Dagur - 17.12.1982, Page 5

Dagur - 17.12.1982, Page 5
SÖGUBROT EFTIR HERMANN SVEINBJÖRNSSON Ég hrökk upp með andfælum. Einhver raddbreyt- ing hafði orðið hjá Aðalsteini sögukennara sem rumskaði við mér. Annars var yfirleitt hægt að láta sér líða vel í sögutímunum hjá honum Aðalsteini. Við vissum nokkurn veginn hvenær að því var komið að hann tæki mann upp. Aðalsteinn hafði vissa reglu á í þeim efnum sem sjaldan var brugðið út af. Svo var auk þess fremur þægilegt að koma upp að töflu hjá honum, ólíkt því þegar Þórir Sig. var að kvelja mann í eðlisfræðinni eða Jón Hafsteinn pikkaði mann út til að reikna eitthvert óskiljanlegt dæmi eða skýra einhverja formúluna. Það var nákvæmlega engin regla á því hvernig Jón tók upp. Gjörsamlega óskiljanlegt af raungreinamenntuðum manninum sem kenndi stærðfræði, þar sem allt lýtur svo föstum reglum. Annars átti Jón Hafsteinn sér uppáhaldsnem- endur sem reynslulögmálið hafði kennt honum að stóðu sig jafnan vel upp við töflu. Tímarnir voru átakaminni fyrir alla ef töfludæmin gengu sæmi- lega snurðulaust fyrir sig og ég var ekki beinlínis einn af þeim sem stuðluðu að því. Þess vegnagat ég oftast verið þokkalega rólegur næstu tvo til þrjá tímana eftir að ég hafði gatað upp við töflu. öllum fannst Aðalsteinn með betri kennurum, af einhverjum ástæðum. Nei, það var eitthvað annað en raddbreytingin hjá Aðalsteini sem hafði vakið mig af dagdraum- unum. Það var eitthvað í loftinu. Aðalsteinn hélt sínu striki. „Og þessi maðurvarSnorri...?“ sagði hannog leit spurnaraugum á skilningsvana bekkjarbróður minn sem sat honum á hægri hönd upp við kenn- arapúltið. Ekkert svar. „Snorri...?“ spurði Aðalsteinn aftur og brosti umburðariyndur. „Hét hann ekki Snorri Stu ...?“ Sekúndurnar liðu. „Snorri Stur...?“ „Snorri Sturluson," næstum hrópaði sá sögu- fróði, sigri hrósandi yfir kunnáttu sinni og Aðal- steinn hélt áfram að hlýða honum yfir og láta hann botna hálfkláruð orð og setningar. Loftið var rafmagnað. Svo fór að gnauða í gisn- um gluggunum og greinilegt að það var eitthvað að hvessa. Tíminn var búinn, síðasti tími fyrir mat. Aðalsteinn setti okkur fyrir og við roluðumst á fæt- ur með svefn í augunum. Einhver undarlegur hvinur var í loftinu. Ég var ekki fyrr kominn fram í anddyri og búinn að smokra mér í frakkann en nokkrir skólafélagar mínir rudd- ust fannbarðir og fölir inn úr dyrunum. Það var komin þvílík grenjandi stórhríð að þeirtreystu sér ekki fyrir húshornið hvað þá lengra. Anddyrið fyllt- ist brátt af skvaldrandi menntskælingum. Einn kennaranna kom fram og sagði okkur að bíða þar til veðrinu slotaði. Þetta væri mannskaðaveður, suðvestan andskoti. Aldrei þessu vant var okkur Ijúft að hlýða kennara, nema hvað einn kaldur karl vippaði sér út og við hin sáum hann endasendast út um hliðið norðan skólans. Nokkru síðar sást hvar hann birt- ist utan úr sortanum og mátti greinilega hafa sig allan við nað hanga í girðingunni. Hann fikraði sig nær útidyrunum og tókst eftir mikið puð að komast í skjól af húsinu og inn. „Skólameistari - úff - púff - skólameistari liggur - púff - púff - fótbrotinn úti á götu,“ stundi hann upp. „Við verðum að skýla honum - úff - þangað til sjúkrabíllinn kernur." Einhver þaut inn á kennara- stofu að hringja í sjúkrabíl á meðan þeir sem biðu í anddyrinu litu vandræðalegir hverjir á aðra. Fyrr er varði tróðust nokkrir fullhugar að dyrun- um að bjarga Steindóri. Það var ekki hægt að láta hann verða úti þarna rétt við nefið á okkur. Ég lét mig hafa það - gat ekki með góðu móti verið minni kall en hinir, enda var fullt af sætum stelpum þarna í anddyrinu og auk þess þótt mér vænt um Stein- dór. Hann hafði einu sinni tekið vægt á mér þegar ein bölvuð slettirekan í sjötta bekksem þóttist hafa eitthvert eftirlit með höndum tilkynnti honum að ég væri slompaður á skólaballi. „Farðu nú bara heim að sofa kallinn minn,“ sagði Steindór og var ekkert að hafa fyrir því að taka mig á hvalbeinið fyrir vikið. Hann var minn maður og ég gat ekki farið að bregðast mínum manni. Stormurinn hreif mig umsvifalaust þegar ég var kominn nokkur skref frá útidyrunum. Ég þeyttist áfram og engu var líkara en stór hrammur berði í bakið á mér og fylgdi vel á eftir. Höggið hefði nægt til að berja epli úr koki hvaða Mjallhvítar sem var og losa þannig prinsinn við að kyssa þessa yngis- mey til lífsins, sem hlýtur að hafa verið orðin köld og stjörf og heldur óyndisleg eftir leguna í glerkist- unni. Ég var heppinn að fjúka ekki á hliðstólpann sem kom brunandi á móti mér. Framundan sá ég hvar einir þrír félagar mínir krupu á götunni hjá ein- hverri þúst. Ég flaug í áttina til þeirra og fleygði mér niður til að geta stoppað mig af. Þegar ég skall á þústinni heyrði ég stunur og kvein í gegnum storm- gnýinn svo þetta hlaut að vera Steindór sem ég hafði lent á. Við krupum þétt saman og reyndum að skýla andlitinu og efri búknum. Þegar við beygðum okk- ur yfir hann til að skapa meira skjól fann ég hjarn- flyksurnar skella á aftanverðum lærunum og sitj- andanum. Ég emjaði af sársauka skólameistara til samlætis og heyrði að félagar mínir í skjólveggn- um tóku hraustlega undir. Enn einn skólafélaginn kom fljúgandi og lenti á fótum meistara sem við það tók að sér eins konar einsöngshlutverk í þessum furðulega kór. Hann var jú fótbrotinn og við vorum á góðri leið með að kvelja úr honum líftóruna í stað þess að bjarga henni, eins og ætlunin hafði verið. Mér fannst lögin sem kórinn söng viö undirleik vindsins bæði allt of mörg og allt of löng. Þessar örfáu mínútur voru eins og heil eilífð. Loksins renndi sjúkrabíllinn upp að okkur í sortanum. Skólameistara var lyft upp í bílinn og ég sá blikk- andi Ijósin hverfa út í alhvítt umhverfið. Þegar ég áttaði mig stóð ég einn og yfirgefinn á götunni og barðist við að ná andanum og halda jafnvæginu. Ég sá félaga mína hverfa í átt að skólanum þar sem þeir hjálpuðust að móti þessu ógnarafli. Ég reyndi að staulast mót veðurhamnum í áttina að skólanum en komst hvergi. Þá tók ég það ráð að fara skáhallt mót storminum og austur yfir Eyr- arlandsveginn í þeirri von að íbúar einhvers hús- anna veittu mér húsaskjól. En ég kom að lokuðum og harðlæstum dyrum. Ég barði allt annað en hæversklega og innan tíðar sá ég einhverja hreyfingu innan við hélaðan gluggann við hliðina á dyrunum. Mér sýndist ekki betur en einhver væri að benda mér að fara bak- dyramegin þar sem skjól var fyrir veðrinu. Þegar þangað kom voru kjallaradyr opnaðar og ég skaust inn, gegnkaldur og illatil reika. Mér var boðið að ganga upp á hæðina eftir að ég hafði hreinsað af mérsnjóinn. Frakkavasarnirvoru fullir af vel þjöppuðum snjókögglum og snjór leyndist á ótrúlegustu stöðum innan klæða. Bjarg- vættir mínir sýndu mér hvernig útidyrnar svignuðu undan veðurofsanum, þrátt fyrir að búið væri að stífa sveran planka milli hurðarinnar og veggsins andspænis. Húsið lék á reiðiskjálfi og loftþrýsting- urinn óx og minnkaði til skiptis eftir því hvernig rúð- urnar í gluggunum gengu út og inn. Eftir nokkra stund datt allt í dúnalogn. Hvellurinn var búinn. Ég þakkaði fólkinu fyrir mig og staulað- ist heim á leið upp á Byggðaveg, aumur á botnin- um eftir barninginn frá klakastykkjunum. Þegar inn kom uppgötvaði ég að gluggasyllan var full af grastægjum og bleytu. Smá rifa hafði verið á glugganum og þegar stormurinn reif upp hjarnið hefur grassvörðurinn fylgt með, smogið inn og leit- að skjóls í glugganum. Ég hreinlega nennti ekki að sitja í þeim tímum sem eftir voru í skólanum þennan daginn og lái mér það hver sem vill. Þessi dagur, þegar þakið fauk af Lindu-húsinu, varð með þeim eftirminni- legri á skólaárum mínum í MA. Um vorið þegar skólameistari var kominn á stjá hélt hann smá ræðu á Sal og sagði eitthvað á þá leið að þeir sem hefðu asnast til að skýla sér þarna á götunni gætu átt það við samvisku sína það sem eftir væri ævinnar að hann væri nú tekinn við skólastjórn á ný - auk þess sem hann þakkaði okkur fyrir ómak- ið. 17. desember 1982 - DAGUR - 5

x

Dagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.