Dagur - 22.08.1992, Síða 10
10 - DAGUR - Laugardagur 22. ágúst 1992
Laugardagur 22. ágúst 1992 - DAGUR - 11
, HELGARVIÐTAL VIÐ TÓMAS INGA OLRICH:
ÞJOÐIN OG LANDIÐ ERU EITT
„Engin menning, sem rís undir nafni, stendur
nema hún styðjist við eigin matvælafram-
leiðslu. Rómverjar voru upphaflega landbún-
aðarþjóð sem byggðu upp heimsveldi sitt með
eigin bændastétt. Eftir því sem þeir teygðu
heimsveldið lengra út þeim mun frekari urðu
þeir á akurlendi og skóglendi • uns þeir voru
búnir að gjöreyða þessum auðlindum allt í
kringum Miðjarðarhaf. Bæði gríska samfélagið
og hið rómverska hrundu að lokum vegna þess
að gengið var á þá auðlind sem þessar þjóðir
byggðu á - jarðveginn,“ segir Tómas Ingi
Olrich, alþingismaður, skógræktandi, skóla-
maður og söguskoðandi sem er viðmælandi
Dags í dag.
„Ég er fæddur og uppalinn á
Akureyri. Móðir mín er hins vegar
fædd í Fnjóskadal en hún fluttist
ung til Akureyrar. Móðurætt mína
má rekja úr Fnjóskadal til Eyja-
fjarðar þar sem forfeður mínir
bjuggu m.a. á Öngulsstöðum.
Pað er áberandi lítið um klerka
og embættismenn í minni ætt. For-
feður mínir voru bændur. Hins
vegar er í ættinni listfengi og áhugi
á listum. Langafi minn, Tómas á
Hróarsstöðum, var mikill áhuga-
maður um listir og bókmenntir.
Hann hafði lært án aðstoðar ensku
og dönsku, las Shakespeare og
skrifaði leikrit sem sum hafa verið
sett upp. Hann var hagyrðingur,
skrautritari og áhugamaður um
ýmis framfaramál meiri en búmað-
ur. Þetta hefur enst í ættinni því
sonur hans var Jónas Tómasson
tónskáld eldri. Af þessum ættmeiði
er komið tónlistarfólk, leiklistar-
fólk og miklir hestamenn en
íslenska reiðlist ber að flokka sem
listgrein öfugt við erlenda reið-
skóla.
Líf án lista óhugsandi
í ættinni hefur því lengi blundað
áhugi á listum þó að aðstæður væru
ekki góðar til að hann kæmi fram í
tíð langafa míns og nafna. Ég hef
erft þennan áhuga og á erfitt með
að hugsa mér lífið án tækifæra til
að njóta listsköpunar. Við nútíma-
menn erum blessunarlega vel settir
hvað það varðar.
Ég var alinn upp á heimili móður
minnar sem hélt heimili með for-
eldrum sínum og systrum. Heimili
mitt var elskulegt og skemmtilegt
og einkenndist einmitt af þessum
listáhuga. Þar var hægt að setja á
stofn kór án mikillar fyrirhafnar
enda sungu þær systurnar í
Kantetukórnum en móðurbróðir
minn, Tómas Steingrímsson, og
mágurinn í fjölskyldunni, Her-
mann Stefánsson, sungu í Geysi.
Skilaboð náttúrunnar
Faðir minn er norskur kaupsýslu-
maður af þýskum Hansakaup-
mannaættum. í Bergen voru á 17.
öld Olrichar og nafnið er til í Hol-
landi og Norðurþýskalandi. Olrich
er frísneska útgáfan af germanska
heitinu Aðalríkur sem væntanlega
þýðir sá sem á jörð.“
Kominn af eyfirskum bændum í
móðurætt og evrópskum jarðeig-
endum í föðurætt er Tómas Ingi
jarðbundinn í þess orðs fyllstu
merkingu enda hvað kunnastur fyr-
ir framlag sitt til skógræktarmála.
„Móðir mín hafði áhuga á gróðri
og notaði hvert tækifæri til að fara
með mig í sumarleyfi í Vaglaskóg.
Ég var mjög hrifinn af skóginum og
mér þótti gott að vera þar. Þegar til
baka er horft hefur þessi hlýlegi,
fallegi skógur mótað mest áhuga
minn á skógrækt.
Það hafði einnig mjög mikil áhrif
á mig að ég var við nám í þeim
hluta Frakklands þar sem búið er
að gjöreyða öllum náttúrulegum
gróðri. Allur jarðvegur er þar horf-
inn á stórum svæðum og þar vex nú
fyrst og fremst makíkjarr upp úr
berum klöppunum. Maður gat les-
ið úr landinu skilaboð um hvernig
ætti ekki að fara með jarðveginn.
Strax og ég kom heim árið 1970
gekk ég í Skógræktarfélag Akur-
eyrar og Eyjafjarðar. Þar gerðist
ég fljótlega mjög virkur; var for-
maður þess í átta ár og sit enn í
stjórn Skógræktarfélags Eyjafjarð-
ar.
Landið svarar vel
Ég hef oft velt vöngum yfir því
hvers vegna ég hef svona gaman af
skógrækt - bæði af félagsmálunum
og af því að rækta skóg sjálfur. í
fyrsta lagi vekur það manni ánægju
hvað landið svarar vel erfiði
mannsins; það er í raun svo auðvelt
að rækta skóg hérna.
Flest svæði heimsins eru á sinn
máta jaðarsvæði og áföllin sem við
verðum fyrir hér eru ekkert meiri
en annars staðar. Ég hef hvergi far-
ið svo um heiminn að ég hafi ekki
séð eða heyrt um áföll í ræktun.
Að vísu er flóran fátæklegri eftir
því sem norðar dregur og því verða
áföllin alvarlegri. Fyrir skógræktar-
áhugamann er hins vegar hrein
paradís að eiga heima hér í Eyja-
firði.
Náttúran sér um sitt
Auk þess er mjög heillandi að geta
breytt landinu, staðarveðurfari og
öllum lífsskilyrðum í náttúrunni á
15-20 árum þótt auðvitað sé það
ekki nema að hluta til vegna þess
sem maður gerir sjálfur. Það er
ekki síður heillandi við þetta verk
að þótt maður leggi sig fram eru
áhrifin takmörkuð; náttúran sér
um sitt. í gegnum skógræktina hef
ég uppgötvað takmörk mín - sem
er líka hollt.
Aðhaldssemi og agi
Af þessum sökum hefur skógrækt-
in verið mér táknræn því hún er
skyld skólastarfinu. Við erum alltaf
að reyna að móta nemendur okkar
eftir því sem við teljum að sé
skynsamlegt að kenna þeim, fræða
þá og breyta viðhorfum þeirra; en
til allrar guðslukku sjáum við
aldrei fyrir hvernig þeir bregðast
við - ekki frekar en trén. Við verð-
um að leyfa lífinu að sjá um sitt.
Sú reynsla sem ég hef fengið í
skólastarfinu hefur haft mest áhrif
á mig í lífinu. Ég starfaði í rúm
tuttugu ár sem kennari við Mennta-
skólann á Akureyri og þar af í tíu
ár sem aðstoðarskólameistari.
Einnig kynntist ég þeirri stofnun
sem nemandi því ég var í M.A. í
sex ár.
Þegar ég kom að menntaskólan-
um sem nýútskrifaður fræðimaður
í frönsku og frönskum bókmennt-
um var hann óneitanlega í talsverð-
um erfiðleikum. Þá ríkti uppreisn-
arandi í skólum landsins en ég varð
vitni að því hvernig tókst að ráða
við þennan vanda og koma skólan-
um til betri vegar á tiltölulega
skömmum tíma. Við þær aðstæður
varð til jarðvegur sem skólinn býr
að ennþá. Sá jarðvegur einkennist
af aðhaldssemi og aga sem er
hverri menntastofnun nauðsyn-
legur grundvöllur.
Sérhæfíng -
sýndarmennska
Þessi agi kemur ekki af sjálfu sér
en vinnst heldur ekki nema í sam-
starfi skólastjórnenda, kennara og
nemenda. Það starf sem hefur ver-
ið unnið við Menntaskólann á
Akureyri er farsælt og gott. Hins
vegar er ég ekki að sama skapi sátt-
ur við þróunina í framhaldsskóla-
málum í heild. Ég held að sú sér-
hæfing og það fjölbreytilega fram-
boð á greinum sem við höfum lagt
áherslu á undanfarna tvo áratugi sé
því miður að hluta til sýndar-
mennska.
Við bjóðum upp á margar braut-
ir í þeim yfirlýsta tilgangi að búa
menn undir ákveðnar starfsgrein-
ar. Samt sem áður viðurkenna
menn innan þessara starfsgreina að
þeir sem út úr þessum brautum
koma hafi lítið eða ekkert umfram
þá nemendur sem hafa fengið stað-
fasta og góða almenna menntun í
undirstöðugreinum.
Samkeppni um andann
Það væri ákjósanlegra ef skólarnir
kepptu fyrst og fremst urn annað
en framboð - um þann anda sem
ríkti í skólunum, starfsaðstæður
sem nemendum væri boðið upp á
og hvers konar samstarf myndaðist
milli kennara og nemenda en það
samstarf er kjarni skólans. Þannig
myndum við smám saman bæta
skólakerfið innan frá án þess vera
með yfirgripsmiklar skólastefnur.
Að þessu leyti er ekki skynsamlegt
að binda aðsókn að skólunum við
ákveðin héruð eða ákveðna
bæjarhluta.
Verknám bætt á
eigin forsendum
Mér finnst að eigi að leggja meiri
áherslu á hina almennu framhalds-
menntun fyrir þá sem vilja sækja
áfram í námi eftir stúdentspróf.
Síðan þyrfti að sinna verknáminu á
forsendum verknámsins sjálfs. Við
getum ekki aukið virðingu almenn-
ings fyrir verknámi á forsendum
bóknáms eins og tilhneiging hefur
verið til. Iðnaðarmaður nýtur virð-
ingar vegna þekkingar sinnar á
greininni en ekki vegna þekkingar
á erlendum málum.“
Frakkar þjóðir
Tómas Ingi var við nám í hinni
aldagömlu háskólaborg Montpellier
í Suður-Frakklandi frá 1963-1970.
Háskólarnir þar eru sprottnir upp
úr læknaskóla og lagaskóla sem
urðu til á mótum hins evrópska og
hins arabíska menningarheims.
„Frakkar eru þjóð sem alltaf hefur
verið á krossgötum; fyrst á kross-
götum keltneska heimsins og þess
latneska, síðan á krossgötum
germönsku þjóðanna. Frakkar
hafa alltaf verið sér á parti.
Nafn Frakkanna er komið af
germönskum stofni og þýðir senni-
lega hinn hreinskilni. Það er merki-
legt að í nútímafrönsku merkir
„franc“ hreinskilinn', íslenska orðið
frakkur er sama orðið og franska
orðið franc', milli ósvífninnar,
frekjunnar og frönsku hreinskiln-
innar er því raunverulegur skyld-
leiki. Á vissan og mjög sérkenni-
legan máta líkjast þjóðirnar hvor
annarri. Þetta uppgötvaði ég ekki
fyrr en ég var búinn að vera lengi
meðal Frakka því það er ekki fyrr
en maður talar tungumálið vel að
maður fer að kynnast Frökkum.
Mér fannst ég að vissu leyti vera
kominn heim enda kunni ég því
aldrei illa hvað Frakkar voru lengi
að láta sig; ég kann því vel að
menn spásseri ekki inn í stofu hjá
manni alveg eins og skot. (
Gálgahúmor og glannatal
Þessi „skyldleiki" þjóðanna er ekki
vegna blóðblöndunar eða sam-
skipta heldur er hann afsprengi
uppeldis og viðhorfa og lýsir sér
m.a. í því að báðar þjóðirnar eiga
til að vera dálítið glannalegar. Við
íslendingar eigum til gálgahúmor
og göngumst upp í því að tala dálít-
ið hryssingslega um málefni sem
okkur finnst vera heilög. Við göng-
um oft fram af öðrum þjóðum með
glannalegu tali þótt það sé ekki illa
meint.
Ég hef oft orðið þreyttur á þessu
glannalega tali en þegar ég er kom-
inn út fyrir landsteinana fer ég oft
að sakna þessa lífsmáta. Á sama
hátt ganga Frakkar oft lengra en
góðu hófi gegnir þegar þeir tala um
menn og málefni. Jafnframt hafa
Frakkar hæfileika til að komast að
orði á einfaldan og beinskeittan
máta eins og íslendingar geta - eða
gátu allavega."
Umhverfísáhugi íslendinga
Tómas Ingi hefur lengi starfað að
umhverfismálum og situr nú í
umhverfismálanefnd Alþingis þar
sem hann er varaformaður. Meðal
annars hefur hann unnið að undir-
búningi laga um Náttúrufræði-
stofnun íslands. Með samþykkt
laganna sl. vor lauk loks langri bar-
áttu norðanmanna fyrir málefnum
Náttúrufræðistofnunar Norður-
lands þar sem undirstöðurannsókn-
ir höfðu verið greiddar af Akureyr-
arbæ í tvo áratugi um leið og sam-
bærilegar rannsóknir í Reykjavík
voru kostaðar úr ríkissjóði. „Það
vildi svo til að ég átti þess kost að
koma að málinu frá ýmsum hliðum
þess.
Lögin eru ekki aðeins opinber
viðurkenning á áratuga vísinda-
starfi Náttúrufræðistofnunar
Norðurlands, heldur marka þau
nýja stefnu í uppbyggingu vísinda-
starfsemi hérlendis. Setur Náttúru-
fræðistofnunar íslands á Akureyri
mun standa jafnfætis setrinu í
Reykjavík og þannig verður unnið
að uppbyggingu um land allt í fyll-
ingu tímans.
Vísindastarfsemi breiðir í kring-
um sig skilning á náttúrunni og er
mjög mikilvægur liður í að efla
með íslendingum almennan um-
hverfisáhuga. Hér á íslandi er
mjög frjór jarðvegur fyrir um-
hverfismál. Það þarf í raun ekki
annað en að nýta áhuga fólks á
sínu nánasta umhverfi uns hann
nær til alls landsins.
Sárt að heyra um
„Klakann“
Ég held að eftir því sem íslending-
um tekst betur að græða upp landið
muni þeir smátt og smátt verða
sáttari við þetta land sem þeir kalla
stundum klaka og tala oft hryss-
ingslega um; mér sárnar svolítið að
heyra talað um landið okkar sem
Klakann og Skerið. Þetta bendir til
þess að undir niðri séum við ekki
;alveg sátt við landið og horfum
öfundaraugum til hinna hlýju
landa. Hér er ekki illt að búa og
það er goðsögn að við búum við
mörk hins byggilega heims.
Ég hef fundið að íslendingar sem
sækja mikið til náttúrunnar hafa
aldrei orðið fyrir vonbrigðum -
náttúran svarar áhuga þeirra. Þeir
sem hafa mest tengsl við landið,
þekkja landið og vita hversu gjöfult
það er horfa síst öfundaraugum til
annarra landa. Engin tilfinning
skiptir jafn miklu máli og sú tilfinn-
ing að þjóðin og landið séu eitt.
Stétt í fjötrum
Bændur þekkja landið vel af því að
þeir lifa af því. Hin dapurlega
staðreynd landbúnaðar í dag er
hins vegar hvað búið er að fjötra
bændastéttina - sem að upplagi til
er allra stétta frjálsust og sjálfstæð-
ust. Ég bind vonir við að okkur
takist að vinna okkur út úr fram-
leiðsluhindrunum; í gegnum nýja
búvörusamninginn og hugsanlegar
breytingar á honum. Bændunum er
ekki líft við þessi skilyrði til
lengdar. Við gröfum undan stétt-
inni, athafnafrelsi hennar og
athafnaþrá með þessu kerfi.
Það skiptir ekki máli hversu fjöl-
menn bændastéttin er - hún er ein
af grundvallarstéttum samfélagsins
eins og hjá öllum öðrum þjóðum.
Hún stendur undir matvælafram-
leiðslu. Verulegur hluti af menn-
ingu hverrar þjóðar er tengsl henn-
ar við jörðina og það sem jörðin
gefur af sér.
íslenskt þjóðlíf á mikið undir því
að eiga sterka og virka bændastétt
sem framleiðir góða og holla vöru.
Þegar til lengri tíma er litið held ég
að möguleikar íslenskra búvara í
samkeppni fari vaxandi. Hluti af
lágu búvöruverði erlendis á rætur
að rekja til þess að þar er boðið
upp á vöru sem er mjög stöðluð og
framleidd með vafasömum hætti.
Við þurfum að vara okkur á að
kasta ekki íslenskum landbúnaði út
í samkeppni þar sem landbúnaður
„Á milli ósvífninnar, frekjunnar og frönsku hreinskilninnar er því raunveruleg-
ur skyldleiki. Á vissan og mjög sérkennilegan máta líkjast þjóðirnar hvor ann-
arri.“
„Þar sem mannshöndin keniur hvergi nærri en náttúran fær frið er hún mjög ötull skógræktandi. Sjálfsáin birkitréeru
að mörgu leyti miklu fallegri en þessi sem ég er að rækta hér í landinu.“ í baksýn skógarreitur Tómasar Inga í landi
Knarrarbergs.
er víðast hvar rekinn undir vernd-
arvæng stjórnvalda.
Markaðurinn þjónn
en ekki drottinn
Ég held að langtímamarkmiðið eigi
að vera að landbúnaðurinn verði
samkeppnishæfur. Samkeppnin og
markaðslögmálin eru það skipulag
sem hentar lýðræðinu best. Mark-
aðurinn er flókið fyrirbæri en hann
er samt sem áður kerfi sem hefur
feikilegan aðlögunarhæfileika og
skilar upplýsingum hratt á milli
staða. Þetta kerfi skilar okkur best-
um afurðum á lægstu verði.
Það er ekki hægt að segja að
markaðskerfið sem slíkt sé and-
stætt umhverfismálum. Ef mark-
aðskerfið er opið og frjálslegt eru
umhverfisþættirnir verðlagðir og
koma inn í lífsgæðin sem er verið
að v<ysla með. Besta dæmið um
þetta er að þar sem markaðslög-
málin voru misvirt, eins og í
Sovétríkjunum, þar voru umhverf-
ismálin í mestri óreiðu.
Menn hafa að vísu ekki fulla
stjórn á markaðslögmálunum en
þau henta engu að síður marg-
breytileika lýðræðisins langbest.
Markaðurinn er verkfæri - ekki til-
gangur. Okkur ber að nýta okkur
lögmál markaðarins án þess að ætla
honum að vera annað en hann er:
verkfæri í höndum okkar.“
Snemma afhuga sósíalisma
Talið berst að hugmyndafræði og
stjórnmálum en að sögn Tómasar
Inga mótaðist áhugi hans á stjórn-
málum talsvert á námsárunum.
Hann komst í mjög nána snertingu
við stúdentaóeirðirnar í Frakklandi
1968 og þær hræringar í stjórnmál-
um sem áttu sér stað í Evrópu á
þeim tíma. Hann hefur haft áhuga
á stjórnmálum síðan í menntaskóla
þar sem hann átti að félögum menn
eins og Einar Odd Kristjánsson og
Rögnvald Hannesson fiskihagfræð-
ing. „Strax í upphafi námsferils
rníns erlendis var ég orðinn mjög
afhuga sósíalisma og hef ekki orðið
fyrir neinum freistingum síðan.“
Ekki vegna fjölda
áskorana
Tómas Ingi gekk í Sjálfstæðisflokk-
inn fljótt eftir að hann kom frá
námi og hefur starfað mikið að
félagsmálum og tekið þátt í stjórn-
málastarfi á vegum flokksins og
Akureyrarbæjar. Tómas Ingi var
varabæjarfulltrúi á áttunda ára-
tugnum, var ritstjóri íslendings,
málgagns Sjálfstæðisflokksins, í
eitt ár, var formaður tveggja
nefnda á vegum bæjarins til undir-
búnings stofnunar háskóla á Akur-
eyri og átti sæti í fyrstu stjórn
Háskólans á Akureyri. Loks má
nefna setu og formennsku Tómasar
Inga í skipulagsnefnd Akureyrar-
bæjar þar til hann var kjörinn á
þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í
Norðurlandskjördæmi eystra vorið
1991. En hvernig varð Tómas Ingi
alþingismaður?
„Það gerðist ekki með mig eins
og með ýmsa aðra að fjöldi manna
hafi komið að máli við mig og beð-
ið mig að fara í framboð. Eg var
búinn að vinna að þessu hægt og
rólega í langan tíma. Menn hafa
vitað að ég stefndi að þingmennsku
og smám saman hafa menn sætt sig
við að ég væri í framboði fyrir
flokkinn eftir því sem þeir hafa
kynnst mínum sjónarmiðum.
Það voru engin sérstök öfl á bak
við mig - og ekki gegn mér heldur
- en ég varð var við að fólk alls
staðar að án beinna tengsla við mig
vann að kjöri mínu.
Á réttri leið
Starf alþingismanns er ótrúlega
ijölþætt en ég hef gengið í það af
lítillæti og er enn að læra það. Mér
finnst við alþingismenn oft hafa of
lítið svigrúm til að vinna að fram-
gangi þeirra mála sem við erum að
fást við og oftast finnst manni mál-
in ganga hægt; sú tilfinning styrkist
að sjálfsögðu þegar þjóðartekjur
dragast saman enda er vandamálið
sem við þurftum að taka á rnjög
vanþakklátt í eðli sínu. Ég er engu
að síður sáttur við að taka þátt í að
takast á við hallarekstur ríkissjóðs.
Ég er þakklátur fyrir að fá að
gegna þessu starfi. Það eina sem
veldur mér áhyggjum er hve hægt
miðar því þegar menn eru komnir
á bragðið að lifa um efni fram verð-
ur ekki af þeirri braut snúið nema
með átökum. Umbrotin eru sönn-
un þess hversu langt við vorum
afvegaleidd. Við erum á réttri leið
þegar við byrjum að taka á vandan-
um í stað þess að slá því á frest.
Eyjafjörður stendur
undir væntingum
Samdrátturinn í menntamálum er
t.a.m. mjög sársaukafullur en ég
held að við getum ekki vikist hjá
því að endurskoða okkar mennta-
mál með það fyrir augum að nýta
fé eins vel og mögulegt er án þess
þó að það gangi gegn grundvallar-
sjónarmiðum okkar í byggðamál-
um. Það hefur sýnt sig að byggðar-
kjarni eins og Eyjafjörður hefur
risið undir þeim væntingum sem
fylgja því að honum hafa verið fal-
in mikil verkefni í skólamálum.
Hér er mjög góður jarðvegur fyrir
vísinda- og menntastarfsemi.
Hefð fyrir karpi ekki rofín
Mikill tími fer í karp á Alþingi;
stundum að því er mér finnst ómál-
efnalegt karp. Þó að mér finnist
það fyrst og fremst vera af hálfu
pólitískra andstæðinga þá býst ég
við að þeim finnist það sama um
okkur. Það er mjög mikilvægt í
lýðræðiskerfi að ekki verði gengið
á rétt stjórnarandstöðunnar en
ögunin verður að vera meiri. Meiri
virðing þingmanna fyrir texta þing-
skapalaganna þarf að koma til -
hugsanlega á kostnað hefðarinnar
því það er t.d. hefð fyrir misnotkun
reglnanna um þingskapaumræður.
Varðandi sumarþingið vil ég
segja að samningurinn um evrópskt
efnahagssvæði mótar þann farveg
sem samskipti okkar við aðrar
þjóðir leiðast inn á í framtíðinni og
er því eitt stærsta málefni sem
íslenskir stjórnmálamenn hafa
fengist við. Ég var upphaflega
hlynntur tvíhliða samningum við
EB. í tíð ríkisstjórnar Steingríms
Hermannssonar hófust samningar
um evrópska efnahagssvæðið með
þátttöku íslendinga. Sjálfstæðis-
menn stóðu frammi fyrir þeirri
staðreynd við stjórnarskiptin. Það
var ekki annað verjandi en að ljúka
ferlinu.
Hins vegar er því ekki að neita
að ýmsar brotalamir voru á samn-
ingaviðræðunum af hálfu íslend-
inga fram að stjórnarskiptum.
íslensk stjórnvöld mátu það svo að
íslenskt samfélag félli í nokkrum
grundvallaratriðum illa að hinu
svokallaða fjórfrelsi sem er undir-
stöðuatriði ÉES-samningsins. Þess
vegna voru settir fyrirvarar um
fjárfestingu í sjávarútvegi og orku-
málum. Annars vegar var um að
ræða okkar mikilvægastu atvinnu-
grein en hins vegar framtíðar-
möguleika okkar í atvinnumálum.
Fyrirvarar um landakaup
gufuðu upp
íslendingar vildu halda fullum yfir-
ráðum yfir þeim auðlindum sem
þeir töldu mestu skipta. Það vekur
hins vegar athygli að landið sjálft
var ekki álitið vera auðlind sem
standa ætti vörð um með sama
hætti því fyrirvarar um landakaup
gufuðu upp í tíð fyrri ríkisstjórnar.
Þetta er verulegur galli á samn-
ingnum frá mínum sjónarhóli.
*
Islendingar eigi annan
og meiri rétt
Nú er staðan sú að slíkum fyrirvör-
um verður ekki komið við lengur
og það er viðurkennt af öllum aðil-
um að útlendingar munu hafa sama
rétt til jarðakaupa og innlendir
aðilar. Éf við viljum samþykkja
samningana verðum við að finna
einhverja leið fram hjá þessu. Slík-
ar leiðir myndu hugsanlega þrengja
að okkar eigin rétti en ég tel óhjá-
kvæmilegt að íslendingar eigi ann-
an og meiri rétt til að eignast jarð-
næði á íslandi heldur en aðrir
menn.
Viðtal og myndir:
Gísli Tryggvason
Það eru ekki efnisleg rök að
segja að menn standi ekki í biðröð-
um til að kaupa hér land - sú staða
getur komið upp og þá er lagalega
séð ekkert sem getur hindrað slík
uppkaup. Jarðauppkaup útlend-
inga geta höggvið nærri tilfinning-
um okkar og lífsstíl. Þau geta einnig
takmarkað svigrúm okkar til að
nýta landið okkur til hagsbóta.
Ég sé ýmis tormerki á að sætta
sig við þetta atriði nema við setjum
lög sem í raun gera stöðu íslend-
inga aðra en ríkisborgara annarra
EES-landa. Þetta gæti kostað okk-
ur gagnráðstafanir af hálfu annarra
þjóða EES - en þá eigum við bara
að sætta okkur við þær gagnráðstaf-
anir.
EB stefnt geg'n
landamærum
Ég tel mikilsvert að tengsl þjóðar-
innar við landið verði vaxandi en
ekki minnkandi. Evrópubandalag-
ið er byggt gegn landamærum
vegna þess að landamæri hafa verið
vandamál í Evrópu í margar aldir.
Menn mega aldrei missa sjónar á
þessum tilgangi. Landamæri
Islands eru ekki tilefni neinna
átaka; þau eru ekki uppspretta
neinna hörmunga.
Fullveldi í heimi
fjölþjóðlegrar samvinnu
Á þinginu, sem nú fer í hönd, verð-
ur rætt í þaula hvernig skilning við
leggjum í stjórnarskrána og full-
veldishugtakið. Til að tryggja full-
veldi þjóða, sem eiga efnahagslegt
sjálfstæði sitt undir greiðum fram-
gangi alþjóðlegra viðskipta og eiga
afkomu sína undir því að þjóðir
heimsins sætti sig við alþjóðlegar
reglur í umhverfismálum, verður
að gera alþjóðlega samninga og
tryggja að þeir verði haldnir. Regl-
urnar geta ekki verið þess eðlis að
einstök þjóðríki geti breytt þeim
að vild.
Við höfum nú þegar opnað dyrn-
ar fyrir bein og óbein áhrif alþjóð-
legra samninga á íslenskt löggjafar-
vald og framkvæmdarvald án þess
að það teldist stjórnarskrárbrot.
Með aðild okkar að NATO tengd-
um við örggishagsmuni okkar
örlögum annarra þjóða og hefðum
því getað leiðst út í styrjöld vegna
átaka í fjarlægum heimshlutum.
Niðurstöður mannréttindadóm-
stóls Evrópu leiða til lagabreytinga
hér á landi.
Hentistefna í
stjórnarskrártúlkun
Mér finnst það bera vott um mikla
hentistefnu þegar nú er fullyrt að
EES samningurinn brjóti í bága við
stjórnarskrána. í tíð ríkisstjórnar
Steingríms Hermannssonar, þegar
stefndi í að íslendingar gerðu mun
meira bindandi samning við EB,
voru engar umræður um árekstra
við stjórnarskrá. Ef sú ríkisstjórn
var þess meðvituð hvert stefndi þá
var henni í lófa lagið að undirbúa
stjórnarskrárbreytingu ef hún á
annað borð hafði marktækar
áhyggjur af mögulegum árekstri
við ákvæði stjórnarskrárinnar.
Ég er þeirrar skoðunnar að
ákvæði stjórnarskrárinnar verði að
túlka í samræmi við það hvernig
við höfum starfað á alþjóðlegum
vettvangi áður.