Þjóðviljinn - 20.07.1984, Blaðsíða 7

Þjóðviljinn - 20.07.1984, Blaðsíða 7
MINNING Ragnar Jónsson í Smára Ekki margir hafa oftar en ég stúngið niður penna um Ragnar í Smára, stundum heilar lánglokur í skemtistíl og lágu jafnan til þess ærnar orsakir. Nú þegar hann er allur skortir mig orð. Sérstakur þráður í ævi minni hefur verið slitinn. Hann átti til að koma hér innúr dyrum þegar minst varði með listaverk undir hendinnh stór- gjafir - án tilefnis; gerði aldrei boð á undan sér; var farinn. Ung- ar telpur, dætur okkar, horfðu stjarfar á þennan undramann sem gaf þeim málverk. Nú segja þær að þessar myndir hafi alið sig upp. Sjálfur lifði Ragnar Jónsson lífi sínu í list einsog nokkurskonar draumleiðslu í miðjum veru- leikanum. Úr bréfi frá Ragnari til A.S., 31.1, '60. „Mamma Sigurjóns, sem lengi var í húsinu hjá mömmu, sagði mér í fyrra, þegar ég hitti hana á fimtugsafmæli listamannsins, að mamma hefði haft þann sið að gefa alla mjólkina úr kúnum á sunnudögum. Þetta hafði ég aldrei heyrt, en hinsvegar heyrði ég hana oft segja að þegar maður væri hamíngjusamur sjálfur ætti maður að láta aðra njóta þess með sér að einhverju leyti. Það stækkaði manns eigin auð. Þri- svar sinnum hef ég verið búinn að safna mér peníngum til að byggja svolítið stærra hús yfir konun'a mína, sem alt gerir fyrir mig, en í öll skiftin hef ég hitt aðra sem meira lá á að koma yfir sig húsi. Og aldrei hefur mér fundist litla íbúðin okkar stærri en í dag, þeg- ar ég er nýkominn frá útlöndum úr stórum vistarverum ríkra manna. Jú, ég skrapp til Eng- lands, Hollands, Þýskalands og Danmerkur; en aðallega til að skoða nýu óperuna í Kassel þar sem tal og tónar hljóma betur en í öðrum húsum; og sjá nýtt lista- safn, reyndar tvö, þar sem mynd- ir njóta sín betur en ég hef áður séð. Ef ég fæ frið fyrir íslenskum bjargráðamönnum ætla ég að koma upp dálitlu húsi yfir hann Erlend, (NB Listasafn ASÍ), þar sem hægt væri að sýna myndir og kanski lesa upp úr bókum og sýngja af nótum. En ég fer mér hægt í nýjum fjárfestíngum því ég vil ekki skulda það mikið að ég sé ekki leingur frjáls maður. En undanfarinn áratug hafa stjórn- málamenn séð fyrir því að hver króna sem spöruð var yrði að ein- gu." I svona hraðbréfum, stundum skrifuðum í flugvél, er Ragnar lif- andi kominn. Það var einkenni- legt að hann skifti sér ekki af listamönnum öðruvísi en styrkt- armaður. Honum datt aldrei í hug að gagnrýna listamenn; því síður græða á þeim. En hann fann af innbornu næmi hvar lá fiskur undir steini í list og hverjir eru listamenn; og var reiðubúihn að 1 brjóta sig í mola fyrir þá ef þörf krafði. Hann hlýddi, svo í orði sem tóni og lit, einhverjum sagn- aranda sem ég veit ekki glöggt nafnið á; fór eftir innborinni erf- iðislausri sjónskerpu sem í raun- inni er ekki hægt að ávinna sér, jafnvel með lærdómi, - þá þess heldur skilgreina fremuren sjálfa ráðgáfu lífsins, (kanski taó). Það var honum líkt að meta að verð- leikum undur í uppeldi barns sem elst upp við list: þó ekki sé nema lítil mynd, hefur hún afl til að menta barn með einni saman nánd sinni: bara hánga þögul á veggnum heima. Svona myndir feingnar að gjöf frá Ragnari meta dætur okkar allra gjafa mest núna. Hugur Ragnars og líf bar blæ af þeim ódáinsakri þar sem hann var plógmaður. Halldór Laxness Um mörg undanfarin ár hefur verið fremur hljótt um nafn Ragnars í Smára, og Helgafells- forlagið hans hefur ekki skipað þann sess frumkvæðis og fjöl- breytni í bókaútgáfu sem það gerði um langt árabil. Til þessa lágu þær ástæður sem flestum voru kunnar: að Ragnar var orð- inn maður aldinn að árum, og svo ekki síður hitt, að heilsan brást honum svotil fullkomlega og í raun langt fyrir aldur fram; ein- hverjum framtakssamasta dugn- aðarmanni var þannig svipt úr dagsins önn, hugsjónamanni og brautryðjanda settur stóllinn fyrir dyrnar af þeim öflum, sem mannleg þekking og tækni ráða lítið við og hljóta að lúta fyrir í lægra haldi um síðir. Þess vegna er nú svo komið, að upp er vaxin jafnvel heil kynslóð í landinu af skáldum og öðrum listamönnum, sem ekki þekkir hann nema af afspurn. Samt verður hann ó- gleymanlegur með þjóðinni. Hann kom til Reykjavíkur eihhverntíma uppúr fyrri heimsstyrjöldinni, lauk verzlun- arskólanámi og fór svo að vinna fyrir sér rétt eins og gerist og gengur. En það hafði verið mús- ísérað meira og betur í þorpinu hans en líklega í flestum öðrum íslenzkum sjávarplássum á þeim tíma; og hann var ekki búinn að vera lengi í höfuðstaðnum þegar hann kynntist litríku mannlífi Unuhúss, þeim skálda- og lista- mannaparnass sem þar blómgað- ist hvað mest á þessum árum, og líklega má rekja þróun piltsins síðar meir til þessara þátta frem- ur en annars. Mér er með öllu ókunnugt um það, að hann hafi nokkru sinni fundið hjá sér löngun til listtúlkunar eða sköp- unar; veit aðeins að hann lærði eitthvað á stofu-harmoníum hjá organistanum frænda sínum. Þess í stað lagði hann gáfu sína og getu að miklu leyti í það að efla hverskyns listalíf með þjóðinni, og er öll sú starfsemi hans kunn- ari en svo, að ég telji nauðsynlegt að tíunda hana nánar í þessum fáu kveðjuorðum hripuðum á fleygri stund. Eg átti því láni að fagna að kynnast Ragnari ungur og ó- reyndur, og einhvernveginn fór það svo að hann átti eftir að gef a út einar sjö eða átta bækur sem ég setti saman, flestar á unglingsár- unum; það voru að vísu mjög spartanskar útgáfur, kannski al- þýðlegar, ég veit það ekki; en ég heyrði hann oftar en einu sinni segja þá djúpu speki, að góðar bókmenntir væru alveg jafn góð- ar, ef ekki betri, þótt þær kæmu út í hæverskum búnaði; og höfðu ekki sjálfir Passíusálmarnir verið frumútgefnir sem appendix aft- anvið leirburð? Ég leyfði mér áðan að draga í efa löngun hans til listamennsku; en bezt er að spara sér allar staðhæfingar í þá veru. Við nán- ari umhugsun er mér jafn ofar- lega í huga að segja, að hann hafi þrátt fyrir allt verið öllu öðru fremur listamaður. Af kynrium mínum við hann fannst mér ég iðulega finna þá hrifni, skaphita, uppljómun og hvaðeina annað sem einmitt er aðal barnslegra listamanna; hugmyndir hans voru ósjaldan fremur í ætt við ó- raunsæi kúnstnersins en agaða rökhyggju fjáraflamannsins. Það sem gerði hann svo að því, sem hann reyndist íslenzkri menn- ingu, var sú fjarska sjaldgæfa blanda af þessu tvennu, að við- bættri framtakssemi og óbilandi vinnuþreki, reglusemi - og dirfsku; hann var undarlega sam- ansettur maður; hann gat óend- anlega komið manni á óvart. Því fór fjarri að maður gæti alltaf ver- ið sammála honurri - sama á hvaða sviði það var - en það var líka óhugsandi að maður gæti verið sár út í hann til lengdar. Hann var eins og prakkarastrák- ur í aðra röndina, en með gull- hjarta þegar á reyndi. Um áratuga skeið var líklega ekki meira hugsað og talað um nokkurn annan mann í röðum listamanna og listunnenda en hann. Hann var ekki aðeins beint eða óbeint vinnuveitandi þús- unda manna, heldur fannst sumum hann vera nokkurskonar tryggingastofnun sem hægt væri að gera tilkall til í tíma og þó eink- um ótíma. Má vera að ýmsum hafi verið vorkunn, því mig grun- ar að honum hafi í og með fundizt þetta sjálfum. Hann var ekki ó- líklegur til að selja ofan af sér húskofann eins og maður í frægri bók, ef það gæti orðið til þess að nokkrir tónar mættu heyrast eða mynd verða máluð; banka- stjórum leizt yíst ekki alltaf vel á sum uppátæki hans. Samt bjarg- aðist þetta alltaf. Hann bar gæfu til að velja sér góða samstarfs- menn; hann var gæfumaður í einkalífi sínu, og mestan part ævi naut hann góðrar heilsu. Þrátt fyrir allt sitt annríki hafði hann vit á að slaka á, eiga sér hvíldar vé á heimili sínu, njóta sjálfur hverskyns listar, já, og auka við menntun sína. Honum gekk þó oft erfiðlega að verða sér úti um næði, jafnvel símaleynd dugði ekki til; en þá flýði hann bæjarskarkalann og fór að annast blómgaðan jurtagarð austur við Sog, velta grjóti, skera torf, hlaða veggi. Kom svo endur- nærður í bæinn til að takast á við fjölbreytileg verkefni sín. Þær eru óteljandi sögurnar sem spunnust um þennan mann; það mætti enn skrifa bók um hann til viðbótar þeirri sem sett var sam- an hér um árið, og þó væri honum e.t.v. ekki enn lýst til fulls. Ó, hvað þær eru margar skemmti- legar, og ég get ekki stillt mig um að nefna tvær í lokin, einkum sjálfum honum til gamans, ef hann skyldi kæra sig um að lesa þetta þaðan sem hann er nú: Framámenn lista í landinu þurftu bráðnauðsynlega að hafa uppi á honum og leituðu hans tímunum saman árangurslaust; sama máli gegndi um ráðherra, bankastjóra og gott ef ekki sendi- herra stórvelda sem töldu að maðurinn hlyti að hafa orðið uppnuminn - loksins; hann hafði ekki einusinni sézt heimahjá sér. í ljós kom um síðir, að hann hafði þá daglangt setið við rúmstokk gamallar konu heyrnarlausrar og þulið yfir henni í rólegheitum ljóð úr óprentuðum handritum. Heirrisfrægur listamaður - sumir segja impressario - gerði árangurslausa leit að honum út um alla Reykjavík með tilhjálp góðra manna. Eftir viku gafst hann upp og flaug til London. Fyrsti maðurinn sem hann hitti á rjáli um Piccadilly var Ragnar í Smára. En nú er þessi maður endan- lega horfinn okkur; nemaþetta sem aldrei hverfur: minningin um hann, og verkin hans. Hann markaði óafmáanleg spor í ís- lenzka menningu, og þess vegna gleymist nafn hans ekki. Þeim sem kynntust manninum per- sónulega verður hann ógleyman- legur og engum öðrum líkur. Elías Mar Síðustu árin gengu vinir og vel- unnarar Ragnars Jónssonar þess ekki duldir, að hverju dró. Hann átti við erfiðan sjúkdóm að stríða og batavon var lítil sem engin, enda aldur mjög tekinn að færast yfir hann. Eiaðsíður fór fregnin um andlát hans einsog kaldur gustur um mig. Hún var í raun- inni tilkynning um, að formlega væri lokið ákveðnu menningar- skeiði í sögu þjóðarinnar, ein- hverju litríkasta og á margan hátt frjósamasta tímabili í seinni tíma sögu hennar. Ragnar setti sterk- ari svip á það en flestir aðrir. Þó Ragnar í Smára væri ekki skapandi listamaður í þrengsta skilningi, var hann gæddur næmi, innsæi og hugarflugi listamanns á svo ríkum mæli, að hann varð einn mesti örlagavaldur í lista- sögu íslendinga. Hann var flest- um öðrum fremur ævintýramað- urinn í menningarviðleitni þjóð- arinnar á þessari öld, maðurinn sem skynjaði óbeislaðan sköp- unarkraft sem með þjóðinni bjó, lét sig dreyma stóra og að margra hyggju óraunhæfa drauma, en átti andlegt þrek, framtak og yfir- skilvitlegt raunsæi til að láta drauma sína rætast. Þegar ég hef sagt erlendum vinum mínum frá þessum undramanni íslenskrar menningar, hefur þá tíðum sett hljóða af undrun yfir margbreyti- leik þeirra þátta sem menning smáþjóðar er ofin úr, og sumir hafa óbeint gefið í skyn, að slíkur einstaklingur hljóti að vera hug- arfóstur örgeðja sálar eða ein- hverskonar tímaskekkja á öld andlausrar og menningar- snauðrar fjárgróðahyggju og kaldhamraðs skrifræðis stofnana og ráðuneyta. Þeir hafa semsé átt bágt með að trúa því, að einn maður hafi getað lyft þeim Grett- istökum sem íslendingar færa gjarnan í frásögur sín á milli. Væntanlega verða aðrir til að rekja þátt Ragnars í blómgun myndlistar og tónlistar í landinu undanfarna hálfa öld, en sú saga er lyginni líkust. Ég vil víkja ör- fáum orðum að bókmennta- þættinum. Vísast verður aldrei ofmetið hvern þátt Ragnar átti í að styðja og örva unga rit- höfunda, koma verkum þeirra á framfæri og verja þá í líf og blóð, þó hann væri kannski ekki ævin- lega sannfærður um sígildi þeirra verka sem hann gaf út hjá Helga- felli. Þegar erfitt var í ári hjá bókaútgefendum og nýstárleg verk áttu undir högg að sækja, lagði hann ótrauður í þá áhættu að gefa út umdeild verk ungra höfunda og halda þeim á loft, hvað sem leið opinberum smekk eða markaðshorfum. Að þessu leyti gerðist hann brautryðjandi sem engan hefur átt sinn líka fyrr eða síðar. Mér er í minni þegar hann gaf út skáldverk Guðbergs Bergssonar, „Tómas Jónsson metsölubók", sem nokkrir útgef- endur höfðu hafnað. Hann var aldrei fyllilega sannfærður um gildi þessa tímamótaverks, það var of fjarlægt því sem hann hafði mestar mætur á í bókmenntum, en honum var ljóst að hér var á ferðinni einhverskonar byltingar- verk sem skylt væri að láta koma fyrir almenningssjónir. Kannski var enginn eins hissa og hann sjálfur á vinsældum þeirrar bókar, einkum meðal yngri kyn- slóða, og ég held hann hafi aldrei endurskoðað eigin afstöðu, en honum var í blóð borinn skilning- ur á því, að nýjungar eru það súr- deig sem engin listgrein getur án verið. Þetta heilbrigða og sterka hugboð var leiðarljósið í öllum hans athöfnum og ótrúlega fram- taki. Ragnar hafði sérkennilegt lag á að koma vinum sínum og sam- herjum í opna skjöldu. í pólitík var hann Sjálfstæðismaður og trúði á einkaframtakið, enda var hann einn af örfáum fulltrúum einkaframtaksins sem gátu borið höfuðið hátt afþví þeir áttu sér traustan menningarlegan bak- hjarl. Samt vflaði hann ekki fyrir sér að gefa heildarsamtökum launamanna verðmætt málverka- safn sitt og leggja þannig grunn- inn að Listasafni alþýðu, einmitt þegar átök á vinnumarkaði voru hvað hatrömmust, enda áttu margir pólitískir samherjar erfitt með að skilja eða fyrirgefa þann rausnarskap. Kannski var sú ein- stæða gjöf áþreifanlegasta dæmið um mannlega reisn Ragnars í Smára og það viðhorf, sem stjórnaði öllu hans athæfi, að raunverulegur auður þessarar þjóðar væri fólginn í frjósemd og fjölbreytni alþýðumenningarinn- ar og þátttöku almennings í allri sköpunarviðleitni. Það var ævinlega lærdómsríkt og upplyftandi að vera samvist- FöMudagur 20. júlí 1984 ÞJÓÐVIUINN - SIÐÁ 7

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.