Dagur - 16.11.1982, Blaðsíða 8

Dagur - 16.11.1982, Blaðsíða 8
BÆKUR Kristján frá Djúpalæk Vorganga í vindhæringi í síðasta Helgar-Degi fjall- aði Kristján frá Djúpalæk um bók Bolla Gústavssonar „Vorganga í vindhæringi“. Vegna mistaka féll niður hluti greinarinnar og verður hún því birt hér aftur. Eru hlutaðeigandi beðnir vel- virðingar á þessum mistök- um. í lok síðasta stórstríðs stóð þybbinn og brosleitur 10 ára patti innan við afgreiðsluborð í lítiili raftækjasölu föður síns við Gránufélagsgötuna á Akureyri. Langt og mjótt skáldmenni að austan, sem bjó neðar á Eyrinni, keypti stundum af honum 40 kerta perur og öryggi. Drengur- inn átti sérlega glaðværa og fallega foreidra sem unnu söng og öðrum fögrum listum. Nú er þessi kútur prestur á hinu forn- fræga setri Laufási við Eyjafjörð og kunnur fyrir snjallar ritgerðir og bækur, og bros hans er enn jafn glatt. Séra Bolli hefur m.a. skrifað viðamikla ritgerð um forvera sinn á staðnum, séra Björn skáldprest Halldórsson. Nú hef- ur hann hlotið viðurkenningu í verðlaunakeppni Almenna bókafélagsins um besta handrit að bók og liggur hún hér á borð- inu. Nafn hennar er Vorganga í vindhæríngi og sögð á mótum ljóðs og sögu. Mér sýnist að hún mætti alfarið kallast ljóðaflokk- ur og tel því bæði þessa skil- greiningu og uppsetningu texta óþarfa varúð. Skil ljóðs og lauss máls eru hvort eð er önnur síðan stuðlum og rími var fleygt á hauga. Hér er um að ræða ljóð- rænar smámyndir frá æskustöðv- um höfundar á Oddeyrinni og dregnar alveg sérlega skýrum dráttum. Já, svo lifandi að þær minna á kvikmynd á tjaldi fyrir sjónum lesanda. Nú vill svo til að höfundur er ekki aðeins orðhagur í betra lagi heldur sérlega drátthagur og þekkja margir snjallar teikning- ar hans. Þess sakna ég nú mjög að hann skyldi ekki nota teikni- pennann sinn einnig. Svo mynd- rænn er orðtextinn að hann hrópar á spegilmynd sína sem raunverulega mynd. Það er virkilega gaman fyrir fullorðna Oddeyringa að skoða þetta band orðmynda frá æsku- dögum séra Bolla. Við þekkjum flestar fyrirmyndirnar enda margar nefndar fullum nöfnum, aðrar hliðstæðum er ekki verður um villst. Mig langar að sýna eina götumyndina: „Utan Hríseyjargötu kemur Skeving á hjólhesti í áköfum samræðum við sjálfan sig. Hár í sæti, framsettur og fattur með lifandi andlit. Hann sperrir brýnnar, rennir tungunni niður með neðri vör, svo hún bungar út, og spýtur síðan mórauðu; hlær að hugsun sinni, veltir vöngum og setur enn á ein- ræður. Hann er í ljósum ryk- frakka með belti og góðan, dökkbláan hatt á höfði. Buxna- skálmarnar tekur hann saman um öklana með stálspennum.“ Og er þessi faliega minning ekki kunnugum þekkjanleg: „ Vorgolan leikur um vanga kon- unnar sem hefur svo stóran faðm að hann rúmar tvö lönd, Noreg og ísland." Vitanlega er pólitísk alvara þessara ára með í spili, þar nýtur gamansemi Bolla sín sem víðar vel. Pá var baráttan um brauðið engin moðsuða eins og nú, elleg- ar trúin á roðann í austri. 1. maí og öskudagur birtast hér í göml- um klæðum. Og ástin þá var eins og fyrr og síðar; stéttaskilin vildu gliðna. Þetta þykir mér ekki ósnjöll mynd af athöfn yfir- stéttarpilts úr betra hverfi að húsabaki hinnar alsnauðu al- múgastúlku Eyrarinnar: „Það var eins og hann ætlaði að éta þá frostrós fátæktarinnar, sem breiddi út blöð sín mót þeirri sól, er hafði villst út af braut sinni.“ Fjarska eru mér líka hugstæð- ar minningar drengsins um afa sinn, smiðinn, sem var svo full- orðinn að hann átti undan- bragðalausa samleið með hinum litla kút sínum í orði og athöfn. Ég er sem sagt mjög ánægður með verkið í heild. Höfuðein- kenni þess er hin skarpa sýn dráttlistamannsins, tjáð með tungutaki er ber aðalsmerki vit- urs hjarta. Mannleg hlýja höf- undar og ísmeygilegur húmor varpa birtu á hverja mynd, ljós- rauðri birtu ástarinnar á leik- vang bernskunnar. t Minning Halldór Jóhannesson bóndi Sveinbjarnargerði F. 22. sept. 1904- D. 14. okt. 1982. Af ástæðum er síðar verður að vikið, langar mig að rekja föður- ætt Halldórs Jóhannessonar lítið eitt aftur og styðst ég þar við það sem hann sagði mér sjálfur, auk þess sem ég hef aflað mér heim- ilda sem finna má í bókum. Maður hét Jóhannes Pálsson, fæddur 1798. Tók hann við búi af föður sínum á Kaðalstöðum í Fjörðum og bjó þar 36 ár. Kona hans hét Guðný Halldórsdóttir og eignuðust þau og ólu upp mörg börn. Stendur ætt þessi nú víða fótum. Það hef ég lesið af bók, að Jóhannes á Kaðalstöðum hafi ver- ið merkur maður og útsjónar- samur. Hafði hann lengi forystu í Fjörðum, hvað bjargræðisvegi bænda snerti. Einn sona þeirra Kaðalstaðahjóna var Halldór, er ýmist var kenndur við Grímsnes á Látraströnd eða Garðsvík á Sval- barðsströnd. Hann var fæddur á Kaðalstöðum 1842. Fyrri kona hans var Kristín Sigríður Jóns- dóttir, systir Baldvins á Svalbarði, útgerðarmanns og skipstjóra. Synir þeirra voru Jón er lengi bjó á Grímsnesi og Jóhannes Guðni er gekk að eiga Kristjönu Jóns- dóttur í Sveinbjarnargerði á Sval- barðsströnd. Sonur þeirra var Halldór bóndi í Sveinbjarnar- gerði, sá er ég leitast nú við að minnast og fara um nokkrum fá- tæklegum orðum. Var hann þeirra eina barn. Halldór Jóhannesson frá Kað- alstöðum bjó á Grímsnesi frá 1874 til 1889 og sagt var að hann hefði auðgast þar vel.iSíðan var hann eitt ár í húsmennsku á Þóris- stöðum á Svalbarðsströnd og ann- að í Garðsvík, að mér skilst. Upp úr því keypti hann Garðsvík og bjó þar til dánardægurs 1914. Seinni köna hans var Guðrún Ingibjörg Bjarnadóttir. Þeirra synir voru Gestur bóndi í Garðs- vík til 1944 nú á Akureyri og Hall- dór húsameistari og smiður. Bjó hann sín hinstu ár í Reykjavtk og er nú látinn. Allir voru þessir frændur smiðir að eðli og þeir feðgar Halldór og Jón á Gríms- nesi frægir bátasmiðir. Halldór í Sveinbjarnargerði sagði mér það til gamans, að í sinni fyrstu för í kaupstað keypti hann hamar fyrir hagalagðana sína. Nákvæmlega hið sama gerði Jónas sonur hans síðar. „Já, þetta liggur víst í ætt- inni að kunna betur við að hafa eitthvað í höndunum til að banka með og föndra," sagði bóndi og hló við. Þó hefur mér skilist að Jóhannes bóndi í Sveinbjarnar- gerði hafi öllu fremur hneigst að sjósókn en smíðum. Varð það og hlutskipti hans að hann fórst með fiskiskipinu Öldunni 1922. Þá var Halldór sonur hans 18 ára að aldri. Hélt Kristjana áfram bú- skap með fulltingi frændliðs og sonarins á hálflendu jarðarinnar. Mótbýlismaðurinn var Vilmund- ur bróðir hennar og hélst svo lengi. Upp úr 1930 byggðu þeir Hall- dór og Vilmundur myndarlegt tvíbýlishús af steinsteypu. Hafði Halldór þá dvalið tvo vetur á Hvanneyri og útskrifast þaðan sem búfræðingur. Þann 1. júlí 1935 gekk hann að eiga Axelínu Geirsdóttur frá Veigastöðum á Svalbarðsströnd, glæsilega konu ogmikilhæfa. Afalkunnri gaman- semi sinni sagði Halldór mér að hann hefði fyrst séð konuefnið við Svalbarðskirkju. Þá var hann 5 en hún 4 ára að aldri. Hélt hann því fram að þá hefði ástin kviknað. Ekki vildi frúin samþykkja þessa tímasetningu, en slíkt kvennahjal lést bóndi ekki heyra og svo var hlegið og Lína hellti aftur í boll- ana. Það er gott að geta minnst glaðværra stunda, nú þegar ský hefur dregið fyrir sól. Að sjálfsögðu mundi Halldór bóndi báða afa sína vel og hafði á þeim mætur. Báðir náðu þeir háum aldri og voru að allra dómi sómamenn. En því verður mér tíðræddara um föðurafann, að margir töldu og þá ekki síst Hall- dór sjálfur, að honum kippti öllu meir í ætt Halldórs í Garðsvík og væri hann jafnvel talsvert líkur gamla manninum. Þegar Halldór bjó á Grímsnesi átti hann sexróinn bát er hann hafði smíðað sjálfur. Nefndu menn bátinn Sleifina, hvað sem valdið hefur svo óvirðulegri nafngift. Hélt hann bátnum til fiskjar hvert haust svo lengi sem fært var. Svaf hann þá ekki alltaf mikið né menn hans, þegar vel aflaðist. Sieifin reyndist mikið happaskip og hlekktist aldrei á. Sagði Halldór bóndi afa sinn hafa grætt drjúgum bæði á útgerð og búskap. Hann var gætinn fjár- málamaður og rasaði aldrei um ráð fram. Var og talið að heppni fylgdi hverju hans fótmáli. Hafði Halldór gaman af að segja mér sögur af afa sínum og alnafna og þá sérstaklega frá árunum hans á Grímsnesi. Sá var háttur Jónasar Jónssonar á Látrum að uppnefna menn. Nefndi hann Grímsnesbónda aldrei annað en Sjóð. Þóttust sumir vita að bóndi ætti spesíur margar í sokkbol úti á skemmu- lofti. Enginn veit hvort þetta hef- ur verið sannleikanum samkvæmt, en hitt er víst að þegar efnahagur hans stóð með sem mestum blóma, átti hann fimm jarðeignir. Voru það Grímsnes, hálfur Hjalli á Látraströnd, Garðsvík öll, Sveinbjarnargerði hálft og Öxnafell í Eyjafirði. Þess utan átti hann á meðan hann bjó á Grímsnesi og kannski lengur, fjárbú á Garðsá í' Öngulsstaða- hreppi. Heyjaði hann þar ásumr- um og hafði þarna fjármann á vetrum. Þetta skrifaði ég upp eftir Halldóri vini mínum nokkrum mánuðum áður en hann dó og ætl- aði að hitta hann aftur sömu er- inda, en það lenti í undandrætti. Sem fyrr segir, var Halldór maður glaðvær, en um leið merkur og sannsögull. Hafði hann gaman af að segja mér frá umsvifum afa síns og þóttumst við skilja hvers vegna Jónas á Látrum hefði valið honum nafneiftina. Ekki get ég látið hjá líða að segja lítillega frá því er skriða féll úr fjallinu ofan við Sveinbjarnar- gerði 13. júní 1916. Veit ég ekki til að skráð hafi verið ýtarleg frá- sögn af þessu atviki. Þess mun þó hafa verið getið í blöðum á sínum tíma. Hér verður heldur ekki frá þessu sagt svo tæmandi sé, það yrði of langt mál. Þennan dag var 20 stiga hiti. Haustið áður féll mikill snjór á Vaðlaheiði áður en landið náði að frjósa. Þessi snjór hvarf ekki fyrr en í leysingum um vorið og var heiðin öll eitt foræði. Féllu víða niður spýjur, en engin svo stórfelld sem í Sveinbjarnar- gerði. Þar var heimilisfólkið við rúning fjár í fjárhúsum ofan við bæinn. Skyndilega kvað við gnýr mikill og brá fólkið við og hljóp til norðurs, þangað sem því virtist óhætt. Svo var þetta á síðustu stund, að Kristjana húsfreyja varð of sein fyrir og lokaðist inni. Það varð henni til bjargar að skriðan braut aðeins niður hlöðu- vegginn, en fjárhúsin sakaði ekki. Fór skriðan niður með bænum beggja megin með ofsahraða. Féll þó mestur hluti hennar sunnan bæjarins og seildist fremsta spýj- an niður fyrir veg. Var ekki annað tún óskemmt eftir en sem nam kýrfóðurvelli. Eitthvað fórst af því fé sem búið var að sleppa út og á tæpu stóð að Halldór, sögumað- ur minn og annar drengur lentu í skriðunni. Þeir voru nýkomnir ofan úr brekkunni þegar hún féll. Skriðan flutti með sér ókjör af leir og stórgrýti og í þessu flutu þykk- ar jarðvegstorfur. Að sjálfsögðu olli skriðan geysimiklu búskapar- legu áfalli, en nú er hún löngu orðin að túni, svo og skógarlundi þar sem grjótið var stærst sunnan við bæinn. Ég sem þetta rita flutti með fjölskyldu mína að Garðsvík vor- ið 1944. Óðar myndaðist vinátta á milli okkar og fólksins í Svein- bjarnargerði og fullyrði ég að aldrei bar á hana skugga þau 28 árin sem við bjuggum í þessu ná- grenni. Tún jarðanna liggja saman og svo mátti heita að þarna væri daglegur samgangur. Nú fyrir örfáum árum, spurði ég minn gamla nágranna hvort okkur hefði nokkurntíma orðið sundur- orða þau árin sem við bjuggum hlið við hlið. Nei, ekki kvaðst Halldór minnast þess. „Heldurðu ekki að við höfum einhverntíma tekið brýnu á hrepps- eða búnað- arfélagsfundi?“spurði ég. „Jú, það hlýtur að vera,“ svaraði Halldór. „Varla höfum við verið þeir aumingjar að slíkt hafi aldrei komið fyrir.“ Það þótti mér skemmtilegast við bændur á Sval- barðsströnd, að þótt þeir rifust á fundum út af vissum málum og yrðu illorðir, þá var þetta allt gleymt næsta dag. Já, það var gaman að búa á Svalbarðsströnd og mikil hamingja okkur í Garðs- vík að eiga slíka nágranna sem þau Axelínu og Halldór í Svein- bjarnargerði. Slíkt verður seint fullþakkað. Þótt Halldór Jóhannesson væri góður bóndi, er ég viss um að hann hefði engu síður dugað á öðrum sviðum. Jarðfræði var honum einkar hugstæð. Varð þess gjarnan vart á ferðalögum og átti hann drjúgmikið steinasafn er hann hafði safnað og leitað víða fanga. Húsasmíði hverskonar lá opin fyrir honum, svo og vélfræði. Hann var afburða töluglöggur og valdist mjög til endurskoðunar reikninga hinna ýmsu félaga. Þrátt fyrir nefnda hæfileika mat ég Halldór alltaf mest fyrir hið síglaða viðmót og léttu lund. Mér býður í grun að enginn maður mér óskyldur hafi orðið mér svo kær sem hann. Slíkt er þó alltaf erfitt að meta, þeim sem notið hefur vináttu margra. Vorið 1967 keyptu þeir feðgar í Sveinbjarnargerði býlið Þórs- mörk og juku við jörð sína. Fluttu þau Axelína og Halldór í íbúðar- húsið í Þórsmörk. Þarna leið þeim einkar vel og ekki síst eftir að ráðin var bót á sjúkdómi er lengi hafði þjáð Halldór. Fundu þau sér næg verkefni á nýjum stað, svo sem að koma upp trjágarði, eins og þau höfðu áður gert í Svein- bjarnargerði. Nú voru synirnir teknir við hinum stærri umsvifum. Jónas Eiríkur kominn vel á veg með sitt stóra hænsnabú. Jóhann- es Geir búinn að byggja býlið Vaðlafell í landi Veigastaða og Haukur hóf að reka sitt mikla kúabú. Kjördóttirin Theodóra Vigdís var flutt til Noregs og gift bónda þar. Þarna var alltaf eitt- hvað að gerast og varð ekki ann- ars vart en að gamli bóndinn kynni því vel. Og svo liðu árin fram. Oft komum við hjónin frá Garðsvík að Þórsmörk eftir að við fluttum til Akureyrar. Ávallt var auðfundið að við vorum velkom- in. Enn vorum við á leið þangað norður er við fréttum á miðri leið að Halldór hefði hnigið niður fár- veikur og lægi í sjúkrahúsinu á Akureyri. Næsta dag kom ég að rúmi Halldórs. Hvorki skildi ég það sem hann vildi við mig segja, né vissi ég hvort hann þekkti mig. Það var ekki einvörðungu trú, heldur örugg sannfæring er að mér féll við sjúkrabeð Halldórs, þess efnis að við værum ekki hér með skildir að skiptum. Síðar myndum við hittast og taka þá upp okkar létta hjal sem fyrr. Á öllu þóttist ég sjá að dauðinn beið við hinn rekkjustokkinn, rór og þolinmóður. Hann þurfti ekki að bíða lengi að þessu sinni. Að fimrn dögum liðnum var öllu lokið. Svo virðist sem dauðinn sé jafn eðlilegt fyrirbæri og fæðingin. Það er skoðun mín að þegar aldrað fólk á í hlut, sé breytingin ekki önnur en sú, að við yfirgefum börn okkar í svip og hverfum á vit foreldra okkar og vina sem farnir eru á undan okkur. Þess vegna er engu að kvíða því „þar standa vin- ir í varpa sem von er á gesti,“ eins og Davíð frá Fagraskógi segir svo fagurlega. Halldór Jóhannesson hlaut virðulega jarðarför og var Sval- barðskirkja meir en fullsetin vandamönnum og vinum. Það var glaðasólskin þennan dag og haustlitir jarðarinnar skörtuðu sínum fegurstu litum. Séra Bolli Gústafsson jarðsöng og flutti að venju afburða snjalla útfarar- ræðu. Var sem allt legðist á eitt, að stund sú er bóndinn frá Svein- bjarnargerði hvarf til hinstu hvílu, yrði viðstöddum minnis- stæð og hlý. Við hjónin frá Garðsvík vott- um Axelínu Geirsdóttur innilega samúð okkar, svo og börnum hennar. Við vitum að söknuður hennar er djúpur, svo kært sem var með þeim hjónum. En tíminn er iðinn læknir og þess utan veit ég með vissu að fjölskylda hennar gerir sem hún getur til að dreifa söknuðinum og létta henni byrði sorgarinnar. Hafið öll þökk fyrir löng og elskuleg kynni. Jón Bjarnason frá Garðsvík. 8 r- DAGUR -16. nóvember1982> >

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.