Þjóðviljinn - 22.06.1984, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 22.06.1984, Blaðsíða 11
VIÐHORF Þetta mættu strákarnir athuga betur eftir Þorgeir Þorgeirsson íyfirlýsingu Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar % sem hann sendir Reykjavíkurblöðunum til birtingar mótmœlir hann sögusögnum um að hann hafi sœtt harðrœði við yfirheyrslur hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Mér berast nú til eyrna þrálátar og rangar sögusagnir um afskipti Rannsóknarlögreglu Ríkisins af starfi mínu. Fullyrt er í þessum sögum að ég muni hafa sætt harð- ræði við yfirheyrslur hjá RLR og krafist sé margra ára fangelsis- dóma yfir mér vegna ritstarfa minna. Sumir virðast jafnvel halda að ég sitja þegar bakvið lás og slá. Leitt er að vita til þessara mis- vísandi frásagna. Mér er bæði ljúft og skylt að votta það hérmeð að strákarnir í Kópavoginum (RLR) sem yfir- heyrðu mig þann 18. júní frá kl. 13.30 til 15.30 vegna ritstarfa minna komu í alla staði fram sem hinir mestu heiðursmenn og sýndu í hvítvetna tillitssemi við mig. Satt er það að vísu að ég var þarna kvaddur sem sakborningur að kröfu frú Thorlacius sem virð- ist hafa beðið um það að mér yrði lúskrað í samræmi við 108. grein hegningalaga sem vissulega leyfir refsingu uppá 3ja ára fangavist. Frú Thorlacius mun vera forn í lund þó hún sé borin og barnfædd á vorum dögum og skildist mér á strákunum að þessi krafa mundi jafnvel þykja öfgasinnuð. Enda hefur RLR haldið þessu leyndu þegar hringt er í blöðin til að veita upplýsingar um fund okkar þarna í Kópavoginum. Ég vil ítreka það að strákarnir komu í alla staði mjög vel fram, lásu fyrir mig alveg hreint bráð- skondin skrif frú Thorlaciusar til Þórðar frænda míns Björnssonar (við erum báðir komnir útaf Jóni biskupi Arasyni sem varð á sínum tíma höfðinu styttri uppí Skál- holti fyrir að rífa kjaft við kóng- sins menn) sem nú er saksóknari ríkisins einsog kunnugt er. Þetta var hin besta skemmtun og léttur andi sveif þarna yfir vötnum. Síð- an spurðu strákarnir mig hvort Mogginn segði ekki rétt frá þegar nafmð mitt stæði undir greinum í því blaði og kvað ég það beinlínis óyggjandi. Þá spurðu þeir um heilsufar mitt og spítalavist á undanförnum árum. Því svaraði ég skriflega daginn eftir, uppúr dagbókum mínum, því ég vildi ekki skemma þessa góðu stemmningu með veikindatali. Það kom líka skýrt fram að Þórður frændi hefur enn ekki gert neinar dómskröfur vegna starfa minna. Með þessum orðum vil ég fast- lega mótmæla öllum sögusögnum um það að ég hafi sætt hinu minnsta harðræði af hendi RLR né fangelsisvist enn sem komið er. Hinu er ekki að leyna að fram komu á þessum fundi eindregin mótmæli mín við því að viðfangs- efni höfundar (í þessu tilviki lög- reglulið Reykjavíkur, Þórður frændi og RLR) hefðu nokkurn rétt til að setjast í dómarasætið andspænis höfundi sínum. Það væri beinlínis drottinsvik og brot á mörgþúsund ára gamalli hefð um undirgefni viðfangsefnisins við höfund sinn. Þessu tóku strákarnir af sömu kurteisinni og öllu hinu. Þá bar lögmaður minn einnig fram athugasemdir við framgang málsins allan. Þær athugasemdir skildi ég minna, enda langt síðan ég hætti allri leikhúsgagnrýni. Svo ljóst sem það má vera af þessum línum að bæði RLR og Þórður eru saklaus af nokkrum ruddaskap við mig líkamlega séð þá er hinu ekki að leyna að ég ber nokkrar áhyggjur af þessu lög- lausa frumhlaupi þeirra, ef þetta yrði nú fordæmi gagnvart öðrum höfundum sem tækju uppá því að segja meiningu sína opinberlega. Hitt verð ég að segja hér í lokin að söguburður af því tagi sem hér er nú verið að kveða niður á sér nokkra afsökun í allri þeirri Ieynd sem hvílir yfir svona baktjalda- föndri með réttvísina. Það er t.d. sannfæring mín að þessar sögur hefðu aldrei hleypt heimdragan- um ef Þórir Oddsson hefði sagt rétt frá öllu því sem fram fór okk- ar á milli og ekkert dregið undan þegar hann símaði í DV til að greina frá tíðindum. Þetta mættu strákarnir athuga betur. Þorgeir Þorgeirsson Bókhlöðustíg 6b Reykjavík. LESENDUR „Umdeild oröuveiting“ Heilt byggðarlag kvað hafa fengið taugaáfall vegna fálka- orðu, sem Jón Sveinsson, kennd- ur við Lárós, hlaut á þjóðhátíðar- daginn - og Þjóðviljinn sýnir hluttekningu sína með því að leggja forsíðuna undir lýsingu á sjúkdómseinkennunum og upp- runa þeirra. Nú er ætið fallegt að auðsýna sjúkum tilhlýðilega samúð og ber ekki að lasta það í sjálfu sér. En upphlaup Grundfirðinga og risaletur Þjóðviljans er nýlunda að því leyti sem verðleikar orðu- þiggjenda hafa yfirleitt ekki verið sjúkdómsvaldar né heldur forsíð- uefni dagblaða. Yfirleitt hafa menn látið nægja að hrista koll- inn góðlátlega við hverja nýja orðulotu - og beðið síðan rólegir þeirrar næstu. Verður spennandi að sjá úttekt Þjóðviljans á verð- Ieikum hinna sautján, sem að þessu sinni hlutu hnossið, auk Jóns Sveinssonar, því varla lætur blaðið hér staðar numið. En gamanlaust: Lárós hefur lengi verið til, og hefðu Grundfirðingar náttúrlega átt að verða fyrstir til að sjá möguleikana, sem hann bauð uppá til fiskiræktar. En „það komu einhverjir menn að sunn- an“ - og ræktuðu fisk í Lárósi. Ég þekki ekki til á staðnum og ræði því hvorki um aðstæður né eignarrétt. Hins vegar hefi ég fylgst nokkuð með baráttu Jóns og ótrúlegri þrautseigju gegnum árin, baráttu hans og annarra brautryðjenda í fiskeldi við fjármálavald og pólitíkusa. Og það þori ég að staðhæfa, að hefði Jón Sveinsson og hinir brautryðj- endurnir fengið að ráða og notið eðlilegrar fyrirgreiðslu, þá væri fískirækt nú orðin stóriðja á fs- landi. Oft er rætt um fískeldi sem „aukabúgreirí'. Nú bendir sitt- hvað til þess að erlendum auðfé- lögum eigi að hlotnast drjúgur hluti af arðsemi slíkrar starfsemi. Það nýjasta er frétt um að SÍS ætli að hefja fískeldi í stórum stíl í samvinnu við íslenska bændur - nei, afsakið, við Norðmenn!! En svo ég víki aftur að orðu- veitingunni og uppslætti Þjóðvilj- ans þá tel ég vinnubrögð blaðsins því ekki sæmandi og hlýt sem gamall kaupandi þess að mót- mæla slíku frumhlaupi. Verð ég að vona að hér hafi orðið mál- efnalegt og siðferðilegt slys sem blaðið sjái ástæðu til að biðjast afsökunar á. í þeirri von, að viðlíka smekk- leysi verði útlægt gert úr blaðinu - og að Grundfirðingar taki sönsum á ný - kveð ég og þakka birtinguna. Kristján Gíslason. ______________________AFMÆLl____________________ Ragnar Stefánsson í Skaftafelli sjötugur Það var á miðju sumri 1972 að leið mín lá í fyrsta sinn í Skaftafell til móts við félaga mína í ný- kjörnu Náttúruverndarráði. Eg kom að austan landleiðina, en þeir í flugi að sunnan í Fagur- hólsmýri, - tvö ár þá enn í það að lokið væri brúargerð á Skeiðar- ársandi og engin teljandi mannvirki risin vegna ferða- mannaaðstöðu í Skaftafelli. Þá hitti ég þau Ragnar og Laufeyju í Hæðum, kvöldið áður en aðalhópurinn kom, og það var margt rætt áður en gengið var til náða. Óvissa ríkti um hvað nýir húsbændur þjóðgarðsins í Skafta- felli hygðust fyrir, og ég fann að undir niðri gætti nokkurs kvíða hjá fólkinu í Hæðum. Ragnar hafði þá samkvæmt kaupsamn- ingi frá árinu 1966 lífstíðarábúð á þessari föðurleifð, þar sem for- feður hans hafa búið um aldir. Hann stundaði hefðbundinn bú- skap í Skaftafelli, og það var ekki ýkja margt sem minnti á að stofn- að hefði verið til þjóðgarðs á jörðinni 5 árum áður. Fyrir um- sjón með þjóðgarðinum hafði Ragnar aðeins lítilsháttar þókn- un og hugmyndir um framtíðar- skipulag voru lítt mótaðar. Ferð- amannastraumur fór vaxandi og ljóst að hann myndi margfaldast við lúkningu vegarins yfir Skeiðarársand. Hvernig átti að bregðast við þeirri þróun? Hvaða áhrif hefði hún á náttúruvernd í Skaftafelli og mannlíf í Öræfum? Þessar spurningar voru áleitnar og fyrir fáa skiptu svörin meira máli en fólkið sem búsett var á býlunum tveimur í Skaftafelli, Hæðum og Bölta. Það varð viðfangsefni mitt næstu árin að leita svara við þess- um spurningum sem trúnaðar- maður Náttúruverndarráðs í samvinnu við heimamenn. Þar mæddi mest á Ragnari Stef- ánssyni, sem settur var í tvöfalt hlutverk heimamanns og bónda annars vegar og þjóðgarðsvarðar hins vegar. Það var við þessar að- stæður sem ég kynntist Ragnari og hans fólki, og þau kynni urðu náin og treystust með hverju ári. Þeir urðu margir dagarnir sem ég dvaldi í Skaftafelli og gekk með Ragnari og samverka- mönnum um þjóðgarðslandið, mörg kvöldin sem setið var í stof- unni á Hæðum yfir teikningum, uppdráttum og hugmyndum um skipulag þjóðgarðsins, allt frá þjónustumiðstöð niðri á sandi til gönguleiða inn um Skaftafells- heiði og Morsárdal. Önnur við- fangsefni enn nákomnari heima- fólki voru líka á dagskrá: Breytingar á búskaparháttum, nýr samningur um réttindi og skyldur þjóðgarðsvarðar, hvað ætti að standa af húsum og girð- ingum, hvað að hverfa eða breytast í samræmi við nýtt hlut- verk Skaftafells. Ég hygg að á fáa íslenska bænd- ur hafi í seinni tíð verið lagt að svara jafn mörgum spurningum á skömmum tíma og Ragnar í Skaftafelli og aðlagast stórfelld- um breytingum heima fyrir. Þetta próf stóðst hann af mikilli prýði til ómetanlegs ávinnings fyrir þjóðgarðshugmyndina, en án þess að missa sjónar á hag sinna nánustu og sveitarinnar. Þar kom honum að haldi ágæt greind og yfirsýn, samhliða ríkum tilfinn- ingum og næmleika fyrir því, hvaða leiðir séu helst færar. Reynsla vatnamannsins sem oft þurfti að þræða yfir Skeiðará eða sneiða fyrir hana á jökli hefur komið Ragnari að góðu haldi, einnig við aðrar aðstæður. Hann átti milli þess að velja að halda sínu striki sem bóndi á ætt- arsetri og láta óskir náttúru- verndarmanna lönd og leið, eða taka undir kvaðningu þeirra. Ragnar valdi síðari kostinn, og ég vona að hann telji sig ekki þurfa að sjá eftir því þegar á heildina er litið. Skaftafell er nú fremst í röð ís- lenskra þjóðgarða og á hvergi sinn líka. Ferðamenn innlendir og erlendir róma staðinn og þá aðstöðu sem þeim hefur verið sköpuð til að njóta náttúru svæð- isins. Svör hafa verið veitt við mörgu af því sem í óvissu var fyrir 10-15 árum og fáir hafa lagt meira af mörkum við að móta þau og núverandi svipmót þjóðgarðsins en Ragnar í Skaftafelli. Ég hef margt að þakka Ragnari og hans fólki nú þegar hann stendurásjötugu. Fátt hefurveitt mér meiri ánægju en að vinna með honum að málefnum þjóð- garðsins um 6 ára skeið. Gestrisni og glaðværð á heimilinu í Hæðum líður þeim ekki úr minni sem not- ið hefur. Frásagnir bóndans og þekking á liðinni tíð ber vott um glöggskyggni og tengsl manns sem á djúpar rætur í Skaftafelli. Bestu hamingjuóskir og kveðj- ur frá okkur Kristínu fylgja þess- um línum til ykkar Ragnars og Laufeyjar og augasteinsins Önnu á merkisdegi í lífí bóndans. Megi framtíðin verða ykkur gjöful og björt eins og vormorgunn, þegar horft er út yfir grænar brekkur og svartan sand frá Hæðum. Hjörleifur Guttormsson Föstudagur 22. júní 1984 ÞJOÐVIUINN - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.