Dagur - 17.11.1992, Blaðsíða 15

Dagur - 17.11.1992, Blaðsíða 15
Þriðjudagur 17. nóvember 1992 - DAGUR - 15 D Næstkomandi laugardag, 21. nóvember, kl. 14.00 ætla list- vinir við utanverðan Eyjafjörð að koma saman í Tjarnarborg í Ólafsfirði og stofna formlega listvinafélag við utanverðan Eyjafjörð. A fundinum verður félaginu fundið nafn og því sett lög. Auk þess mun Einar Georg Einarsson, skólastjóri í Hrísey, ávarpa fundargesti og einhver skemmtiatriði verða viðhöfð. I fundarlok verður kaftisala á vegum Kirkjukórs Ólafsfjarðar. í fyrravetur kviknaði sú hug- mynd í umræðum nokkurra Dal- víkinga hvort ekki væri rétt að stofna listvinafélag. Tilefnið var dræm aðsókn að nokkrum listvið- burðum sem boðið var upp á í bænum. Fljótlega kom fram að rétt væri að láta slíkt félag ná til allra sveitarfélaganna fimm við utanverðan Eyjafjörð, þe. Hrís- ey, Árskógsströnd, Svarfaðardal, Dalvík og Ólafsfjörð. Haft var samband við fólk af hinum stöðunum og voru undirtektir það góðar að undirbúningshópur var settur á laggirnar. Ákveðið var að stofna félagið með nokkurri viðhöfn og efna til einskonar menningarhátíðar í tengslum við stofnfund. Fyrsta atriði hennar var tónlistarhátíð í Árskógarskóla sl. sunnudag og síðan rekur hver atburðurinn annan næstu daga eins og með- fylgjandi dagskrá ber vitni um. Þröstur Haraldsson, blaða- maður á Dalvík, er formaður undirbúningshóp að stofnun list- vinafélagsins. Hann segir að félagið sé fyrst og fremst hugsað til að styðja við menningarlíf á þessu svæði. Ætlunin sé að tryggja ákveðna lágmarksaðsókn að listviðburðum, skipuleggja og samræma framboð á listviðburð- um og veita þeim sem fást við listastarf á svæðinu stuðning. Þá segir Þröstur að félagið muni leggja kapp á að hafa gott sam- starf við þau samtök sem fyrir séu á þessu sviði, kóra, leikfélög, skóla og aðra. Hann sagði að á þessu svæði væru á þriðja hundrað manns virkir í félagsstarfsemi, til dæmis í kórum og leikfélögum. „Félagið á að spanna allar listgreinar. Á þessu svæði búa vel á fjórða þús- und manns og mér finnst ekkert óeðlilegt að ætla að um 10% íbúa séu virkir í menningarlífi og. menningarneyslu. Hugmynd að stofnun þessa félags hefur mælst mjög vel fyrir og fólki finnst nauðsynlegt að koma því á fót,“ segir Þröstur. óþh Dagskrá menningarhátíðar Tónleikar Bjarkar Jónsdóttur og Svönu Víkingsdóttur Björk Jónsdóttir, sópran og Svana Víkingsdóttir, píanó, halda tónleika í Dalvíkurkirkju nk. fimmtudag, 19. nóvember, kl. 21. Á efnisskránni eru lög eftir Árna Thorsteinsson, Markús Kristjánsson, Pál ísólfs- son, Bizet, Brahms og Verdi. Auk þess leikur Svana fantasíu í F-moll opus 49 eftir Chopin. Björk er fædd og uppalin í Reykjavík. Kennarar hennar hafa verið Elísabet Erlingsdótt- ir, Guðmundur Jónsson, Sigrún Andrésdóttir og Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Síðustu ár hefur hún sótt námskeið og notið leið- sagnar við Konservatoriet í Kaupmannahöfn. Björk hefur haldið sjálfstæða einsöngstón- leika og auk þess sungið í íslensku óperunni og oftar en einu sinni sungið einsöng með Kór Langholtskirkju. Hún starfar nú sem kennari við Nýja Tónlistarskólann í Reykjavík. Svana er svarfdælskrar ættar, en hún hlaut menntun sína við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún naut leiðsagnar Hermínu S. Kristjánsdóttur, Jóns Nordals og Árna Kristjáns- sonar. Hún lauk síðar Diploma- prófi í píanóleik í Berlín. Svana er píanókennari við Nýja Tón- listarskólann í Reykjavík. Djasstónleikar Kvartetts Pauls Weedens Kvartett Pauls Weeden heldur S"asstónleika í Tjarnarborg í lafsfirði laugardaginn 21. nóvember kl. 16. Kvartettinn skipa bandaríski gítarleikarinn Paul Weeden, altosaxófónleik- arinn Sigurður Flosason, kontra- bassaleikarinn Tómas R. Einars- son og trommuleikarinn Guð- mundur R. Einarsson. Fyrstu opinberu tónleikar Tjarnarkvartettsins Tjarnarkvartettinn, sem kennd- ur er við kirkjusetrið Tjörn í Svarfaðardal, hefur vakið mikla athygli að undanförnu fyrir líf- legan og vandaðan söng. Kvart- ettinn, sem skipa þau Hjörleifur Hjartarson, tenór, Kristjana Arngrímsdóttir, alt, Kristján E. Hjartarson, bassi og Rósa Kristín Baldursdóttir, sópran, kemur fram á sínum fyrstu opinberu tónleikum í Dalvíkurkirkju sunnudaginn 22. nóvember kl. 16. Þau hafa sungið saman sfð- an 1989, þó ekki óslitið, og hafa komið fram allvíða, ma. í sjón- varpi og útvarpi. Á efnisskrá tónleikanna eru íslensk og erlend þjóðlög, negrasálmar, dægurlög og djassstandardar. Undir- leikarar í nokkrum lögum verða þeir Daníel Hilmarsson á gftar og Einar Arngrfmsson á bassa. SPOEX í 20 ár - samtök psoriasis- og exemsjúklinga 20 ára Um miðjan þennan mánuð voru 20 ár liðin frá því að Sam- tök psoriasis- og exemsjúkl- inga, SPOEX, voru stofnuð. Tímamótanna var minnst með fjölþættum afmælis- og fræðslu- fundi í Höfða, Hótel Loftleið- um, sl. laugardag. Forsagan Fyrstu frásagnir af sjúkdómi, sem við nú vitum að var psoriasis, koma fyrir í grískri goðafræði fyrir u.þ.b. 2.600 árum. Þar var hann talinn merkja vanþóknun guðanna. Það var svo ekki fyrr en nokkrum öldum síðar að róm- verskur vísindamaður, Aurelius Celsus að nafni, greindi sjúk- dóminn sem slíkan og gaf honum heitið „impeto“ sem er latneska orðið yfir „árás“. í sjálfri biblíunni er einnig vik- ið að psoriasis sem að vísu er þar ranglega talinn til holdsveiki. Öldum saman voru psoriasissjúk- ir útskúfaðir úr mannlegu samfé- lagi, taldir óhreinir og iðulega gert að hringja bjöllum til að vara aðra við nálægð þeirra. Þannig stóðu mál þar til fram undir 1700 að psoriasis var aðgreindur frá öðrum húðsjúkdómum. í gegnum tíðina hafa mörg mikilmenni sögunnar glímt við þennan skæða sjúkdóm. Má þar nefna Platon og Sókrates, og átakanleg sjúkrasaga sænska skáldjöfursins Augusts Strind- bergs er vel þekkt. Það fara jafn- vel sögur af því meðal íslendinga að Hallgrímur Pétursson hafi verið haldinn psoriasis - en ekki holdsveiki. Nútíminn En svo við víkjum að samstarfi húðsjúkra hér á landi þá var kveikjan að því grein sem athafna- maðurinn og eldhuginn Hörður Ásgeirsson (d. 1982), fyrsti for- maður samtakanna, ritaði í Morgunblaðið á þjóðhátíðardag- inn 1972. Hann beindi orðum sínum einkum til psoriasissjúkra, enda hafði hann þá sjálfur verið haldinn þessum sjúkdómi í 36 ár, og hvatti þá til að taka höndum saman og stofna með sér félags- skap „með það fyrst og fremst í huga,“ eins og hann komst að orði síðar, „að skiptast á skoðun- um um reynslu og/eða árangur í meðferð og lækningatilraunum“. í undirbúningnum að stofnun félagsins var grundvöllur þess síðan víkkaður og exemsjúkling- ar teknir inn. Þeir eru þó enn í dag í minnihluta félagsmanna. Breyttir tímar - fordómar á undanhaldi Á þeim 20 árum sem liðin eru frá stofnun samtakanna hefur margt breyst. Að vísu er sjúkdómurinn enn óráðin gáta og talinn ólækn- andi þótt ný og fullkomnari lyf séu sífellt að lfta dagsins ljós og áhrifameiri lækningameðferðir sem halda húðútbrotunum niðri og lina þjáningar sjúklinganna. Hitt er ekki síður mikilvægt að með árunum hafa fordómar með- al manna gegn sjúkdómnum vik- | ið fyrir auknum skilningi á eðli hans, og um leið hefur áræðni sjúklinganna sjálfra aukist til þess að ræða hispurslaust um vandamál sín í stað þess að fela þau - í orðsins fyllstu merkingu. Þannig hefur andleg líðan sjúkl- inganna breyst til hins betra og skiptir það miklu því útbrotin aukast og magnast við álag, mót- læti og streitu - og geta jafnvel hrint sjúkdómnum af stað, sbr. breska flugþjóninn sem lenti í því að halda dauðahaldi í flugstjór- ann þegar hann var að sogast út um brotinn glugga í stjórnklefa farþegaþotu í 23.000 feta hæð yfir Malaga í júní 1990. Afleiðingin var taugaáfall - og psoriasis. Það er sem sagt liðin tíð - von- andi - að unglingsstúlka með húðútbrot sem sýnir þá dirfsku að hætta sér í sund, að öllum lík- indum eftir nokkurt sálarstríð, megi eiga von á því að baðvörð- urinn þrífi til hennar og dragi hana upp úr sundlauginni með þeim orðum að hún skuli ekki láta sjá sig þarna aftur svona útleikna. Að menn eigi það á hættu að hneyksla viðmælendur sína og fá athugasemdir eins og „Ósköp er að sjá þig manneskja! Er ekki hægt að gera eitthvað við þessu?“ Að menn eigi það á hættu að viðstaddir forðist að snerta þá, hvað þá heldur að taka í rauða og bólgna hönd þeirra, og svo mætti lengi telja. Nei, þetta er liðin tíð, og telja samtökin að þau eigi drjúgan þátt í þessari þróun. Hún er reyndar í samræmi við það sem gerst hefur í öðrum löndum þar sem sams konar félög eru starfandi, enda hefur fræðslu- og kynningarstarf frá upphafi verið eitt af höfuð- verkefnum samtakanna. Útbreiðsla sjúk- dómsins og eðli Ekki er vitað nákvæmlega um útbreiðslu psoriasis á íslandi en talið að sjúklingar hér séu eigi færri en 6.000. Fjöldi exemsjúkl- inga er enn meira á reiki, enda eru afbrigðin af sjúkdómnum fjölmörg og menn mismunandi illa haldnir af hans völdum. Það eru líka mörg og ólík afbrigði af psoriasis, en öll þróast þau á sama hátt, þ.e. hraður frumuvöxtur í efsta lagi húðar- innar myndar hrúður sem situr eins og þrútinn hjúpur á yfirborði húðarinnar, rauður og bólginn. Svo ör getur frumuvöxturinn í psoriasis orðið að endurnýjun húðfrumanna sem tekur 3-4 vikur í heilbrigðri húð getur átt sér stað á 3-4 dögum. Hrúðrið sem þann- ig myndast getur orðið allt að 3ja mm þykkur skrápur sem veldur miklum óþægindum og erfitt er að ná niður. Þá getur psoriasis valdið gigt, psoriasisgigt, og er talið að hún komi fram hjá um 7% psoriasis- sjúkra. Getur hún haft í för með sér alvarlegustu einkenni sjúk- dómsins hjá ákveðnum hluta sjúklinganna, jafnvel varanleg örkuml. Baráttumálin í 20 ár SPOEX hefur tekist á við mörg og brýn hagsmunamál félags- manna sinna þau 20 ár sem liðin eru frá stofnun félagsins. Meðal þeirra sem hæst ber má nefna: * Lyfjakostnaðinn sem ávallt er í brennidepli. * Óslitna baráttu fyrir stofnun göngudeilda húðsjúkra í Reykjavík og nágrenni og víða um land og virka þátttöku í því að koma þar upp ljósaaðstöðu sem nauðsynleg er öllum húð- sjúkum og skipuleggja að- gengilega opnunartíma fyrir sjúklingana. * Ferðir utan og sjúkravist á heilsustöðvum erlendis (í heilsustöð Svía og síðar Norðmanna á eyjunni Lanzar- ote í Kanaríeyjaklasanum) því enn er ekki vitað um annað sem veitir sjúklingunum hald- betri bata en sól- og sjóböð og byggir þá upp líkamlega og andlega. * Innflutning fyrir félagsmenn og félagadeildir víða um land og útlán á ljósalömpum af svo- nefndri UVB gerð. Þeir eru með útfjólublátt ljós í B-geisl- um sem hafa afgerandi áhrif á sjúkdóminn. * Fræðslu- og kynningarstarf í formi fréttabréfa, kynningar- bæklinga og fræðslumynda sem öll miða að því að flytja félags- mönnum upplýsingar um það sem er að gerast heima og er- lendis í rannsóknum á psoriasis og exemi, lyfjamálum og öðr- um læknismeðferðum. í gegn- um árin hefur SPOEX einnig látið gera nokkur kynningar- plaköt. Yfirskrift á því nýjasta sem hangir uppi á sundstöðum og víðar er: Psoriasis húðsjúk- dómurinn smitar ekki frekar en freknur. * Bláa lónið og könnun á lækn- ingamætti þess sem SPOEX hóf fyrst máls á árið 1978. Húsnæðismálin Starfsaðstaðan hefur breyst mjög á þessum árum. Fyrstu átta árin áttu samtökin inni í skrifstofu stjórnarformanns eða á heimili hans, en í dag eiga þau 158 fer- metra húsnæði að Bolholti 6 sem keypt var í desember 1990. Þar hefur félagið komið upp göngu- deild með tveimur ljósaklefum og baðaðstöðu fyrir sjúklinga sína og þar vitjar húðlæknir þeirra sem þess óska einn dag í viku hverri. Þarna er skrifstofa félagsins og fundarherbergi og aðstaða hin ákjósanlegasta til að nýta húsnæðið allt sem eins kon- ar félagsmiðstöð þar sem félags- menn í Reykjavík og utan af landi geta hist, farið í ljós og böð og rætt saman yfir kaffibolla. Og ekki veitir af húsnæðinu því fé- lagsmönnum fjölgar hægt og síg- andi og eru nú orðnir 1.410. Deildir á iandsbyggðinni Síðasta áratug eða svo hefur sér- stök áhersla verið lögð á málefni sjúklinga á landsbyggðinni. í framhaldi af því hafa deildir ver- ið stofnaðar á 12 stöðum á land- inu og fleiri í undirbúningi. Deildunum er ætlað að sinna málum sjúklinga í heimabyggð. Það er t.d. í verkahring þeirra að hafa samstarf við heilsugæslu- stöðvar um að koma upp aðstöðu fyrir ljósaböð húðsjúklinga, og fleiri mál sem upp kunna að koma og varða velferð félags- manna. Til alls þessa njóta deild- irnar stuðnings landssamtakanna í Reykjavík. Alþjóðleg og norræn samvinna SPOEX er stofnaðili að alþjóð- legum og norrænum samtökum psoriasissjúklinga. Samstarfið við félagadeildir innan þessara stofn- ana er í mörgum tilfellum náið, einkum meðal félaga norrænu samtakanna, NORD PSO. Þau ná til Norðurlandanna fimm og hafa það m.a. að yfirlýstu mark- miði að efla sameiginlega fræðslu aðildarfélaganna og auka þannig hagkvæmni í fræðslumálum, stuðla að rannsóknum á sjúk- dómnum og huga að sameiginleg- um heilsustöðvum erlendis. Helga Ingólfsdóttir. Höfundur er starfsmaður psoriasis- og exem- sjúklinga.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.