Þjóðviljinn - 20.07.1986, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 20.07.1986, Blaðsíða 5
Vallabakkar Hestar og söngur ráða ríkjum Svipleiftur frá hestamannamóti Stíganda í Skagafirði fyrir aldarfjórðungi Um margra ára skeiö stóö hestamannafélagið Stígandi í Skagafiröi fyrir kappreiðum og góðhestakeppni á Vallabökkum. Aö öllum jafnaði var þetta mót um 13. sumarhelgina. Ávallt var þarna mergð manna og hesta enda virtust veðurguðirnar ákaf- lega hliðhollir Stíganda. Man ég ekki til að velvild þeirra hafi nokk- urntíma brugðist öll þau ár, sem kappreiðarnar fóru þarna fram. Nú eru ekki lengur haldnar kappreiðar á Vallabökkum. Hestamannafélögin, Stígandi og Léttfeti hafa sameinast um móts- stað á Vindheimamelum. Lagt hefur verið í kostnaðarsamar um- bætur á Melunum. Þar er aðstaða öll orðin hin ágætasta og ólík því, sem var á Bökkunum. Samt finnst mér einhvernveginn að sá andi, sem þar sveif yfir vötnum, hafi ekki náð að flytjast á nýjan stað. Nú er nýafstaðið mikið og myndarlegt hestamannamót austur á Gaddastaðaflötum. Hef- ur mikið og rækilega verið frá því sagt og að verðugu. Undirritaður átti þess ekki kost að sækja þetta mót. En er hann var að grúska í gömlu pappírsdóti um síðustu helgi, rakst hann á frásögn af hestamannamóti Stíganda á Vall- abökkum fyrir réttum aldarfjórð- ungi. Var hún hripuð niður viku eftir að mótið fór fram. Ef til vill þykir einhverjum lesanda Þjóð- viljans gaman og fróðlegt að fylgjast með því, sem fram fór á Bökkunum fyrir 25 árum. Ef ekki þá lætur hann bara vera að lesa þessar línur. Svona einfalt er nú það. Og hefst þá sagan Sjálfsagt er það svo um allt land að sérstakar samkomur séu haldnar árlega í hverju héraði. Þannig er það a.m.k. hér í Skaga- firði að nokkrar skemmtanir eru orðnar árviss fyrirbæri. Þær eru kannski ekki allar háðar eins ákveðnum tímamörkum og há- tíðir þær, sem skráðar eru í alm- anakinu, en þær koma samt ein- hversstaðar innan endimarka árs- ins, það bregst ekki. í svipinn man ég eftir þessum, en þær geta verið fleiri: Þjóðhátíðarsam- koma 17. júní, sundmót Ung- mennasambands Skagafjarðar, héraðsmót tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna, kapp- reiðasamkomur hestamannafé- laga, Þorrabiót Hólasveina og svo síðast en ekki síst sjálf Sælu- vikan, sem í raun og veru er ekki venjuleg samkoma heldur við- varandi gleðskapur í heila viku. Það vill nú svo til að ein þessara skemmtana er nýafstaðin. Það eru kappreiðar hestamannafé- lagsins Stíganda. Þær voru háðar á skeiðvelli félagsins á Valla- bökkum í Vallhólmi 13. sunnu- daginn í sumri. Voru það 17. kappreiðar félagsins en sjálft er það ekki nema 16 ára. Þar fyrir er það misskilningur ef einhver dregur þá ályktun af þessu að fé- lagið hafi staðið fyrir kappreiðum áður en það varð til. Það er nefni- lega í heiminn borið nálægt sumarmálum, ef ég man rétt, en stóð fyrir kappreiðum þegar á fyrsta ævisumri sínu, þá og jafnan síðan á Vallabökkum, og þvínær alltaf 13. sunnudaginn í sumri. Happatalan 13 Og talan 13 hefur reynst fé- laginu sannkölluð happatala. Kappreiðarnar hafa alltaf verið feyki fjölmennar og það, sem meira er og má enda heita ein- stakt: veðurfar hefur jafnan verið hið besta og blíðasta þennan dag. Er það mikils virði og ræður raunar úrslitum um farnað sam- kornu, sem haldin er að verulegu leyti undir berum himni. Hent hefur að þrálátar rigningar hafi gengið dagana fyrir 13. sunnu- daginn, jafnvel rignt fram undir hádegi á sjálfan samkomudag- inn, en nær hefur úrfellið aldrei gengið. Boðið á Bakkana Trúlega hafa einhverjir lesend- ur þessara lína komið á Valla- bakkasamkomuna, eins og kapp- reiðar Stíganda eru gjarnan nefndar norður hér, en hinir eru þó áreiðanlega margfalt fleiri, sem þangað hafa aldrei stigið fæti og gera sjálfsagt, margir hverjir, aldrei. Ætla ég nú að bjóða þessu ágæta fólki að fylgjast með mér á eina samkomu, þótt aldrei verði slík leiðsögn úr fjarlægð nema svipur hjá sjón mótsvið það, að vera sjálfur þátttakandi í allri dýrðinni. Hvort sem við komum úr austri eða vestri þá beygjum við norður af þjóðveginum, sem liggur yfir Hólminn, rétt vestan við brúna á Héraðsvötnunum, (Grundar- stokk). Þar er ákvörðunarstaður- inn örskammt frá, á þurrum og grónum valllendisbakka. Vart getur samkomustað betur í sveit settan. Hann liggur við mót þjóð- vega í miðju héraði. Útsýni er hið fegursta til allra átta. Skammt austan við skeiðvöllinn falla Hér- aðsvötnin í einum stokk, lygn og djúp. í baksýn eru Blönduhlíðar- fjöll, há, sviphrein og hömrum gyrt, með hvassbrýndan Glóða- feyki í miðri fylkingu. Til suðurs, vesturs og norðurs breiðir Ey- lendið sig rennislétt og hvann- grænt. Stígandi á ekki staðinn heldur Haraldur bóndi á Völlum. En það skiptir ekki öllu máli. Haraldur hefur reynst hesta- mannafélaginu hreinn öðlings- maður í öllum samningum. Þarna er þegar kominn ótölu- legur grúi bíla og einkennisstafir þeirra spanna yfir álitlegan hluta stafrófsins. Eðlilega eru þó Skag- firðingar fjölmennastir en þarna eru einnig margir frá Akureyri, Siglufirði og úr öðrum byggðum Eyjafjarðar, fjölmenn sveit Hún- vetninga auk fjölda ferðamanna lengra að, sem leið hafa átt um þjóðveginn og grípa nú óvænt tækifæri til að bregða sér á sam- komu, sem þeir beinlínis aka fram á. Og sfðast en ekki síst er þarna saman kominn stærri hóp- ur hesta en endranær sést á einum stað í Skagafirði. Mannamunur Við inngönguhliðið til skeiðvallarins er mikill troðning- ur. Mergð bíla og myndarlegar riddarasveitir koma stöðugt í hlað og allir þurfa að hraða sér inn á völlinn. Skemmtinefndar- mennirnir í hliðinu hafa því nóg að gera og hafa raunar haft það frá því á fimmtudag því alla stund síðan hafa þeir unnið að undir- búningi samkomunnar - og eng- inn þiggur eyri í laun. Og þeir eru ekki lausir af verðinum fyrr en á þriðjudagsnótt því sá hluti mánu- dagsins, sem ekki er nauðsynlegt að nota til hvíldar, fer í að gera hreint „samkomuhúsið". í hliðinu sýnist mér mest bera á Markúsi á Reykjahóli. Hann gegnir þar sjáanlega einskonar Sankti-Péturs hlutverki. En sá er þó munur þeirra Markúsar og Péturs að sá síðartaldi er sagður gjarn á að gera sér mannamun en Markús tekur öllum jafn vel og hleypir hverjum þeim inn í sælu- ríkið sem þangað vill komast. Er sá munur bæði mikill og góður. Kappreiðar hefjast Vallarstjórinn (sá sem hér segir frá) hefur nú klifrað upp á bílpall við endamörk skeiðvallar- ins og setur þaðan samkomuna. Umhverfis hann er kappreiða- dómnefndin þeir sr. Gunnar í Glaumbæ, Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki og Jóhann í Sól- heimum í Sæmundarhlíð. Hinum megin við endamarkið er Kári Steinsson, yfirtímavörður, mætt- ur með liðsmenn sína og skeiðklukkur. Ræsirinn, Halldór á Fjalli, hraðar sér norður völl- inn. Það verður enginn glímu- skjálfti séður á honum þótt starf hans sé vandasamt og stundum vanþakkað, enda er hann verk- inu vanur. Vallarstjórinn brýnir raustina og það kemur sér nú vel að hann hefur sungið í sjö karla- kórum um dagana (aldrei í kvennakór), en það heyrist þó tæplega nógu vel til hans, það vantar hátalarakerfið. Fyrstu hestarnir fara nú út völl- inn. Þeir eru dálítið óstýrilátir á ráslínunni en loksins kyrrast þeir og ræsirinn lætur merkið falla. Hestarnir eru nokkuð jafnir, spenningur áhorfenda smá eykst eftir því, sem líður á hlaupið. Rekur svo hver riðillinn annan þar til kappreiðunum er lokið. Og þá tekur við Góðhestakeppni Raunar er það nú fremur sýn- ing en keppni því góðhestadóm- nefndin hefur áður prófað he- stana og dæmt þá. Góðhestarnir koma fram í tveimur flokkum: alhliða góðhestar og klárhestar með tölti. Bestan dóminn af alh- liða gæðingum hefur hlotið Skjóni, eign Báru Björnsdóttur á Kristhóli. Fær hann að verð- launum silfurskeifu, smíðaða og gefna af Halldóri Sigurðssyni, gullsmið frá Stokkhólma. Er skeifan hinn fegursti gripur. En Halldór hefur ekki látið þar við sitja með höfðingsskap í garð hestamannafélagsins. Hann hef- ur einnig gefið félaginu tvær aðr- ar samskonar skeifur, sem veitast eiga sem verðlaun í góðhestak- eppni Stíganda næstu tvö ár. Og enn hefur hann gefið fagurt dryk- kjarhorn er sá hestur hlýtur, er bestur telst af klárhestunum, en það er að þessu sinni Gaukur Jó- dísar Jóhannesdóttur, Merkigili. Kvenþjóðin lætur sitt ekki eftir liggja með þátttöku í hesta- mennskunni. Það eru þær Merki- gilssystur, Elín og Jódís, sem halda þar í dag uppi merki kynsy- stra sinna og gera það myndar- lega, eins og vænta mátti. Báðar sitja þær hesta, sem taka þátt í góðhestakeppninni og Elín er auk þess knapi á einum kapp- reiðahestinum. „Setinn Svarfaðardalur" Kappreiðunum og góðhesta- keppninni er nú lokið. Mun þá mál að fá sér hressingu. Og hún er nærtæk og um margt að velja: mjólk, kaffi, smurt brauð, kökur af margvíslegum litum og gerð- um, heitar pylsur, öl, gosdrykki, sælgæti, tóbak, og ekki er ólíklegt að einhver rétti að þér „einn gráan“, ef þú skyldir vera mót- tækilegur fyrir þesskonar veiting- ar. Við göngum inn í bragga. Er það skáli einn mikill, eftirstöðvar frá stríðsárunum. Langborð eru með veggjum. Hér er „setinn Svarfaðardalur". Við borð þau hin miklu er hvert sæti skipað. Frammistöðustúlkurnar eiga ekki sjö dagana sæla. Þær eru á stöðugum þeytingi milli eldhúss og veitingaborðanna. Hér þýðir lítið að reyna að tala saman, enda ekki svo nauðsynlegt. En hér syn- gjast menn saman og það ótæpi- lega. Stundum syngja einir fjórir kórar samtímis og sitt lagið hver. Það gerir ekkert til úr því enginn virðist trufla annan. Óvœntir vinafundir Utan við braggann er iðandi mannhaf. Kunningjahópar sitja hér og þar og flaskan er gjarnan látin ganga hringinn. Ekki er ó- líklegt að þú rekist hér á fornvin þinn, sem þú hefur ekki séð árum saman, jafnvel ekki búist við endúrfundum fyrr en ef svo kynni að reynast, að þið rækjust saman í öðru lífi. Á skeiðvellinum er ný góðhest- asýning hafin, þótt hún sé raunar utan dagskrár. Hópur manna er kominn á hestbak og gæðingarnir eru teygðir eftir vellinum. Má þarna sjá margan glæstan gæðing og verður nú ljóst, að ekki hefúr nema lítið brot þeirra góðhesta, sem þarna eru saman komnir, tekið þátt í keppninni. Þarna stendur auragildur utan- héraðsmaður, gæti verið reykvískur heildsali, og býður í hest, sem honum líst vel á. Boðin er há upphæð en ekki veit ég hvort saman gekk. En telja má víst að eigendaskipti verði á ein- hverjum hestum hér í dag. Margraddaður söngur berst að eyrum. Eru nú kórmennirnir kannski komnir úr kaffinu? Ónei, hér eru bara aðrir kórar, fleiri en einn og fleiri en tveir, og halda sínar söngskemmtanir úti undir berum himni. Einn þeirra hefur tekið sér stöðuna á sandin- um austan við bakkana og syngur „Hlíðin mín fríða“. Það eru trú- lega Blöndhlíðingar. Annar er suður við rétt. Þar er kveðið „Hér er drengja hópur stór“ - og notuð Hólastemma. Við sjáum ekki héðan hvaða menn það eru en þeir kveða af mikilli prýði. Þriðji kórinn hefur stillt sér upp vestur í mýri og er því sennilega í vaðstíg- vélum. Þar er sungið „Vel er mætt til vinafundar". Og í þeim hópi þekki ég menn úr þremur héruðum og Reykvíking að auki. Jæja, kunningi, nú skulum við líta inn í skúrinn til hans Óla Sveins og fá okkur einn bjór áður en við förum á ballið. Óli Sveins heitir annars Ólafur Sveinsson og kennir sig við Mælifellsá í Skaga- firði. Hann er nafnkunnur kaup- maður í höfuðstaðnum en heldur sig annars eins mikið norður í Skagafirði og hann getur. Hann er í Stíganda og er sölustjóri fé- lagsins í sælgætis- og ölskúrnum. Gott samkomulag Við höfum nú gætt okkur á ölinu hjá Óla og lítum inn í sam- komutjaldið. Áður en Skagfirð- ingar héldu á Alþingishátíðina á Þingvöllum 1930 komu þeir sér upp geysi mikilli tjaldbúð og höfðu með sér á þingstaðinn. Var búðin svo árlega notuð til sam- komuhalda heima fyrir á meðan hún entist. En er hún hafði gengið sér til húðar fundu Skag- firðingar að án slíks kjörgrips gátu þeir ekki verið og efndu til annarar búðar. Fylgir henni danspallur mikill svo sem hinni fyrri. Og í þessari búð er nú dans- að hér á Bökkunum. En inn fyrir dyrnar er ekki auðvelt að komast vegna þrengsla. Þó tekst okkur að lokum, með því að sæta sérs- töku lagi, að skáskjóta okkur innfyrir, en út á dansgólfið leg- gjum við ekki. Þar reynir fólk eftir ýtrustu getu að iðka dansli- stina, en gengur misjafnlega, sem von er til, í öllum þrengslunum. En dansendum kemur sjáanlega vel saman og það er fyrir mestu. Alltaf ánœgður Utan við tjaldbúðina rekumst við á Sigurð Óskarsson, bónda í Krossanesi og formann Stíganda. „Jæja, Sigurður," segjum við, „ertu ekki ánægður með sam- komuna?“. „Hvað heldurðu, maður,“ svarar Siggi, „hvenær hefur Stíg- andi haldið samkomu, sem hægt er annað en vera ánægður með?“, og hlær sínum glettnis- lega og kunna hlátri. Inni í tjaldbúðinni er kallað „síðasti dans“. Jú, mikið rétt, klukkan er 1. Og menn fara jafn skyndilega og þeir komu. Flestir í bflum, margir á hestum, sumir ganga af stað - og leiðast. Síðasti tónninn og síðasta hófa- takið hverfa út í kyrrðina. Vornóttin ríkir ein 4 Valla- bökkum. -mhg Sunnudagur 20. júlí 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.