Morgunblaðið - 30.08.1994, Side 35
MORGUNBLAÐIÐ
MINIMINGAR
ÞRIÐJUDAGUR 30. ÁGÚST 1994 35
EINAR FARESTVEIT
+ Einar Farestveit fæddist 9.
apríl 1911 ájörðinni Farest-
veit í Modalen á Hörðalandi í
Noregi. Hann lést 14. ágúst síð-
astliðinn og fór útför hans fram
frá Dómkirkjunni miðvikudag-
inn 24. ágúst sl.
ÁRIÐ 1933 hugðust nokkrir Hún-
vetningar stofna refabú. Silfurrefir
voru keyptir í Noregi, maður ráðinn
til að koma með þá til landsins og
stjóma búinu fyrst í stað. Það má
segja að enginn ráði sínum nætur-
stað. Maðurinn sem ráðinn hafði
verið til verksins veiktist á síðustu
stundu og gat þar af leiðandi ekki
komið, en í hans stað kom ungur
maður, Einar Farestveit að nafni.
Hann hafði lítillega fengist við refa-
rækt og þar sem kostakjör voru í
boði og ráðningartíminn stuttur,
greip hann tækifærið og var tilbú-
inn til fararinnar. Ekki sá hann
eftir þessari skjótteknu ákvörðun
og sagði hann oft að hér hefði hann
orðið mikillar gæfu aðnjótandi. Bjó
hann hér til dauðadags.
Einar kom með norsku skipi og
hafði refina meðferðis, en búið átti
að setja upp á Stóra-Osi í Miðfirði.
Ekki varð þó úr því og skyldu refa-
búin nú reist á Hvammstanga. Þar
sem faðir minn hafði stundað nám
í Noregi, og þar af leiðandi vel
mæltur á norska tungu, varð hann
túlkurinn á staðnum og fannst for-
eldrum mínum ekki koma til greina
annað en að ungi Norðmaðurinn
yrði til húsa hjá þeim, þar sem ein-
hver var til að ræða við hann og
nóg húsnæði fyrir hendi.
Einar var sérstaklega myndar-
legur maður, hár og grannur með
svart hár og brún augu. Ungu stúlk-
unum á Hvammstanga mun vafa-
laust hafa þótt hann glæsilegur og
það að vonum. Guðrún systir mín
hafði verið á Akureyri en kom heim
nokkru eftir að Einar kom til okkar
og er ekki að orðlengja það, að þau
felldu hugi saman og gengu í hjóna-
band árið 1934.
Fyrstu árin bjuggu þau á efstu
hæðinni (á loftinu) í húsinu heima.
Gekk sambúðin sérstaklega vel og
þeir faðir minn og Einar urðu ein-
staklega góðir vinir. Milli þeirra
ríkti gagnkvæmt traust og á vin-
áttu þeirra bar aldrei skugga.
Einar var feikilega duglegur og
starfsamur maður enda alinn upp
við mikla vinnu og aga. Refunum
fjölgaði í búinu, allt fóður þurfti að
vinna heima og starfíð varð ofviða
einum manni. Fleiri menn voru
ráðnir og á þeim árum sem búið
var starfrækt unnu þar allmargir
Norðmenn og tveir Færeyingar auk
íslendinga. Allir útlendingarnir
voru til húsa heima svo við kynnt-
umst þeim vel. Þeim var það sam-
eiginlegt að vera hörkuduglegir og
einstök prúðmenni.
Á stríðsárunum tók Einar að sér
starf í Reykjavík en þá var mjög
erfítt að fá húsnæði. Guðrún varð
því eftir fyrir norðan með drengina
þeirra tvo og beið þess að úr rætt-
ist með húsnæðið.
Oft var keyrt norður um helgar.
Einu sinni sem oftar er Einar var
á förum norður skrapp hann að
heimsækja norskan vin sinn og fyrr-
um starfsmann sem lá veikur með
botnlangabólgu á sjúkrahúsi í
Reykjavík. Ekki var búið að skera
manninn. Læknirinn hans hafði
nefnilega „forfallast" og aðrir lækn-
ar vildu ekki blanda sér í málin að
svo stöddu. Sjúklingurinn var bæði
reiður og sár, auk þess sem hann
var illa haldinn af verkjum og vildi
bara komast norður á Blönduós til
Páls Kolka læknis. Ekki leist Ein-
ari á að ræna sjúklingi af spítala,
en þeir landar voru báðir bíræfnir
og fannst að við svo búið mætti
ekki standa, var því hringt á
Blönduós og síðan haldið norður.
Kolka læknir ijarlægði botnlangann
en Einar aðstoðaði við svæfínguna
og gekk læknisaðgerðin samkvæmt
áætlun.
Fyrir hreina tilviljun tókst Einari
að festa kaup á íbúð í Reykjavík
svo Guðrún flutti suður með dreng-
ina. Þeirra var sárt saknað fyrir
norðan en heimili þeirra í Reykjavík
varð okkar annað heimili upp frá
því.
Fimmtán ára var ég við nám í
héraðsskóla er ég veiktist af berkl-
um ásamt nokkrum öðrum nemend-
um og var send á Vífilsstaði. Einar
og Guðrún hugsuðu ákaflega vel
um mig og eftir Vífílsstaðadvölina
má segja að þau tækju mig í fóst-
ur. Ég bjó hjá þeim og þau létu
einskis ófreistað til að koma heilsu
minni í lag. Mér voru settar reglur
og eftir þeim skyldi farið. Aldrei
út eftir kvöldmat nema með sér-
stöku leyfi. Ein stór skeið af lýsi á
morgnana og fleira og fleira sem
ég hef fyrir löngu gleymt. Það var
verst með lýsið, það vildi stundum
gleymast. En húsbóndinn sat við
morgunverðarborðið þar til það
hafði verið innbyrt og satt best að
segja vorum við krakkarnir oftast
æði snögg að bæta úr gleymsk-
unni. Ég er ævarandi þakklát fyrir
allt sem þau gerðu fyrir mig og það
var sannarlega ekki alltaf strang-
leikinn sem hafði yfirhöndina. Einar
var oft glaður og skemmtilegur, en
systir mín er ein af þessum blíðu
og góðu konum sem ekkert aumt
má sjá án þess að vilja bæta það.
Fyrir nokkrum árum fór ég til
Modalen ásamt mági mínum og
systur. Ég hafði ferðast nokkuð um
Noreg en aldrei komið á æskustöðv-
ar hans. Arthur, sonur þeirra, sótti
okkur til Björgvinjar og þótti mér
merkilegt að aka í gegnum öll jarð-
göngin er liggja inn í Modalen. Við
dvöldum í sumarhúsi þeirra, Guð-
rúnarbúð, en þaðan er fagurt út-
sýni yfír dalinn og ána. Þarna áttum
við ánægjulega daga. Þau sýndu
mér allt það markverðasta og þegar
kvölda tók settist Einar í stólinn
sinn við stofugluggann og rifjaði
upp minningar frá liðinni tíð, okkur
öllum til óblandinnar ánægju.
Það er margs að minnast frá því
sextíu ára tímabili sem ég hef verið
samferða Einari, ótaldar ánægju-
stundir fyrir norðan og síðan á
heimili þeirra Guðrúnar í Reykjavík.
Þar var oft glatt á hjalla, börnin
þeirra bráðhress og sannarlega ekki
hugmyndasnauð.
Einar tók veikindum sínum af
mikilli karlmennsku og þeirri reisn
er honum var meðfædd, en verst
þótti honum að geta ekki stutt konu
sína í hennar veikindum. Með
dyggilegri aðstoð bama sinna og
tengdabarna fékk Einar þá ósk sína
uppfyllta að vera á heimili sínu þar
til yfír lauk. Hann fékk hægt and-
lát umvafinn ást og kærleika, eigin-
konu og skyldmenna.
Blessuð sé minning Einars Far-
estveit.
Benny Sigurðardóttir.
Einar Farestveit, kær vinur okk-
ar, er allur eftir langa og hetjulega
baráttu við skæðan sjúkdóm. Það
fer ekki hjá því að maður undrist
lífsvilja hans og kraft fram á síð-
asta dag. Sennilega er sá baráttu-
hugur einkennandi fyrir allt hans
líf. Einar var nefnilega mikill at-
orkumaður og skilur eftir sig vitnis-
burð um það.
Það eru rúm sextán ár frá því
við kynntumst Einari og Guðrúnu
en þá hafði Hákon, sonur þeirra,
verið heimagangur hjá okkur um
skeið. Einari var umhugað um vel-
ferð barna sinna og því hringdi
hann einn morgun til okkar í leit
að Hákoni syni sínum sem þá var
farinn að skjóta sig í Guðrúnu dótt-
ur okkar. Enginn hafði hugmynd
um að Einari væri kunnugt um
samband þeirra en hann vissi oft
meira en menn héldu.
Allt frá fyrsta degi tóku þau
Guðrún og Einar Guðrúnu okkar,
sem dóttur sinni. Alla tíð hefur
verið svo sterkt samband milli
þeirra að sérstakt þykir. Bæði hafa
þau hjónin átt við veikindi að stríða
undanfarin ár og börn þeirra og
tengdabörn hafa hjálpast að við að
gera þeim lífið auðveldara. Guðrún
hefur búið á sjúkradeild Hrafnistu
í Hafnarfirði en Einar dvalið áfram
heima. Sterkt fjölskyldusamband
gerði hjónunum kleift að hittast því
böm og tengdaböm skiptu á milli
sín dögum í umönnun sinni. Sú fórn-
fysi við foreldra sína segir talsvert
meira um virðingu en mörg orð.
Við vitum að dóttursynir okkar
þrír munu sakna heimsóknanna til
afa og ömmu á Garðatorgi en erum
þess um leið fullviss að þeir eiga
og geyma allar góðu minningarnar.
Um leið og við kveðjum Einar með
söknuði biðjum við guð að styrkja
Guðrúnu, konu hans, og alla fjöl-
skylduna.
Laufey og Albert.
í bókinni Norður í svalann eftir
Sigurð Pálsson, sem út kom 1982,
rekur Einar Farestveit æviminning-
ar sínar. Þar segir m.a. frá störfum
hans í þágu félags Norðmanna á
íslandi, Nordmannslaget, en Einar
var þar virkur félagi og forystumað-
ur eftir að þau Guðrún kona hans
fluttust til Reykjavíkur frá
Hvammstanga um 1940.
Samheldni var mikil meðal Norð-
manna hér á landi á þeim erfiðu
tímum sem þá fóru í hönd, girt var
fyrir samband við ættingja í Noregi
og fréttir stopular af hinu raunveru-
lega ástandi í hernumdu heima-
landi. Á þessum tíma stofnuðust
sterk vináttubönd milli Norðmanna
sem hér höfðu sest að og fjöl-
skyldna þeirra.
Tomas faðir minn sem var for-
maður Nordmannslaget á stríðsár-
unum og Einar urðu strax miklir
mátar, þótt aldursmunur væri
nokkur, og var vinátta milli heimil-
anna æ síðan. Báðir voru þeir
íþróttamenn og stunduðu skíða-
göngu og skautahlaup sem ekki var
algengt á þeim tíma. Það mun hafa
þótt skrítið í vesturbænum þegar
þeir félagar, sem þá voru einnig
nágrannar, hlupu í kringum gamla
fótboltavöllinn við Sólvallagötu í
þeirrar tíðar „trenings-göllum“.
Það gladdi móður mína mjög á
áttræðisafmæli hennar í maí sl. að
þau Einar og Guðrún skyldu treysta
sér til að heimsækja hana þrátt
fyrir erfið veikindi. Ræða sú sem
hann flutti í því afmælishófí verður
okkur sem á hlýddum lengi minnis-
stæð svo mjög sem hún bar vott
um ríkan vinarhug í garð foreldra
minna, einkum þó föður míns þótt
meir en þrír áratugir séu liðnir frá
fráfalli hans. Reyndar var Einar
áður búinn að koma til okkar gam-
alli kvikmynd þar sem þeir faðir
minn voru í góðum félagsskap að
reisa norska bjálkakofann í Heið-
mörk upp úr 1950. Við þann reit
eru bundnar margar ánægjulegar
æskuminningar.
Einar haslaði sér völl í viðskiptum
hér á landi og rak eigið fyrirtæki
um langt árabil. Þótti hann stálheið-
arlegur í öllum viðskiptum og naut
víðtæks trausts á sínum starfsvett-
vangi. Hygg ég að honum hafi jafn-
an verið meira annt um „sitt góða
nafn og rykti“ en skjótfenginn
ávinning.
Þau Einar og Guðrún héldu
tryggð við okkar fjölskyldu í meira
en hálfa öld. Þegar ég hóf afskipti
af stjórnmálum var Einar í hópi
þeirra fyrstu sem veittu mér hvatn-
ingu og stuðning. Það þykir mér
enn ákaflega vænt um.
Einar Farestveit gat litið stoltur
yfir farinn veg eftir rúmlega 60 ára
búsetu hér á landi, þar af tæp 50
ár sem íslenskur ríkisborgari. Ævi-
starf hans var mikið og árangurs-
ríkt og hann lætur eftir sig marga,
dugmikla afkomendur. Fyrir hönd
fjölskyldu minnar sendi ég Guðrúnu
ekkju hans og ástvinum öllum inni-
legar samúðarkveðjur með þökk
fyrir vináttu liðinna ára. Við minn-
umst Einars Farestveit með djúpri
virðingu.
Geir H. Haarde.
Fleiri minningargreinar um
Einar Farestveit bíða birting-
ar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.
t
Útför
MAGNÚSAR GRÍMSSONAR
skipstjóra,
ferfram frá Fossvogskirkju fimmtudaginn 1. september kl. 15.00.
Þuriður Magnúsdóttir,
Bolli Magnússon,
Atli Magnússon,
Svanhildur Magnúsdóttir,
Matthildur Magnúsdóttir,
Helga Magnúsdóttir,
tengdabörn, barnabörn
og barnabarnabörn.
t
Eiginkona mín, móðir okkar, tengda-
móðir, amma og langamma,
HÓLMFRÍÐUR THEODÓRA
HALLDÓRSDÓTTIR HESTNES,
Sæviðarsundi 35,
Reykjavfk,
verður jarðsungin frá Áskirkju fimmtu-
daginn 1. september.
Útförin hefst kl. 13.30.
Erling Hestnes,
Ingibjörg Lára Hestnes, Bi-ynjólfur Sigurðsson,
Halldór Hestnes, Hulda Gústafsdóttir,
Guðlaug Hestnes, Örn Arnarson,
barnabörn og barnabarnabörn.
t
Móðir okkar, tengdamóðir og amma,
GUÐRÍÐUR M. PÉTURSDÓTTIR,
Suðurgötu 14,
Keflavik,
sem lést 19. ágúst, verður jarðsungin
frá Útskálakirkju, Garði, í dag, þriðju-
daginn 30. ágúst, kl. 14.00.
Þeir, sem vilja minnast hennar, láti
Krabbameinsfélagið njóta þess.
Davíð Eyrbekk, Sigurlaug Gunnarsdóttir,
Gunnar Örn Gunnarsson, Þórdís ingólfsdóttir,
Þóröur Steinar Gunnarsson, Helga Sigþórsdóttir,
Pétur Meekosha, Kristvina Magnúsdóttir
og barnabörn.
t
Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi,
ÞÓRODDUR JÓNASSON
iæknir,
sem lést á heimili sínu laugardaginn 27. ógúst, verður jarðsung-
inn frá Akureyrarkirkju föstudaginn 2. september kl. 13.30.
Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir, en þeim, sem vildu
minnast hans, er bent á Vinasjóð Heilsugæslustöðvarinnar á
Akureyri eða aðrar líknarstofnanir.
Guðný Pálsdóttir,
börn, tengdabörn og barnabörn.
t
Útför eiginmanns míns, föður okkar,
tengdaföður, afa og iangafa,
SÓLMUNDAR M. EINARSSONAR,
Birkihvammi 10,
Kópavogi,
verður gerð frá Kópavogskirkju fimmtu-
daginn 1. september kl. 13.30.
Rannveig K. Jónsdóttir,
Bára Sólmundsdóttir, Helgi Ingvarsson,
Anna Sólmundsdóttir, Geir Geirsson,
Ejnar Sólmundsson, Svanhvi't K. Einarsdóttir,
Jóna Sólmundsdóttir, Einar Baldvin Sveinsson,
barnabörn cg barnabarnabörn.
t
Alúðarþakkir sendum við öllum, er
heiðruðu minningu föður okkar, tengda-
föður, bróður, afa og langafa,
ÞORKELS BJÖRNSSONAR
frá Hnefilsdal,
og sýnduð okkur samúð og vinarhug
við andlát og útför hans.
Sérstakar þakkir til starfsfólks í íbúðum
aldraðra, Lönguhlíð 3, fyrir góða um-
önnun í veikindum hans.
Björn Þorkelsson,
Anna Þrúður Þorkelsdóttir,
Eirikur S. Þorkelsson,
Ingvi Þór Þorkelsson,
Helga Björnsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Oddný Óskarsdóttir,
Gunnar D. Lárusson,
Sigrún Skaftadóttir,
Hansína Á. Björgvinsdóttir,