Dagur - 18.12.1985, Page 25
18. desember 1985 - DAGUR - 25
bækuc___________
/
I hrakmgm
á heiöum uppi
- Kafli úr bók Hallgríms Jónssonar frá
Laxamýri; „Á slóðum laxa og manna.
Jón H. Þorbergsson á Sokka sínum, en það er hesturinn sem hann var á er
hann reið suður yfir Kjöl og lenti í miklum hrakningum, en frá þeirri ferð er
sagt í þessari bók.
Hallgrímur Jónsson frá Laxamýri
hefur sent frá sér bókina „A slóð-
um manna og laxa“. í bókinni rek-
ur Hallgrímur sögu höfuðbóisins
Laxamýrar í Suður-Þingeyjarsýslu
og kennir þar margra grasa. Þættir
eru um Laxamýrarmenn að fornu
og nýju og fléttast þar inn í marg-
víslegir atburðir. Margt fólk kem-
ur við sögu og eru slóðir þess rakt-
ar víðar um land. Einnig segir
Hallgrímur frá laxveiðum í Laxá í
Aðaldal og koma þar margir fræg-
ir laxveiðimenn við sögu. Hall-
grímur kemur víðar við og einnig
er að finna margar myndir í bók-
inni. Hér á eftir fer kafli úr bók-
inni, sem heitir „Á leiðaskilum lífs
og dauða“. Þar segir frá ferð Jóns
H. Þorbergssonar, bónda á Laxa-
mýri, yfir Kjöl.
Hér er ekki rúm til að birta kafl-
ann óstyttan. Við sleppum upp-
hafinu, þar sem segir frá aðdrag-
anda ferðarinnar. Jón lagði upp í
ferðina frá Glerá við Akureyri
21. september á tveim hestum.
Annar var brúnskjóttur og ofsa-
viljugur, en hinn rauður 5 vetra
foli með þægilegan vilja. Þegar
Jón kemur vestur í Húnaþing
ákveður hann að hafa samfylgd
með gangnamönnum yfir öræfin,
í stað þess að fara með byggð
vestur um, eins og hann upphaf-
lega ætlaði. Lagt var á fjöllin í
kalsastormi og gist fyrstu nóttina
í gangnamannakofanum Kolk-
hóli. Þar var glaumur og gleði um
nóttina. Daginn eftir lenda
gangnamennirnir í villu,-en kom-
ast þó í gangnamannakofann
Kúlukvíslarskála. Daginn eftir
ákveða Húnvetningarnir að
halda aftur til byggða, en Jón
ákveður að halda áfram suður
yfir, þrátt fyrir fortölur gangnam-
annanna og vonskuveður. En nú
gefum við Hallgrími Jónssyni
orðið.
Jón hefur nú kvatt ferðafélaga
sína og hvorir óskað öðrum far-
arheilla. Ríður hann að þessu
búnu áfram suður á bóginn. Veð-
ur er bjart með frosti um daginn,
en ferðin torsótt sakir snjóa. Það
er orðið rokkið um kvöldið, þeg-
ar Jón tekur að hugsa til að velja
sér náttstað, en þá er hann kom-
inn í Hvítárnes. Hann kýs sér án-
ingarstað undir steini, er svifað
hafði frá og hestar hans geta grip-
ið í jörð. Veður er enn stillt, en
mjög frjósandi og dökkan skýja-
bakka er að draga upp í norðri.
Reynir hann nú að hefta hestana,
sem er ekki auðsótt, því höftin
eru freðin. Hann grípur sér og
hestunum bita, af jnestinu góða
frá Stóradal. Þessu næst hreiðrar
hann um sig undir steininum.
Skjóllega er hann klæddur og
því til viðbótar setur hann yfir sig
reiðverin og hyggst sofna. Ekki
hefur hann legið þarna lengi,
þegar snjó tekur að reita úr lofti.
Grunar hann að yfir vofi versta
veður, enda reynist ekki langt
þess að bíða, því innan stundar
bráðhvessir og skellur á hörku-
stórhríð, með vindstöðu af Lang-
jökli. - Verður Jóni fyrst fyrir að
reyna að hafa hendur á hestun-
um. Þeir reynast báðir komnir úr
höftunum, en eiga vanda til
styggðar í haga. Þannig er útlitið
uggvænlegt, ef þeir kynnu að
hlaupast út í rökkurblandinn
hríðarsortann. Hestarnir hvarfla
undan Jóni í fyrstu, en brátt snýr
sá sokkótti við og hleypur í fang
hans. Rauður hverfur, en skokk-
ar til baka innan stundar og
staðnæmist við hlið Sokka. Þessu
næst leggur Jón á klárana og
bindur þá saman. Honur er ljóst
að nú hefur hann orðið fyrir
tvenns konar iáni. Annað var að
hann var ekki sofnaður, er hríðin
skall á, og hitt að honum tókst að
liafa hendur á hestunum. En
þrátt fyrir þetta var útlitið
skuggalegt, hann úrvinda af vök-
um og þreytu, staddur uppi á
öræfum, þar sem hann var bráð-
ókunnugur, í stórhríð á ber-
svæði, er nótt fór í hönd.
Tók Jón nú er hér var komið,
að ganga um fram og aftur til að
halda hita og vöku. Þegar frá leið
sótti að honum löngun til að láta
fallast í snjóinn og sofna. Jafn-
framt gerir hann sér grein fyrir,
að taki hann þetta til bragðs,
muni lífdagar hans taldir. Hugs-
unin berst að því, að hann hafi
svo sem ekki frá miklu að hverfa,
einhleypur maður, þó svo hann
verði að bera þarna beinin. - En
hann hafði verið alinn upp við
kristna trú og á sinn trúarstyrk.
Hann biðst fyrir og telur að vafa-
lítið geri hann svo í síðasta sinn,
því með nóttinni bíði dauðinn,
sem hann verði að taka af æðru-
leysi, enda mundi víst annað lítt
stoða, eins og komið er högum
hans. - Þegar hann hafði lokið
bæn sinni, verður honum undar-
lega við, því þá eru liðin frá hon-
úm syfji og þreyta. Einnig finnst
honum nú sem einhver sé til sín
kominn til halds og trausts, án
þess þó að hann sjái hann og var
sú tilfinning viðvarandi um nótt-
ina. Því fer svo fram alla nóttina
að Jón gengur fram og aftur eða
lætur vel að hestum sínum, sem
engin var vanþörf, þar sem kuldi
er í þeim og geigur, sem leiddi af
ömurlegum veðurgný, er bland-
ast dynkjum, þegar brotnar úr
skriðjöklinum niður í Hvítár-
vatn.
Tíminn getur þótt lengi að
þokast áfram á líðandi stund, en
slíkt ræðst þó af ríkjandi kring-
umstæðum hverju sinni. - Þessi
nótt hlaut að vera Jóni og göng-
urunum hans óralöng, en þar
kemur að skíma tekur gegnum
hríðina, sem géfur til kynna að
gríman er liðin og nýr dagur
runninn. Lífsviljinn er samur við
sig, hann magnast með birtunni.
Jón býst að halda fram ferðinni,
stígur á bak Sokka, leiðir Rauð
og ríður undan veðri í suðurátt.
Sjaldan er ein báran stök og
stundum eru þær margar. Ekki
hefur hann lengi farið þegar hest-
arnir taka að sleppa í og sitja loks
fastir, þar sem tekur þeim í kvið.
Þeir hafa hafnað í feni. Jón snar-
ast af baki og tekur í taumana
stundarfast. Sokki hefur sokkið
enn dýpra en Rauður, enda
stærri og þyngri. Eftir tvísýn um-
brot hafa þeir aftur fast undir
fótum. Jón undrast hörku og
þrek hestanna, að fá sigrað þessa
raun. Hann stígur enn á bak og
áfram er haldið.
Um hádegisbil dettur niður
norðanveðrið, birtir og dregur úr
frosti. Það varir meðan hann er
að snúast á áttinni. Skammt er
þess að bíða að veður gengur upp
af suðaustri, með krapahríð og
innan tíðar er komið ofsarok.
Jón hefur farið yfir Svartá, sem
rennur í Hvítárvatn, þegar hann
kemur í leitarmannakofa og áir
þar um hríð. Hugurinn er bund-
inn við nauðsyn, vilja og vanda
að ná yfir næsta farartálma, sem
er Jökulfallið og bíður hans varla
meira en stekkjarspöl undan. Á
þessu svæði eru vötn vatnsmikil.
úfin og gruggug, eftir síðsumars-
og haustúrkomur eins og á stend-
ur.
Jón gefur nú hestunum síðasta
brauðbitann. Þeir eru að verða
kviðdregnir. Brýnt er að nota'
birtuna og bíða ekki með að leita
lags við Jökulfallið. Harkan og
þrekið er ekki þrotið hjá hinum
einsamla ferðalang, en færist
heldur í aukana, og enn er haldið
áfram. Hann ber að Jökulfallinu,
þar sem það fellur um halla í
fossum og hörðum strengjum,
ófrýnilegt og vatnsmikið, með
krapafari. Hann heldur niður
með því og kemur að lygnu, er
nær dregur Hvítá. Þar er á yfir-
borðinu krapafylla og íshroði.
Þreifar hann nú fyrir sér með
broddstaf, sem hann hafði með
sér til könnunar á vötnum, en
kemst brátt að raun um að eng-
um hesti er þarna ætlandi yfir-
ferð. Þessu næst kemur honum í
hug að reyna að sundleggja yfir
Hvítá til vesturs, en við könnun
sér hann að vatnið gengur þar í
háum ölduföllum og skefur í loft
upp undan veðrinu. Ekkert viðlit
er að sundleggja hestum í ána við
slíkar aðstæður.
Snýr Jón síðan að Jökulfallinu
á ný og upp með því. Nú er ekk-
ert undanfæri, freista verður þess
að komast yfir það. Hann velur
yfirreiðarstað á stalli milli fossa,
situr Sokka og teymir Rauð, und-
an straumi og um leið hægra
megin við sig, því ekki væri gott
ef hann flyti upp og hrekti Sokka
fram af fossþrúninni snertispöl
neðar. Þetta er tvísýnt ferðalag
og það svo að verið er að tefla um
líf eða dauða. Tekst hestunum að
halda botni eða losna þeir upp
sökum dýpis og straumþunga og
hrekjast í fossinn. Hér leikur lífið
á örmjóum þræði, sem slitnar þó
ekki. Hesthófarnir nema við
fljótsbotninn þótt litlu muni að
þeir sleppi af honum og yfir tekst
þeim að feta sig. Þegar þetta grá-
litaða vatnsfall er að baki, léttir
yfir ferðalangnum og ótrauður
heldur hann fram ferðinni. Ekki
veitir af því sporadrjúgt er enn til
byggða.
Fleiri ár verða á vegi, en Sandá
vatnsmest og leynir svo á sér að
klárarnir verða að grípa sundið.
Þegar sunnar dregur, breytist
úrkoman úr snjó í vatn og loks
verður fyrir auð jörð.
Þar kemur að Jón áir. Hann er
hrakinn og gegnvotur. Ekki er
heldur þurr þráður í fötum þeim,
sem liann hafði meðferðis og
töskuhesturinn bar, sem lengst af
var Rauður. - Jóni er hrollkennt
og líöur illa í höfði eftir veðra-.
barninginn og svefnleysið, en er
allt annað í hug en mók eða
uppgjöf, enda bjartara framund-
an. Gengur hann nú um og ber
sér til hita, meðan fákarnir gæða
sér á hálfsölnuðum grösum á
grónum geira, sem orðið hefur á
vegi líkt og vin í eyðimörk. Hest-
arnir hressast eftir að hafa fengið
lítillega í svanginn og í áframleið-
inni. þegar betra verður undir
fæti. fer sá sokkótti að taka í
taumana og sýna vilj atilþrif.
Götuslóðar og gróið land segja
honum að tekið er að nálgast
mannabyggðir.
Alllöngu eftir að nótt hefir
lagst yfir kemur Jón að býli, sem
reynist í eyði fallið. í myrkrinu
leitar hann að götum. sem ætla
má að liggi frá býlinu til byggðra
bóla. Troðninga finnur hann og
fylgir, sem leiða að lágreistu húsi.
Þetta eru sýnilega beitarhús. Síð-
ar fregnar hann að þau eru frá
Tungufelli. Þarna er hestunum
ekki inngengt um lágdyri. Jón,
sem haldinn er kulda og vanlíð-
an, fer inn, en kemur ekki blund-
ur á brá af þeim orsökum. Gott
er þó að hafa þak yfir höfði, til að
skýla fyrir vatni og vindi, meðan
beðið er birtingar. Vart er þó
nema hálfljóst, er Jón tekur
reiðskjóta sína, sem verið hafa
undir reiðtygjum, og heldur á
götu frá beitarhúsunum. Um
morguninn kemur hann að Jaðri í
Hrunamannahreppi. Þar ráða
húsum hjónin Snorrri Sigurðsson
og Oddbjörg Þorsteinsdóttir. Þau -
verða meira en lítið undrandi,
þegar þau heyra örstutta frásögn
af ferðavolki Jóns. Húsfreyjan
hitar mjólk og ber öræfafaranum,
en því næst fer hún að sjóða
lambakjötssúpu, sem verður
honum kærkomin og staðgóð
næring, meðan vosklæði hans
þorna við eldstæði. Hestarnir
njóta einnig gestrisni og fá vel í
svanginn. - Jóni gefst nú að líta í
spegil. en þekkir varla sjálfan sig,
svo veðurbarinn. bólginn og
þrútinn í andliti og rauðeygður
sem hann var. Það eina, sem
hann hefur nú áhyggjur af er að
hann uggir að sér muni reynast
erfitt að ná svefni. Honum er
boðiö að leggjast til svefns en þar
eð svefnhús er aðeins baðstofan,
afræður hann að halda áfram
ferðinni. Hann þakkar hjónunum
alúðarmóttökur og heldur á
braut. Nú er líðanin önnur og
betri. Hann hefur fengið tilfinn-
ingu í fæturna. sem áður voru
dofnir, þrútnir og nær tilfinninga-
lausir. Næsti áfangastaður er
Gýgjarhóll í Biskupstungum, þar
sem hann tekur sér náttstað við
góðar móttökur og nær svefni um
miðnættið, að afstöðnum 112
klukkustunda samfelldum vök-
um. Tími gefst honum til hvíldar
daginn eftir. Þeir Sokki og Rauð-
ur liggja megnið af deginum, en
reisa sig þó annað veifið og grípa
niður í túnhárin. -
Veiðifélagar í Laxá. Aftari röð frá vinstri: Gunnlaugur Jóhannsson, Vernharður Sveinsson, Ólafur Benediktsson,
Þórður Gunnarsson, Björgvin Björgvinsson sýslum., Magnús V. Magnússon sendiherra, Þórður Sveinnson. Fremri
röð: Jóhann Guðmundsson, Sigurður Ólason og Gísli Konráðsson.