Þjóðviljinn - 15.02.1983, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 15.02.1983, Blaðsíða 10
14 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Þriðjudagur 15. febrúar 1983 ið var síðan flutt í útvarp og birtist í Náttúrufræðingum 1950. Varð þetta til þess, m.a. fyrir tilstuðlan annars ágæts áhugamanns um ís- lenska náttúruvernd, Eysteins Jónssonar ráðherra, að sett var nefnd til að semja lög um náttúru- vernd og var Sigurður einmitt einn nefndarmanna og samdi ásamt Ár- manni Snævarr fyrstu náttúruvern- darlögin sem síðan voru samþykkt á Alþingi 1956, en þau voru síðan endurbætt 1971. Sigurður sat frá upphafi (1956) í Náttúruverndar- ráði og var þar ötull og ráðagóður og átti drjúgan þátt í að koma mörgum þörfum málum í gegn. Sigurður var mjög félagslyndur og voru honum því falin margvísleg störf í ýmsum félögum og var áður getið starfa hans í Jöklarannsókn- afélaginu, en hann var formaður þess frá 1969. Hann var fyrsti for- maður Jarðfræðafélags fslands 1966-68, formaður raunvísinda- deildar Vísindasjóðs 1958-78, for- maður Hins íslenska náttúrufræði- félags 1950-51 og ritstjóri Náttúr- ufræðingsins 1950 og aftur 1952- 55. í stjórn Ferðafélags íslands var hann 1957-77, þar af varaforseti 1958-77 og síðast forseti. Norræn samvinna var honum hugðarefni um langan aldur og var hann for- maður Félags íslenskra stúdenta í Stokkhólmi 1937^14. í stjórn Norr- æna hússins var hann frá 1970 og í Norrænu ráðgjafarnefndinni um vísindi frá 1972. Þá sat hann einnig í stjórnum Norræna félagsins, Sænsk-íslenska félagsins, Rithöf- undafélags íslands og Stúdentafé- lags Reykjavíkur. Sigurður unni mjög íslenskri tungu og menningu og hélt hnytt- nar ræður og ritaði þarfar ádrepur þegar lionum þótti lágkúran keyra um þverbak. Hann var dagíarsprúður maður, hæglátur og glettinn og sást sjaldan skipta skapi. Hann var mjög glöggur og fljótur að átta sig og fundvís á áhugaverð rannsóknar- efni. í góðum félagsskap var hann oft hrókur alls fagnaðar, enda söngvinn og hnyttinn í tilsvörum. Arið 1939 gekk Sigurður að eiga sænska konu, Ingu dóttur Svens Backlunds, fil.kand. í stærðfræði og eðlisfræði og síðar blaðamanns, og konu hans Hertu f. Bergström. Inga reyndist Sigurði traustur lífs- förunautur. Þau áttu tvö börn, Snjólaugu (f. 1943), B.A., fulltrúa hjá Landsvirkjun, gifta Friðleifi Jóhannssyni viðskiptafræðingi, og Sven (f. 1945) doktor í reiknifræði og dósent við Háskóla íslands, kvæntan skosk-enskri konu, Mary, f. Bache, menntaskólakennara. Kynni okkarSigurðar voru orðin löng, meira en þrír áratugir frá því ég leitaði ráða hjá honum um nám í jarðfræði og síðar í námi og starfi. Hann miðlaði mér og öðrum óspart urn jarðfræði og landafræði, um tengsl náttúruviðburða og sögu lands og þjóðar. Margar ferðir fór- um við saman og naut ég glögg- skyggni og eftirtektargáfu hans. Einkum minnist ég þriggja vikna ferðar um Norðausturland og á heimaslóðir hans 1956 með honum og hans yndislegu konu Ingu, en það er ein fróðlegasta og skemmti- legasta ferð sem ég hef farið. í fámennum hópi íslenskra jarð- og landafræðinga er skarð fyrir skildi þegar genginn er hinn mæt- asti og þekktasti þeirra. Við samstarfsmenn hans við jarðfræðiskor Háskóla íslands og jarðfræðistofu Raunvísindastofn- unar Háskólans, og makar okkar, vottum konu hans Ingu, börnum þeirra og fjölskyldu innilega samúð okkar. Slíkra manna er gott að minnast. Þorleifur Einarsson Ég kynntist Sigurði aldrei náið persónulega. Hann kenndi okkur landafræði í gagnfræðadeild MR, og öfugt við það sem flestir mundu ætla, þótti hann ekki lifandi eða skemmtilegur kennari - ekki á þeim vettvangi. Hinsvegar var hann öðrum kennurum vinsælli í selsferðum og á skemmtunum nemenda, hvort heldur sem ræðustúfamaður eða trúbadúr. Þar naut kímni hans og notaleg fram- koma sín mun betur og kom sumum á óvart í fyrstu. Svo var um fleiri, sem kynntust þessari hlið hans. Reyndar þóttu sumar vísur hans frá þeim árum einsog „Anna litla“ næstum siðspillandi, enda var Sigurður þá talinn rauður svo sem aðrir góðir menn. Fyrir 1-2 áratugum fékkst ég dá- lítið við það á sumrum að vera leiðsögumaður fyrir útlenda ferða- hópa unt landið. Þetta voru eink- um fullorðnir skólamenn, og yfir- leitt höfðu þau með sér eigin farar- stjóra, sem var jarðfræðingur eða landfræðingur og útskýrði tilurð bergtegunda. myndanir eldstöðva og annað náttúrufræðilegt. En ís- lenski fararstjórinn átti fremur að sinna andlegri menningu og sögu þjóðarinnar. Jarðfræðiþekking mín jókst stór- um í þessum ferðum, og auk þess varð mér enn ljósara en áður, hví- líkt nafn Sigurður var úti í heimi, allt niður á menntaskólastig. í hann var sí og æ vitnað sem hinn alvísa. Einu sinni lenti ég á sama næturstað og Sigurður var með ein- hvern jarðfræðingahóp og hugsaði mér nú að gleðja minn þýska farar- stjóra. Tókst mér að kynna hann fyrir Sigurði og áttu þeir stutt samtal. En mér virtist sem minn maður myndi helst ekki ætla að þvo sér um hægri höndina ævilangt, eftir að hafa heilsað Sigurði. Svo uppljómaður var hann. Á þessum ferðum gerðist það stundum, að ekkert sást af lands- laginu fyrir þoku eða rigningu. Þá var stundum reynt að hafa ofanaf fyrir fólkinu með því að syngja fyrir það, og stöku sinnum fékk maður bílstjórann til að syngja með. Þá gat orðið vandi að finna eitthvað, sem við bílstjórinn kynnum báðir. Og oftar en ekki lentum við þá á söngvísum eftir Sigurð við lög, sem útlendingarnir reyndust oft og ein- att kunna líka. Og mikil var undrun þessara aðdáenda jarðfræðidokt- orsins, þegar þau fengu að vita um höfund textans. Eitt kvöld var velmetinn jarðfræðiprófessor frá Berlín staddur við Mývatn og fékk þá njósn af því, að hinn heimsfrægi Professor Thorarinson væri á sömu slóðum. Hann vildi auðvitað ólmur hitta þennan alkunna starfsbróður sinn. Honum var þá vísað út í hraun, þar sem Sigurður sat við varðeld og söng og spilaði á gítar fyrir sinn hóp. En sá þýski sagðist ekki láta hafa sig að fífli. Svona liti enginn prófessor út eða hegðaði sér. Sneri hann svo frá, en fékk á því dapurlegar sönnur morguninn eftir, að hann hefði reyndar missst af Professor Thorarinson fyrir bragðið. f 40-50 ár var Sigurður einkar naskur við að þýða, stæla eða frum- semja söngvísur, sem urðu öðrum vinsælli meðal alþýðu. Alls mun hann hafa samið milli 50-60 texta, þótt ekki hafi nema svosem fjórðungur eða fimmtungur þeirra orðið alkunnur. En það var ýmsum tilviljunum háð, hverjir þeirra urðu þekktir meðal almennings. Skal hér hinn elsti þeirra tekinn sem dæmi: „Að lífiö sé skjálfandi lítið gras.“ Þegar skólabróðir Sigurðar, Halldór H. Jónsson arkítekt, lauk prófi 1938, orti Sigurður til hans langt kvæði. Vísurnar, sem við öll kunnum, voru einskonar heimspekilegt niðurlag þess kvæðis. Við það gengur lag eftir Schubert úr Meyjaskemmunni, sem einmitt var sýnd hér sama vet- ur, og var því orðið vel þekkt, en við allt annan texta. Þetta vor var haldið hér norrænt stúdentamót. Sigurður gat ekki verið þar með, því hann var að kanna verksummerki eftir nýorðið Skeiðarárhlaup. Pálmi Hannesson rektor kynnti þá og kenndi þennan texta við lag Schuberts meðal ís- lenskra þátttakenda í mótinu. Er ekki að orðlengja, að eftir það fór hann um landið einsog eldur í sinu. Sigurður sagði, að sér hefðu stundum ofboðið vinsældir þessara vísna. Eitt sinn var hann t.d. beðinn að skera úr deilu um það, hvort þær væru eftir hann sjálfan eða Davíð Stefánsson. Og kvaðst hann ekki hafa hikað við að skella skuldinni á Davíð. f tilefni af sjötugsafmæli Sig- urðar á síðasta ári átti ég ásamt öðrum þátt í því að kynna nokkra söngtexta hans, sem áður voru miður þekktir. Þá varð mér ljóst, að meðal þeirra voru margir, sem ekki áttu síður erindi við söng- glaðan almenning en hinir áður kunnu. Og nokkra þeirra þótti Sig- urði greinilega vænst um sjálfum. Árni Björnsson. Skarð er fyrir skildi þar sem Sig- urður Þórarinsson jarðfræðingur nú er fallinn frá langt fyrir aldur fram, því þó hann væri rúmlega sjötugur varð ekki betur séð en hann væri enn í fullu fjöri, starfs- þrekið ótrúlegt og eldmóðurinn og áhuginn á viðfangsefnunum eins og hjá kornungum manni, allt fram undir síðustu dagana sem hann lifði. En hann lést að kvöldi 8. febrúar s.l. og verður til moldar borinn í dag. Mér fannst hann ekki hafa breyst mikið frá því ég kom heim frá námi sumarið 1958 og byrjaði að vinna við Náttúrugripasafnið, sem síðar varð Náttúrufræðistofnun íslands, en Sigurður stjórnaði þá Jarðfræði- og landfræðideild safnsins og hafði gert síðan hún var stofnsett árið 1947. Hann tók mér eins og jafn- ingja, þó ég kæmi svo að segja beint frá prófborðinu en hann þá orðinn þekktur vísindamaður, ekki bara hér heima heldur um öll lönd þar sem fengist var við rannsóknir á eldfjöllum og eldvirkni, en þann- ig var hann ávallt blátt áfram og hlýlegur. Allt frá fyrstu kynnum dáðist ég að lífsorku og starfskrafti Sigurðar, hann lét ekki mijcið yfir sér og var ekki mikill að vallarsýn, en var flugskarpur og sívinnandi og afköst hans eftir því. Vísindalegar rit- gerðir hans skipta áreiðanlega hundruðum, auk fjölda bóka sem hann skrifaði og aragrúa fyrirlestra og erinda sem hann flutti, bæði í háskólum og öðrum rannsókna- stofnunum um allan heim, og í ýmsum félögum heima og erlendis. Sigurður átti alla tíð einstaklega auðvelt með að koma hugsunum sínum á pappírinn, máltilfinning hans var óvanalega rík, hugsunin skörp og rökföst, viðfangsefnin allt um kring í landi sem kalla má para- dís jarðfræðinga og áhuginn á viðfangsefnunum og einbeitingin við lausn þeirra óþrjótandi hjá honum. Skáldskapargáfan gerði Sigurði ekki bara ritun vísinda- greina auðveldari en flestum, hún lyfti honum tíðum á bak skáldfákn- um Pegasusi. Þá lét hann gamntinn geysa eins og flestum er kunnugt, því eftir hann liggur fjöldi vísna og kvæða sem hann orti við ýmis létt og skemmtileg lög, og það kom fyrir að hann samdi lögin líka. Þessir textar Sigurðar hafa margir náð fádæma vinsældum og er það að vonum, þeir eru langflestir leikandi liprir og vel ortir, og sumir gullfallegir, falla vel við lögin og eru fullir af þeirri stemmningu sem honum einum var lagið að skapa, einkum og sér í lagi þegar hann lék sjálfur undir á gítarinn sinn og söng með, enda hafa þeir mörgum yljað í byggðum og þó kannski enn betur í óbyggðum. En þó ærin ástæða sé til að fjöl- yrða um vísindastörf Sigurðar, eða dvelja við skáldskap hans og söng- texta, ætlaði ég einkum að minnast á og þakka honum hið ómetanlega og óeigingjarna starf hans að nátt- úruverndarmálum hér á landi, því einnig á því sviði vann hann flest- um ef ekki öllum mönnum betur. Hann var okkar „grand old man“ á því sviði, faðir íslenskrar náttúru- verndar. Haustið 1949 flutti hann erindi um náttúruvernd á fundi Hins íslenska náttúrufræðifélags, sem helgaður var 60 ára afmæli fé- lagsins og rakti þar hve sáralítið hefði verið unnið að þeim málum hérlendis. Að vísu voru þá til nokk- ur lög og reglur á sérsviðum, svo sem fuglafriðunarlög, lög um friðun hreindýra, lög um sand- græðslu, skógræktarlög og Þing- vellir höfðu verið friðlýstir í nærri tuttugu ár. En engin almenn lög um náttúruvernd voru til, þó „ís- lensk náttúra, bæði hin dauða og lifandi, sé um margt einstæð", svo vitnað sé í þetta erindi Sigurðar. í erindi sínu nefndi hann svo ýmis dæmi um óþarfa spjöll sem unnin hefðu verið á náttúruverðmætum landsins og að áratuginn á undan hefði meiru verið umrótað, vegna tilkomu stórvirkra vinnuvéla, en áður á mörgum öldum. Aðalniður- staða hans var sú, að setja þyrfti sem fyrst löggjöf um almenna nátt- úruvernd sem heimilaði ríkisvald- inu að gera nauðsynlegar ráðstaf- anir til verndar dýrmætum náttúru- menjum. Þetta erindi Sigurðar vakti mikla athygli, það var síðar flutt í útvarp og svo prentað í Náttúrufræðingn- um í byrjun næsta árs og mun ör- ugglega öðru fremur hafa orðið til þess að þáverandi menntamálaráð- herra bað Sigurð að undirbúa lög- gjöf um náttúrvernd. Að þeim drögum fengnum var svo Sigurði og Ármanni Snævarr lagaprófessor falið að semja frumvarp til laga um náttúruvernd og höfðu þeir um það samráð við Finn Guðmundsson fuglafræðing, sem vann við Náttúru- gripasafnið eins og Sigurður. Frumvarpið var lagt fram þremur árum seinna eftir mikla vinnu og samráð við fleiri góða menn og varð að lögum vorið 1956. Þar með var stigið eitt stærsta skrefið í nátt- úruverndarmálum sem við höfum tekið til þessa. En öll byrjun er erfið og einkum fólgin í því að plægja og undirbúa jarðveginn, það fengu Sigurður og þeir sem sátu með honum í Náttúru- verndarráði fyrstu árin að reyna. Þó þokaðist smám saman ýmislegt í rétta átt, ekki síst fyrir atbeina og eldmóð þeirra Sigurðar og Finns, og það var einmitt Sigurður sem átti frumkvæðið að mörgum mál- um sem Náttúruverndarráð hóf strax að vinna að, þó lausn á þeim fengist ekki alltaf strax, og nægir þar að nefna hugmyndirnar um þjóðgarða í Skaftafelli og Jökuls- árgljúfrum sem komu báðar frá honum. Sigurður átti sæti í Náttúruvernd- arráði frá stofnun þess til dauða- dags og vann ráðinu lengur og bet- ur en nokkur annar, að öllum þeim góðu mönnum ólöstuðum sem þar hafa lagt hönd á plóginn. Hann hafði alltaf brennandi áhuga á þeim málum, var alltaf hugmynda- ,ríkur og boðinn og búinn til að leggja fram þá vinnu sem til þurfti til að koma þeim hugmyndum í framkvæmd. Auk þess hjálpuðu rannsóknir hans mikið til við þau störf, niðurstöður þeirra skýrðu ýmislegt og gerðu mönnum t.d. kleift að gera sér betur grein fyrir þeirri gífurlegu eyðingu gróins lands sem orðið hefur hér á landi frá landnámi. Fyrir öll þessi óeigingjörnu störf flyt ég þakkir Náttúruverndarráðs, ég starfaði þar með honum í 23 ár og þykist því fær um að meta þau, og vona að hans andi eigi eftir að móta starf okkar þar lengi enn, þó hann sé sjálfur horfinn af sjónar- sviðinu. Sigurður lét af störfum við Nátt- úrufræðistofnun íslands haustið 1968, þegar hann varð prófessor í jarðfræði við Háskóla Islands, og hafði þá unnið við Náttúrufræði- stofnun í nærri 22 ár og á þeim tíma skrifað margar sínar merkustu rit- gerðir og bækur. Fyrir þann tíma flyt ég þakkir stofnunarinnar, og mínar eigin þakkir fyrir þann ára- tug sem við störfuðum saman þar, það voru einstaklega ánægjuleg og lærdómsrík ár, ekki síst vegna sam- starfsins við Sigurð, því fáa menn hef ég metið til jafns við hann eða reynt jafn mikið að læra af. Sigurður tók mikinn þátt í félags- störfum og þar hlóðust á hann ýmis ábyrgðarstörf. Hann var einn af hvatamönnum að stofnun Jökla- rannsóknafélags íslands og formað- ur þess síðustu árin, hann var for- maður Hins íslenska náttúrfræði- félags um tíma og tvívegis ritstjóri Náttúrufræðingsins, hann var for- maður raunvísindadeildar Vísinda- sjóðs frá því sjóðurinn tók til starfa árið 1958 til 1974, í stjórn Ferðafélags íslands í 20 ár og lengst af varaforseti þess og síðast forseti og hann hefur rnjög látið að sér kveða í norrænni samvinnu, svo nokkuð sé nefnt. Fjölmörgfélögog vísindastofnanir víða um heirn hafa heiðrað Sigurð fyrir störf hans, kosið hann heiðursfélaga, veitt honum heiðursverðlaun og heiðursmerki. Sigurður fæddist á Hofi í Vopna- firði 8. janúar 1912, sonur hjón- anna á Teigi þar í sveit, Snjólaugar Sigurðardóttur og Þórarins Stef- ánssonar og þar ólst hann upp. Hann var snemma bráðger og var settur til mennta. Að loknu stúd- entsprófi hélt hann til náms í jarðfræði, fyrst í Kaupmannahöfn en síðan í Stokkhólmi. Hann lauk þar fi. lic.-prófi 1938 og doktors- prófi 1944 og fjallaði ritgerð hans um öskulagarannsóknir á Islandi. Hann kom heim árið 1945 og vann fyrst hjá Iðnaðardeild Atvinnu- deildar Háskólans en frá ársbyrjun 1947 við Náttúrugripasafnið eins og áður segir. Sigurður stundaði kennslu í náttúrufræði við Mennta- skólann í Reykjavík jafnframt rannsóknarstörfum, allt þar til hann varð prófessor við Háskóla fslands, og stundakennari hafði hann reyndar verið við Háskólann síðan 1952. Veturinn 1950-51 var Sigurður prófessor í landafræði við Stokk- hólmsháskóla og sú staða stóð honum opin áfram, en hann kaus að snúa heim aftur þó tilboðið væri freistandi. Sigurður kvæntist eftirlifandi konu sinni Ingu Valborgu Back- Jund, hinni mætustu konu sem á- reiðanlega hefur átt sinn þátt í hinu farsæla starfi hans, árið 1939. Þau eignuðust tvö mannvænleg börn, Gunnillu Snjólaugu og Svein Þór- arin. Ég sendi þeim innilegar sam- úðarkveðjur því þau hafa mikils misst. En eftir lifir minningin um ástríkan eiginmann og föður og hinn góða dreng sem var einn sá besti sonur sem þetta land hefur alið og borið hefur hróður þess um heim allan. Eyþór Einarsson Það gildir um ísland jafnt og um alla heimsbyggð, að langstærstur hluti af samanlögðum fjölda vís- indamanna frá upphafi mannkyns er enn á lífi og í fullu starfi. Slík varð þróun vísinda á þessari tuttug- ustu öld. Sögusvið þessar þróunar er þó fremur þröngt því flest það, sem þáttaskilum olli, gerðist hjá ríkum og mannmörgum þjóðfé- lögum Evrópu og síðar Norður- Ameríku. Auður annars vegar, ríkulegt úrval hæfra manna hins vegar eru forsendur þess, að þjóðfélag geti sett markið hátt í vís- indum og annarri menningarstarf- semi og jafnframt fengið metnaði sínum fullnægt. Þrátt fyrir verulega auðlegð verða menningarlegum metnaði smærri þjóða ætíð sett takmörk vegna minna framboðs á hæfi- leikum. Eins nýtast hæfileikar síð- ur með smáum þóðum, því skilyrði til vaxtar eru takmörkuð. Oftar en ekki falla frækorn í grýtta jörð. í örsmáu íslensku samfélagi verða þessar staðreyndir þeim mun sárari sem þjóðin er fámennari en aðrar þjóðir og vaxtarskilyrði hæfileika rýrari. Þeim mun meiri verður gleðin, þá sjaldan að svo vel tekst til að einn úr okkar hópi neitar staðfastlega að beygjast undirörlög deyfðar og uppgjafar, sem um- hverfið skapar okkur flestum. Sigurði Þórarinssyni féllust aldei hendur. Ef misvitrir stjórnendur höfnuðu hógværum tillögum um framlög til rannsókna, fann Sigurð- ur leið til að framkvæma áhuga- verð verkefni, sem kostuðu minna fé. Málum er því miður þann veg háttað jafnt í vísindum sem öðrum greinum mannlífs, að þeir sem eru mestir málafylgjumenn við öflun fjár til starfsemi sinnar eða til pers- ónulegra þarfa, eru ekki endilega þeir sem best eru í stakk búnir að verja fénu á skynsamlegan hátt eða eiga það skilið að mati venjulegrar siðfræði. Sigurður var lítill mála- fylgjumaður við fjáröflun til rann- sókna sinna og persónulega færði hann stórar fórnir. Gáfa hans og snilli var í því fólgin að velja ætíð áhugaverð verkefni af meðfæddu innsæi og rökfestu. Við lifum á tím- um flókinnar og síbreytilegrar mælitækni. Örsmá þjóð hefur litla möguleika að etja kappi við aðra. Sigurður Þórarinsson sannaði að öll þessi tækni er hjóm eitt ef ekki fylgir skýr hugsun og hnitmiðað val viðfangsefna. Hann varð upphafs- maður nýrra vísinda, þar sem tækin sem nota þarf til mælinga og gagna- söfnunar eru til á hverju heimili, en allt hvílir á hugviti og hæfileikunt

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.