Þjóðviljinn - 20.07.1986, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 20.07.1986, Blaðsíða 4
Dagur á vinnustað Veturinn 7 943 varÞjóðviljinn stœkkaðurí átta sfður. Þá hófst samkeppni um greinarþarsem vinnandi menn lýstu„einum degi á vinnustað" Hér fer á eftir önnur þeirra tveggja greina sem fyrst birtustíþessum flokki. Höfundurer Sigvaldi Þorsteinsson frá Upsum Þótt allir séu þreyttir erum við ánægðir eins og sjómaðurinn einn getur verið þegar hann heldur með skip sitt hlaðið til hafnar... Á fyrstu árum Þjóðviljans var það sjaldgæft að birt væru viðtöl við fólk í dagsins önn. Blaða- menn voru fáir og komust lítt út á meðal fólks. En menn vissu, að meðal íslenskra erfiðismanna var enginn skortur á ritfærum mönnum, sem gætu vel skrifað um daglegt líf „þeirra manna sem byggja hús, leggja vegi, virkja fossa, flytja varninginn sem skartar í búðargluggum" - en það er alltof sjaldan gert, segir Sig- urður Guðmundsson um það leyti sem Þjóðviljinn stækkaði í átta síður árið 1943. Hann segir líka: „Þaö á að rjúfa þögnina um líf hinna vinnandi stétta. Þær eiga sjálfar að segja frá lífi sínu og starfi.“ Og efnt var til samkeppni um greinar sem fjölluðu um „Einn dag á vinnustað“. Þær fyrstu birt- ust svo í byrjun desember 1943. Greinaflokkurinn lifði nokkur misseri, en veslaðist svo upp - en var endurvakinn 1953 þegar blað- ið var stækkað í 12 síður og lifði þá um stund. Sunnudaginn 5. desember 1943 birtust fyrstu tvær verð- launagreinarnar um efnið „Dag- ur á vinnustað". Þær voru eftir þá Halldór Pétursson Reykjavík og Sigvalda Þorsteinsson frá Upsum og fjölluðu báðar um síldarævin- týrið það sumar. Hér fer á eftir grein Sigvalda sem heitir Tví- lembingar að veiðum. ÁB Tvílembingar að veiðum Klukkan er hálftvö að nóttu. Á svo óvanalegum tíma hefst vinnudagurinn á vinnustað okk- ar. Máski væri réttara að segja: Síðasta vinnudegi er ekki lokið þegar sá næsti hefst. Eða, byrjun og endir vinnunnar er ekki bund- ið klukkustundum og mínútum, því að við erum fiskimenn í síld- veiðiflota ísleridinga, sumarið 1943. Mild og gráföl birta miðsum- arnæturinnar hjúpar land og sæ hugljúfu skini. Austur við hafs- brún uppi yfir Siglunesi belta sig góðveðursskýin í rósrauðum bjarma nýfædds dags. Þess dags er byrjar vel og lofar góðu. Ef til vill verður hann einn af hinum fáu heiðu, blíðu sumar- dögum, sem við ennþá höfum fengið svo lítil kynni af á þessu sumri. Veðurútlitið er gott og allar ástæður fyrir okkur að vera von- góðir. Við bíðum og sjáum. Skipakostur okkar eru tveir mótorbátar, „Tvílembingar", annar 24 smálestir, sá dregur nót- abátana og í honum hefst skips- höfnin öll að jafnaði við, borðar þar og sefur. Hinn báturinn er 12 smálestir að stærð. Þeir bera sam- tals 550-600 mál síldar, fullhlaðn- ir, að landi. Fögur síld og ginnandi Fyrir röskri klukkustund hafa drengirnir lokið við að losa bát- ana, undir hinum nýju löndunar- tækjum Ríkisverksmiðjanna á Siglufirði. Svo þurfti að taka olíu, kol og vatn. Matsveinninn varð að fá tíma til að bregða sér upp í bæ eftir nokkrum brauðum, mjólk á brúsa, einu kjötkrofi og fleiru matarkyns. Allt var þetta unnið í ákafa, því úti fyrir beið blikandi, sléttur sær, þar sem sfldin bylti sér glitrandi fögur og ginnandi í stórum og smáum torfum. Út hinn ládauða flöt Siglu- fjarðar knýja vélarnar bátana á- fram, áfram út til hafs, með 7-8 sjómílna hraða á klukkustund, þangað sem veiðin bíður lokk- andi og heillandi. Vaktin hefur enn ekki lokið við að hreinsa bátinn. Hinir af skips- höfninni hópast að dyrum eld- hússins til að fá sér kaffisopa áður en þeir leggi sig örlitla stund. Eldhúsið er lítið skýli aftast á bátnum. Gólfflötur þess er um 2x2'/2 metri. í þessari litlu kompu verður matsveinninn að elda og baka handa 18 mönnum, sem erf- ið vinna og kaldranaleg aðbúð gerir lystuga á mat og drykk. „Enn gengur allt í góðu“, er máltak okkar, en þegar versnar í sjóinn og dætur Ránar hafa sér til skemmtunar að htnda á milli sín litlum bát, þá fyrst versnar að- staða matsveinsins. Olt er þá haldið sér með annarri hendi en pottur og ketill studdir með hinni, og vill samt ekki hrökkva til. En „kokksi“ er alltaf glaður og hreifur þótt starfsdagar hans við hinar erfiðustu aðstæður byrji kl. 6 að morgni og vari oft til kl. 11 og 12 að kveldi án hvíldar. Og hann gefur sér tíma til að bregða sér út á þilfar og leggja hönd að verki þegar mikið liggur við, eins og þá er gott kast er komið að borði. Við erum komnir út úr mynni Siglufjarðar. Skipshöfnin hefur öll lagt sig til hvíldar að undan- teknum einum háseta, vélamanni og skipstjóra. Þeim er þörf á því drengjunum að fá sér blund því innan stundar erum við komnir á miðin og framundan er dagur starfs og erfiðis. Svo langt sem augað nemur liggur flötur hins víðfeðma Ægis. Að þessu sinni óvanalega stilltur og kyrr. En til landsins rísa fjöllin í tign og ró sveipuð blámóðu fjarlægðarinnar. Klárir í bátana Skip koma hlaðin veiði. Skip fara út til veiða með unga starfs- glaða menn um borð. Allt tjáir líf og starf. Sjórinn er kvikur af fugli, hnísum og hrefnum. Hér er sýnilega mikil áta og því sýnilega síldar von fyrr en seinna. Stefnan er sett á Grímsey og á eftir kemur hinn „tvílembingurinn". Á hon- um eru aðeins tveir menn, skip- stjóri og vélamaður. Stundum fara þeir einir í land, þegar þann- ig stendur á, að fullfermi hefur fengizt í þann bátinn, og fyrir kemur, að aftur eru þeir komnir út á miðin áður en hinn báturinn er fulllestaður. Þá koma talstöðv- ar bátanna sér vel, en í gegnum þær hafa þeir samband sín á milli og vita oft hvernig á stendur hjá hvorum um sig. Klukkan 5 erum við komnir austur fyrir Eyjafjarðarál. Fyrir stundu er „nótabassinn" kominn á sinn stað, í skýlið uppi á stýrishúsinu, og þaðan horfir hann aðgætnum augum út logn- sléttan flöt hafsins, því á hverri stundu má búast við að síldin fari að vaða. Það bregzt heldur ekki, fyrir stafni er meðalstór síldartorfa, og nú hljómar rödd hans há og hvell: „Klárir í bátana!“ Dagur starfsins er hafinn fyrir alvöru. Þótt drengirnir hafi aðeins hvílzt í tæpa þrjá tíma eru þeir fljótir á fætur og eftir örskamma stund eru allir komnir í bátana sem þar eiga að vera, þeir losaðir frá, róið að síldartorfunni, nót- inni kastað og síldin lokuð inni með samtaka, ákveðnum og traustum handtökum vinnuvanra manna. Erfiði og þrengsli Veðrið helzt jafn yndislegt all- an daginn. Sól og sumar, eins og bezt verður á kosið. Og nóg er af blessaðri sfldinni, stórar og smáar torfur um allan sjó svo langt sem augað eygir. En í dag er nú sá dinturinn í henni, að þótt torfurn- ar sýnist stórar um sig, eru þær mjög þunnar, svo lítið fæst úr hverju kastinu, 20-30-50 mál og stundum minna. Köstin verða því mörg og dagurinn erfiður og vinnufrekur. En áfram er haldið stanzlaust. Kaffisopi svolgraður standandi á þilfarinu meðan stím- að er milli torfa. Hádegisverður- inn gleyptur á hlaupum og þá far- ið lítt að borðsiðum. Frá því kl. 5 að morgni, þar til kl. 9 að kveldi hefur verið óslitin erfiðisstund. Þá vantar okkur nokkur mál á annan bátinn og síðasta kastið er tekið, en þá fáum við líka sæmilega gott kast og verðum að fleygja aftur í Ægis faðm 2-3 hundruð málum. Okkur vantar stœrri skip. En svo eru bátarnir settir aftan í og haldið til lands. Þótt allir séu þreyttir eftir svo langan vinnudag, erum við ánægðir, ánægðir eins og sjómað- urinn einn getur verið þegar hann heldur með skip sitt hlaðið til hafnar. Við höldum til hásetaklefans og lítum þangað niður. Hurðin gengur inn, okkur veitist erfitt að opna hana, eitthvað er þar fyrir, og þegar við loks höfum smeygt okkur inn fyrir, gegnum þrönga gátt, sjáum við hvað valdið hefur að svo treglega gekk inngangan. Hásetaklefinn er lítill, svo sem vænta má í ekki stærra skipi. Þó eiga þar að búa 16 menn yfir allan síldveiðitímann. Þar eru rúm fyrir 8 menn. Tveir hafa kastað sér niður á bera bekkina sinn hvoru megin og tveir hafa búið um sig á gólfinu. Þeir hafa, eftir því sem hægt hefur verið hagrætt hrúgu af gúmmístígvélum og hafa nú þau fyrir höfðalag en fætur þeirra námu við hurðina og því gekk svo erfiðlega inn að komast. En svo er þreyta þeirra sár, svo er svefn þeirra djúpur, að ekki hafa þeir rumskazt við umgang okkar. Þannig er þá hvílan reidd, þreyttum og lúnum „her- mönnum“ íslands. Væri ekki ráð að lögskylda hina þrjátíu og þrjá þingskör- unga, sem voru svo vel samtaka um að drepa tillögur sósíalista um 10 milljóna króna framlag til eflingar fiskiflota okkar, til þess að taka í vikutíma þátt í störfum og aðbúnaði fiskimanna á minnstu og þar af leiðandi van- búnustu skipunum? Að liðinni þeirri viku mætti aftur senda þá suður á þing og lofa þeim að endurskoða afstöðu sína til endurbóta og eflingar fiskiflot- ans. Það ætti að vera þeirra síð- asta tækifæri. Stœrri skip! Óskir og kröfur fiskimanna ís- lands eru ekki fyrst og fremst um bætt kjör þeirra sjálfra. Þeir setja ekki fyrst af öllu fram kröfuna um t.d. átta stunda vinn- udag, eins og aðrar vinnandi stéttir þessa lands hafa fengið viðurkennda. Ekki heldur er þeirra krafa um svo og svo mikla kauptryggingu þeim til handa. Nei, þeirra heitasta ósk, þeirra sárasta þörf er: Stœrri og betri skip. Stœrri og fleiri verksmiðjur. Fullkomnari tœki svo fram- leiðslan aukist, svo hin mikla lífœð þjóðarinnar streymi fram hraðar og með meiri krafti til nær- andi blessunar börnum þessa lands. Veitið hinum djörfu og dug- legu fiskimönnum íslands þetta, þá munu þeir una sér vel úti á hinum síkviku, breiðu brjóstum Ægis. Brjóstunum, sem aldrei sofa rótt. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 20. júlí 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.