Morgunblaðið - 27.09.1998, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 27.09.1998, Blaðsíða 5
Höfuðból endurhæfingar „Reykjalundur bjargaði honum, byggði hann upp þegar hann var að bugast andlega og líkamlega og það fengi hann aldrei full þakkað". að er mér einkar Ijúft að festa nokkrar línur á blað, þegar enn skal hefja hátt á loft merki nýrra verkefna á Reykjalundi til hags og heilla þeim þúsundum sem þess munu njóta. Hugur reikar heim á Reyðarfjörð til löngu liðins tíma þegar hann Þorbjörn vinur minn sá um alla fjáröflun fyrir SÍBS, hvort sem um var að ræða blað, merki eða sjálft happdrættið. Þorbjörn sem var hjólastólsbundinn, aðgengislaus með öllu bæði hvað atvinnu og búsetu varðaði, hafði eldlegan áhuga á svo mörgum velferðarmálum og þó hvíti dauðinn hefði aldrei sótt hann heim þá var SÍBS honum einkar hjartfólgið. Hann átti góða vini sem höfðu notið og nutu Reykjalundar sem hann svo lýsti sem þeim sælureit þar sem allir yndu vel og ættu sem hreina heilsubót, enda gekk öll sala hans í þessa þágu undravel og sagði hann sig þó með eindæmum slakan sölumann. Það er málefnið sjálft sem gerir svo góða sölu, sagði hann oft. Svo fór hann sjálfur til dvalar á Reykjalundi á sjöunda áratugnum og ég gleymi ekki fögnuðinum í rödd hans þegar hann hringdi í mig og sagði mér frá veru sinni þar sem væri Paradísarvist líkust. Efst var honum í huga atlæti allt og uppbygging slakrar heilsu en um leið sagði hann frá því með stolti í rómnum að nú færi hann frjáis ferða sinna um staðinn og væri ekki þannig upp á annarra hjálp kominn. Löngu seinna, þá búandi í Sjálfsbjargarhúsinu, sagði Þorbjörn að Reykjalundur hefði bjargað sér, byggt sig upp þegar hann var að bugast, andlega og líkamlega og það fengi hann aldrei fullþakkað. Þessi gamla saga kom ósjálfrátt í huga mér, þegar ég settist niður og hugðist hvetja alla sem orð mín mætu einhvers til að leggja nú Reykjalundi lið, þessu höfuðbóli hollustu og endurhæfingar á landi hér þar sem svo margt kraftaverkið hefur gerzt í gegnum tíðina. Það eitt út af fyrir sig er einstakt hversu um upphafið var, að það skyldu samtök hart leikinna sjúklinga eftir óvægnar árásir berklanna, sem hófu merkið, sem unnu líka verkið sem tryggðu þann grunn sem á er byggt í dag, þó breytt hafi um hlutverk í áranna rás. Og breytingarnar hafa fylgt þörfum hvers tíma, verið í takt við það bezta í heiminum í endurhæfingu, numin ný lönd og alls staðar árangri skilað. Sjálfur hefi ég reynt Reykjalund mértil hollrar heilsubótar, sem bakveill maður allt frá unglingsárum hefi ég leitað þar endurnæringar og farið þaðan eftir hverja dvöl hraustari og ekki sízt betri og beinni í baki. Ég hefi um leið átt þess kost að sjá svo mörg undur gerast þar í endurhæfingu á ýmsum sviðum, undur sem ekki er ósanngjarnt að líkja við kraftaverk. Lýsandi og Ijómandi dæmi þessa myndu fylla fjarska margar blaðsíður en mættu þó ekki megna að segja alla hina góðu sögu. íslenzk þjóð stendur vissulega í mikilli þakkarskuld við frumherjana, við þá einnig sem svo vel hafa áfram á akri erjað, við það margþætta starf sem unnið hefur verið og er til hjálpar svo mörgum sem þarfnast endurhæfingar og heilsubótar. íslenzk þjóð mun örugglega sýna þakklæti sitt í verki þegar enn er til hennar leitað um atfylgi við svo ágæta starfsemi og glæsilegt átak í hennar þágu, átak sem mun koma ótöldum fjölda fólks til ómetanlegrar hjálpar. Þá munu enn gerast undur, þar sem lífsvonin og lífsþrótturinn munu eiga mæta samleið. Landssöfnun 2.-4. október fyrir endurhæfingu á Reykjalundi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.