þeir færast stöðugt í það horfið að hafa ekki annað fram að færa en ala á sundrungu og tor- tryggni milli byggða og þjóðfélagshópa. Upphafsaðgerðir í baráttunni gegn verðbólgumein- semdinni voru í sjálfu sér einfaldar þó að þær væru róttækar og hefðu víðtæk áhrif. En það voru einkum tvö atriði sem hlutu að fylgja í kjölfarið er augljóst var að úrslitum myndi ráða um varanlegan árangur. í fyrsta lagi hvort unnt yrði að verja kaupmátt svo sem aðstæð- ur leyfðu og tryggja frið á vinnumarkaðinum á meðan aðlögun að nýjum aðstæðum ætti sér stað. í öðru lagi, hvort unnt yrði að gera verulegar kerfisbreytingar í stjórnsýslu og peningakerfi í því skyni að hefja alhliða uppbyggingu atvinnulífsins. I ljós kom að kaupmáttarskerðingin vegna minnkandi þjóðartekna varð minni eftir aðgerðirnar en fyrir þær. Kjarasamninga í febrúar tókst að gera án verkfalla. í þeim náðist mikilvæg samstaða milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í skatta- og trygg- ingamálum til þess að verja hag þeirra sem lakast voru settir í þjóðfélaginu. Þetta var mikilsverður áfangi sem gaf vísbendingu um að í raun réttri væri að takast að leggja grundvöll að nýrri framfarasókn og betri lífs- kjörum. Þegar dró að kjarasamningum í haust hafði Sjálf- stæðisflokkurinn forystu um að opnuð var ný leið til þess að greiða úr þeim ágreiningi sem upp var kominn og augljóslega varð að sætta. Hugmyndir flokksins byggðust á því að verja kaupmátt með skattalækkunum og viðhalda um leið þeim árangri sem náðst hafði í baráttunni við verðbólguna. Því miður fóru þessar til- raunir út um þúfur. Síðla sumars gerðu stjórnarflokkarnir með sér sam- komulag sem fól í sér verulegar breytingar á sjóðakerfi atvinnuveganna, nýskipan í landbúnaðarmálum og fyrstu ráðstafanir til þess að mæta hinum mikla vanda sjávarútvegsins. En ráðstafanir af þessu tagi voru óhjákvæmilegur förunautur upphafsaðgerða gegn verð- bólgu. Af framkvæmdum hefur minna orðið en efni stóðu til fyrst og fremst vegna þess hversu verkfalls- átökin færðu allt úr skorðum í haust og byrjun vetrar. Uppbygging og samstarf Vegna alls þessa stöndum við nú frammi fyrir því að verðbólga fer vaxandi á ný gagnstætt því sem við höfð- um ætlað og það er bábilja sem lesa má í plöggum einstakra efnahagssérfræðinga að hún gangi eins og sjálfkrafa niður á nýjan leik. Og í atvinnumálum stönd- um við því sem næst í sömu sporum og áður. Við þessi áramót blasa því við miklir erfiðleikar. Það væri and- varaleysi í meira lagi að loka augunum fyrir þeim stað- reyndum. Á nýju ári bíða þó ýmsir möguleikar. En óráðin framtíðin getur því aðeins fært okkur meiri hag- sæld ef samstaða næst um hyggindi og festu í stjórnar- athöfnum. Við þörfnumst þess að eining ríki milli stjórnvalda og alþýðusamtaka um að brjótast út úr hagsmunaágreiningi með nýjum aðferðum um leið og hafið er nýtt uppbyggingarstarf í atvinnumálum. Um nokkur undangengin ár hefur þjóðarbú íslend- inga verið rekið með tapi. Einu gildir að þessu leyti hvort við horfum til heimila eða atvinnufyrirtækja. Hitt er þó ekki síður áhyggjuefni að þjóðin öll hefur verið að tapa út á við í samkeppni við aðrar þjóðir. Við höfum þurft að sækja á brattann á helstu fiskmörkuð- um okkar erlendis og ekki hugað sem skyldi að vöru- þróun og gæðum. Þrátt fyrir framfarir í iðnaði höfum við ekki náð að byggja upp nýjar útflutningsgreinar er skili umtalsverðum gjaldeyri í þjóðarbúið. Þessu tapi heimila og atvinnulífs hefur í of ríkum mæli verið mætt með fyrirhyggjulítiili veðsetningu landsins gæða í erlendum bönkum. Við megum að vísu ekki láta skuldasöfnunina draga úr okkur von og kjark. En með því að vaxandi erlendar skuldir hafa ekki Ieitt til aukinnar þjóðarframleiðslu undanfarin ár höfum við í raun réttri verið að færa fjármuni frá íslandi til erlendra fjármagnseigenda. Sjálfstæðisflokkurinn vill þvi fyrir sitt leyti leita samstarfs um skipulegt framtak þjóðarinnar allrar til að snúa af þessari braut og hefja nýja uppbyggingu með framtíðarsýn um óveðsett ísland í höndum barna okkar og barnabarna að leiðarljósi. Fyrsta meginverkefnið lýtur að því að undirbúa launauppgjör og tekjuskiptingu á nýju ári. Eigi áform um atvinnuuppbyggingu og lækkun verðbólgu á nýjan leik að vera annað en orðin tóm er víst að við þolum hvorki jafnhatrömm verkfallsátök og á síðasta hausti né heldur svo óraunhæfar niðurstöður samninga. Þjóð- arsátt um þessi efni hlýtur að vera hafin yfir allar flokkspólitískar þrætur. Svo mikið er í húfi. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða í skatta- og tryggingamálum ti þess að bæta fjárhag heimilanna og leggja grundvöll að kjarasamn- ingum er skilað gætu launafólki raunverulegum kjara- bótum samhliða því sem tekist yrði á við verðbólgu- vandann sem aftur hefur magnast. Brýnt er einnig að gera sérstakar ráðstafanir í lánamálum húsbyggjenda. Engum vafa er undirorpið að erfiðleikar þeirra fjöl- skyldna eru nú mestir, er standa í húsbyggingum eða íbúðakaupum. í byrjun nýs árs þarf að setja á laggirnar nefnd er kanni þróun tekjuskiptingar í landinu undan- genginn áratug. Um það efni ætti að verða samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu svo og aðila vinnu- markaðarins. Hlutverk ríkisvaldsins Á miklu veltur að menn geri sér glögga grein fyrir hvert eigi að vera hlutverk ríkisvaldsins í atvinnumál- um og í hvaða efnum það á að hafa frumkvæði. Það mun á sannast hér eftir sem hingað til að árangur er helst undir því kominn að ríkisvaldið búi atvinnulífinu al- mennt þau skilyrði að framfarir geti orðið, hvarvetna á landinu og hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða á nýjum sviðum. Það verður ekki dregið að hrinda í framkvæmd þeim róttæku breytingum á sjóða- og bankakerfinu sem grundvöllur hefur verið lagður að með samkomulagi stjórnarflokkanna frá þvi í haust og tillögum banka- málanefndarinnar. Nú er þetta kerfi of þungt í vöfum og kostnaðarsamt. Ríkisafskipti af þessu kerfi eru meiri hér en í nokkru öðru vestrænu landi. Fáir efast orðið um að einmitt fyrir þá sök hafi hér orðið minni hag- vöxtur en víða annars staðar. Launþegahreyfingin hefur oft bent á að fjárfestingar í atvinnulífinu hafa ekki skilað þeirri ávöxtun sem nauðsynleg er til að standa undir síauknum og eðli- legum kröfum þjóðarinnar. Margra ára neikvæð ávöxt- un hefur ekki einvörðungu dregið úr sparnaði heldur leitt til óþolandi skömmtunarstjórnar. Með því að meginhluti af sparnaði í landinu er á vegum einstakl- inga og launafólks í bönkum og lífeyrissjóðum er það hreint kjaraatriði að tryggja raunhæfa ávöxtun þessa fjármagns. Hyggilegasta leiðin í þeim efnum er að draga úr pólitísku miðstjórnarvaldi. Veigamikil skref hafa þegar verið stigin í þá átt. Staða atvinnuvega í landbúnaðarmálum hefur í meginatriðum náðst samkomulag um hvernig breyta skuli verðmyndunar- kerfi og aðlaga framleiðslu að þörfum markaðarins. Hér er um mikilvægar breytingar að ræða sem styrkja stöðu bænda og koma til móts við aðhaldssamar kröfur neytenda. Þannig á að vera hægt að sætta sjónarmið og koma á friði um landbúnaðarmálin. Eins og sakir standa eru erfiðleikar mestir í sjávar- útvegi. Kemur þar margt til bæði ytri áföll og innri vandamál atvinnugreinarinnar sjálfrar. Það sem veldur þó þyngstum áhyggjum er að léleg afkoma sjávarútvegs mörg undangengin ár ógnar nú grundvelli einkarekst- urs en hann hefur verið burðarás framleiðslu og at- vinnulífs víðsvegar um land áratugum saman. í því efni skiptir auðvitað mestu máli að atvinnugreinin njóti í sem ríkustum mæli þeirra verðmæta sem þar verða til. Með endurgreiðslu á söluskatti verður stigið veiga- mikið skref til þess að létta byrðar sjávarútvegsins. En hér þurfa einnig að koma til ráðstafanir sem dregið geta úr kostnaði við aðföng. Og hinu má ekki heldur gleyma að í fyrirtækjunum sjálfum verður að eiga sér^ stað aðlögun að nýjum aðstæðum. Þegar við getum ekki vænst þess að vaxandi sjávarafli og verðbólga eyði vandamálunum eða hylmi yfir þau við stjórnun veiða og vinnslu, eru ekki til neinar einfaldar lausnir. Hvað sem líður átökum á öðrum sviðum atvinnulífsins, verður sjávarútvegurinn enn um langa framtíð aðaluppspretta gjaldeyristekna þjóðarinnar. Fastmótað kerfi verðmyndunar og sölumála í sjávar- útvegi hefur verið gagnrýnt upp á síðkastið. Þetta kerfi hefur bæði kosti og galla. Það veitir ákveðið öryggi en skortir sveigjanleika. Óráðlegt væri að rasa um ráð fram í breytingum. Hitt er óhjákvæmilegt að menn lagi sig að breyttum aðstæðum og sæki fram á nýjum svið- um í sjávarútvegi eftir því sem föng eru á. Kerfið má ekki og á ekki að hindra framfarir. Og því skal ekki gleymt að sölusamtökin hafa unnið stórvirki í mark- aðsmálum á undangengnum áratugum. Við þurfum að efla hér hagnýtar rannsóknir og opna möguleika á auknum lánum til markaðsmála og vöru- þróunar samhliða sérstöku átaki til áhættu-fjármögn- unar í nýjum atvinnufyrirtækjum. Og til þess að greiða sérstaklega fyrir örari vexti í rafeinda- og lífefnaiðnaði svo og í fiskeldi verðum við að auka samstarf íslenskra og reynslumikilla erlendra aðila á þessum sviðum. Ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein sem veitir þús- undum manna atvinnu, þar sameinast kraftar inn- lendra og erlendra aðila á þann veg að báðum er til hagsbóta. Slíka samvinnu ber að efla á fleiri sviðum. Með alhliða aðgerðum í atvinnumálum og átaki í ■ skattamálum til lausnar ágreiningi á vinnumarkaði er unnt að endurreisa efnahag þjóðarinnar og örva ein- staklinga og samtök þeirra til uppbyggingar og blóm- legs efnahags heimilanna. Við viljum leita samstarfs við alla íslendinga um framgang þessara mála. Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa forystu um að íslend- ingar gangi á fund framtíðarinnar með þeim nútíma- vinnubrögðum sem hin harða samkeppni iðnaðarþjóðfé- laga krefst. Þess vegna hefur flokkurinn til að mynda óhikað gengið til skynsamlegra samninga við Alusuisse, sem styrkja forsendur stórhuga orku- og stóriðjustefnu. Við verðum að leysa úr læðingi þá atorku sem eykur hagvöxtinn á ný. Það er forsenda þess að við getum rifið þjóðfélagið úr þeirri stöðnun sem nú ríkir og tryggt, að börn okkar og barnabörn þurfi ekki að búa í landi sem um of er háð valdi erlendra lánardrottna. Sjálfstæðið og varnir íslands Það var annað meginstefnumál Sjálfstæðisflokksins í öndverðu að hafa forystu um lokasóknina í sjálfstæð- isbaráttunni. Það verkefni er ekki tímabundið. Að lok- inni styrjöldinni var hið unga lýðveldi að móta afstöðu sína til annarra þjóða og gæta öryggishagsmuna sinna. Sjálfstæðismenn höfðu þar forgöngu. Stefnunni hefur verið fylgt síðan og nýtur fylgis yfirgnæfandi meiri- hluta þjóðarinnar. Varnarsamstarf þjóðanna í Vestur- Evrópu og Norður-Ameríku hefur varðveitt friðinn í okkar heimshluta í hálfan fjórða áratug. Við höfum nú stigið skref til víðtækari þátttöku í þessu samstarfi. Brýn ástæða er til þess að efla innlenda þekkingu um varnar- og öryggismál. En stefnumörkun um þessi efni á ekki einvörðungu að byggjast á pólitískum ákvörðun- um heldur einnig innlendri sérfræðiþekkingu. Við höf- um skipað okkur í sveit með lýðfrjálsum þjóðum og viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir frelsi og mannréttindum gegn ógnarstjórn og kúgun sem stór hluti mannkynsins býr nú við. Fimm ára freis- isstríð Afgana sýnir okkur hvað hér er í húfi. Eftir því sem stuðningur þjóðarinnar við alla grund- vallarþætti utanríkisstefnunnar hefur styrkst hafa andstæðingarnir breytt um baráttuaðferðir. En uppruni okkar og arfleifð gera það að verkum að við viljum vera virkir í þeirri baráttu að varðveita frelsið og frið meðal þjóða. * íslenska þjóðin þarf að mörgu að hyggja þegar hún horfir til komandi árs. Því betur sem okkur auðnast að tengja arfleifð okkar og menningu þeim verkefnum sem við blasa eru meiri líkur á að við rötum þá leið sem færir okkur fram á við til aukinnar hagsældar, blóm- legra þjóðlífs og öflugra menningarlífs. Og Einar Bene- diktsson á enn erindi við íslendinga á ofanverðri tuttug- ustu öld: Þeir þurfa stjórnar, og fórnar alls þvergirð- ings, ef land skal standa. Ég óska íslendingum öllum friðar og farsældar á nýju ári.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.