Morgunblaðið - 18.08.1985, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 18.08.1985, Blaðsíða 4
4 B MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 18. ÁGÚST1986 Kaleikurinn frá 13. öld. Ct við ysta haf, þar sem kaldar bárur kveða við grátt fjörugrjótið, stendur kirkja sem sögð er reist að tilvísun yfirnáttúrulegra afla. Allar götur síðan kirkjan var reist fyrir árhundruðum hafa heitar bæn- ir stigið upp af hrjáðum brjóstum og menn boðið gull og gersemar gegn því að kirkjan á Strönd komi til móts við óskir þeirra, verði vel við áheitum, kyrri úfinn sjó, bjargi fjárhag heimila, lækni sjúka, veki ást í köldum hjörtum og láti óbyrjum fæðast börn, svo eitthvað sé nefnt af því sem menn hafa heitið á Strandarkirkju í Selvogi að rættist. Hvað veldur þessari bjargföstu trú fólks á þessari kirkju? Er það þörfin fyrir sterka forsjón sem glepur mönnum sýn eða getur einu guðshúsi verið gefinn slíkur mátt- ur — máttur til að hnika til for- lögum og snúa illu til góðs. Það veit enginn en hitt er ljóst að margur telur sig hafa verið bæn- heyrðan, það geta áheitin sem renna til kirkjunnar borið vitni um. Sögusagnir um tilurð kirkjunn- ar vekja spurningar hjá þeim sem eiga viðdvöl í Strandarkirkju, nöt- urlegt umhverfið eykur fremur á þessa spurn en hitt. Stöku mel- grasskúfar gera örvæntingarfulla tilraun til að hemja gráan sandinn sem þyrlast um í vindinum, meðan hvítt brimið lemur fjörugrjótið með þungum ekkasogum. Þarna verða menn að geta í eyðurnar. Veran hvíta Skip var að koma úr hafi. Veður höfðu verið válynd, vistir skip- verja þrotnar og vatn gengið til þurrðar. Hagir skipverja hörmu- legir. Þeir höfðu mátt velkjast lengi í hafi, komu frá Noregi með tilhögginn við í Skálholtsbæ. Nú var ekki annað sýnna en skip, áhöfn og viður mundi þá og þegar skolast niður í grængolandi Atl- antshafið. Skipstjórinn kvað sér hljóðs og stakk upp á að menn hétu því að byggja kirkju á þeim stað sem þá bæri að landi, auðnað- ist þeim að ná landi. Menn bundu þetta fastmælum. Skömmu síðar sigla þeir upp undir land í Selvogi en óttuðust strand og freistuðu þess að venda skipinu frá. Þá sjá þeir skínandi hvíta veru með krossmark í hendi gera þeim bendingu að lenda á ströndinni. Þeir fóru eftir bend- ingu verunnar og náðu landi heilu og höldnu. Þar sem þeir lentu heitir síðan Engiísvík. Veran hvarf þeim sjónum en þeir komust að því að þeir höfðu lent í landi Strandar í Selvogi. Skipverjar byggðu þar síðan kirkju beint upp af Engilsvík að fengnu leyfi Árna Þorlákssonar biskups i Skálholti. Hann gaf leyfi sitt til kirkjubygg- ingarinnar með því skilyrði að hin nýja kirkja yrði sóknarkirkja en áður hafði kirkjan í Nesi gegnt því hlutverki. Varð vegur hennar eftir þetta æ minni þar til að hún var aflögð á átjándu öld. Kirkjan á Strönd hefur verið sóknarkirkja í Selvogshreppi síðan þessir atburð- ir gerðust. Áheitakirkja Þessi sögn um tilurð Strandar- kirkju hefur gengið mann fram af manni í Selvogi og alla tíð hefur kirkjan sú þótt góð til áheita. Áheit fóru að berast strax frá upphafi, einkanlega frá sjómönn- um og Norðmönnum. Munir og fé, ekki síður munir, því almenningur hafði ekki mikið fé handbært á þeim tíma. Skógarhögg átti kirkj- an í Noregi í langan tíma auk ým- iskonar annarra hlunninda sem voru áheit til kirkjunnar. Höfuöbólið Strönd Jörðin Strönd í Selvogi var eitt sinn höfuðból og sátu hana lög- menn af kyni Erlendar Ólafssonar sterka sem var norskur að ætt- erni. Sátu ættmenn Erlendar Strönd í 400 ár eða 14 ættliðir. Sonur hans var Haukur lögmaður, sá er ritaði Hauksbók. Höfuðbólið Strönd varð sandin- um að bráð. Sandurinn berst með suðurströndinni austan frá jökl- um, hleðst upp í víkum og vogum og fer að fjúka þegar mikið er orð- ið af honum. Strönd fór í eyði um 1700 vegna sandfoksins. Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson vísit- erar að Strönd haustið 1670 gerir biskup sóknarmönnum að skyldu að halda vel uppi kirkjugarði „eft- ir skyldu sinni, eftir því sem sam- an kemur, að kirkjan verjist fyrir sandfjúki". Strandarkirkja borgar fyrir sig Þó sandurinn eirði engu stóð Strandarkirkja af sér áhlaup hans, en árið 1749 kom ungur prestur að Selvogi, Einar Jónsson. Tveimur árum síðar vísiterar Ólafur biskup Gíslason Strand- arkirkju. Hún er þá 15 ára gömul en biskup segir að súðin og grind sé víða fúin. „Húsið stendur á eyðisandi, svo hér er mikið bágt að fremja guðsþjónustur í stormum og stórviðrum. Er því mikið nauð- synlegt að hún sé flutt í annan hentugri stað.“ Prestur bað þessu næst biskup og Pingel stiftamtmann leyfis að flytja kirkjuna að Vogsósum og sendi með beiðninni meðmæli III- uga Jónssonar prófasts. Segir þar ennfremur að „stundum nái sandskaflarnir upp á miðja veggi kirkjunnar. Þarna sé ekkert af- drep og fólk kveinki sér við því að sækja kirkju sé nokkuð að veðri”. Var ákveðið að kirkjan skyldi flutt til Vogsósa innan tveggja ára. Selvogsmenn voru þessari ráð- stöfun mjög mótfallnir og töldu að kirkjan mundi glata helgi sinni ef hún fengi ekki að standa á þeim stað er forsjónin hafði valið henni. Endalok þessa máls urðu þau að prestur flosnaði frá prestskap í Selvogi tveimur árum eftir að beiðnin um flutning Strandar- kirkju kom fram. ólafur biskp andaðist ári eftir að hann fyrir- skipaði kirkjuflutninginn. Pingel stiftamtmaður hrökklaðist frá embætti nokkru seinna og Ulugi prófastur andaðist um svipað leyti. Taldi almenningur að þeim CÍU65 T FYRTO PRJEDIKPN EFTIR PR.IED1KPN Krans af leiði séra Eggerts Sigfús- sonar í Vogsósum. hefði hefnst fyrir — Strandar- kirkja borgaði alltaf fyrir sig. Sóknarmenn Strandarkirkju hafa staðfastlega trúað því að hún myndi glata helgi sinni yrði hún færð og hafa staðið sem klettur gegn öllum slikum fyrirætlunum og þess vegna stendur kirkjan enn á sama stað. Kirkjubyggingar Fyrsta kirkjan á Strönd var úr norsku timbri eins og fyrr sagði. Margrét frá Öxnafelli hefur oft komið í Strandarkirkju og hún lætur hafa eftir sér á einum stað að hún hafi, þegar hún stóð eitt sinn í fjörunni fyrir neðan kirkj- una, séð skip Norðmannanna koma að landi og mennina bera viðinn í hlaða. Gat hún lýst mönn- unum nákvæmlega, útliti og bún- ingi. Kvað hún þá vera fimmtán eða sextán. Seinna voru torfkirkjur byggðar á Strönd. Elsta lýsing á slíkri kirkju á Strönd er frá árinu 1624: „Kirkjan nýsmíðuð, fimm bitar á lofti auk stafnbitanna, kórinn al- þiljaður, lasinn predikunarstóll. Öll óþiljuð undir bitana bæði i kórnum og framkirkjunni. Einnig fyrir altarinu, utan bjórþilið." Torfkirkjur stóðu að jafnaði í um 30 ár og ekki er að sjá að hin miklu auðæfi Strandarkirkju hafi verið auðsæ af gerð hennar eða búnaði. Árið 1735 skipar Jón biskup Árnason að reisa þar nýja kirkju. Er hún komin upp ári seinna og sögð væn og vel standandi og svo um hana búið að utanverðu að sandurinn gengur ekki inn í hana. „Hennar grundvöllur hefir ogso Númerataflan í Strandarkirkju. Rafn Bjarnason meðhjálp- ari og formaður sóknar- nefndar á tröppum Strandarkirkju. ÞEITA ER EKKERT VENJULEGT HÚS Samantekt um Strandarkirkju í Selvogi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.