Dagur - 18.12.1981, Blaðsíða 3

Dagur - 18.12.1981, Blaðsíða 3
Jólahugvekja: FRIÐUR „Dýrð sé Guði í upphœðum ogfriðurá jörðu með mönnum sem hann hefur velþóknun á“ Þannig eru jólin hjá þeim sem veita þeim viðtöku. Þau eru Guði til dýrðar og þau veita frið. Það tvennt heyrir saman. Nú er friður ofarlega á baugi í fréttum. Það er ekki vegna þess að hann sé í sjónmáli. Þvert á móti. Vígbúnaður stórveldanna vekur ugg svo mikinn, að fólk hópast saman, skrifar um hann og segir frá því hver vá sé fyrir dyrum. Það myndar þrýsting á stjórn- völd að þau dragi úr vígbúnaði í stað þess að auka hann. Ásamt stríðsóttanum er það þráin eftir réttlæti og friði sem knýr fólk til viðbragða. Friðarhreyfingin í Evrópu, sem hefur verið í fréttum, hefur vakið nokkurn ófrið. Það er ekki vegna þess að menn vilji ekki frið eða óttist hann. Sá maður mun vandfundinn sem telur sig ekki vilja frið- samlega sambúð við aðra menn. Enginn er sá þjóðhöfðingi sem ekki segist elska frið- inn. Samt eru þeir voldugustu í mikilli keppni. Sífellt eru framleidd nýrri og full- komnari vopn. Þau nægja nú til þess að eyða jarðlífi mörgum sinnum. Á þetta bendir Friðarhreyfingin — en ekki leið til lausnar. Fjallar ekki um vandann sjálfan heldur af- leiðingar hans. Fólk fer mótmælagöngur gegn vígbúnaði, hefur hátt, hrópar slagorð. Það lætur ófriðlega og hliðstætt því er frönsk alþýða réðst á „Bastilluna“ og jafnaði hana við jörðu. Þar var eins konar friðarhreyfing á ferðinni. Þjökuð alþýða undir harðstjórn krafðist réttlætis og barðist fyrir því. Stjórnarbyltingin franska markaði þáttaskil í Evrópu að sagt er. Þá var talið að bjarmi sæist af nýjum degi með frelsi, jafn- rétti og bræðralag. Umrótið varð mikið en næstu þættir sögunnar urðu hinum líkir. Enn rísa upp menn, sem mynda fylkingar og krefjast réttlætis. Sama valdi er beitt, sama lögmáli lotið, — hart kemur á móti hörðu. Slík er sagan þegar mennirnir ætla sjálfir og einir að leysa vanda sinn. Það verður ekki séð að friðarviðleitnin i Evrópu nú leiði í nokkurn stað. Ekki meðan hún er aðeins hávaði friðlausra manna. Margt er að vísu réttilega sagt. En hreyfing- in hefur ekki í sér fólgið nýtt afl annað en það, sem nú ræður ríkjum. I henni er ekki að sjá nýja von fyrir stríðshrjáð mannkyn og óttaslegnar þjóðir frammi fyrir heimatil- búnum skelfingum, sem taka öllum öðrum fram. Því miður, vegna þess að hugmyndin um friðarsamtök er góð. Málefni friðarins er eitt það brýnasta að vinna fyrir. Því er það von mín sem kristins manns, friðarvon mín, að „friðarsinnar“ komist sem fyrst að nið- urstöðu skáldsins, sem gerði eftirfarandi ljóð: En þetta höfum við þó lært: Einnig hatrið á svívirðunni afskræmir andlitið. Einnig heiftin vegna óréttlætisins gerir röddina hása. Ó, við, sem vildum búa jarðveginn undir vináttu gátum sjálf ekki verið vingjarnleg. Friður verður ekki undirbúinn með ó- friði. Ást verður ekki framkölluð með hatri. Réttlæti verður ekki komið á með heift. Friður, þannig til kominn er falskur og hættulegur. Meinsemdin liggur dýpra. Vígbúnaðar- æðið er heimskulegt og viti firrt. En það er ekki leikur nokkurra stjórnmálamanna, heldur mannkynsins alls. Þeir sem nú krefj- ast friðar gera það á röngum forsendum. Þeir hafa sjálfir ekki nokkurn frið í sínum beinum. Mennirnir verða sjálfir að um- breytast — innan frá. Það sem veldur ófriðnum er tortryggni, ótti, kvíði, öfund, hroki og hatur svo nokkuð sé nefnt af meinum mannsins. Þau stafa aftur af því að hann hefur misst sambandið við höfund sinn. Hann reynir að leysa mál sín einn óstuddur. En lausnir hans eru dæmdar til að mistakast, því hann er frið- laus. Til mannsins, til okkar við þær aðstæður kemur boðskapurinn um frelsarann, barnið sem fæðist í Betlehem á jólum. Þá verða stór tákn. Þá syngja liðsveitir Guðs um frið á jörðu. Guð sendir frið sinn í heiminn. Hann gefur ekki fyrirskipanir um hvernig leysa skuli vandann. Hann lætur ljósið fæðast inn í heiminn til þess að þar birti innan frá, —til þess að bægja því frá okkur sem illu veldur, til þess að myrk, forn og ill öfl víki frá okkur fyrir heilögu ljósi hans. í trú er okkur gefinn friður í sál, því að „barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingja- dómurinn hvíla“. Þjóðarleiðtogar viðurkenna firru stríðsins en þekkja ekki leið til friðar. Því skal það vera bæn okkar að Kristur verði okkur og heiminum það, sem hann er með réttu: Konungur lífs vors og ljóss og konungur konunganna. Fæðing hans á jörð er tilboð um frið og fyllingu lífs. Jesús er ekki til- skipun að ofan heldur tilboð Guðs. Hann getur snert streng í hjarta þínu. Þú, sem þráir frið, minnstu þess, að fyrst þarf hann að verða hið innra. Það er innri friður sem streyma skal fram. Enginn verður knúinn til varanlegs friðar. Þú þarft fyrst að eiga frið í sál, vera sáttur við Guð og lúta hans heilaga vilja. Með lífi sínu öllu boðar kristinn maður frið. Kraftur hins fórnandi kærleika er kraftur Guðs til hjálpræðis. Það tók að birta á jólunum fyrstu. Þátta- skil urðu með fæðingu Jesú Krists. Hann býður okkur ljósið sitt, býður okkur að leiða okkur sér við hönd til hins nýja dags. Þannig boðar breið fylking kristinna manna þann frið, sem hún hefur eignast. Með trú sinni, lífi og starfi flytur hún umheiminum frið. Gerum það að bæn okkar á komandi jól- um, að Kristur fái að lýsa innra með okkur. Þiggjum þá náðargjöf, sem hann er fús að veita af gefandi kærleika sínum. Og hversu mikill sem ófriðurinn í kringum okkur ann- ars er, þá eigum við innri frið, því að við erum í sátt við skapara okkar og frelsara. „Og friður Guðs, sem æðri er öllum skiln- ingi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ Gleðileg jól. Hjálmar Jónsson. 18. desember 1981 - DAGUR 3

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.