Morgunblaðið - 06.05.1990, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 06.05.1990, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6. MAÍ 1990 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6. MAI 1990 25 Útgefandi Framkvæmdastjóri Ritstjórar Aðstoðarritstjóri Fulltrúar ritstjóra Fréttastjórar Auglýsingastjóri Árvakur, Reykjavík HaraldurSveinsson. Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Björn Bjarnason. Þorbjörn Guðmundsson, Björn Jóhannsson, Árni Jörgensen. Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst Ingi Jónsson. Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 691100. Auglýsingar: Aðalstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Kringlan 1, sími 83033. Áskrift- argjald 1000 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 90 kr. eintakið. Samstaða Sjálfstæðismanna Akvörðun þingflokks Ftjáls- lyndra hægrimanna að ganga til liðs við Sjálfstæðis- flokkinn er fagnaðarefni. Með aðild þeirra Inga Björns Al- bertssonar og Hreggviðs Jóns- sonar að þingflokki Sjálfstæðis- manna, sem nú er skipaður tuttugu þingmönnum, er lokið þeim erfiða kafla í sögu Sjálf- stæðisflokksins, sem hófst með stofnun Borgaraflokksins fyrir þingkosnjngarnar 1987. Sá klofningur Sjálfstæðismanna, sem þá varð, leiddi til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn fékk minna fylgi í þingkosningunum í apríl það ár, en hann hafði nokkru sinni fengið fram að þeim tíma. Þau úrslit urðu til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn gekk veikari en ella til þess stjórnarsamstarfs, sem efnt var til sumarið 1987 og hefur ekki búið yfir þeim pólitíska styrk á þessu kjörtímabili, sem flokkur- inn hefur yfirleitt haft. Nú eru kaflaskipti. Sjálf- stæðismenn ganga nú samein- aðir til leiks á ný og ætla verð- ur, að í sveitarstjórnakosning- unum eftir nokkrar vikur og í næstu þingkosningum muni yfirgnæfandi meirihluti þeirra kjósenda, sem greiddu Borg- araflokknum atkvæði í síðustu þingkosningum, hverfa til stuðnings við Sjálfstæðisflokk- inn. Borgaraflokkurinn á sér ekki framtíð enda byggðist hann á sínum tíma fyrst og fremst á persónufylgi þáverandi formanns flokksins. Hugur Al- berts Guðmundssonar til Sjálf- stæðisflokksins var hins vegar orðinn Ijós, þegar hann tók við sendiherraembætti í París. Þessi þróun á vettvangi Sjálf- stæðisflokksins er athyglisverð í ljósi þeirrar upplausnar, sem er á vinstri væng stjórnmál- anna. Það er rétt, sem Þor- steinn Pálsson, formaður Sjálf- stæðisflokksins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að „frjálslynd öfl eru að sameinast á meðan vinstri öflin eru að sundrast". Raunar er upplausn- in meðal vinstri manna slík, að þar eru engar hugmyndir uppi um framhaldið. Enginn veit, hvers konar framboð verða á vegum þeirra flokka í næstu kosningum. í framboði fyrir hvern verður Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðu- bandalagsins? Staða Sjálfstæðisflokksins er nú sterkari en hún hefur verið í einn og hálfan áratug eða frá því á vordögum 1974. í höfuð- borginni gengur flokkurinn til kosninga undir forystu Davíðs Oddssonar, borgarstjóra, og þar er málefnastaða Sjálfstæðis- manna slík, að enn hafa and- stöðuflokkarnir ekki náð nokk- urri málefnalegri fótfestu og eru þó einungis þijár vikur til kosninga. Yfirgnæfandi líkur benda til, að úrslit sveitar- stjórnakosninganna nú veiti Sjálfstæðisflokknum þá við- spyrnu í þingkosningum, sem dugi til að flokkurinn nái þar afgerandi forystu. JONAS HALL- grímsson var einnig með hugann við Eden og ræktunarstarfið þar. Það sjáum við víða í verkum hans. Ég legg það ekki í vana minn að vitna í erlendan texta án þess reyna að útleggja hann með einhveijum hætti, en samt held ég það saki engan að vitna í skemmtilegt og fallegt kvæði eftir Jónas á dönsku, því allt verður það íslenzkt og alþjóðlegt með einhveij- um hætti sem hann kemur nálægt. Ur þessum línum má lesa guð hafi jafnan verið mestur ræktunar- og garðyrkjumaður á þessu hnattkríli okkar: De sggte hel klart at vise med grunde fra syd og nord, at Gud har stedse været den bedste gartner pá jord. Þetta orti Jónas í Sórey, á miðju Sjálandi þarsem hann undi vel hag sínum við skáldskap og vísindastörf í skjóli ómetanlegs vinar síns, J. Steenstrups náttúrufræðings. Kvæðið er ort 1843-44. Það er að vísu hægt að framleiða rósir, fallegar rósir. Maðurinn er kominn langt í því að líkja eftir frumsmíðinni. Gerviblómagarðar færast í vöxt. En það er ein rós sem blífur; rósin úr hendi guðs. LESTER R. BROWN OG 44 vf •félagar hans hjá World- watch hafa ritað merka skýrslu um ástand jarðar og umhverfi í tilefni af Degi jarðar og tel ég ástæðu til að minna á nokkur helztu atriði hennar hér: Segja má, að nú sé jafnskammt liðið á sólaröld og var á kolaöldina þegar gufuvélin var fundin upp á 18. öld. Þá voru kol notuð til upphit- unar húsa og járngrýtisbræðslu. Þá var það enn aðeins óljós hug- mynd að nota kolakyntar gufuvélar til að knýja verksmiðjur og sam- göngutæki. Skömmu síðar rann fyrsta eimreiðin þó af stað og jarð- efnaeldsneyti, kol og olía, umbyltu öllu efnahags- og samfélagslífi. Með alls kyns tæknibúnaði hafa HELGI spjcill menn reynt að nýta á hagkvæman hátt end- umýjanlega orku sól- arinnar þótt þessi tæki séu enn sem komið er í lítilli notk- un einsog ég hef áður minnzt á. Um 2030 verða þau hins vegar orðin algeng og miklu betri. Orkulindin, sem hægt er að ausa af með þessari tækni, er næstum óþijótandi: Árlegt aðstreymi ef svo mætti segja aðgengilegrar, end- urnýjanlegrar orku í Bandaríkjun- um er t.a.m. áætlað 250 sinnum meiren núverandi orkuþörf lands- manna. Orkugjafarnir og margbreytileiki þeirra munu endurspegla loftslag og náttúrauðlindir einstakra svæða. í Norður-Evrópu verður líklega mikið um vind- og vatnsorkuver; sólarorkuver í Norður-Afríku og Miðausturlöndum og í Japan og á Filippseyjum verður jarðhiti nýttur meiren nú. í Suðaustur-Asíu verður eldsneytið einkum timbur og ýmis- legt, sem til fellur við landbúnað, og sólarorkan nýtt að auki. Sum ríki, t.a.m. Noregur og Brasilía, fá nú meiren helming orkunnar frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þegar kemur fram á árið 2030 verður mestallt vatn til heimilisnota hitað með sólarorku og safnþiljurn- ar, þúsundir lítilla sólarorkustöðva, munu setja svip sinn á húsþökin á sama hátt og sjónvarpsloftnetin nú. Raforkan verður framleidd og flutt frá stórum sólarverum á eyðimerk- ursvæðum Bandaríkjanna, Norður- Afríku og Mið-Asíu. Felst tæknin í því að safna saman sólarljósinu með speglum og hita olíufylltar pipur eða „katla“. Hitinn er síðan notaður til að snúa hverflum og rafölum sem framleiða rafmagn. Um 80 mega- watta sólarorkuver sem reist var í eyðimörkinni austur af Los Angeles á síðasta ári, breytir 22% af sólar- ljósinu sem beizlað var með þessum hætti í rafmagn og kostnaðurinn er þriðjungi minni en í kjarnorku- veri, að sögn Worldwatch Institute. En dr. Ágúst Valfells segir í sam- tali við Morgúnblaðið á Degi jarðar að „rafmagn úr sólarorku sem nýtt 'er beint verður trúlega minnst fímmfalt dýrara en rafmagn úr vatnsorkuverum". Vindorkan, sem er ein myndbirt- ing sólarorkunnar og stafar af því sólin hitar andrúmsloftið misjafn- lega mikið er nú allt að því jafnhag- kvæm og kolakynt raforkuver. Verkfræðingar eru vissir um að brátt komi fram nýir vindhverflar sem mali ekki aðeins gull í storma- sömum fjallaskörðum Kalifomíu, heldur einnig á sléttunum miklu í Norður-Ameríku og víðar. Eftir 40 ár fá Bandaríkjamenn hugsanlega 10-20% orkunnar frá vindorku- stöðvum. En dr. Ágúst telur senni- legt að rafmagn framleitt með vind- myllum verði ávallt talsvert dýrara en rafmagn framleitt með kjarn- orku „og þá örugglega miklu dýr- ara en rafmagn frá vatnsafli", en trúlega verði „raforka framleidd með vatnsafli ávallt ódýrust og þá um leið hagkvæmust til eldsneytis- framleiðslu“. Litlar vatnsaflsstöðv- ar verða einnig mikilvægir orku- gjafar og þá ekki sízt í þriðja heim- inum þarsem mest er um ónýtta vatnsorku. Vatnsaflsstöðvar fram- leiða nú fímmtung alls rafmagns sem maðurinn notar, en 2030 verð- ur hlutfallið orðið enn hærra. Jarðhitinn er mikil orkulind í iðr- um jarðar einsog við vitum og eina endurnýjanlega uppsprettan sem á ekki rætur að rekja beint til sólar- Ijóssins. Vegna tæknilegra fram- fara mun takast að beizla orkuna á lághitasvæðum, sem hingaðtil hafa verið óaðgengileg en eru þó mörg hundruð sinnum auðugri en þau, sem nú eru nýtt. Næstum öll ríkin við Kyrrahaf, þau sem liggja að Austur-Afríkusprungunni, og Miðjarðarhafsríkin munu njóta góðs af jarðvarmanum, en orku hans fylgir engin teljandi mengun, ekki frekar en orku fallvatna. Við getum hrósað happi yfir því að fallvötn og jarðhiti skuli vera helztu orku- lindir okkar. M. (meira næsta sunnudag.) REYKJAVÍKURBRÉF VIÐRÆÐUR AÐILD- arríkja Fríverslunar- bandalags Evrópu (EFTA) og Evrópu- bandalagsins (EB) hafa tekið aðra stefnu en vænst var fyrir aðeins nokkrum vikum, þegar formlegar samn- ingaviðræður aðilanna um að stofna evr- ópska efnahagssvæðið (EES) virtust á næsta leiti. Framkvæmdastjórn EB hefur hvað eftir annað frestað að samþykkja umboð til samninga við EFTA. Menn eru ekki á einu máli um það hvað veldur vandræðunum. Kom það meðal annars fram þegar þeir Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, ræddu þessi mál í sjónvarpi á dögunum. Þorsteinn Pálsson taldi, að ósk Jacques Delors, forseta framkvæmdastjómar EB, um að EFTA-ríkin styrktu sameiginlegar stofnanir bandalags síns ætti rætur að rekja til þess, að hann efaðist um vilja EFTA-ríkjanna til að ganga heilshugar til fyrirhugaðra viðræðna. Hann vildi með öðrum orðum að komið yrði á fót einskon- ar yfirríkjastofnun á vegum EFTA sem hefði umboð til að semja við EB. Svo sem kunnugt er verðut' þannig staðið að samn- ingsgerð af hálfu EB, að ríkisstjórnir, þing og framkvæmdastjórn bandalagsins veita fulltrúum sínum umboð. Á hinn bóginn eru EFTA-ríkin með hugmyndir um að fulltrúar þeirra sjálfra taki þátt í samn- ingaviðræðunum og ríkisstjórnirnar geti hlutast beint til um þær. Annað hefur að minnsta kosti ekki verið kynnt hér á landi. Gagnrýndi Þorsteinn að utanríkisráðherra og ríkisstjórnin skyldi ekki hafa leitað eft- ir umboði Alþingis til viðræðnanna við EB og ein ástæðan fyrir tortryggni EB-foryst- unnar væri einmitt vitneskja hennar um veika og óljósa stöðu og stefnu einstakra EFTA-ríkisstjórna í málinu. í Brussel fylgdust menn vel með því sem gerðist í einstökum EFTA-löndum. Jón Baldvin Hannibalsson tók annan pól í hæðina. Hann taldi að tafirnar á því að samningaviðræðurnar hæfust væru al- farið vegna deilna innan EB. EFTA-ríkin væru að verða einskonar leiksoppur í valdabaráttu milli einstakra stofnana EB, þar sem átökin væru mest á milli fram- kvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins. Taldi Jón Baldvin að framkvæmdastjórnin hefði ekki gætt þess nægilega vel að gera þinginu grein fyrir gangi viðræðnanna við EFTA og væri nú að súpa seyðið af því. Við þetta er því að bæta, að EB-þingið og ýmsir aðrir valdaaðilar innan Evrópu- bandalagsins vilja ekki láta hrófla við stjórnkerfi bandalagsins með samningum við EFTA. Gagnrýni þingmanna EB snert- ir því fleira en framkvæmdastjórnina, þeir sætta sig ekki við að stjórnarháttum EB verði breytt vegna evrópska efnahags- svæðisins. Þeir Þorsteinn og Jón Baldvin voru þannig sammála um að þessar mikilvægu viðræður væru í uppnámi, þótt þá greini á um ástæðurnar fyrir töfunum. Við þess- ar aðstæður á vafalaust eftir að koma í ljós, að það er ekki margt sem knýr EFTA-löndin til samstarfs, þau munu hvert um sig reyna að treysta hagsmuni sína eftir bestu getu gagnvart EB. Skiptir í sjálfu sér litlu máli í því sambandi þótt bandalagið ræði ekki um aðild við nokkurt ríki fyrr en eftir 1992. EFTA-ríkin telja öll mikilvægt að tryggja sem best hags- muni sína vegna sameiginlega markaðar- ins sem kemur til sögunnar í ársbyrjun 1993 og hljóta að gera það hvert um sig takist það ekki sameiginlega. Er rétt að minnast þess að það var Jacques Delors sem knúði á um^samstarf EFTA-ríkjanna í janúar 1989 og telji hann þau ekki koma nægilega mikið til móts við óskir sínar getur hann auðveldlega skipt um skoðun og hvatt til viðræðna við hvert einstakt ríki fyrir sig. I fyrrgreindum sjónvarpsþætti svaraði Jón Baldvin játandi spurningu Þorsteins Pálssonar um það hvort Steingrímur Her- mannsson forsætisráðherra hefði ekki látið í ljós vilja til að ræða gagnkvæm skipti á fiskveiðiréttindum við EB, þegar þeir hittu framkvæmdastjórn EB á fundi í Brussel 18. apríl síðastliðinn. Jón Baldvin sagði það einnig rétt, að Delors hefði látið í ljós áhuga á því að frekari tvíhliða viðræður við Islendinga um sjávarútvegsmál yrðu undirbúnar. Er þetta ekki til marks um að EFTA-ríki hafi í bakhöndinni að geta gengið til tvíhliða viðræðna við EB? ' VEGNA SVEITAR- stjórnakosning- anna tókst sam- komulag um það milli framboðsaðila að þeir myndu ekki birta í ljósvakafjöl- miðlum, það er hljóðvarpi og sjónvarpi, neinar stjórnmála- og kynningarauglýsingar vegna kosning- anna. í samkomulaginu segir, að fram að kjördegi muni þessir aðilar einvörðungu auglýsa í ljósvakamiðlunum fundi og sam- komur og í þeim auglýsingum verði ein- göngu getið um fundardag, tíma og fund- arstað, ræðumenn, fundarefni og skemmti- atriði ef eru. Undir þetta rita efstu menn framboðslista í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Hafnarfirði Keflavík, ísafirði og Akureyri auk Jóns Baldvins Hannibalssonar, formanns Al- þýðuflokksins, Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns Alþýðubandalagsins, Júlíusar Sólness, formanns Borgaraflokksins, Steingríms Hermannssonar, formanns Framsóknarflokksins, Kristjáns Ara Ara- sonar, fyrir Nýjan vettvang, Ingibjargar Hafstað, fyrir Samtök um kvennalista, og Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstæðis- flokksins. Það var Kjartan Gunnarsson, fram- kvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sem átti frumkvæði að því að þetta samkomu- lag var gert. Meginforsendan er auðvitað sú, að spara stórútgjöld í kosningabarátt- unni. Raunar stangast það á við þá ímynd sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa dregið upp af honum, að fram- kvæmdastjóri hans skuli beita sér fyrir slíku samkomulagi. Löngum hefur sá áróð- ur verið hafður í frammi, að sjálfstæðis- menn ættu styrk sinn að verulegu leyti því að þakka, að fjársterkir aðilar stæðu á bak við Sjálfstæðisflokkinn. Hinir sem minna mættu sín fjárhagslega ættu ávallt undir högg að sækja gagnvart flokknum. Þá var það einnig haft á móti frelsi í fjöl- miðlun á sínum tíma, þegar einokun ríkis- ins á ljósvakanum var afnumin, að pen- ingamennirnir myndu nýta sér frelsið gegn andstæðingum sínum. Reyndu ýmsir einn- ig að gera Sjálfstæðisflokkinn toitryggi- legan í þessu samhengi. Fyrir þingkosningarnar 1987 álitu for- ráðamenn flokka, að svipað samkomulag væri í gildi og nú hefur verið formlega undirritað af öllum sem hlut eiga að máli. Samkomulagið var þá ekki jafn formlegt og nú. Þegar á reyndi var það haft að engu og var það Framsóknarflokkurinn sem reið á vaðið með því meðal annars að hefja formann sinn, Steingrím Her- mannsson, til skýjanna. Var honum og flokknum líkt við klettinn í hafinu, eins og einhveijir kunna að minnast. Tryggileg- ar hefur verið gengið frá öllum formsatrið- um nú en 1987. Er það ekkert túlkunarat- riði nú, hvort pólitískar auglýsingar eru leyfðar í sjónvarpi og hljóðvarpi. Það er sérstakt fagnaðarefni í þessu sambandi að flokkarnir skyldu sjálfir hafa átt frumkvæði að þessum ákvörðunum. Er það mun skynsamlegri leið en að leita til ríkisvaldsins og mælast til þess við það, að sett verði bann við slíkum auglýs- ingum í ljósvakamiðlum. Raunar stóð vilji Ríkisútvarpsins til annars en slíks banns, því að auglýsingareglur þess voru rýmkað- ar nú fyrir kosningarnar með þeim rökum að það sæti við sama borð og aðrir og gæti tekið þátt í auglýsingastríðinu, ef til þess hefði komið. Samkomu- lagum kosninga- baráttu Laugardagur 5. maí Utankjör- staðakosn- ingin UM LEIÐ OG rætt er um, að stjómmálaflokk- arnir eða framboðs- aðilar skuli hafa náð þessu sam- komulagi er ástæða til að vekja máls á þeirri staðreynd, að opinberir aðilar gera alltof lítið af því að kynna almenningi, hvernig að því skuli staðið að neyta kosn- ingaréttarins. Hvar hafa menn til dæmis séð greinargóðar auglýsingar frá stjórn- völdum, um það hvar fólk geti greitt at- kvæði utankjörstaðar? Hvers vegna kaupir ríkisvaldið ekki rými undir auglýsingar um þetta efni í dagblöðum? í íslenskum blöðum geta menn stundum lesið auglýsingar frá stjórnvöldum annarra landa, þar sem ríkis- borgarar þeirra eru minntir á hvar þeir geta kosið utankjörstaðar. Hvers vegna auglýsir ríkisstjórn íslands ekki hvar borg- arar landsins geta neytt atkvæðisréttar síns bæði hér á landi og erlendis? Ástæðan er líklega sú, að ríkisvaldið auglýsir helst aldrei neitt nema þegar fjármunir eru í húfi. Skömmu fyrir sveitarstjórnakosning- arnar 1986, eða hinn 27. maí það ár, birt- ist stutt forystugrein hér í biaðinu um framkvæmd á kosningu utan kjörstaðar. Þar segir meðal annars: „Hér í Reykjavík er unnt að neyta þessa réttar síns í Ármúlaskólanum. Þeir, sem þangað þurfa að leita, kynnast fornaldar- legu vinnulagi. Með þessum orðum er ekki verið að kasta rýrð á þá starfsmenn borg- arfógetaembættisins, sem stjórna kosning- unni, heldur finna að þeim lögum, sem þeir eru skyldugir til að starfa eftir. Til marks um það, hve úrelt þessi lög eru, má nefna, að nöfn allra þeirra, sem kjósa, er skylt að færa í eina gjörðabók. Á tölvuöld eru allir þeir Reykvíkingar, sem ekki dveljast í borginni á kjördag og þeir íbúar annarra byggðarlaga, sem vilja kjósa í borginni, skyldaðir til að láta handskrifa nafn sitt í einu og sömu bókina." Þá segir, að þessi lagaákvæði um fram- kvæmd utankjörstaðaatkvæðagreiðslu séu orðin úrelt og skorað á þingmenn að breyta þeim. Eftir því sem best er vitað mun ætlunin að haga framkvæmdinni með sama hætti í Ármúlaskólanum í Reykjavík að þessu sinni en kjörstofa verður opnuð þar nú um þessa helgi. Þessi framkvæmd er síður en svo til þess fallin að auðvelda fólki að greiða atkvæði, svo að ekki sé meira sagt. ÝMIS NÝ FRAM- boð hafa komið til sögunnar í þessum Ný lramboð sveitarstjómakosningum. Sem betur fer eru engar opinberar hömlur á því, að menn geti reynt að hafa stjórnmálaáhrif með framboði. Allir hafa rétt til þess að safna saman hópi manna og bjóða þá fram til trúnaðarstarfa. Það setui' hins vegar sérkennilegan svip á kosningabaráttu, ef mörg ný framboð koma til sögunnar. Tilgangur kosninga er ekki aðeins sá að kjósa trúnaðarmenn til starfa í fjögur ár heldur einnig að gera upp við þá, sem hafa verið í stjórn og stjómarandstöðu liðið kjörtímabil. Mörgum nýjum framboðum fylgir að þeim fækkar sem telja sig bera ábyrgð á því sem liðið er. Nýju frambjóðendurnir segjast ekki hafa tilheyrt neinum flokki og þeir komi þess vegna til baráttunnar eins og saklaus- ir hvítvoðungar, sem eigi aðeins pólitíska framtíð en enga fortíð. Ein ástæðan fyrir klofningi Alþýðu- bandalagsins var einmitt sú, að ýmsir í flokknum töldu sig ekki geta axlað ábyrgð- ina á íyrri stefnu flokksins. Þeir sættu sig ekki við þá röksemd að ekki ætti að gera upp við fortíðina, enginn flokkur sem hef- ur starfað í áratugi er sögulaus. í Reykjavík á Alþýðuflokkurinn engan lista og oddviti flokksins í borgarstjórn á því kjörtímabili, sem er að líða, er í fram- boði á lista undir forystu oddvita sem tel- ur sér það til tekna að hafa verið óflokks- bundin og segist vilja hafa sem minnst Morgunblaðið/Þorkell samskipti við „flokkshunda" eins og hún orðaði það. Á Seltjarnarnesi óg í Garðabæ keppir meirihluti sjálfstæðismanna við bræðslu- lista, sem telja sig ekki bera ábyrgð á gjörðum andstöðulista Sjálfstæðisflokksins á líðandi kjörtímabili. Hér skal því ekki haldið fram, að nýju framboðin eigi rætur að rekja til þess, að menn séu markvisst að hlaupast undan ábyrgð vegna starfa þeirra lista, sem ætl- unin er að sameina með nýja framboðinu. Ástæðan fyrir nýju framboðunum er ein- faldlega sú, að mat aðstandenda þeirra er, að flokkslistar hafi ekki nægilegt að- dráttarafl til að unnt sé að stofna til far- sæls framboðs, sem höfðar til stórs hóps kjósenda. Nýju framboðin eru þannig í sjálfu sér vantraust á hefðbundna stjórn- málaflokka sem hverfa úr sögunni vegna þeirra. Styrk for- ysta - minnkandi áhugi VIÐA UM LYÐ- ræðisríkin eru vax- andi áhyggjur vegna þess að kjós- endur sýni kosning- um sífellt minni áhuga. Fólki virðist ástæðulaust að nota þann rétt sem það hefur til að velja sér trúnaðarmenn í kosningum. Ein ástæð- an fyrir þessu er sú, að almenningi finnist það minna skipta en áður, hver fari með hið opinbera vald, af því að það snerti það minna en áður. Því minni sem ríkisafskipt- in verða þeim mun minni áhyggjur þurfi raenn að hafa af því, hverjir fari með völd- in. í sumum tilvikum finnast fólki úrslitin svo augljós fyrirfram að það þurfi ekkert að skipta sér af kosningunum, sá nái hvort sem er kjöri sem það myndi kjósa. Loks kann ástæðan einfaldlega að vera almennt áhugaleysi á þjóðmálum eða stjórnmálum. Menn mega hins vegar ekki gleyma því, hve miklu skiptir að kjósa samhentan hóp undir öruggri forystu til trúnaðar- starfa. Gleggst hefur þetta komið í ljós í Reykjavík, þar sem sjálfstæðismenn hafa í áratugi haft hreinan meirihluta í borgar- stjórn. Farsæl stefnufesta og forysta kall- ar á traust kjósenda eins og gerst hefur hvað eftir annað í Reykjavík, nú síðast á þeim átta árum sem Davíð Oddsson hefur verið borgarstjóri. Undanfarna daga rétt fyrir kosningar hafa Reykvíkingar og raunar landsmenn allir fengið að kynnast kostum þess að njóta slíkrar forystu og nægir þar annars vegar að nefna viðbrögð- in vegna óhappsins í Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi og hins vegar vegna óvissu um framtíð Hótels Borgar. Er áreið- anlegt að ýmsir stjórnmálamenn okkar hefðu hikað í málum sem þessum, ekki síst þegar til þess er litið að kosningar eru á næsta leiti; frestur væri illu bestur. Eftir átta ára forystu Davíðs eru Reyk- víkingar orðnir því vanir, að viðkvæmar ákvarðanir séu teknar án þess að til stór- deilna komi í borgarráði eða borgarstjórn. Þegar hann varð borgarstjóri höfðu vinstri- menn haft meirihluta í borgarstjórn í fjög- ur ár. Þá minnti ástandið þar stundum á það, sem nú má sjá á Alþingi, þar sem hver höndin er uppi á móti annarri í stuðn- ingsliði ríkisstjórnarinnar. Er helst unnt að nota orðið sorglegt, þegar þess er til dæmis minnst, að þingmenn sáu ástæðu til að eyða löngum en dýrmætum tíma rétt fyrir þinglok til að karpa um kaupin á Hótel Borg - eftir að Reykjavíkurborg hafði keypt hótelið! Tölur frá sveitarstjórnakosningunum 1982 og 1986 sýna, að þátttaka í þeim minnkar verulega. Þannig greiddu 81,9% kjósenda atkvæði á landinu öllu 1986 en 85,1% 1982. í Reykjavík var þátttakan 81,5% 1986 en 85,7% 1982. 1986 var mest kosningaþátttaka í kaupstöðunum í Neskaupstað 93% og á Ólafsfirði 91,3% en minnst á Akureyri, 76,4% og í Kópa- vogi 78,2%. I ýmsum löndum liggja sektir við því, ef kjósendur nota ekki þann rétt, sem þeir hafa til þess að hafa áhrif á stjórn eigin lands eða sveitarfélags. Hér hefur ekki verið gripið til slíkra ráða en eitthvað má vera á milli sektaraðgerða eða þess aðgerðaleysis sem íslensk stjórnvöld sýna, þegar um það er að ræða að fá sem flesta til að taka þátt í kosningum og auðvelda almenningi að kjósa. í sumum löndum, svo sem í Svíþjóð, veija opinberir aðilar jafn háum fjárhæðum og flokkarnir til að aug- lýsa kosningar og hvetja fólk til þátttöku í þeim. „Farsæl stefnu- festa ogforysta kallar á traust kjósenda eins og- gerst hefur hvað eftir annað í Reykjavík, nú síðast á þeim átta árum sem Davíð Oddsson hefúr verið borgar- stjóri. Undan- farna daga rétt fyrir kosningar hafa Reykvíking- ar og raunar landsmenn allir fengið að kynnast kostum þess að njóta slíkrar for- ystu og nægir þar annars vegar að neftia viðbrögðin vegna óhappsins í Aburðarverk- smiðju ríkisins í Gufúnesi og hins vegar vegna óvissu um framtíð Hótels Borgar. Er áreiðanlegt að ýmsir stjórnmála- menn okkar hefðu hikað í málum sem þessum, ekki síst þegar til þess er litið að kosn- ingar eru á næsta leiti; frestur væri illu bestur.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.