Morgunblaðið - 12.04.1990, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 12.04.1990, Blaðsíða 2
2 C MÖIÍGUNBLAÐÍÐ, PIMMTUDÁGUR 12. APRÍL 1990 gaman að eiga okkur systkinin og höfðu áhuga á því sem við vorum að fást við. Sú kynslóð sem ól upp mína kynslóð beitti meiri aga. Við vorum ekki alltaf sátt við hann, fannst eftirlitið of mikið, foreldrarnir gamaldags. En eftir á að hyggja var þessi agi verðmætt veganesti. En á heildina litið held ég að ég hafi verið svona venjulegur krakki í Vesturbænum." Hvað langaði þig til að verða þegar þú yrðir stór? „Ég veit ekki hvort ég hugsaði mikið út í að ég yrði eitthvað sérstakt. Ég taldi al- veg sjálfsagt að ég myndi giftast. Væri ég spurð sagðist ég ætla að giftast góðum manni. Svo sagði ég stundum að mig lang- aði að verða skipstjóri því ég vildi sjá fleira en ísland.“ Hvað eða hver finnst þér hafa haft mót- andi áhrif á þig í bernsku, utan heimilisins þíns? Hún styður hendi undir kinn. „Það var margt sem hafði áhrif á mann. En upp í hugann kemur fröken • Guðrún, íslensku- kennari minn í Landakoti. Hún hafði djúp áhrif á mig. Þeir sem voru hjá henni eiga sérstakan heim. Við lærðum kvæði og svo fór hún með íslendingasögumar sem fram- haldssögur eftir að hafa hlýtt yfir. Hún lét okkur læra ballöður Matthíasar Jochums- sonar um Hallgrím Pétursson og Eggert Ólafsson utan að. Það gerði ekkert til þó okkur ræki í vörðumar. Fröken Guðrún hjálpaði okkur að skilja hvernig skáld hugs- uðu. Skáldskapur var í hávegum hafður heima en áhuga á rituðu máli og tilfinning fyrir því átti sinn uppmna hjá fröken Guð- rúnu. Sennilega leikhúsáhuginn líka. Henni var lagið að segja dramatískt frá, þannig að leikhúsið sem er í sögunum komst tii okkar. Hún var ekki hávær manneskja en náði til okkar með sinni einstöku þekkingu og kærleikanum til alls sem var íslenskt. Fékk okkur til að skilja hvað er hægt að segja mikið í örstuttri setningu. „Ung var ek gefin Njáli“, „Þeim var ek verst . . .“ Enga manneskju hef ég þekkt sem hefur farið betur með mannlýsingar í íslendinga- sögunum. í meðförum hennar urðy,sögurn- ar leikhús. Við sáum atburðina þegar hún sagði frá.“ Og að vera unglingur á stríðsárunum? „Þú getur ímyndað þér að það snerti okkur. Þá var talað um heiminn á allt ann- an hátt en nú þegar stríð og óeirðir eru okkur dægradvöl. Við sóttumst mjög eftir að fara í bíó. Allar myndir voru fullar af ást og hamingju. En á undan hverri mynd var sýnd fréttamynd um gang stríðsins. Heiminum var hellt yfir okkur unglingana og við fengum stríðið í Evrópu beint í æð. Hvað Evrópa var að ganga í gegnum. Við sáum loftárásir og hrundar borgir. Við fór- um út unglingarnir að sýningu lokinni og höfuðin full af rómantík en hitt blundaði í vitundinni. Ég sé fyrir mér margt úr þessum myndum - hljóðandi fólk að hlaupa, sprengjuýlið. Heimilin í rúst. Þá hugsaði ég oft um alls konar smáatriði. Hvað um litlu munina sem þessar íjölskyldur höfðu glat- að, myndir og bækur. Stundum voru mynd- ir þegar grátandi foreldrar voru að fá fregn- ir af því að drengurinn þeirra hefði verið drepinn í stríðinu. Ég lifði mig inn í þetta og hef alltaf gert það. Sorg og hörmungar gera mig máttvana þvi það er svo lítið sem 1 hægt er að gera. Þegar ég var í heimsókn í Portúgal bjó ég í veglegri höll en út um gluggann blöstu við fátækrahverfin. Það var óbærilegt. Með fátæktinni kemur sinnu- leysi, fátæktin sviptir fólk orku og reisn.“ Nú bjuggu ráðherrar við götuna þína á stríðsárunum svo væntanlega hafa hermenn verið þar á stjákli. Var það spennandi? „Hamingjan sanna, mér og mínum vin- konum var uppálagt að segja aldrei við þá orð! En ég vorkenndi þeim. Ég man eftir messu í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld, þar sem voru margir hermenn. Þegar kirkju- gestir sungu Heims um ból tóku þeir undir á sínu tungumáli, sumir með tár í augum. Ég hugsaði með skelfíngu til þess að án efa yrði hlutskipti sumra að verða sendir héðan fljótlega og biði það eitt að verða drepnir á vígvellinum. íslendingum er fýrirmunað að skilja þjóðir þar sem mannslífíð er ekki haft í öndvegi. Líf hvers og eins er svo mikils virði. Við hvorki getum né viljum missa neinn. Við getum verið afar stolt af því hvað við komum hvert öðru við. Það snertir alla þegar slysfarir verða, það verður aldrei hversdagslegur atburður. Érlendum gestum þykir til dæmis erfitt að skilja að við skrif- um minningarorð um alla. Érlendis er það ekki gert nema um einhveija svokallaða fyrirmenn. Mér finnst þetta fallegur siður. Og með því höldum við einnig tengslum við fortíðina, við erum alltaf með brú til for- tíðar.“ Aldurinn. Er hann þér áleitið umhugsun- arefni? „Þegar ég varð fimmtug fannst mér tíma- mót. Ég hafði lifað elli æsku minnar og hlakkaði til að kynnast æsku ellinnar. Jú, hver hugsandi manneskja veltir fyrir sér tímanum og aldrinum.Ég hugsaði mikið um tímann þá. Á annan hátt en nú. Ég setti spjald upp á vegg hvar á stóð „allar skoðan- ir skal endurmeta strax og ný viðhorf mynd- ast“. Þau orð skírskota ekki síður til mín nú. Við endurmetum á grunni reynslu og þekkingar. Sextug manneskja er orðin fast- mótuð. Það er fátt sem kemur alveg í opna skjöldu. En sem betur fer verður maður enn hissa og undrandi yfir að sjá hvað allt breyt- ist, breytist hratt. Og ég minnist þess að Sigurður Nordal sagði einhveiju sinni að árin eftir sextugt væru skemmtilegust. Mergurinn málsins þegar við hugsum um aldur er lífsgleði og heilbrigði." Hún heldur áfram. „Það hefur verið svo í tísku að vera ung og æska kvenna notuð í auglýsinga- skyni, stundum á þann hátt að mér hugn- ast það ekki. Með aldri öðlast konan sterk- ari persónuleika. Prestur komst einu sinni svo að orði að konur með hrukkur eða rún- um rist andlit væru fallegar, í rúnum andlits- ins speglaðist reynsla lífs þeirra. Mér þykir þetta fallega sagt. Tíminn gerir okkur það sem við erum. Ég hef mætt meðbyr og mótbyr eins og aðrir. Það hefur mótað mig að eiga verðmætamat sem felst í að það veraldlega er ekki eftirsóknarverðast." Finnst þér líf þitt hafa runnið eftir föstum farvegi. „Ég hef þvert á móti oft hugleitt - og ekki síst nú þegar ég er að verða sextug - hvað margt í lífi mínu hafi orðið fyrir ein- hvers konar tilviljun. Að ég ákvað ung kona að fara til útlanda í nám og kannski er flest afleiðing þeirrar ákvörðunar. Og að ég skyldi ákveða að fara til Frakklands en ekki til Danmerkur, einnig þetta hafði áhrif á allt mitt iíf, breytti minni lífssýn, leiddi mig inn á nýtt menningarsvæði. Koma síðan heim og flétta saman þau áhrif og sterkrar norrænnar hefðar. Eftir fimmtugt vildi ég eitthvað allt annað en það veraldlega. Hvað? Kannski vitum við aldrei hvað við viljum, frekar hvað við viljum ekki. Við verðum að sjá til, sjá hvernig kaupin gerast á eyrinni. Mér þykir gaman að eldast. Það veitir yfir- sýn og þroska. En ef við berum saman hugmyndaheim okkar þegar ég var þrítug og nú þegar við horfum á æskufólkið okkar finnum við að það hugsar margt eins og við. En það hefur annan bakgrunn og aðra lífssýn. Ég skil það svo vel. Eg er ekki að hnjóta um það. Mér finnst það hreinasta veisla fyrir andann að tala við ungt fólk og skynja að það er að stefna inn á braut til skilnings og þroska. Það man ekki tímann þegar lífið var fábrotnara, ekki tímann fyr- ir síbyljuna. Það er óhjákvæmilegt annað en mjög margt fari framhjá fólki. Það verð- ur að hrópa hátt til að vekja athygli. Við erum of veraldlega sinnuð sem er það eðli- legasta sem gat hent þessa þjóð í ljósi fá- tæktar og örbirgðarminninga hennar. En offlæðið deyfír vitundina um hvað er ein- hvers virði. Það er ekki alltaf hið sanna og verðuga sem nær athygli. Það er ekki alltaf ræktað sem skilur eitthvað eftir og er ekki bara stundargaman. En ég hef tilhneigingu til að halda í þá bjargföstu trú að alltaf verði nógu margir sem vinni að því sem er lóðið, búi yfir aflinu sem knýr áfram lukku- hjólið.“ Hún bætir kaffi í bollana. Brosir og seg- ir: „Ég trúi að senn verði kúvending. Veislu- borðið hefur verið svo hlaðið að bráðum viljum við og getum ekki meira. Þá förum við aftur að læra að njóta þess yndislega munaðar að vera ein með sjálfum okkur.“ Finnst þér þú sjá merki þess? „Já. Ungt fólk kemur fram með fijóar skoðanir og viðhorf sem við höfum ekki einu sinni ætlað þeim að hafa veitt eftir- tekt, hvað þá skilið ýmsa þætti þjóðlífsins. Ég greini þetta skýrast í umhverfisvakning- unni. Ég hygg að margt ungmennið vanti fastan púnkt. Það er okkar hlutverk sem erum eldri að reyna að ljúka upp augum þeirra svo að þau fái annað og innihaldsrík- ara verðmætamat. Þannig færum við þeim aftur landið, heldurðu það ekki? Við getum aldrei nógsamlega glaðst yfir því að eiga þetta land. Við getum litið á fjall og hugs- að: Ég á þetta fjall og enginn tekur það frá mér. Við höfum tengsl við landið, náttúr- una, hveija þúfu á einstakan hátt sem ég hef hvergi fundið annars staðar. Að eiga fjallið sitt, það er kjarni málsins." Þegar þú hittir erlenda blaðamenn, um hvað spyija þeir? ' „Þeir horfa mikið til þess að ég er kona. Þeim fínnst það enn óvenjulegt þó tíu ár séu liðin. Fyrr eða síðar er komið inn á það að vera íslendingur og búa hér við þessar aðstæður. Mörgum finnst skrítið hvað okkur getur þótt eftirsóknarvert við það. Mönnum þykir vlð vera langt frá heimsbyggðinni. Það breytist oft eftir nokkra dvöl þeirra hér. Ég reyni að skýra út fyrir þeim hvern- ig við hugsum. Að þungamiðja heimsins er þar sem hjartað slær og ræturnar eru og að við getum unnið með okkar fólki. I íslensku þjóðfélagi hefur hver einstaklingur hlutverki að gegna og það kallar á ábyrgðar- tilfinningu sem er einstök. Við erum hér hvert og eitt og öll - við erum ekki aðeins hluti af heild.“ Ertu rómantísk? Hún hlær. „Ja, rómantísk. Hvernig eigum við að skilgreina það? Ég er hrifnæm, hrífst af öllu sem er fallegt. Flestir tengja róm- antík við ást. En allt sem er fallegt í mannlífinu og samskiptum fólks snertir mig og ég leita þess. Mér finnst allar eijur óþægi- legar og legg lykkju á leið mína til að laga þær ef mögulegt er. Ég hygg það sé í okk- ur íslendingum, við viljum lifa við frið - ekki lognmollu. Og vissa ljúfmennsku. Við áttum okkur vonandi betur á hinum mjúku gildum og skrítið hve lengi hefur verið gert lítið úr þeim. Þau eru þungamiðja lífsins og benda hveijum og einum á hvað hann á að rækta í sér.“ Gagnrýni eða óvild í þinn garð, hvernig bregstu við slíku? „Ég væri fákæn ef ég héldi að það væri mögulegt að öllum líki við mig og það er fráleitt að vera allra viðhlæjandi. Þá væri ég óttaleg dula. Ef gagnrýni er réttmæt þá reyni ég að skoða hana og læra af henni. Ef hún er óréttmæt og ég kannast ekki við það sem er verið að gera mér upp, sárnar mér. En þá er að reyna að horfa á málin í víðara samhengi og skilja af hveiju þetta gæti verið til komið. Ég get sett mig í spor þeirra sem hafa aðrar skoðanir en ég. Mér finnst það eðlilegt að hver hafi sína skoðun en menn verða að sýna heilindi og virða aðrar en sínar. Ég vil að menn grundi skoð- anir sjnar og hlaupi ekki með fordómana á torg. í' síbyljunni hættir mönnum til að hafa í frammi yfirborðslegt tal og fordóma. Ég finn oft að agi sá sem ég kynntist í foreldra- húsum hefur gert mér gott. Af honum sprettur sjálfsagi en stundum dugir það ekki til, maður verður að tugta sig til. Skap- stórt fólk verður að grípa til sinna ráða. Aga þá þætti í fari sínu sem eru erfiðastir. Sitja á orðunum, láta augnabliksreiði ekki hlaupa með sig í gönur. Atta sig á að allt má skoða í öðru ljósi og öll mál hafa fleiri hliðar, sem betur fer.“ Hvað meturðu mest í fari fólks? Hugsar sig um. „Ég gæti notað ýms orð um það. En kannski einlægni og hjartahlýja nái yfir flesta þá eiginleika sem ég met mesta. Það felur í sér heiðarleika og virð- ingu. Þar með virðum við lög þjóðfélagsins, þær umgengnisreglur settar af samfélaginu og vinnum að eigin heill og hamingju. Að bera ábyrgð á sjálfum sér skyldi brýnt fyr- ir öllum, þar með ber hver ábyrgð á öðrum. Þá gengur allt betur - orkan beinist í rétt- an farveg og það til betra þjóðfélags." Ef þú hittir þig tvítuga. Mundirðu þekkja Þ'g? Vigdís hlær dátt. „Já, ég hugsa það. Ég mundi áreiðanlega þekkja mig á freknunum og rauðbirknu yfirbragði. Jú, ég mundi þekkja mig og ég hitti stundum stelpur sem minna mig á mig.“ Og hvað langar þig að segja við þær? „Mig langar að segja við þær það sama og við allt ungt fólk; „menntið ykkur, lærið eitthvað sem gerir ykkur sjálfstæð, gerir ykkur að betri foreldrum. Við þurfum á öll- um að halda. Andríki hvers og eins til að reka þjóðfélagið okkar. Ég sé fyrir mér yndislega þróun: ef þjóðin framleiðir allt sem hún má og gerir það svo til fyrirmyndar er hljóta allir vegir að vera okkur færir. Við lifum í heimi þar sem þekkingin er lyk- ill að nýjum víddum, verðmætum sem skipta máli og velfarnaði þjóðarinnar.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.