Þjóðviljinn - 12.01.1986, Blaðsíða 19

Þjóðviljinn - 12.01.1986, Blaðsíða 19
Krossgátur Lesendur eru býsna vanafastir mhg rœðir við krossgátuhöfund Þjóðviljans, Hjört Gunnarsson Hjörtur Gunnarsson: Þú getur eins spurt skáld að því hvað það sé lengi að yrkja kvæði. Mörg undanfarin ár hafa vikulega birst krossgátur í Þjóðviljanum. Sú krossgáta, sem birtist í blað- inu nú um þessa helgi, er hin fimm hundraðasta í röðinni síðan farið var að númera þær. Nokkrar höfðu þó birst fyrir þann tíma, ó- númeraðar. Maðurinn á bak við þetta starf heitir Hjörtur Gunnarsson. Hann hefur samið allar þessar krossgátur, sem þykja ákaflega vandaðar og vel gerðar. Við tókum Hjört tali, bæði til þess að fræðast um þessa iðju hans og einnig kannski ofurlftið um manninn sjálfan. - Jú, það er víst fremur sjald- gæft að sama efni sé jafn lengi viðvarandi í dagblaði og þessar krossgátur eru búnar að vera í Þjóðviljanum, sagði Hjörtur. Það skyldi þá helst vera fiskimál- aþættirnir hans Jóhanns Kúlds, þeir ágætu þættir. Síðan byrjað var að hafa þessar krossgátur í blaðinu hafa þær komið í hverju helgarblaði - aldrei fallið niður. Ég hef gætt þess því að ég veit að lesendur eru býsna vanafastir og vilja hafa allt á sínum stað í blað- inu. Þeir vilja hafa þetta efni í blaðinu, það hef ég mjög orðið var við. (Og þess hafa blaðamenn líka orðið varir). Áhrif fró dr. Bjarna - Hvenœr byrjaðir þú á því að semja krossgátur, Hjörtur? - Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði á því. Eg hafði snemma áhuga á móðurmálinu og var svo lánsamur að njóta kennslu dr. Bjarna Aðalbjarnarsonar í Flens- borgarskóla. Hann agaði okkur til að virða móðurmálið og við bárum öll mikla lotningu fyrir því, sem verið var að gera í kennslustundum. Ég nýt enn þessarar kennslu og þetta er sá trausti grunur, sem ég tel mig hafa í kunnáttu í móðurmálinu og nauðsynlegt er hverjum krossgátuhöfundi. Síðar hafði ég raunar marga ágæta kennara í ís- lensku en dr. Bjarni var sérstak- ur. Þetta skilja allir, sem nutu kennslu hans. Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér í hverju þau miklu áhrif, sem dr. Bjarni hafði á nem- endur sína, lágu. Stöfuðu þau kannski af því, að hann þéraði okkur nemendur? Mér finnst það meira en hugsanlegt. Sverrir Hermannsson, menntamálaráð- herra, mætti gjarnan taka þetta til athugunar. Varð snemma handgenginn krossgátunum Á yngri árum var ég lengi sjúk- lingur og lá bæði í heimahúsum og í sjúkrahúsum. Þá las ég mikið og réð m.a. allar þær krossgátur, sem ég náði í. En að því kom, að mér fannst þetta ekki vera orðið neitt viðfangsefni lengur og þá fór ég sjálfur að semja krossgátur, án þess þó að hirða um að koma þeim á framfæri. Fyrsta krossgátan mín, sem birt- ist, kom í Þjóðviljanum. Ég man nú ekki lengur hvaða ár það var en þá var ég sjúklingur á Vífils- stöðum. Síðar varð ég svo blaða- maður við Þjóðviljann. Þá fór ég að birta krossgátur með skýring- um, í hinu gamla, hefðbundna formi. Svo rakst ég á, í þýsku blaði, þetta form, sem nú er á sunnudagskrossgátu Þjóðviljans. Það krossgátuform var þá óþekkt hér en ég tók það upp og Þjóðvilj- akrossgátan var lengi vel sú eina hérlendis af þeirri gerð. Og ég veit, að þeim, sem fara að fást við að ráða slíkar krossgátur, finnst þær skemmtilegri og vanda- samari en aðrar. Sumir leggja hinsvegar ekki til atlögu við þær af því að þær eru dálítið öðruvísi en hinar hefðbundnu. Ég er nú búinn að halda þetta lengur út hjá Þjóðviljanum en þessi tala, 500, gefur til kynna. Áður, og mest allan tímann síð- an, hef ég birt í blaðinu litlar krossgátur með skýringum. Lík- lega hafa fáir átt efni í jafn mörg- um tölublöðum Þjóðviljans og ég. Mikill meiri hluti þeirra, sem senda inn lausnir á Þjóðvilja- krossgátunni, eru konur, og þó að ég hafi verið „huldumaður", þá hafa sumar þeirra stundum hringt í mig, látið í ljós ánægju sína eða bent á mistök. - Hefurðu samið krossgátur fyrir önnur blöð en Þjóðviljann? - Já, ég hef gert það og t.d. samið alveg efni í eitt krossgátublaðið og sl. þrjú ár allt efni í bók,semnefnistKrossgátu- bók ársins. Oll þessi ár hef ég einnig verið móðurmálskennari en er nú í árs- leyfi og vinn að verki, sem ég bind vissar vonir við, en tel ekki tímabært að greina nánar frá því. Annað og meira en tómstunda- gaman - / hverju telurðu gildi kross- gátunnar fólgið, ef svo má að orði komast? - Glíman við að ráða krossgátu er fyrst og fremst tómstundagam- an og það gefur henni, út af fyrir sig, nægilegt gildi. En hún er einnig annað og meira. Þeir, sem við krossgátuna glíma, eru stöðugt að hugsa um orðin í móð- urmálinu. Og sá, sem byrjar að ráða krossgátur, hættir því aldrei. Þá tel ég að krossgátan geti gegnt veigamiklu hlutverki í þeirri viðleitni að viðhalda áhuga á móðurmálinu og þar með varð- veislu tungunnar. Það er ákaflega þýðingarmikið ekki síst nú þegar tungan er í stórhættu vegna yfir- þyrmandi áhrifa enskunnar. Það eru falsrök þegar sagt er að ekk- ert þurfi að gera vegna þess að tungan hafi staðið af sér allar at- lögur. Jú, það hefur hún gert en einmitt vegna þeirra varnarað- gerða, sem gripið hefur verið til á háskatímum. Á þessu held ég að menn séu að átta sig og er gott til þess að vita að menntamálaráð- herra er þeirrar skoðunar, að tungan verndi sig ekki ein sjálf. Fjölmiðlamir taki sér tak Útvarpið hefur sína „mál- löggu" Árna Böðvarsson, og er það gott svo langt sem það nær. Mér skilst að hann fylgist einkum með fréttamönnum og leiðbeini þeim. En aðrir leika lausum hala í Útvarpi, með sín málspjöll. Ég fylgdist nokkuð með barnatíman- um í sumar er leið. Þar var heilsað með hæ og kvatt með bæ og á milli voru söngvar þar sem allur textinn var á ensku. Ég held líka að ritstjórar dag- blaða mætti vera meiri „mál- löggur“ en þeir eru. Ég hef lengi talað um það fyrir daufum eyrum Þjóðviljamanna að útrýma enskuslettum, sem oft eru áber- andi í blaðinu. Fæ þá gjarnan þau svör, að þessi ritháttur sé við- hafður til þess að geðjast unga fólkinu. Hvílík fásinna. Nei, ef við glötum tungunni þá erum við líka glötuð sem þjóð. En auðvitað má þetta ekki snú- ast upp í þjóðernisrembu. Við erum ekkert merkilegra fólk en aðrar þjóðir, ísland er ekkert merkilegra land en önnur lönd og íslenskan ekkert merkilegra mál en önnur en fyrir okkur íslend- inga er íslenskan merkileg vegna þess að hún er okkar móðurmál. Ég fór á sýningu á Kjarvals- stöðum sl. sumar, held hún hafi nefnst í deiglunni. Mér fannst yfirþyrmandi sú þjóðernisremba, sem kom fram í kvikmynd, sem þar var sýnd. Sagt var að þessi sýning ætti að sendast til Banda- ríkjanna. Hafa þeir ekki nóg ann- að til þess að hlæja að þar en þeirri þjóðernisrembu og minn- imáttarkennd, sem þarna birtist? - Já, þetta er nú hressileg ádrepa. En segðu mér eitt, hvað ertu yfirleitt lengi að semja eina Þjóðviljakrossgátu? - Þessu get ég ekki svarað. Þú getur eins spurt skáld að því hvað það sé lengi að yrkja kvæði. Að semja krossgátu er að sjálfsögðu hugverk þó að því fylgi einnig þónokkur handavinnu. Næði er mikils virði. Þar sem lifað er „af landsins gœðum" Ég hef dvalið allmikið á Spáni, var þar t.d. nú í vetur og fer von- andi aftur og verð þar eitthvað áfram. Ég var þarna í litlu fjalla- þorpi, um 50 km. frá Valencia. Þarna var ákaflega kyrrlátt og ró- legt og er gott að vinna við slíkar aðstæður. Hafði engan síma og sté ekki upp í bíl vikum saman. Margir tengja Spánarför einvörð- ungu við skemmtun. Sjálfsagt er það líka þannig á ferðamanna- slóðunum, en þarna getur lífið líka verið grátt og hversdaglegt rétt eins og hér heima. Unga fólk- ið er gjarnan í bæjunum við nám og störf. Heima er gamla fólkið og við það er gaman að ræða. Þarna er eins og allt standi kyrrt. Fólkið lifir af því, sem jörðin gef- ur því og mikið gefur nú landið fólkinu. Maður skilur það betur nú eftir að hafa dvalið meðal þessa fólks hvað það er að „lifa af landsins gæðum“. Og þarna er miklu ódýrara að lifa en hér. Ávextirnir eru tíndir af trjánum. Kjöt og fiskur og annar matur er miklu ódýrari en hér og engu er eytt í óþarfa. Mér líkaði mjög vel að vera þarna hjá þessu gamla fólki. Ég hef alltaf kunnað vel við mig í félagsskap með gömlu fólki. Það er ræðið og forvitið og oft með miklu opnari huga en margt ungt fólk. Hugsaðu þér t.d. sög- urnar hennar Málfríðar Einars- dóttur, sem hún skrifaði á gamals aldri. Eða bækurnar hennar Lín- eyjar. Stundum uni ég mér best aleinn t.d. á báti hérna úti á Flóa. Þá tala ég gjarnan mikið við sjálf- an mig. Það grunar mig að fleiri geri þegar þeir eru einir. Þetta eru hinar skemmtilegustu stund- ir. Ætli menn finni raunar nokkra skemmtilegri viðmælendur en sjálfa sig. -mhg Sunnudagur 12. januar 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 19

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.