Þjóðviljinn - 07.07.1985, Blaðsíða 2
FLOSI
Þetta byrjaði allt um mánaðarmótin sept-
ember-október í fyrra. Ég sé það í dagbókinni minni.
í hana hef ég ritað föstudaginn 28. september
1984:
- Nú er borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík bú-
inn að setja risastóra skurðgröfu fyrir utan gluggann
minn, ásamt traktor, vélskóflu og loftpressubíl. Það
er búið að splundra gangstéttinni og verið að grafa
skurð með vélskóflu, skurðgröfu, háþrýstibor og
tönn, skurð sem verður einsog virkisgröf meðfram
austur og suðurhlið hússins, eða nánar tiltekið fram-
anvið þær hliðar hússins sem þarf að nálgast ef
maður ætlar að freista þess að komast heim til sín.
Ég man að ég fór út að rabba við strákana sem
voru að grafa skurðinn. Þeir sögðust vera frá Hita-
veitunni og nú stæði til að endurnýja leiðslurnar.
Mér fannst þetta lofa góðu, fór inn og sagði við
konuna mína:
-Ætli það hafi ekki verið kominn tími til að endur-
nýja hitaveituna og ég man líka einsog það hafi skeð
í gær að hún svaraði:
- Jú ætli það ekki.
Strákarnir gengu hressilega til verks og kláruðu að
grafa skurðinn á nokkrum dögum. Síðan stóð hann
opinn í þrjá mánuði, eða framyfir áramót.
Þetta er ég með á hreinu, af því að frændi konunn-
ar minnar datt oní hann á gamlárskvöld og hefði
sennilega orðið þar úti, ef ekki hefði verið fyrir í
skurðinum kennslukona, sem eins var komið fyrir og
frændanum.
Þá var að vísu aftur mokað ofaní þennan ægilega
skurð, gangstéttarhellur lagðar og allt varð aftur slétt
og fellt einsog það á að vera í kringum húsið mitt.
Ég man einmitt að konan mín sagði:
- Það er þó alltaf eitthvað að ske, þegar Sjálf-
stæðisflokkurinn er í meirihluta í borgarstjórn.
Og ég man einsog það hafi skeð í gær að ég
svaraði:
- Já.
Nú var tíðindalaust í skurðgraftar- og gangstéttar-
málum kringum húsið mitt næstu fjóra daga. En þá
kom nýr vinnuhópur með tilheyrandi tæki og tól, reif
aftur upp gangstéttarhellurnar og gróf skurðinn enn
á ný. Og ég spurði:
- Af hverju eruð þið að grafa skurðinn aftur?
Og þeir svöruðu:
- Við erum frá Rafmagnsveitunni. Hinir voru frá
Hitaveitunni. Ekkert samband þar á milli. Svo klár-
uðu þeir að grafa þennan dæmalausa skurð, sex fet
á dýpt og hann var opinn umhverfis húsið mitt í
nokkrar vikur, eða á meðan verið var að koma raf-
magnsköplum í hann.
Endanlega var svo mokað ofaní hann aftur, gang-
stéttarhellurnar lagðar og allt varð aftur svo undur
gott og fínt.
Nokkrum vikum seinna vaknaði ég við það að enn
var kominn vinnuflokkur á svæðið og þegar ég sá að
þeir voru byrjaðir að taka gangstéttarhellurnar af
stéttinni umhverfis húsið mitt fór mér að detta eitt og
annað í hug. Og ég fór út og spurði þá hvað nú stæði
til.
- Við þurfum að grafa skurð, sagði sá sem hafði
orð fyrir hópnum.
- En það er nýbúið að grafa skurð hérna svaraði
ég.
- Já það var Rafveitan. Við erum frá Símanum.
Ekkert samband þar á milli.
Svo grófu þeir skurðinn og mokuðu ofaní hann
aftur eftir nokkrar vikur. Já og gangstéttarhellurnar
voru lagðar enn á ný, ekki má gleyma því.
Svo þegar þeir komu frá VatnsVeitunni og fóru að
pilla upp gangstéttarhellurnar þá hugsaði ég sem
svo:
- Nú kemur ekki lengur neitt flatt uppá mig. Nú veit
ég fyrir víst að það er ekkert samband milli Hitaveit-
unnar, Rafmagnsveitunnar, Símans og Vatns-
veitunnar.
Hver grefur sinn einkaskurð og til eigin þarfa.
Svo grófu þeir frá Vatnsveitunni skurðinn og mok-
uðu svo oní hann aftur eftir nokkrar vikur, og síðan
voru gangstéttarhellurnar lagðar ofaná einsog
venjulega. En nú kemur rúsínan í þylsuendanum.
Fyrir svona sirka mánuði komu spánýir menn og
tóku gangstéttarhellurnar af gangstéttinni og
sögðust eiga að fara með þær uppá Bergþórugötu,
en leggja aðrar hér.
Svo nú eru engar gangstéttarhellur á þessu
dæmalausa fortói umhverfis húsið mitt.
Nú, og af því að ég er orðinn svo ósköp þreyttur á
því að í kringum húsið mitt sé einsog eftir loftárás, þá
hringdi ég í borgarverkfræðinginn. Þar kom í símann
bara venjuleg kona og sagði að enginn væri við, ég
skyldi hringja í gatnamálastjóra. Þar kom í símann
önnur kona og sagðist bara vera stödd þarna fyrir
tilviljun, annars væri enginn við: — Allir í eftirliti og
sumarfríin byrjuð, einsog hún orðaði það. Svo gaf
hún mér samband við enn aðra konu, sem líka sagði
að það væri bara enginn við, en þegar ég sagði
henni frá raunum mínum útaf gangstéttinni svaraði
hún ósköþ mæðulega:
- Ja þetta eru nú bara einusinni verktakar og
verktakar eru nú einusinni alltaf einsog þeir eru.
Einleikur Maríu og
Rómeó og Júlía
María Sigurðardóttir sem í
vetur tók við menningarverð-
launum DV fyrir Petru von
Kant er nú að undirbúa ein-
leik, sem settur verður upp hjá
Egg-leikhúsinu í haust. Leik-
stjóri verður Viðar Egjgerts-
son, sem í fyrra vakti verð-
skuldaða athygli með Egg-
leikhúsi sínu., Einleik Mahu
skrifar Karl Ágúst Úlfsson
en efnið er leyndarmál ennþá.
Og Alþýðuleikhúsið sem
heldur upp á 10 ára afmælið
um helgina er með ýmsar ráð-
gerðir fyrir næsta leikár. Með-
al verkefna sem stefnt er að
því að sýna er harmleikur allra
harmleikja „Rómeó og Júlía".
Að banna
með fögum
Ragnar Júlíusson borgar-
fulltrúi, skólastjóri og formað-
ur fræðsluráðs er með ’merk-
ari samtímamönnum. Hann
kann til dæmis að skipta sér í
tvennteinsog amaban: Ragn-
ar Júlíusson formaður
fræðsluráðs sagði Þjóðviljan-
um þannig um daginn að það
væri alls ekki hann sem hefði
fundið húsnæði í eigu borgar-
innar handa nýja einkabarn-
askólanum. Sá sem gerði það
var nefnilega Ragnar Júlíus-
son borgarfulltrúi, - allt annar
maður.
Téður Ragnar hélt fund í
fræðsluráði um daginn að
beiðni eins fræðsluráðsfull-
trúans, Þorbjörns Brodda-
sonar. Ráðið var víst farið í
sumarfrí, og í upphafi fundar
lagði Ragnar formaður fram
bókun þarsem hann sagði fá-
heyrt að halda aukafund í ráð-
inu: bókunin endaði á tillögu
um að biðja alþingi að breyta
grunnskólalögunum til að ekki
væri hægt að halda fundi í
fræðsluráði á sumrin.
Þarna skjöplaðist Ragnari.
Lagabreyting er alltof flókin
leið til að komast hjá umræð-
um í fræðsluráði um skóla-
mál. Nær hefði verið að setja
bara lögbann á frekjuna í Þor-
birni. ■
Átök í BJ
Innan Bandalags jafnaðar-
manna er nú risinn upp sam-
heldinn andófshópur sem er
mjög óánægður með þá
stefnu sem störf og áherslur
forystu samtakanna hefur
tekið. Gagnrýnin beinist eink-
um að landsnefndinni, sem
þykir hafa á sér allt of mikinn
frjálshyggjublæ. En þingflokk-
urinn þykir líka hafa sýnt mikla
linku í stjórnarandstöðunni,
og margir tala um „hringsól"
Stefáns Benediktssonar
kringum Sjálfstæðisflokkinn. í
þingflokknum er Kristín
Kvaran nokkuð höll undir
gagnrýnina á landsnefndina,
og svo mun og um Kolbrunu
Jónsdóttur. Sem dæmi um
hversu alvarleg staðan er má
nefna, að tveir helstu þunga-
vigtarmennirnir í andstöðu-
hópnum eru báðir starfsmenn
BJ, þau Jónína Leósdóttir
og Garðar Sverrisson. Sú
manneskja sem gagnrýnin
beinist hins vegar að undir
niðri, og hópurinn telur orðna
allt of valdamikla er hins veg-
ar vonarstjarna BJ í Reykja-
vík, engin önnur en Valgerð-
ur Bjarnadóttir. Harkan er
hins vegar orðin það mikil á
milli, að Kristófer Már Krist-
insson formaður landsnefnd-
arinnar, sem sjálfur hefur
fengið góðan skammt af
gagnrýninni, erekkertfeiminn
við að segja þeim í andstöð-
unni að þau séu bara í vit-
lausum flokkL.B
Síldarbryggjurnar
ganga aftur
Hætt er við að Davíð borgar-
stjóra bregði í brún þegar
hann sér nýjustu tillögur sinna
manna um lagfæringu á
bökkum Tjarnarinnar. Þar er
gert ráð fyrir 6 metra breiðum
pöllum neðan við Vonarstræt-
isbakkann svipað og gert var
á tímum vinstri meirihlutans.
Munurinn á þessum hægri
síldarbryggjum og þeim
vinstri er að þær hægri eru að
sjálfsögðu úr steinsteypu en
ekki timbri. ■
Samkeppnin
blífur
Þrjú vátryggingarfélög hafa
leitað ásjár Verslunarráðs ís-
lands vegna vaxandi sam-
keppni á tryggingamarkaðin-
um. Ráðið brást skjótt við og
skipaði fulltrúa fyrirtækjanna
þriggja í nefnd sem ekki var
lengi að komast að þeirri
niðurstöðu að banna ætti með
lögum Húsatryggingar
Reykjavfkur og forræði
sveitarfélaga utan Reykjavík-
ur á brunatryggingum fast-
eigna, þ.e. Brunabótafélagið,
sem sveitarfélögin eiga.
Tryggingafélögin sem þola
samkeppni við Bl svona illa
eru Tryggingamiðstöðin,
Sjóvá og Almennar. Nefndar-
álit þeirra liggur nú á boröum
félagsmálaráðherra. ■
Nú hefur Lista- og skemmti-
deild sjónvarpsins og út-
varpsráð ákveðið hvaða verk
verði tekin upp af þeim 10
sem ákveðið var að fá samin
fyrir sjónvarpið. Höfundarnir
skiluöu flestir verkum sínum
snemma á s.l. vetri og hafa
veðið í óþreyju eftir að fá að
vita hver þessara verka yrðu
„sett á”. Nú er sem sagt
ákveðið að hefjast handa fljót-
lega með þrjú verk, eftir þau
Svövu Jakobsdóttur, Nínu
Björk Árnadóttur og Gísla J.
Ástþórsson. Verk nokkurra
annarra höfunda úr þessum
hópi verða væntanlega tekin
upp á næsta ári.B
Ólga hjá
næturvörðum
Talsverð ólga er meðal starfs-
manna Secúritas, nætur-
varðaþjónustunnar, einsog
greint var frá í síðasta helgar-
blaði. En það er víðar ólga
meðal næturvarða. Eigandi
öryggisþjónustunnar Vara,
Baldur Agústsson, hefur átt
í deilum við starfsmenn sína
út af kjörunum. En hjá Vara fá
starfsmennirnir enn lægri
laun en hjá Secúritas. Þar að
auki eru þeir mjög óánægðir
með að fá ekki borgaða kaffi-
tíma og matartíma.
Þess má geta að útaf lé-
legum kjörum, miðað við
vinnuálag og -tíma, þá eru
mjög tíð mannaskipti hjá
næturvarðaþjónustunum
tveimur. Þetta hefur valdið
nokkrum áhyggjum, því þeim
fjölgar þannig ótt sem kunna á
helstu þjófavarnarkerfin í
bænum...B
2 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 7. júlí 1985