Dagur - 28.11.1992, Side 9

Dagur - 28.11.1992, Side 9
l! Laugardagur 28. nóvember 1992 - DAGUR - 9 Mývetningar vera ánægðir með. En þetta sýnir líka að Kísiliðjan er alls ekkert einkamál Mývetninga." Er sjálfur náttúrunýtingarsinni - Nú ert þú líffræðingur að mennt og stjórnar fyrirtæki sem af sumum er legið á hálsi að vera skaðlegt umhverfi sínu. Getur þú sagt með fullri vissu að Kísiliðjan og Mývatn geti farið saman? Friðrik hugsar sig eilítið um, horfir út um gluggann og heldur svo áfram. „Ég er búinn að skoða flestar þær skýrslur sem gerðar hafa verið um lífríki Mývatns. Ég bendi á málflutning Kísiliðjunnar sem segir að ekki hefur tekist að tengja saman sveiflur í lífríki Mývatns við rekstur Kísiliðjunnar og þau efni sem notuð eru í vinnslurás verksmiðj- unnar berast ekki til Mývatns í mælanlegum styrk. Sú næringarefnaauðgun sem orðið hefur í vatninu er ekki marktæk og ekkert liggur fyrir um að hún sé af völdum vinnslu- rásar Kísiliðjunnar. Ég tel að Kísiliðjan sé að gera gagn með dýpkun vatnsins og hef engar sannanir fyrir því að fyrirtækið sé að gera ógagn í vatninu. Það er rétt að ég er líffræðingur en ég er líka náttúrunýtingarsinni og tel mjög mikil- vægt að nýta landsins gagn og nauðsynjar. Þar er alveg sama hvort við erum að tala um kísilgúr eða þorskinn í hafinu. Ég hef stund- um líkt þessu saman. Kísiliðjan er af ein- staka svokölluðum náttúruverndarmönnum lögð í einelti og þá vilja þeir að allt sé óbreytt. Ég minni á að eftir að grisjun hætti í Slútnesi í Mývatni þá er það svæði vart fært nema fuglinum fljúgandi. Mývetningar segja mér að þar séu varpstöðvar horfnar vegna þess að gróðurinn sé að kaffæra svæðið. Slútnes er talin náttúruperla í Mývatni en það er skelfilegt til þess að vita að ferðamenn og aðrir geti ekki notið henn- ar lengur. Við verðum að nýta náttúruna í landinu og þó erfitt sé að feta gullna meðal- veginn þá er búið að stunda rannsóknir í Mývatni í áraraðir og þær hafa kostað um 60 milljónir króna. Nýjar rannsóknir sem nú standa yfir eiga að kosta um 45 milljónir Texti: Jóhann Ólafur Halldórsson Myndir: Robyn króna og þrátt fyrir að menn séu búnir að nota þessar 60 milljónir króna til rannsókna þá hefur ekki tekist að tengja sveiflurnar í vatninu við rekstur Kísiliðjunnar. Sem líffræðingi finnst mér skrýtið að hægt sé að fullyrða að sveiflur í lífríki Mývatns séu Kísiliðjunni að kenna þegar á sama tíma eru miklar sveiflur til að mynda í veðurfar- inu. Mér finnst of mikið horft framhjá þessu en í stað þess leitað að sökudólgi og menn telja sig finna hann í Kísiliðjunni. Ég veit um marga kollega mína í líffræðingastétt sem eru sammála því að ýmsir aðrir þættir ráða meiru varðandi lífríkið í vatninu en rekstur Kísiliðjunnar.“ Besta lausnin að hömlum á vinnslu úr Mývatni verði aflétt Síðari hluta vetrar mun skýrast hvaða stefnu stjórnvöld taka varðandi framtíðarvinnslu- leyfi Kísiliðjunnar. Friðrik segir að engum þurfi að koma á óvart að fyrirtækið sækist eftir langtímavinnsluleyfi og að fá grænt ljós á að vinna kísilgúr í Bolum í Mývatni. Besta kostinn segir Friðrik þann að öllum hömlum á vinnslu úr Mývatni verði aflétt en hann segir of snemmt að ræða hvernig brugðist verði við í vor ef aðeins verði veitt leyfi til 1-2 ára. „Ríkið er meirihlutaeigandi í fyrirtækinu og í ljósi erfiðleika í stóriðjurekstri á íslandi skýtur skökku við að efasemdir séu uppi um hvort eitt af fáum fyrirtækjum sem eru í gjaldeyrisöflun og gengur vel eigi að fá að starfa áfram eða ekki. Ég spái ekki um ákvörðunina í vor en það má ljóst vera að ófullnægjandi er að Kísiliðjan fái einhverja skammtímalausn í vor og þá á ég við 1-2 ára vinnsluleyfi. Þetta má öllum vera ljóst,“ segir Friðrik ákveðinn. Bandarísku eigendurnir áhyggjufullir Bandaríska fyrirtækið Celite Corp. keypti nýverið eignarhlut þann sem fyrirtækið Manville átti í Kísiliðjunni. Celite Corporation er stórfyrirtæki í vinnslu og sölu á kísilgúr í heiminum og segir Friðrik að innan búða þar á bæ hafi menn miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er um framtíðarstarfsemi Kísiliðjunnar. Þetta er ekki síst til komið vegna þess að margir kaupendur sækjast eftir framleiðslu fyrir- tækisins enda hefur hún umtalsverða sér- stöðu sem eini kisilgúrinn í heiminum sem unninn er af botni stöðuvatns. „Forsvarsmenn Celite Corp. eiga mjög erfitt með að eyða frekari fjármunum í markvissa markaðssókn fyrir Kísiliðjuna þegar ekki er vitað hver framtíð fyrirtækis- ins verður. Kísiliðjan skiptir þá miklu máli og þeir eru mjög ókyrrir með stöðu náma- leyfisins. Ég er nýkominn af fundi í Banda- ríicjunum með forstjóra Celite Corporation og hans helstu ráðgjöfum og þar lýstu þeir ánægju með málflutning Kísiliðjunnar í haust.“ Ætlunin er að undir lok ársins hittist full- trúar þessara erlendu eignaraðila, iðnaðar- ráðherra og stjórn Kísiliðjunnar. Friðrik segir að ekki sé reiknað með svari ráðherra varðandi vinnsluleyfið fyrr en með vorinu og út frá því svari ráðist ekki aðeins fram- tíðaröryggi verksmiðjunnar heldur einnig hvort hún getur snúið sér að samstarfi með öðrum um frekari atvinnuuppbyggingu í Mývatnssveit. Lærdómsríkt að starfa í alþjóðlegu umhverfi Friðrik Sigurðsson hefur síðustu árin verið áberandi á vettvangi fiskeldismanna hér á landi en hann var lengstum framkvæmda- stjóri Landssambands fiskeldis- og hafbeit- arstöðva og síðar framkvæmdastjóri ísnó. Hvernig gengur honum að fara inn á þennan nýja vettvang? „Mér þykir þetta áhugavert starf, ekki síst að starfa í alþjóðlegu fyrirtæki eins og Kísiliðjan er. Celite Corp. er með verk- smiðjur víða um heim og innan fyrirtækisins er gott upplýsingastreymi. Við getum því fylgst með hjá öðrum verksmiðjum og þeir hjá okkur. Mér finnst þetta alþjóðlega umhverfi skemmtilegur starfsvettvangur og þarna eru allir möguleikar á að geta starfað á eðlilegum grundvelli. Forráðamenn Celite Corp. fylgjast náið með og þeir vilja sjá árangur í rekstri félagsins. Kísiliðjan hefur náð að hagræða en hagræðingin þarf að verða meiri. Við leggjum okkur í líma við að standa framar eða að minnsta kosti jafn- fætis kollegum okkar erlendis.“ Grundvallarmistök gerð í fiskeldinu Við snúum nú talinu frá starfi Friðriks í fiskeldinu. Hann lærði sjávarlíffræði á sín- um tíma í Noregi og var þar búsettur í 8 ár. Lokaritgerð hans fjallaði um beitukóng og sjálfur segist hann hafa mikinn áhuga á nýt- ingu á sjávarhryggleysingjum þar sem hann segist sjá möguleika þó tilkostnaður á ís- landi geri slíkri vinnslu erfitt um vik. Þegar litið er um öxl og horft á uppbygg- ingu fiskeldisins hér á landi síðustu ár eru margar dökkar hliðar. Fyrirtæki hafa farið í stórum stíl á hausinn og miklar fjárfestingar standa nú lítið eða ekkert nýttar. Enn eru þó til nokkur fiskeldisfyrirtæki sem þrauka. Er hvað skyldi vera hægt að læra af þessari sögu eða vilja menn yfir höfuð ekki læra af hruninu í fiskeldinu? „Jú, ég held að menn vilji læra af þessu,“ segir Friðrik. „Ég hef oft verið að velta fyrir mér hvað hafi farið úrskeiðis. Ég held að uppbygging- in hafi verið of hröð á nýrri atvinnugrein á skömmum tíma. Menn gerðu grundvallar- mistök sem fólust í að byggja of mörg fyrir- tæki. Þess í stað hefði átt að byggja upp færri fyrirtæki í upphafi og fjármagna þau til fulls. Þá á ég ekki einungis við fastafjármun- ina heldur einnig reksturinn í einhvern tak- markaðan tíma þannig að menn gætu séð hvort dæmið gengi eða ekki. Ef þetta hefði gengið þá hefði mátt renna hugmyndinni í gegnum ljósritann og búa til fleiri. En að búa til svona mörg fyrirtæki sem ekki höfðu rekstr- argrundvöll í upphafi; það voru stóru mistökin," segir Friðrik og bætir við að önn- ur mistök í byrjun hafi falist í að stofnarnir voru ekki kynbættir og fyrir vikið urðu meiri afföll í stöðvunum, hægari vöxtur fisksins og þar með meiri kostnaður. Friðrik telur ekki leika vafa á að bein pólitísk afskipti af fiskeldinu þegar það var að fara af stað hafi spillt fyrir, nokkuð hafi verið um pólitíska fyrirgreiðslu einstakra fyrirtækja og stjórn- málamenn beri vissa sök á hve illa fór á mörgum bænum. Þá verði að segjast að varðandi fiskeldið hafi bankar og stofnlána- sjóðir farið ógætilega og fyrirtæki engan veginn ráðið við þær skuldir sem á herðar þeim voru settar. „En ég ætla að vona að þetta verði reynsla fyrir komandi kynslóðir og reyndar hef ég fulla trú á að fiskeldið eigi framtíð hér á landi,“ bætir hann við. Ný reynsla að búa á landsbyggðinni Nógu lengi bjó Friðrik í Noregi til að heill- ast af skíðagönguáhuga Norðmanna og hann segist hugsa gott til glóðarinnar í vetur að ganga á skíðum í frístundum í Mývatns- sveit. Þau hjón búa í Reykjahlíð með þrjú börn og segir Friðrik að sú reynsla sé ný fyr- ir hann að búa úti á landi. Á þeim tíma sem þau hafi búið í Mývatnssveit finni þau glöggt hversu mikil breyting það er að flytja úr höfuðborginni á stað eins og Mývatns- sveit. „Veturinn er eftir og við eigum eftir að sjá hvernig hann verður hér. Breytingin felst líka í því að vegalengdir eru allar mun meiri en þó er styttra frá vinnustaðnum til heimilisins og tíminn fyrir fjölskylduna er meiri. Ég er líka farinn að taka eftir því að þegar ég kem núna til Reykjavíkur að þá blöskrar mér asinn og stressið þar og mér líður alltaf vel þegar ég sný hingað heim aftur," segir Friðrik Sigurðsson. JÓH

x

Dagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.